Skiptar skoðanir um hvað karlkyns maki forsetans kallast
Það er löng hefð fyrir því að kvenkyns maki forseta sitji á Bessastöðum, og kallast þá forsetafrú. En hvaða titil fær Björn, eiginmaður Höllu Tómasdóttur, þegar hún tekur við embætti forseta Íslands? Forsetamaki? Forsetaherra? Forsetabóndi eða forsetamaður? Eða ber að halda í hefðina og kalla hann forsetafrú? Fréttastofa fór á stúfana og kannaði hug fólksins í landinu.
Samkvæmt skriflegu svari frá skrifstofu forseta Íslands hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvaða orð verði notað.
Fréttastofa setti litla könnun í loftið og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Hægt var að kjósa um orðin forsetamaki, forsetaherra, forsetafrú, forsetamaður, forsetabóndi eða eitthvað annað. Flest kusu orðið forsetaherra en næst flest völdu forsetamaki. Þá bárust yfir 300 tillögur um annan titil.