Ráðherra leyfir hvalveiðar í ár
- Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að leyfa hvalveiðar á yfirstandandi tímabili.
- Leyfilegt veiðimagn er 128 langreyðar.
- Ráðherra segir að sér beri skylda til þess að gefa leyfið út, burtséð frá eigin skoðunum á málinu.
Áfram stefna VG að banna hvalveiðar á Íslandi
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna, segist virða ákvörðun matvælaráðherra um að leyfa hvalveiðar á yfirstandandi tímabili. Hann segir hana ekki hafa getað tekið aðra ákvörðun en þessa, því þá hefði ráðherrann farið gegn lögum.
„Auðvitað er mín skoðun sú, mín pólitíska skoðun er sú að við eigum að hætta hvalveiðum á Íslandi en ég virði algjörlega ákvörðun ráðherrans og skil í hvaða stöðu hún er.“
Guðmundur segir stefnumótandi vinnu í gangi í matvælaráðuneytinu sem sé þá að fara ofan í saumana á þessum málum. Mikið sé búið að gerast síðan umrætt lög voru sett árið 1946, bæði á hinum alþjóðlega vettvangi hvað þetta varðar sem og hér á Íslandi.
„Auðvitað er það áfram stefna Vinstri Grænna að banna hvalveiðar á Íslandi og það má kannski segja að þetta er bara eitt skrefið í þá átt.
Í fyrra sáum við það að veiðum var frestað, reglugerð um veiðarnar var hert þannig að við höfum verið að taka markviss skref yfir kjörtímabilið í áttina að þessu markmiði að banna hvalveiðar á Íslandi.“
Segir ráðherra hafa mátt gera sér fyrr grein fyrir því að fara þurfti að lögum
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist orðlaus yfir ósvífni matvælaráðherra gagnvart starfsfólki Hvals hf. Þetta sagði hann í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.
„Verð að fara að lögum í landinu, er haft eftir henni í fjölmiðlum í dag, hún hefði mátt gera sér grein fyrir því fyrr að það er nauðsynlegt,“ sagði Jón.
Hann sagði blasa við að málsmeðferðin hafi engan veginn verið í samræmi við lög eða stjórnarskrá landsins. Umboðsmaður Alþingis hafi gert skýra grein fyrir því í áliti sínu á síðasta ári um sambærilega málsmeðferð sem annar ráðherra VG viðhafði í sama máli.
„Rökin sem að hæstvirtur ráðherra færir fyrir málsmeðferð sinni standast enga skoðun. Hún vitnar til þess að 2019 hafi hvalveiðileyfið verið gefið út í júlí. Þá var ekkert starfsleyfi í gildi fyrir verksmiðjuna og stóð ekki til að fara á veiðar.“
Baráttan við MAST um starfsleyfið fyrir verksmiðjuna hafi þá tekið þrjú ár, sem sé enn eitt dæmið um stjórnsýslu sem ekki sé til fyrirmyndar.
„Maður er, virðulegi forseti, orðlaus yfir ósvífni ráðherrans gagnvart starfsfólki og fyrirtæki í þessu tilfelli. Það er allt gert að því virðist í geðþótta og lítilli eða engri virðingu fyrir fólki, lögum eða stjórnarskrá. Slík stjórnsýsla, virðulegi forseti er ólíðandi. Þetta er ólíðandi misbeiting á valdi sem að ráðherra hefur.“
„Svartur dagur fyrir dýravelferð á Íslandi“
Dýraverndarsamband Íslands harmar og lýsir yfir vonbrigðum yfir ákvörðun matvælaráðherra að heimila hvalveiðar í sumar. Þá ítrekar sambandið áður framkomna kröfu þess um að hin löngu úreltu lög um hvalveiðar verði afnumin eða þeim breytt verulega til nútímahorfs hið allra fyrsta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.
„Hvalveiðar eru algjör tímaskekkja í nútímasamfélagi enda eru veiðar á stórhvölum aðeins stundaðar í einu ríki í heiminum og það af einu fyrirtæki sem heitir Hvalur hf.
Þótt það sé í sjálfu sér jákvæð breyting að ekki sé veitt leyfi lengur en til eins árs í stað fimm áður og að veiðikvótinn sé minnkaður umtalsvert þá er þetta að engu að síður svartur dagur fyrir dýravelferð á Íslandi.“
SFS segir leyfið leggja áframhaldandi stein í götu sjálfbærra veiða á langreyðum
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telur leyfi matvælaráðherra aðeins veitt til málamynda og ráðherra sé með ákvörðuninni í reynd með ólögmætum hætti að leggja áframhaldandi stein í götu sjálfbærra veiða á langreyðum.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér fyrir skömmu. Þá segir einnig að ráðherrann hafi ákveðið að fara gegn ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og draga úr þeim fjölda langreyða sem stofnunin ráðleggur veiðar á. Með þeirri ákvörðun verði ekki annað ályktað en að ráðherra lýsi vantrausti á Hafrannsóknastofnun og sérfræðinga þeirrar stofnunar.
„SFS mótmælir harðlega þessari aðför ráðherrans að mikilvægum stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna, vantrausti ráðherrans gagnvart sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar og andstöðu ráðherrans við sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar.“
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.
Niðurstaðan muni eflaust hafa áhrif á fylgi VG
Bjarkey segist vonast til þess að flokksfélagar sínir í VG skilji að hún verði að fara eftir lögum.
Aðspurð hvort hún óttist að niðurstaðan muni hafa áhrif á fylgi flokksins segir Bjarkey það muni eflaust gera það. „Ég verð að fara eftir lögum í landinu burtséð frá mínum skoðunum sem eru svo sannarlega í sjálfu sér andstæðar hvalveiðum.“
„En það hefur bara ekkert með það að gera, ég get ekki horfið frá því að fara eftir lögum.“
Hún segir aðrar ráðherra ekki hafa veitt sér þrýsting hvað málið varðar
Þannig að ríkisstjórnarsamstarfið er bara í fullu gildi?
„Já, það ætla ég rétt að vona.“
Vonbrigði að ráðherra hafi skort hugrekki
Valgerður Árnadóttir aðgerðasinni segir mikil vonbrigði að Bjarkey hafi skort hugrekki til að fylgja eftir stefnu VG og að það sé of mikið að drepa einn einasta hval. Hún bendir á að veiðileyfið sé útrunnið og telur ekki eiga að endurnýja það þar sem ljóst sé að veiðarnar geti ekki uppfyllt skilyrði um dýravernd.
„Þegar maður brýtur af sér í fyrstu ferðinni og er stöðvaður ítrekað í fyrra vegna brota á lögum um velferð dýra þá bara hefði hann auðvitað ekki.. það þurfa að vera einhverjar afleiðingar þegar þú brýtur lög en hér eru engar afleiðingar. Kristján Loftsson fær bara sínu fram.“
„Búið að slátra þessari vertíð“
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og verkalýðsfélags Akraness, fagnar ekki ákvörðun ráðherra því leyfi til eins árs geri lítið til að tryggja fyrirsjáanleika fyrirtækja. Hann segir skaðann þegar skeðan.
„Tímaramminn sem matvælaráðuneytið hefur gefið sér í þessu máli er náttúrulega algjörlega til skammar því öllu jafna er fólk mætt til vinnu. Veiðar eru yfirleitt hafnar á þessum tíma og það liggur alveg fyrir í mínum huga að það er búið að slátra þessari vertíð sökum seinagangs,“ segir Vilhjálmur.
Þurfum að horfa til sem land og þjóð hvort við viljum halda áfram
Aðspurð hvort hún sjái fram á að bann hvalveiðar í sinni ráðherratíð þar sem veiðarnar samræmist ekki hennar eigin skoðunum segir Bjarkey að hennar ráðuneyti muni koma til með að halda áfram vinnu við stefnumótunina í hvalamálum. Breyting á lögum um hvalveiðar þurfi að fara í gegnum þingið.
„Ég tel að við þurfum að horfa til sem land og þjóð hvort að við viljum í rauninni halda áfram og samtalið þarf að eiga sér stað og vonandi getum við það.“
Reglugerðin eins og hún var í fyrra
Að sögn Bjarkeyjar er reglugerðin er eins og hún var í fyrra eftir að hún var þrengd af fyrrverandi matvælaráðherra. Að öðru leyti séu skilyrði leyfisins ekki þrengri heldur en þá.
MAST hefur komið með ábendingar um að þrengja skilyrði enn frekar og segir Bjarkey það vera til skoðunar hjá ráðuneytinu en hafi í sjálfu sér ekki áhrif á útgáfu leyfisins.
„Ákvörðun sem að samræmist ekki endilega mínum skoðunum“
Að ríkisstjórnarfundi loknum sagði Bjarkey niðurstöðuna um að heimila hvalveiðar ekki endilega ákvörðun sem samræmist sínum skoðunum eða skoðunum hennar flokks.
„Ég verð engu að síður að fara eftir lögum og reglum og þetta er mín niðurstaða núna,“ segir Bjarkey.
Leyfið gildir fyrir veiðitímabilið 2024 og veiðimagn verður samtals 128 dýr
Leyfið gildir fyrir veiðitímabilið 2024 og verður leyfilegt veiðimagn 99 dýr á svæðinu Grænland/Vestur-Ísland og 29 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar eða samtals 128 dýr.
Á vefi Stjórnarráðsins segir að ákvörðun um veiðimagn sé innan marka ráðgjafa Hafrannsóknastofnunar frá 2017 og taki mið af varfærnum vistkerfisstuðlum Alþjóðahvalveiðiráðsins.
Bjarkey heimilar hvalveiðar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur veitt Hval hf. veiðileyfi til veiða á langreyðum.
Ríkisstjórnarfundi er lokið
Fyrstu ráðherrar eru farnir út.
Stöðvðuðu veiðar hvalveiðibáts viku eftir að vertíðin hófst
Fyrsta langreyðurin var síðan komin á síðustu vertíð í hvalstöðina þann 8. september. Þá voru öryggisráðstafanir í kringum Hvalstöðina hertar en svæðið var girt af með rafmagnsgirðingu.
Þann 14. september stöðvaði Matvælastofnun síðan veiðar hvalveiðibátsins Hvals 8 tímabundið vegna alvarlegra brota á velferð dýra við veiðarnar.
Við eftirlit hafði komið í ljós að fyrsta skot Hvals þann 7. september hefði hitt dýrið utan tilgreinds marksvæðis með þeim afleiðingum að dýrið drapst ekki strax.
Samkvæmt reglugerð með hertari kröfum til veiðibúnaðar og veiðiaðferða bar veiðimönnum að skjóta dýrið aftur án tafar, sem hafi ekki verið gert fyrr en tæpum klukkutíma síðar og drapst hvalurinn eftir það.
Komu sér fyrir í möstrum skipanna í mótmælaskyni
Eftir að tímabundna bannið rannút í ágúst síðasta sumar heimilaði Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi matvælaráðherra, hvalveiðar. Þá voru boðaðar ítarlegri og harðari kröfur til veiðibúnaðar og veiðiaðferðar og aukið eftirlit.
Í kjölfarið komu mótmælendur sér fyrir í möstrum hvalveiðiskipa sem lágu við bryggju í Reykjavíkurhöfn. Tvær konur fóru upp í möstur hvalveiðiskipanna Hvals 8 og Hvals 9 og voru þar í 33 klukkustundir.
Beðið eftir ráðherrum
Búist við löngum ríkisstjórnarfundi
Arnar Björnsson fréttamaður bíður þess að ríkisstjórnarfundi ljúki. Hann segir eftir samtöl sína við ráðherra fyrir fund að búist er við að hann standi lengi. Mörg mál séu á dagskrá sem taki tíma að ræða.
Umdeild stöðvun veiða í fyrra
Í fyrra stöðvaði Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, fyrirhugaðar hvalveiðar degi áður en þær áttu að hefjast. Það var byggt á áliti fagráðs um velferð dýra.
Síðar komst umboðsmaður Alþingis að því að það hefði ekki verið í samræmi við lög. Hann telur bannið hafa haft í för með sér fyrivaralausa og verulega íþyngjandi ráðstöfun fyrir Hval hf.
Hvernig hefur þróun málsins verið?
Fimm ára hvalveiðileyfi Hvals hf. er útrunnið. Fyrirtækið sótti um endurnýjun þess í janúar. Þrátt fyrir að hvalveiðar hefjist jafnan í júní hefur nýtt leyfi ekki enn verið gefið út, né ákvörðun tekin um hvort þær verði bannaðar.
Málsmeðferðartími ráðherra hefur sætt nokkurri gagnrýni. Síðast var málið til umræðu á Alþingi á fimmtudag. Til að mynda sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, að óbreytt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar lægi fyrir og furðaði sig á töfunum.
Bjarkey svaraði því til að síðast þegar hvalveiðileyfi var gefið út, árið 2019, hafi málsmeðferð tekið um fjóra mánuði og veiðar hafist um miðjan júlí.
Verða hvalveiðar leyfðar eða ekki?
Góðan dag og velkomin í þessa lifandi fréttavakt varðandi ákvörðun matvælaráðherra um hvalveiðar, sem von er á í dag. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra ætlar að gera grein fyrir ákvörðun sinni á ríkisstjórnarfundi sem nú stendur yfir, og í kjölfarið verður það gert opinbert.