Athugið að þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul

Samantekt

„Það er heiður lífs míns að fá að verða ykkar forseti“

Brynjólfur Þór Guðmundsson

,

Þessum viðburði er lokið og því hefur streymið verið fjarlægt.

2. júní 2024 kl. 21:46

Fréttavakt lokið

Fréttastofa RÚV segir það nú gott af þessari fréttavakt daginn eftir kjördag.

Við þökkum ykkur samfylgdina í þessum sögulegu forsetakosningum.

2. júní 2024 kl. 21:46 – uppfært

Þrjár konur í efstu sætum í forsetakjöri sýni breytt samfélag

Eva H. Önnudóttir prófessor í stjórnmálafræði segist trúa því að Halla Tómasdóttir verði mjög góður forseti.

Í kvöldfréttum sagði Eva að Halla væri „forsetaleg“ og Ísland myndi þar vera með góða manneskju í brúnni.

Hún sagðist einnig trúa því að þrátt fyrir harða kosningabaráttu myndi þjóðin ná sátt um Höllu sem forseta, þrátt fyrir að hún hafi ekki fengið meirihlutafylgi.

„Annað sem mér finnst áhugavert er að hún vinnur ekki bara kosningarnar, heldur líka kosningabaráttuna. Hún byrjar með örfá prósentustig fyrir nokkrum vikum síðan, en síðan sigrar hún baráttuna á meðan margir aðrir frambjóðendur komu með stærri hóp kjósenda inn í baráttuna.“

Spurð hvort kosingakerfið hér á landi hafi opnað á svokallaðar taktískar kosningar þar sem fólk greiðir atkvæði til að hindra sigur eins frambjóðanda frekar en með þeim sem þau vilja helst sjá sigra segir Eva svo ekki vera.

„Það er meira að segja þannig í kosningakerfum þar sem eru tvær umferðir, til dæmis í Frakklandi, mun meira um taktíska kosningu en hefur þekkst hér hingað til.“

Þrjár konur fengu 75% heildaratkvæða í kosningunum að þessu sinni. Eva segir það merki um að Íslendingum þyki sjálfsagt að konur séu í forustu.

„Sem er bara frábært, sem sýnir breytt samfélag frá því til dæmis þegar Vigdís var kosin.“

2. júní 2024 kl. 20:45

Árnaðaróskir frá Úkraínu

Höllu Tómasdóttur berast nú hamingjuóskir víða að eftir kosningasigurinn í gær. Þar á meðal er Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti sem sendir henni kveðju á samfélagsmiðlinum X. Þar segist hann kunna að meta stuðning hennar við Úkraínu og hlakka til að vinna með henni að því að styrkja sambandið milli ríkjanna og tryggja frið í Evrópu og víðar.

2. júní 2024 kl. 20:40

Ástþór óskar Höllu til hamingju með sigurinn

Ástþór Magnússon óskaði meðframbjóðanda sínum Höllu Tómasdóttur í dag til hamingju með sigur í forsetakosningunum.

Í bréfi sínu þakkar Ástþór Höllu fyrir að halda uppi friðarmálum í málflutningi sínum í kosningabaráttunni.

„Á ferðum okkar um landið og fundum með kjósendum fundum við að þetta mikilvæga málefni brennur á þjóðinni og því líklegt að yfirlýsingar þínar til stuðnings friðarmálum hafi átt verulegan þátt í því að þú vannst þessar kosningar. Ég vona að raunin verði sú að framtíðarsýn Friðar 2000 sé nú loksins komin til Bessastaða.“

Með bréfinu fylgdi eintak af bók Ástþórs, Virkjum Bessastaði.

2. júní 2024 kl. 20:10 – uppfært

Kjósendur daginn eftir kjördag: „Góð en pínulítið á skjön við fyrri forseta“

Fólk sem fréttastofa hitti á förnum vegi í dag var nokkuð ánægt með Höllu Tómasdóttur sem næsta forseta Íslands.

Hún væri vel að starfinu komin og ætti eflaust eftir að standa sig vel

2. júní 2024 kl. 16:27

Guðni óskar Höllu til hamingju

„Ég óska Höllu Tómasdóttur innilega til hamingju með sigurinn í nýliðnu forsetakjöri. Birni eiginmanni hennar, börnunum og fjölskyldunni allri færi ég einnig heillaóskir,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti í færslu sem hann birti á Facebook síðdegis.

„Um leið óska ég þjóðinni allri til hamingju með nýkjörinn forseta Íslands. Þá sendi ég öðrum frambjóðendum hlýjar kveðjur og ekki síður öllum þeim þúsundum sjálfboðaliða sem tóku þátt í mikilli lýðræðisveislu í aðdraganda kosninganna. Við Íslendingar njótum þeirra réttinda að geta kosið okkur þjóðhöfðingja. Síðan höfum við einatt borið gæfu til að sameinast um það forsetaefni sem varð hlutskarpast. Ég er viss um að sú verður áfram raunin. Megi Höllu Tómasdóttur farnast vel á vandasömum vettvangi, landi og þjóð til heilla.“

Facebook færsla Guðna Th. Jóhannessonar þar sem hann óskar Höllu Tómasdóttur til hamingju með sigur í forsetakosningum.
Facebook

2. júní 2024 kl. 16:24

Í ull til heiðurs Vigdísi

Sigríður Halldórsdóttir þáttagerðarmaður vakti athygli á því í viðtalinu við Höllu Tómasdóttur að hún væri ekki með klút, líkt og hún og stuðningsmenn hennar voru með í kosningabaráttunni. Halla sagði að þetta væri með vilja gert. Hún væri í ullarprjóni í dag. Það valdi hún til heiðurs fyrirmynd sinni, Vigdísi Finnbogadóttur, fyrstu konunni á forsetastól.

2. júní 2024 kl. 16:22

Vill heyra í fólki

Halla Tómasdóttir hvetur fólk til að hafa samband við sig ef það hefur áhyggjur af einhverju eða vill koma einhverju á frambæri. Hún segist hafa lagt áherslu á að svara öllum fyrirspurnum sem hún fékk í kosningabaráttunni.

Kjörsókn var sú mesta síðan 1996. Halla sagði þetta mjög ánægjulegt.

2. júní 2024 kl. 16:19

Eðlilegt að sitja tvö til þrjú kjörtímabil að hámarki

Halla Tómasdóttir segir að eitt hafi hún gert öðruvísi í kosningabaráttunni nú en fyrir átta árum. Það var að gefa ungu fólki völd og ábyrgð til að starfa í kosningabaráttunni og móta hana. Það hafi meðal annars komið fram í störfum kosningaskrifstofu unga fólksins.

Áherslan var á jákvæðni í kosningabaráttunni og þar átti ekki að níða skóinn af öðrum, segir Halla.

Halla segir eðlilegt að forseti sitji í tvö til þrjú kjörtímabil að hámarki og telur rétt að setja ákvæði um það í stjórnarskrá. „Ég held að völd geti spillt, sérstaklega völd yfir of langan tíma. Sérstaklega í litlu samfélagi.“

Halla er 55 ára og segir að það gæti verið hæfilegur tími að gegna embætti í tvö til þrjú kjörtímabil. Hún vísar til þess að Guðni Th. Jóhannesson ákvað að hætta sem forseti eftir tvö kjörtímabil.

2. júní 2024 kl. 16:15

Vill leiða saman fólk úr ýmsum áttum

Halla Tómasdóttir segir að það hafi verið dálítið yfirþyrmandi að standa frammi á stigapalli og ávarpa stuðningsfólk sitt. Hún segist ólýsanlega þakklát fyrir það traust sem henni hefur verið sýnt. Hún segist axla ábyrgðina af auðmýkt og alvöru.

Halla átti von á meira fylgi en kannanir sýndu en stuðningurinn fór fram úr því sem hún þorði að gera sér í hugarlund,“ segir Halla í viðtali við Sigríði Halldórsdóttur eftir að hafa ávarpað stuðningsfólk sitt.

„Ég ætla að verða forseti sem leiðir fólk saman, hópa og kynslóðir, til að tala saman, til að vinna saman, til að leysa áskoranir og nýta tækifæri,“ segir Halla. Hún segir þetta ekki snúast um hvað hún vilji gera heldur hvert vilji þjóðarinnar stendur til að móta samfélagið.

Halla segir að orðræðan í kosningabaráttunni sé ef til vill til marks um að þjóðinni líði ekki nógu vel. Hún vill að fólk tali saman og finni nýjar leiðir til að móta samfélagið. Til þess þurfi að leiða saman fólk úr ýmsum áttum.

2. júní 2024 kl. 16:07

„Heiður lífs míns“

„Halla, Halla, Halla,“ kallar fólk og klappar þegar Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti, stígur fram ásamt fjölskyldu sinni. Hún byrjar á að anda djúpt að sér.

„Kæru Íslendingar. Ég stend hér auðmjúk fyrir framan ykkur með hjartað fullt af einlægu þakklæti,“ segir Halla. Hún þakkar stuðningsmönnum, öðrum frambjóðendum og fólki sem mætti á kjörstað og kaus með hjartanu. „En mest af öllu þakka ég fyrir traustið sem þið sýnið mér og mínum. Það er heiður lífs míns að fá að verða ykkar forseti þann 1. ágúst næstkomandi.“

Halla sagði að þeim heiðri fylgdi mikil ábyrgð og hana ætli hún að axla.

Halla lauk ávarpi sínu á að óska landsmönnum öllum og sjómönnum gleðilegs sjómannadags.

Að því loknu heyrðist ferfalt húrrahróp frá fólkinu sem hafði safnast saman í garðinum hjá þeim.

2. júní 2024 kl. 16:02

Fjölmenni hyllir Höllu

Fjöldi fólks er saman kominn í garðinum við heimili Höllu Tómasdóttur og eiginmanns hennar í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún stígur út á stigapall á eftir og ávarpar stuðningsmenn sem eru komnir þangað til að óska henni heilla.

2. júní 2024 kl. 15:25

Ólafur Ragnar óskar Höllu til hamingju

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, óskar Höllu Tómasdóttur til hamingu með kosningasigurinn, í færslu á samélagsmiðlinum X í dag.

Þar biður hann þess að reynsla Höllu, kunnátta og innsæi muni stýra henni á þessari nýju vegferð.

2. júní 2024 kl. 14:19

Óska Höllu til hamingju

Forsetaframbjóðendur sem ekki náðu kjöri hafa í dag óskað Höllu Tómasdóttur til hamingju og þakkað stuðningsmönnum sínum.

„Mig langar að óska Höllu Tómasdóttur hjartanlega til hamingju með niðurstöðu kosninganna. Hún á eftir að sinna þessu þýðingamikla hlutverkinu af alúð og metnaði. Megi gleði og gæfa fylgja kjöri hennar fyrir land og þjóð,“ segir Halla Hrund Logadóttir á Facebook.

Hún þakkar vinum og stuðningsfólki fyrir ævintýri undanfarinna vikna. „Við settum mikilvægi náttúruauðlinda okkar og hugvits á dagskrá og við sýndum að á aðeins 55 dögum er hægt að byggja upp hóp hátt í 800 sjálfboðaliða sem vinna saman að settu marki.“

Facebook-færsla Höllu Hrundar Logadóttur.
Facebook

Baldur Þórhallsson óskar Höllu til hamingju með glæsilegan sigur. „Gangi þér allt að sólu sem forseti Íslands.“

Facebook-færsla Baldurs Þórhallssonar.
Facebook

Neðar í þessari fréttavakt má sjá kveðjur Katrínar Jakobsdóttur og Jóns Gnarr.

2. júní 2024 kl. 14:12 – uppfært

Fólk almennt ánægt með niðurstöður kosninga

Landsmenn sem fréttastofa hitti í morgun voru almennt ánægðir með niðurstöður kosninganna.

2. júní 2024 kl. 14:01 – uppfært

Endanleg úrslit

Landskjörstjórn sendi síðdegis út fréttatilkynningu opinberum og staðfestum úrslitum forsetakosninganna. Samkvæmt því var kjörsókn 80,8 prósent.

Halla Tómasdóttir fékk 33,9 prósent atkvæða. Þá eru auðir og ógildir atkvæðaseðlar taldir með. Ef þeir væru dregnir frá er Halla með 34,1 prósent atkvæða.

Auðir og ógildir seðlar voru 0,61%

Af óþekktum ástæðum uppfærðust ekki töflur á RÚV.is um lokatölur í Norðausturkjördæmi sem olli því að tölur á landsvísu uppfæðust ekki heldur. Það hefur verið lagfært.

2. júní 2024 kl. 13:39

Jón Gnarr sáttur en þreyttur og óskar Höllu til hamingju

Jón Gnarr Forsetaframbjóðandi
RÚV / Ragnar Visage

Jón Gnarr segist í Facebook-færslu hafa vaknað hálf meir í morgun í spennufalli eftir kosningarnar.

Hann segist geta vel við unað hvað varðar úrslit kosninganna, en síðustu vikur hafi verið skringilegur tími.

„Ég hef aldrei á ævinni verið svona þreyttur. Þessi þreyta er alltumlykjandi og smýgur inní vöðva, bein og taugakerfi. Ég er þreyttur í hausnum. Sálinni líka.“

Jón segist þó stoltur af framgöngu sinni og árangri.

Efst í huga hans sé þó auðmýkt og þakklæti í garð fjölskyldu,vina og stuðningsfólks. Honum telst til að framboðið hafi kostað hann um átta milljónir króna.

„Ég þakka auðvitað öllum sem kusu mig. Ég get ekki svarað öllum skilaboðum sem ég hef fengið en reyni að lesa allt og setja hjarta við en að lesa allt þetta fallega sem fólk hefur verið að segja um mig og okkur hjónin gerir hjartað mjúkt og augun rök.“

Jón segist mjög sáttur við nýjan forseta og óskaði Höllu Tómasdóttur til hamingju og óskaði henni velgengni.

„Takk fyrir mig elsku fólk. Áfram allskonar Ísland! Hlýja frá mér“, segir Jón að lokum og segir Jógu, eiginkonu sína, taka undir kveðjuna.

Skjáskot af Facebooksíðu Jóns Gnarr.
Skjáskot / Facebook

2. júní 2024 kl. 13:22 – uppfært

Misræmi í tölum

Tölur í Norðausturkjördæmi sem voru skráðar inn í upplýsingakerfi RÚV klukkan 9:11 í morgun hafa af óþekktum ástæðum ekki skilað sér inn í töflur með úrslitum kosninganna á RÚV.is. Þetta veldur því að nokkuð vantar upp á atkvæðatölur í Norðausturkjördæmi og á landsvísu. Röð frambjóðenda er þó óbreytt.

Verið er að leita að orsök vandans og leiðréttast töflurnar vonandi innan skamms.

2. júní 2024 kl. 12:53

Viðtalið við Höllu í heild

Halla Tómasdóttir segir afgerandi sigur hennar í forsetakosningunum hafa komið á óvart. Hún hafi þó verið vongóð. Hún gerir lítið úr tali um taktískar kosningar, en hlakkar til að slappa af eftir strembna kosingabaráttu.

2. júní 2024 kl. 12:43

Fylgið flæddi frá Baldri og Höllu Hrund til Höllu Tómasdóttur

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, segir merkilegt að sjá muninn á skoðanakönnunum fyrir kosningar og úrslitum kosninganna. „Þegar til kom þá virtist fylgið flæða frá Baldri og Höllu Hrund yfir á Höllu Tómasdóttur og hún hafði sigur.“

„Hvað er að kjósa taktískt?“ spurði Guðmundur. „Það virðist vera þannig, ef eitthvað er að marka þessar skoðanakannanir, að all nokkrir kjósendur hafi látið meira ráða viðhorf sitt til frambjóðanda sem þeir vildu ekki að kæmist að heldur en kannski til þess hvers þeir vildu helst kjósa. Það er kannski að kjósa taktískt en það auðvitað getur hver og einn ráðið sínu atkvæði eins og hann vill. Það er ekkert sem mælir á móti því að menn geri það. Þetta virðist vera raunin, það er ekki hægt að skýra það á annan hátt.“

Guðmundur telur þetta ekki hafa áhrif á stöðu Höllu sem forseta. Reynslan sé sú að Íslendingar fylki sér um forsetann að kosningum loknum þó hart hafi verið tekist á í aðdraganda þeirra.

„Ég á ekki von á öðru en að Halla Tómasdóttir verði farsæll forseti. Ég sé ekkert annað í kortunum.“

Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur. Situr fyrir framan glugga, tré í bakgrunni.
RÚV

2. júní 2024 kl. 12:35

Hver er Halla Tómasdóttir?

Halla Tómasdóttir verður sjöundi forseti Íslands en hún hefur 34,6% atkvæða samkvæmt nýjustu tölum. Hún hefur afgerandi forskot á Katrínu Jakobsdóttur. Hver er þessi kona sem tekur við forsetaembættinu í ágúst?

2. júní 2024 kl. 12:28

„Kjósendur bjarga sér“

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur segir að það að fjöldi fólks hafi kosið taktískt sýni tvennt, annars vegar um kjósendur og hins vegar um kosningakerfið.

„Það sýnir okkur bara það að kjósendur bjarga sér. Okkar kerfi, einföld meirihlutakosning, er að flestra dómi alveg fráleitt kerfi enda notar það eiginlega enginn.“

Í forsetakosningum sé víðast notað tveggja umferða kerfi, þar sem fólk velur fyrst þann sem það vill helst og kýs síðan á milli tveggja efstu. Einnig sé til írska aðferðin þar sem fólk raðar frambjóðendum upp eftir því hvern það vilji helst kjósa og síðan koll af kolli.

Ólafur sagði að það hefði unnið gegn Katrínu að margir vinstrisinnaðir kjósendur hafi verið mjög ósáttir við ríkisstjórnina sem hún veitti forystu um árabil.

Sex frambjóðendur fengu samanlagt rétt rúmlega eitt prósent atkvæða. Enginn þeirra náði 1.500 atkvæðum, sem jafngildir þeim fjölda meðmæla sem þarf til að komast í framboð.

„Ég held nú að sumir telja að það sé gríðarleg lýðræðisveisla að sex frambjóðendur sem samanlagt eru með innan við tvö prósent atkvæða að þeir fái alveg sama rúm og frambjóðendur sem eru með 98 prósent atkvæða. Ég held að lærdómurinn sé fyrst og fremst sá að fjöldi meðmæla, sem er 1.500 og hefur verið óbreyttur frá 1944, sé alltof, alltof lágur. Ef það voru einhver rök fyrir því 1944 að setja meðmælendatöluna þá í 1.500 þá myndu sömu rök segja núna, af því að kjósendum hefur fjölgað svo mikið að 1.500 1944 þýðir um það bil sex þúsund 2024. Ég held að menn hljóti að skoða þetta.“

2. júní 2024 kl. 12:17

Halla kosin sem besti og næst besti kostur

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur sagði í aukafréttatíma í sjónvarpi að margir hafi kosið taktískt í forsetakosningunum. Þetta sagði hann að væri staðfest af skoðanakönnun Maskínu sem gerð var á föstudag.

„Í síðustu könnununum sem birtust voru Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir nánast með sama fylgi, í kringum 25 prósent. Sumir virðast halda að kjósendur hoppi bara á þann sem er efstur. Ef það væri rétt þá hefðu þeir alveg eins átt að hoppa á Katrínu Jakobsdóttur eins og Höllu.“

Þeir hafi hins vegar hoppað fyrst og fremst á Höllu. Það er augljóst af gögnunum að mjög margir stuðningsmenn Baldurs Þórhallssonar og Höllu Hrundar sérstaklega færðu sig yfir á Höllu Tómasdóttur. Af hverju gerðu þeir það? Það var vegna þess að þeir töldu hana næst besta kostinn og kusu hana fram yfir Katrínu. Það er það sem raunverulega gerðist.“

Ólafur sagði það nýtt í íslenskum kosningum að kjósendur kjósi taktískt. Þetta hafi ekki gerst í forsetakosningunum 1980 þegar aðeins munaði einu og hálfu prósenti á tveimur efstu frambjóðendunum.

Minnst 25 prósent kusu Höllu vegna þess að þeir töldu hana besta kostinn, sagði Ólafur, en að auki hafi aðrir kjósendur kosið hana sem næstbesta kostinn.

Ólafur Þ. Harðarson í myndveri fréttastofu RÚV með mynd af Bessastöðum í bakgrunni.
RÚV

2. júní 2024 kl. 12:08

Úrslit kosninganna

Það er ágætt að rifja upp úrslit kosninganna. Halla Tómasdóttir hlaut 34,3 prósent atkvæða, ríflega níu prósentum meira en Katrín Jakobsdóttir sem fékk 25,2 prósent í annað sæti.

Kjörsókn var 78,83 prósent, meiri en í nokkrum forsetakosningum síðan Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn forseti í fyrsta sinn.

2. júní 2024 kl. 12:01 – uppfært

Halla: Kappræður skiptu sköpum

„Fyrir okkar framboð þá skiptu fyrstu kappræðurnar og kappræður yfir höfuð. Ég held að það sé bara alveg eðlilegt. Ég held að langflestir vilji ekki gera upp hug sinn fyrr en þeir sjá alla frambjóðendur saman í samtali, og bæði sjá viðkomandi og áherslur viðkomandi og sýn á embættið.“

Þetta segir Halla Tómasdóttir nýkjörinn forseti. Hún segist alltaf hafa verið róleg í kosningabaráttunni þótt að hún mældist ekki með mikið fylgi í upphafi.

Hún segir að tekist hafi að ná til fólks í gegnum samfélagsmiðla og sagði það ekki síst ungum stuðningsmönnum sínum að þakka.

Halla segir gleði og hugrekki í framboðinu hafa skilað árangri. Hún segir að stuðningurinn hafi verið meiri en hún þorði að vona.

Viðtalið í heild birtist á RÚV.is innan skamms og kaflar úr því verða fluttir í aukafréttatíma í sjónvarpi og í hádegisfréttum í útvarpi.

Halla Tómasdóttir nýkjörinn forseti Íslands í fyrsta viðtali eftir kosningar.
RÚV / Karl Sigtryggsson

2. júní 2024 kl. 12:00

Katrín óskar Höllu velfarnaðar

Katrín Jakobsdóttir óskaði Höllu Tómasdóttur í morgun til hamingju með kjörið og velfarnaðar í starfi. Þetta gerði hún í færslu á Facebook. Katrín sagðist vita að Höllu muni það vel úr hendi að gegna embætti forseta.

Katrín þakkaði jafnframt öllum sem studdu hana og kvaðst stolt af sinni baráttu sem hefði verið heiðarleg og drengileg, jákvæð og uppbyggileg.

„Nú taka við ný ævintýri hjá mér sem ég veit ekkert hver verða. En fyrst ætla ég að fá mér kaffi og njóta þess að vera hér og nú.“

Facebook-færsla Katrínar Jakobsdóttur.
Facebook

2. júní 2024 kl. 12:00 – uppfært

Viðbrögð og greiningar

Velkomin í nýja fréttavakt um nýkjörinn forseta. Hér segjum við frá viðbrögðum Höllu Tómasdóttur við sigri sínum í forsetakosningunum, viðbrögðum annarra og greiningum á úrslitunum.

Ég heiti Brynjólfur Þór Guðmundsson og held utan um fréttavaktina.

Við vorum með kosningavakt á vefnum frá því skömmu áður en kjörstöðum var lokað þar til úrslitin lágu fyrir. Hana má nálgast hér að neðan.