Tekur á móti fé annarra Grindvíkinga á „rolluhóteli“
„Þetta er bara rolluhótelið Staður núna í dag,“ segir Hermann Ólafsson útvegsbóndi á Stað við Grindavík. Hann er með ær frá nokkrum fjölda Grindvíkinga á húsi hjá sér, alls um áttatíu fjár, og fékk að huga að þeim í dag. Staður stendur nokkru utan við bæjarmörk Grindavíkur, en innan lokunarpósta.
Hermann vonast til að koma fénu á afrétt í Krísuvík um helgina en hann segir það fé sem komið var út hundleitt á því að vera hýst aftur.