30. júní 2024 kl. 11:28
Innlendar fréttir
Dóms- og lögreglumál
Karlmaður grunaður um stórfellda líkamsárás áfram í haldi
Karlmaður um þrítugt sem grunaður er um að hafa stungið tvo menn í Kópavogi síðustu helgi er enn í haldi lögreglu.
Tvö pör á gangi í Kópavogi urðu á vegi mannsins á föstudagskvöld fyrir rúmlega viku. Eftir stutt orðaskipti virðist maðurinn hafa veist að pörunum. Árásarmaðurinn stakk einn úr hópnum fjórum stungum, meðal annars í háls, og annar hlaut skurð á hendi.
Gæsluvarðhald yfir manninum, sem rann út á föstudag, hefur verið framlengt til 25. júlí. Þetta staðfestir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.
Elín Agnes segir að ekkert bendi til þess að tengsl séu á milli fólksins og árásarmannsins. Rannsókn sé í fullum gangi og miði vel.