Athugið að þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul

Kappræður: Efstu frambjóðendur mættust í fyrri umferð

  • Síðari kappræður frambjóðenda fyrir forsetakosningar á morgun fara fram í sjónvarpssal í kvöld.
  • Í þessari fréttavakt var sagt frá fyrri hluta þáttarins sem hefst 19:40.
  • Í fyrri hlutanum mættust þeir sex frambjóðendur sem mældust með meira en 5% fylgi í skoðanakönnun Gallup í dag. Það eru Arnar Þór Jónsson, Baldur Þórhallsson, Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir, Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir.
  • Hinir sex frambjóðendurnir mætast í seinni hluta þáttarins.
  • Katrín Jakobsdóttir mælist með mest fylgi í könnun Gallup í dag, 25,6% en hefur misst það afgerandi forskot sem hún var með fyrir viku síðan. Halla Tómasdóttir fer úr 17% fyrir viku í tæplega 23,9% og er komin fram úr Höllu Hrund sem stendur í stað með 19% fylgi.

Ásta Hlín Magnúsdóttir og Ragnar Jón Hrólfsson

,
31. maí 2024 kl. 21:09

Ljúkum þessari vakt

Þá er fyrri hluta forsetakappræðnanna lokið. Efstu frambjóðendur hafa sagt sitt og komið að þeim sem mældust með undir 5% fylgi í könnun Gallup í dag.

Síðari hluta þáttarins þar sem þau Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Ástþór Magnússon, Eiríkur Ingi Jóhannsson, Helga Þórisdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Viktor Traustason mætast eru gerð skil í annarri fréttavakt:

31. maí 2024 kl. 21:09 – uppfært

Lokaávarp: Katrín Jakobsdóttir

„Kæru landsmenn, ég býð mig fram til þessa embættis því mér þykir óumræðanlega vænt um land og þjóð,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Hún hafi notið þeirra forréttinda að hafa verið í þjónustu við almenning í hartnær 20 ár. Hún hafi ferðast um landið og fengið að kynnast fólkinu, hlusta á það og skilja það.

Síðustu vikur hafi fært henni skilning á því að Íslendingar séu góð þjóð og samfélagið gott og samheldið.

„Á morgun fögnum við lýðræðinu og veljum okkur forseta og veljum þann sem við treystum fyrir ábyrgðinni og skyldum sem fylgja því embætti.

Hún segir forseta vera kjölfestu fyrir þjóðina og hann leiði á alþjóðavettvangi

„Ég hvet ykkur öll til að nýta kosningaréttinn og býð fram mína umhyggju, mína reynslu og mína þekkingu,“ segir Katrín að lokum.

31. maí 2024 kl. 21:07 – uppfært

Lokaávarp: Halla Tómasdóttir

„Kæru Íslendingar, ég stend hérna í lok þessarar kosningabaráttu og horfi stolt um öxl.“

Halla Tómasdóttir hefur sitt ávarp á að segjast þakklát fyrir þann stuðning sem hún hafi fundið á síðustu dögum og vikum. Þau hafi byrjað í brekku en ákveðið að halda áfram.

Hún hafi ákveðið að níða aldrei skóinn af öðrum, enginn verði stærri á að gera aðra minni eins og Guðni Th. hafi sagt. Frambjóðendur eigi að vera fyrirmynd. Sjálf sé hún með breitt bak og stórt hjarta og einlæga þrá um að þjóna landi og þjóð.

„Ég hef áhuga á að taka utan um þjóðina og virkilega vera jákvætt hreyfiafl til góðs.“

31. maí 2024 kl. 21:02 – uppfært

Lokaávarp: Jón Gnarr

„Góðir Íslendingar, ég hef áhyggjur af vaxandi sundrungu, óeiningu og pólaríseríngu á Íslandi og valdaójafnvægi,“ segir Jón Gnarr.

Honum finnst umræðan hér á landi gjarnan á villigötum og einkennast af misskilningi. Þetta hafi verið aulgjóst í framboðinu því oft hafi virst sem frambjóðendur í kosningabaráttunni hafi sóst eftir pólitísku embætti.

„Ég býð mig fram til að vinna gegn þessu og endurvekja virðingu og traust í íslensku samfélagi og þess vegna bið ég ykkur um að kjósa mig,“ segir hann að lokum.

31. maí 2024 kl. 21:02 – uppfært

Lokaávarp: Arnar Þór Jónsson

„Kæru landsmenn, við Íslendingar eigum heimili okkar hér og það má líta svo á að við séum í raun fjölskylda,“ þannig hefst lokaávarp Arnars Þórs. Hann leggur áherslu á að við eigum að tala vel við og til hvers annars og þar getum við gert betur.

Hann segir Íslendinga hafa fengið mikið að gjöf, miklar auðlindir, sem ásókn sé í utan frá. Við þurfum að gæta vel að því. Andvaraleysis gæti meðal stjórnmálamanna.

„Ég býð mig fram til að vera eftirlitsmaður og vökumaður og ég óska eftir umboði ykkar til þess að fá að gegna því hlutverki af heilindum og trúfestu og óska eftir stuðningi ykkar í kosningunum á morgun.“

31. maí 2024 kl. 20:58 – uppfært

Lokaávarp: Baldur Þórhallsson

„Góðir Íslendingar, sem forseti mun ég hlusta, skilja og mæta þegar á móti blæs,“ segir Baldur. Hann og Felix eiginmaður hans hafi barist fyrir því að vera fjölskylda. Hann hafi ungur axlað mikla ábyrgð og þekki það af eigin raun að standa höllum fæti.

„Þetta er þekking mín og reynsla, hugur, sál og hjarta,“ segir hann.

Hann segir það ekki skipta máli hver getur sigrað í kosningunum á morgun heldur hver geti sameinað þjóðina. „Ég er tilbúinn,“ segir Baldur að lokum.

31. maí 2024 kl. 20:55 – uppfært

Ástandið á Gaza

Næst er spurt um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Ófriðurinn milli Palestínu og Ísrael hefur skapað sundrungu á öllum Vesturlöndum, þar með talið Íslandi - síðast í dag beitti lögregla piparúða við Ráðherrabústaðinn á fólk sem var að mótmæla aðgerðaleysi í málefnum Palestínu.

Frambjóðendur eru því spurðir: Hver finnst ykkur bera mesta ábyrgð á hörmungunum á Gaza?

Fyrst svarar Halla Hrund Logadóttir. Hún segir ástandið fólkið hafa gengið langt fram yfir þá árás sem átti sér stað. Nú sé verið að króa fólk inni og tortíma því. Ísrael sé að ganga verulega langt. Þetta minni á þjóðarmorðið í Rúanda.

Baldur Þórhallsson er næstur til svars. Hann segir orðið erfitt að horfa á fréttir af ástandinu. Það sem skipti mestu máli sé að við beitum okkur á alþjóðavettvangi þar sem við getum: Nató, Sameinuðu þjóðanna, Norðurlandaráðs og EES. Við getum stigið fastar til jarðar.

Arnar Þór Jónsson segir að sjaldan valdi einn þá tveir deili. Málin séu komin svo langt að spurningin eigi ekki að vera hver beri mesta ábyrgð heldur hvernig sé hægt að stöðva stríðið ekki síðar en nú þegar. Þar gætum við gegnt mikilvægu hlutverki.

Jón Gnarr svarar beint: „Adolf Hitler!“ Ísraelsríki hafi verið stofnað í veraldlegri, alþjóðlegri áfallastreituröskun. Ástandið hafi verið spennuþrungið síðan. Hamas og Likud-flokkur Netanjahús séu háð hvort öðru. Það sé almenningur sem þjáist.

Katrín Jakobsdóttir segir að við séum að horfa á áratuga sögu. Eins skelfileg og árás Hamas hafi verið séu viðbrögð Ísraels komin út fyrir öll mörk síðan. „Þarna er verið að brjóta alþjóðalög og þar með talið mannúðarlög á hverjum degi.“

Halla Tómasdóttir segist fyrst vera ótrúlega hrygg yfir ástandinu. Þegar horft sé til baka þá séu viðbrögðin við hryðjuverkaárás Hamas ekki eðlileg. Það sé ekki bara verið að myrða fólk, myrða börn og eyðileggja innviði. Það sé verið að koma í veg fyrir að mannúðaraðstoð berist. „Það er verið að brjóta alþjóðalög og það er verið að fremja þjóðarmorð.“

31. maí 2024 kl. 20:54 – uppfært

Lokaávarp: Halla Hrund Logadóttir

„Kæru landsmenn, Ísland stendur á tímamótum, það er að verða 80 ára þann 17. júní næstkomandi. Á slíkum tímamótum er mikilvægt að hugsa hvað við getum gert betur,“ segir Halla Hrund í upphafi lokaávarpsins.

Hún segir Ísland vera ríka þjóð sem eigi margt eins og náttúru, afreksfólk í menningu og listum og tækifæri sem fyrri kynslóðir hafi byggt upp með seiglu að vopni.

Hún telur mikilvægt að hugsa um auðlindir, að þær verði ekki sendar úr landi, að sækja þurfi fram í sköpun og að íslensk tunga verði mál framtíðarinnar.

„Sem forseti mun ég vinna að þessum málum og ég er sannfærð um að ef við gerum það saman þá mun framtíð lýðveldisins verða björt og brosandi,“ segir Halla Hrund að lokum.

31. maí 2024 kl. 20:48 – uppfært

Fyrirmyndir frambjóðenda

Hver er ykkar helsta fyrirmynd á meðal núlifandi erlendra stjórnmálaleiðtoga? - Ekki er spurt um listamenn eða íþróttaþjálfara, heldur pólitískan leiðtoga.

Halla Tómasdóttir nefnir Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands.

Katrín Jakobsdóttir getur ekki nefnt eina fyrirmynd en dáist sérstaklega að konum í leiðtogahlutverkum.

Jón Gnarr segir strax Angelu Merkel, fyrrverandi Kanslara Þýskalands.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Arnar Þór Jónsson segir að ef hann væri þvingaður til að segja eitthvað myndi hann segja Ólafur Ragnar Grímsson, á meðan hann sat á forsetastóli.

Baldur Þórhallson nefnir Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna

Halla Hund Logadóttir tekur undir það sem Katrín sagði en nefnir einnig Barack Obama líkt og Baldur.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

31. maí 2024 kl. 20:41 – uppfært

Vopnakaup fyrir Úkraínu

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Í dag bárust fréttir af því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði hitt Volodymir Zelenski, forseta Úkraínu, í Stokkhólmi og lofað honum fjórum milljörðum króna árlega næstu árin. Gera má ráð fyrir að hluti upphæðarinnar fari í hernaðaraðstoð, en ríkisstjórnin hafði áður lofað 300 milljónum til að kaupa skotfæri fyrir Úkraínumenn í stríðinu við Rússa.

Spurt er hvort frambjóðendur séu sammála þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Á forsetinn og forsetaframbjóðendur að hafa skoðun á svona málum?

Halla Hrund Logadóttir segir stöðuna alvarlega og það skipti máli að standa þétt við bakið á Úkraínu. Þó sé umdeilanlegt að styðja við vopnakaup þar sem Ísland standi fyrir friði. Hún nefnir að hægt sé að styðja með öðrum leiðum líkt og í gegnum lækna- og hjúkrunarstörf. Hún segir frið vera gildi sem Íslendingar eigi að halda fast í.

Baldur Þórhallsson segir að lítið ríki eins og Ísland eigi allt undir að stærri ríki virði alþjóðalög. Því sé mikilvægt að standa með Bandaríkjum og öðrum aðildarþjóðum innan NATO og greiða í sjóði þar til að standa þétt við bakið á Úkraínumönnum. Hann nefnir einnig að hægt sé að styðja með sérfræðiaðstoð og tekur fram að sprengjusveit Landhelgisgæslunnar, sem sé á heimsmælikvarða, hafi aðstoðað við að aftengja sprengjur í Úkraínu.

Arnar Þór Jónsson telur að Ísland sem herlaust ríki eigi ekki að hella olíu á ófriðarbálið. Hann hafi þó fulla samúð með Úkraínumönnum og harmi örlög þeirra. Staðan sé þó orðin þannig að búið sé að grafa víglínur djúpt. „Ef við ætlum að standa með Úkraínumönnum ætti frekar að stuðla að líknun, læknun og heilun en ekki að tjóni, skaða og manndrápum,“ segir hann.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Jón Gnarr segir það skyldu Íslands að standa með Úkraínu en hann telur að við getum ekki sett skilyrði á það hvernig Úkraínumenn eyða styrktarfé frá Íslandi. Að það verði að nota það í lækningar en ekki í vopn.

Katrín Jakobsdóttir segir að ákvörðun forsætisráðherra byggi á ályktun Alþingis. Alþingi hafi ákveðið stuðning við Úkraínu. Þetta komi aðallega til vegna veru okkar í NATO.

Hún segir að hún hafi heimsótt Kiev og séð eyðilegginguna þar. Mikilvægt sé að styðja við Úkraínu og frelsi þeirra til að taka eigin ákvarðanir.

Halla Tómasdóttir telur ákvörðun forsætisráðherra ekki samrýmast gildum Íslands. Hún telur að Íslendingar séu friðsæl þjóð. Það sé rétt hjá Baldri að við eigum allt undir að virt séu alþjóðalög. En Ísland leggi mest af mörkum með því að velja frið. Styrkleikar Ísland liggi meðal annars í nýsköpun. Henni finnst skrýtið að ákvörðun um þetta hafi farið fram án samtals við þjóðina.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

31. maí 2024 kl. 20:37 – uppfært

Þarf að breyta stjórnarskrárákvæðum um forsetann?

Næst eru frambjóðendur spurðir hvort þeir telji að breyta þurfi einhverju í kaflanum um forseta í stjórnarskrá og hvers vegna?

Fyrst svarar Jón Gnarr. Hann segist ekki sjá neitt mjög brýnt en að umorða mætti hlutverk forseta gagnvart þjóðkirkjunni til að jafna stöðu hennar gagnvart öðrum trúfélögum.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Næst svarar Katrín Jakobsdóttir, sem hefur lagt fram tillögur um breytingar á stjórnarskrá í fyrra starfi. Hún segist meðal annars hafa lagt til fjölgun meðmæla til að geta boðið sig fram. Hún hafi líka lagt til hámarkssetutíma á forseta. Hún vilji líka taka upp forgangsröðunaraðferð við kjör forseta.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Halla Tómasdóttir segir þetta svolítið sérkennilega spurningu. Hún segist að mörgu leyti taka undir með Katrínu með fjölgun meðmælenda og hámarkssetutíma. Einnig nefnir hún að það væri betra ef reglur um málskotsrétt væru skýrari í stjórnarskrá.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Halla Hrund Logadóttir tekur undir margt sem fram hefur komið, bæði fjölgun meðmælenda og hámarkssetutíma. Það séu líka tækifæri í því að skýra ákvæði um að forseti geti lagt fram lagafrumvarp. Ýmsu megi skerpa á. En Alþingi eigi að leiða samtalið.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Baldur Þórhallsson segir miður að Alþingi hafi ekki klárað endurskoðun stjórnarskrár. Hann segir miklu máli skipta að taka út ákvæðið um framlagningu lagafrumvarpa vegna þess að við höfum ekki notað það. Það ætti líka að fjölga meðmælendum án þess að fjölga of mikið. Líka setja hámarkssetutíma og gjarnan forgangsröðunaraðferð við forsetakjör.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Arnar Þór Jónsson segist taka undir flest það sem komið hafi fram. Hann myndi vilja aðra umferð í forsetakjöri svo forseti hefði meirihluta atkvæða að baki sér. Hann telji þó stjórnarskrárbreytingar eiga að gerast hægt og að vel athuguðu og yfirveguðu máli.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

31. maí 2024 kl. 20:24 – uppfært

Jón Gnarr: Ég hef tekið fullt af óþægilegum ákvörðunum

Þá er komið að Jóni Gnarr. Hann hafi lýst forsetanum sem stemningsmanni, sem eigi að fylgja tíðarandanum í þjóðmálaumræðunni frekar en að embættinu fylgi eiginleg völd. Hann er spurður, hvað ef raunverulega reynir á þig í forsetaembættinu? Stjórnarkreppa í landinu, meiriháttar hamfarir eða ófriður, er nóg að vera stemningsmaður í slíkum aðstæðum?

Jón segir að þarna sé verið að spyrja um pólitískt samhengi. Það geti reynt á forseta á margan annan hátt en pólitískan. Hann segist ósammála því að það reyni eingöngu á forsetann þegar upp komi pólitískar krísur. Það reyni á forsetan að standa með þjóðinni á allskonar öðrum aðstæðum.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Hann segist vel treysta sér til að taka á pólitískum aðstæðum og standa með þjóðinni. Hann hafi tekið fullt af óþægilegum ákvörðunum sem borgarstjóri og treysti sér vel til þess. Til að mynda tekið á vanda Orkuveitunnar.

31. maí 2024 kl. 20:24 – uppfært

Arnar Þór: Ég er ekki húmorslaus

Arnar Þór, þú ert málsvari tjáningarfrelsis. Samt tókstu þig til og kærðir skopmyndateiknara til siðanefndar Blaðamannafélagsins vegna skopmyndar af þér. Finnst þér að tjáningarfrelsið eigi bara að gilda um þá sem eru sammála þér?

Arnar segir það alls ekki vera þannig. Hann geri meiri kröfur til blaðamanna en almennings. Reynsla hans af síðustu árum sé sú að margt ljótt hafi verið sagt um hann og hann hafi tekið það á „kjammann“.

Í tilfelli skopmyndarinnar finnst honum að þó að hann styðji tjáningarfrelsi þá styðji hann ekki að talað sé af óvirðingu um aðra.

TJáningarfrelsi eigi ekki að nota til þess að níða annað fólk. Ég aðhyllist tjáningarfrelsi og geri það á grundvelli klassísks frjálslyndis

„Engin stétt manna á að vera hafin yfir lög og að svara fyrir sín verk,“ segir hann.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Hvað með áramótaskaupið? Sérðu fyrir þér að kæra höfunda þess, ef þú verður forseti og þeir gera grín að þér þar?

„Það er allt í lagi. Ég tek gríni, ég er ekki húmorslaus,“ segir hann en segir að til séu þó velsæmismörk. Þau felist í því að virða mannhelgi hvers annars.

31. maí 2024 kl. 20:17 – uppfært

Baldur Þórhallsson: Ég hef talað fyrir friði

Baldur, þú hefur gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarinnar í varnarmálum og hefur sagt að Íslendingar litu út eins og veikasti hlekkurinn í varnarkeðju Vesturlanda. Íslendingar þurfi að leggja meiri áherslu á fælingarmátt aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu. Ætlar þú að halda áfram að tala með þessum hætti, bæði til þjóðarinnar og út á við, ef þú verður forseti?

Hann svarar því játandi og segir að löngu fyrir innrás í Úkraínu hafi hann hvatt stjórnvöld til þess að huga meira að öryggis- og varnarmálum. Hann hafi þó mætt gagnrýni vegna þess.

Samhliða þessu hafi hann kallað eftir auknu almannaöryggi og almannavörnum.

Hann bendir til Grindavíkur og segir þessa þætti mjög mikilvæga fyrir lítið samfélag, að þeir geti komið í veg fyrir áföll.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Er maður sem hefur talað með þeim hætti um friðar- og varnarmál eins og þú hefur gert, rétti maðurinn til að vera forseti herlausrar þjóðar?

Ég hef talað fyrir friði segir hann og segir að hann sé ekki að tala fyrir því að stofna her á Íslandi. Hann myndi vísa ákvörðun um það til þjóðarinnar. Þegar hann tali fyrir vörnum sé hann að tala fyrir friði.

Ástandið í heiminum sé grafalvarlegt og fyrirhyggja skipti máli ásamt samstarfi við aðrar þjóðir.

31. maí 2024 kl. 20:16 – uppfært

Halla Tómasdóttir: Gildin eru þjóðinni mikilvæg

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Þá er Halla Tómasdóttir spurð um gildi þjóðarinnar sem henni hefur verið tíðrætt um. Orðfærið sem hún notar séum við vanari að heyra í kynningartextum stórfyrirtækja en frá þjóðhöfðingjanum. Stjórnendur spyrja Höllu hvort hún telji að Íslendingar vilji að forsetinn komi fyrir eins og forstjóri stórfyrirtækis.

Halla segist ekki telja að hún tali með þessum hætti. Gildin sem hún nefni hafi komið frá þjóðinni sjálfri og vísar þar til þjóðfundarins sem hún kom að því að skipuleggja. Hún segir lykilatriði að forseti fari fyrir gildum þjóðarinnar og vonandi að gildi forseta samræmist gildum þjóðarinnar.

Þáttarstjórnendur árétta þá að 15 ár séu frá þjóðfundinum og Halla hafi búið mest erlendis síðan, getur verið að hún sé dottin úr sambandi við íslenska þjóðmálaumræðu?

Halla segist hafa verið í alþjóðlegu starfi undanfarin 6 ár en ekki undanfarin 15 ár. Hún segist finna það að fólki finnist mikilvægt að ræða á grunni hvaða gilda við byggjum samfélagið.

31. maí 2024 kl. 20:12 – uppfært

Katrín Jakobsdóttir: Ég mun hefja mig yfir alla flokkapólitík

Katrín, ein af þeim spurningum sem kjósendur standa helst frammi fyrir varðandi þig er hvort þeir treysti þér. Þú hefur áður keyrt á kjörorðinu: Það skiptir máli hver stjórnar. Svo sagðirðu af þér áður en kjörtímabili lauk og fórst í forsetaframboð, og Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra. Er það kannski fyrst og fremst þinn eigin frami sem skiptir máli?

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

„Ég á að baki langan pólitískan feril og það má segja að ég hafi nú helgað megnið af mínu lífi á fullorðinsárum að vera í þjónustu almennings,“ segir hún. Katrín tekur fram að hún hafi setið 17 ár á Alþingi og gegndi þar ólíkum hlutverkum.

Hún hafi þá einnig tekist á við eftirköst hrunsins og verið formaður stjórnmálaflokks sem er í stjórnarandstöðu

„Ég myndaði ríkisstjórn þvert á hið pólitíska litróf eftir að við höfðum gengið í gegnum tvennar ótímabærar kosningar,“ segir hún og nefnir að hún hafi leitt ríkisstjórnina í gegnum heimsfaraldurinn og þær náttúruhamfarir sem hafa dunið yfir á síðustu árum í jarðhræringunum á Reykjanesskaga

Því sé það augljóst að hún hafi tekist á við mörg ólík verkefni á vettvangi stjórnmála og að hún hafi sinnt skyldum sínum gagnvart þjóðinni. Hún segir að þau verkefni hafi ekki snúist um hennar frama heldur almannahagsmuni líkt og önnur þátttaka í stjórnmálum.

Forsetaembættið er oft kallað öryggisventill þjóðarinnar. Hvernig átt þú sem einn af höfundum stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarinnar, fyrrverandi forsætisráðherra og nánasti samstarfsmaður núverandi forsætisráðherra að teljast trúverðug sem öryggisventill þjóðarinnar?

„Nú er það svo að ég hef sagt skilið við stjórnmálin,“ segir hún tekur fram að allar hennar ræður og í raun öll afstaða sé aðgengileg almenningi í gegnum feril hennar.

Ég hef líka sagt það skýrt að ég mun hefja mig yfir alla flokkapólitík. Hún muni því standa með þjóðinni og standa vörð um almannahagsmunni.

31. maí 2024 kl. 20:05 – uppfært

Halla Hrund: Mun ekki undirrita samninga nema í samráði við ráðuneyti

Þá er Halla Hrund spurð sérstaklega. Til hennar er beint spurningu um viljayfirlýsingu sem gerð var í Argentínu. Ráðuneytisstjórar tveggja ráðuneyta hafi gert athugasemdir við framgöngu hennar þar sem hún hitti argentínska ráðherra og undirritaði viljayfirlýsingu sem hvorki umhverfis- né utanríkisráðuneytið vissi af.

Halla Hrund er spurð hvort hún muni, verði hún kjörinn forseti, undirrita viljayfirlýsingar við erlendar ríkisstjórnir án samráðs við ríkisstjórn Íslands.

Halla segir ekki rétt að hún hafi ekki verið í samráði við ráðuneytin. Þarna hafi verið um einfalda óskuldbindandi viljayfirlýsingu að ræða með engum skuldbindingum, hvorki lagalegum né fjárhagslegum.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Ef þetta hefði verið bindandi hefði málið verið undirbúið öðruvísi segir Halla. Sem forseti muni hún reyna að tryggja að þekkingu Íslendinga sé deilt alþjóðlega. Hún muni þó ekki gera samninga nema í samráði við viðeigandi ráðuneyti.

Hún segir ekki hættu á því að hún fari yfir valdsvið sitt verði hún kjörin. Hún muni vinna í takti við utanríkisstefnu Íslands.

31. maí 2024 kl. 20:01 – uppfært

Hraðaspurning - kynhlutlaust mál

Þá eru frambjóðendur spurðir um eitt mesta hitamál síðustu mánaða, íslenska tungu og það sem kallað hefur verið kynhlutlaust mál. Þau eru spurð hvort þau myndu sem forseti nota kynhlutlaus orð á borð við fólk og þau frekar en hin sjálfgefnu karlkyns orð á borð við menn og þeir.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Arnar Þór Jónsson byrjaði á því að svara og ég held að hver og einn verði að fá að tala eins og hann hefur lært að tala. Það sé ekki stjórnvalda að stýra því. Honum sé tamast að tala til dæmis um landsmenn.

Baldur Þórhallsson segir að honum sé tamt gamla málið úr sveitinni. Konur séu menn og talað sé um menn. En hann segist vera að reyna að tileinka sér meira kynhlutlaust málfar. Hann telur að hann muni blanda því saman.

Halla Tómasdóttir segir að orð geti styrkt og að orð geti meitt. Hún segist vera að hlusta og læra. Hún segir að sér verði á mörg mistök engu að síður. Ekki eigi þó að dæma þegar mistök verða.

Katrín Jakobsdóttir segir að íslensk tunga sé lifandi mál. Hún muni blanda saman kynhlutlausu máli og ókynhlutlausu máli.

Jón Gnarr segir „öll“ um hópa sem fleiri en eitt kyn eru í. Íslenskan sé ekki óbreytanleg og karlkyn og kvenkyn hafi víxlast.

Halla Hrund Logadóttir segist tala frekar hefðbundið mál. Hún tali um sig sem manneskju eða mann þrátt fyrir að vera kona. Henni finnst mikilvægt að mæta þörfum allra og nota orðaval sem nær utan um fjölbreytileikann í íslensku samfélagi.

31. maí 2024 kl. 19:56 – uppfært

Hvað er að Íslandi?

Þátturinn er hafinn. Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Valgeir Örn Ragnarsson stýra þættinum. Fyrsta spurning sem borin er upp til frambjóðendanna er hvað þau telji vera að á Íslandi og hvernig þau ætli að beita sér til að laga það.

Fyrst svarar Halla Tómasdóttir, hún segir of lítið traust samfélaginu. „Eina leiðin til að laga það er að gefa fólki tækifæri til að taka þátt í því að laga samfélagið með okkur.“

Katrín Jakobsdóttir segir samfélagsbreytingar og tækniframfarir hafa skapað áskoranir í samskiptum en forseti geti verið sameinandi afl. Við séum ein þjóð en ólíkir einstaklingar og forsetinn geti hjálpað að auka samheldni.

Jón Gnarr segir offramboð valda leiðindum og vaxandi sundrung. Hann nefnir sundrung milli landsbyggðar og höfuðborgar og góða fólksins og vona fólksins. Forseti geti aukið traust og virðingu, með því að tala samfélaginu upp en tala ekki allt niður.

Arnar Þór Jónsson segir margt hanga á bláþræði - mörg kerfi að hrynja undan eigin þunga. Heilbrigðis-, löggæslu- og menntakerfi þar á meðal. Forseti geti brýnt það fyrir ráðamönnum að þeirra hlutverk sé að þjóna fólkinu í landinu. Það sé ákveðið gæðaeftirlit.

Baldur Þórhallsson segir að huga þurfi betur að unga fólkinu, taka á geðheilbrigðismálum og fíknivanda, fólki með fötlun. Forseti geti forgangsraðað málefnum barna og ungmenna. „Þar eigum við að vera fremst meðal þjóða.“

Halla Hrund Logadóttir nefnir líka aukna sundrungu. Það sé aukin stéttaskipting í landinu, til að mynda vegna húsnæðismála. Við höfum getað verið stolt af jöfnum tækifærum fram að þessu, forsetinn þurfi að lyfta upp málum sem varði samfélagið og þetta vilji hún setja á dagskrá.

31. maí 2024 kl. 19:40 – uppfært

Þátturinn fer að hefjast

Frambjóðendur eru komnir í hús, settið er komið upp, hár hefur verið spreyjað og nef púðruð. Það er allt að verða klappað og klárt og fátt að vandbúnaði að hefja útsendingu.

Ragnar Visage tók meðfylgjandi myndir við undirbúning útsendingar.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

31. maí 2024 kl. 19:40

Ekki marktækur munur á Katrínu og Höllu í síðustu könnuninni

Útlit er fyrir spennandi kosningar og aldrei að vita nema kappræðurnar í kvöld gætu ráðið úrslitum. Þrjár konur hafa mælst með mest fylgi í skoðanakönnunum þessa vikuna. Þær Katrín Jakobsdóttir, Halla Tómasdóttir og Halla Hrund Logadóttir. Það eru því líkur á því að næsti forseti lýðveldisins verði kona en auðvitað er allt opið enn þá.

Nýjasta könnunin, Þjóðarpúls Gallup, var birt síðdegis og er sú síðasta sem birtist fyrir kosningar. Þar mælist ekki marktækur munur á fylgi Katrínar Jakobsdóttur og Höllu Tómasdóttur. Halla Tómasdóttir er eini frambjóðandinn sem bætir við sig fylgi milli vikna.

31. maí 2024 kl. 19:40 – uppfært

Frambjóðendur mætast kvöldið fyrir kosningar

Gott kvöld og velkomin í þessa fréttavakt vegna kappræðna forsetaframbjóðenda kvöldið fyrir kjördag. Ég heiti Ásta Hlín Magnúsdóttir og við Ragnar Jón Hrólfsson munum standa hér vaktina og miðla áfram því helsta sem fram fer í kappræðunum.

Umræðunum í kvöld er skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum mætast sex efstu frambjóðendurnir miðað við könnun Gallup í dag og í síðari hlutanum mætast hinir sex sem mælast með undir 5% fylgi. Á þessari fréttavakt fylgjumst við með og förum yfir fyrri hlutann en síðari hlutanum verða gerð skil í annarri vakt.

Kappræður
RÚV / Ragnar Visage

Fleiri innlendar fréttir

Aðrir eru að lesa

Annað efni frá RÚV