Dregið verulega úr virkni gossins
Greinileg gosmóða en ekki hættuleg
Töluverður kraftur er áfram í gosinu á Sundhnúksgígaröðinni og hefur verið í dag þó nokkuð hafi dregið úr í nótt. Hraunrennsli hefur verið mest í kringum Hagafell. Veðurstofan segir að gosmóðu hafi gætt víða um land, allt austur á Reyðarfjörð. Móðan er vel greinileg en er ekki hættuleg, og öll gildi vel undir heilsuverndarmörkum.
Hraun streymdi tíu metra á sekúndu
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur var við rannsóknir við gosstöðvarnar í gær og tók sýni úr hrauninu. Hann segir að þegar það fór hraðast yfir hafi það streymt fram um tíu metra á sekúndu. Á þeim hraða sé hæpið fyrir fólk að komast undan. Ármann gerir ráð fyrir því að samsetning kviku í eldgosinu við Sundhnúksgíga nú sé svipuð og í fyrri gosum.
„Þetta var mjög öflugt, mjög líklega öflugast af þeim gosum sem hafa orðið þarna núna,“ segir hann.
Varnargarðarnir hafi sannað gildi sitt. „Þeir hafa svínvirkað um leið og reynir á þá. Ég held að við í þessum innviðahóp séum bara ansi ánægð með þann árangur sem kemur úr því. Þeir hafa algjörlega staðið undir sínu.“
Myndskeið af gosinu – spilað hratt
Tugir tonna biðu verkunar þegar þurfti að rýma
Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis segir að starfsmenn hafi þurft að hlaupa frá óunnum afla í gær þegar tilkynning barst að rýma þyrfti bæinn. Um 50 mínútur hafi tekið að ganga frá í fiskvinnslunni og koma fólkinu úr bænum.
Halda áfram að reisa varnargarða
Vinnan heldur áfram við gerð varnargarða til að verja helstu innviði á Reykjanesskaga.
Nýjar drónamyndir frá gosstöðvunum
Ragnar Visage ljósmyndari RÚV myndaði gosstöðvarnar eftir hádegi úr dróna.
Myndir af gosstöðvunum
Ragnar Visage, ljósmyndari fréttastofunnar, náði þessum glæsilegu myndum af gosstöðvunum í dag.
Þjónustumiðstöðvar Almannavarna hætta
Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að starfsemi þjónustumiðstöðva Almannavarna í Tollhúsinu og í Reykjanesbæ hætta um mánaðamótin. Bæjarskrifstofur Grindavíkurbæjar verða áfram starfræktar í Tollhúsinu. Opnunartíminn er frá 10-16 alla virka daga. Þar er hægt að bóka viðtal við félagsráðgjafa í síma 420-1100.
Rauði kross Íslands verður með mánudagskaffi fyrir Grindvíkinga á milli klukkan 14-16 að Smiðjuvöllum 9 í Reykjanesbæ út júnímánuð.
Umfjöllun um gosið í hádegisfréttum
Að sjálfsögðu var yfirgripsmikil og ítarleg umfjöllun um eldgosið og flest sem því við kemur í hádegisfréttum í dag. Hér fyrir neðan er hægt að hlýða á það:
Engin áhrif á HS Orku í Svartsengi
Eldgosið hefur ekki haft áhrif á starfsemi HS Orku á Svartsengi. Milljónatjón varð á loftlínu sem flytur rafmagn til Grindavíkur. Vegna þess hve svæðið er ótryggt er óljóst hvenær HS-veitur geta ráðist í viðgerðir.
„Staðan er náttúrulega sú að hraunflæðið er í rénun og það er auðvitað gott að skaðinn verði ekki meiri en orðinn er,“ segir Páll Erland, forstjóri HS-veitna. Aðstæður til að hefja viðgerðir eru erfiðar.
„Við höfum náttúrulega þekkinguna og getuna, bæði koma upp loftlínu og strengjum og tengja varavélar inn í Grindavík en aðstæðurnar núna eru þannig að þetta er ekki öruggt.“
Loftlínan sem slitnaði er sú sama og sett var upp sérstaklega eftir að strengirnir gáfu sig þegar hraunið fór yfir í janúar. „Þannig að þetta er í raun ný loftlína sem vonast var til að myndi tryggja Grindavík þrátt fyrir að hraun myndi renna þarna um en svo fór ekki,“ segir Páll.
Verðmætabjörgun hafin
Pawel Fiedorowicz, starfsmaður Einhamars, var í Grindavík í morgun að bjarga verðmætum úr fyrirtækinu. Amanda Guðrún Bjarnadóttir fréttamaður náði tali af honum.
Áætla að 15 milljón rúmmetrar af kviku séu komnar upp
Í uppfærðri frétt á Veðurstofunni er greint frá því að verulega hafi dregið úr virkni eldgossins síðan í gær. Ekki eru markverðar hreyfingar innan varnargarða við Grindavík.
Gosvirknin er mest nærri gígnum sem var lengst virkastur í eldgosinu sem hófst 16. mars. Hraunrennsli er nú mest á svæðinu í kringum Hagafell. Hægt hefur á framrás hraunrennslis við Grindavíkurveg til móts við Svartsengi og við varnargarðana vestur af Grindavík.
GPS mælingar sýna að land í Svartsengi seig um 15 sentímetra þegar kvika hljóp þaðan yfir í Sunhnúksgígaröðina í gær. Áætlað er að um 15 milljón rúmmetrar af kviku séu nú þegar farnir úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi.
Lokunarpóstur á Nesvegi
Stefán Jón Ingvarsson, myndatökumaður RÚV, er kominn á Nesveg. Þar er búið að koma fyrir þessum lokunarpósti.
Blámóða yfir Norður- og Austurlandi
Veðurstofan hefur fengið tilkynningar frá bæði Norðfirði og úr Mývatnssveit um að blámóða frá eldgosinu liggi þar yfir. Rúnari Snæ Reynissyni fréttamanni okkar fyrir austan hafa einnig borist ábendingar, til að mynda úr Jökuldal þaðan sem þessi mynd er tekin.
Veðurstofan segir gosmóðuna mælast á mengunarmælum Umhverfisstofnunar bæði í Reyðarfirði og við Húsavík. Mengunin sé lítil en vel sjáanleg.
Bæjarstjóra líst ágætlega á stöðuna
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að varnargarðarnir hafi staðið af sér áhlaup gossins sem hófst í gær.
„Mér líst bara eftir atvikum nokkuð vel á stöðuna miðað við útlitið var í upphafi gossins í gær,“ segir Fannar.
Grindavíkurbær er rafmagnslaus en bæði heitt og kalt vatn er á bænum. Engar skemmdir virðast hafa orðið á lagnakerfi. Aðeins ein leið er fær í bæinn eins og er.
„Það er búið að setja í gang áætlanir um að bæta það sem þarf að bæta, auðvitað mun taka lengstan tíma að lagfæra rafmagnslínuna og vegina en við höfum góða reynslu af því að það er hægt að leggja yfir tiltölulega nýrunnið hraun nýjan slóða eða nýjan veg.“
Fyrirtæki fá að sækja verðmæti í Grindavík
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir stefnt að þvíu að hleypa fyrirtækjum inn í Grindavík til að bjarga verðmætum. „Það er svo að sjá að það séu litlar breytingar inni í Grindavíkurbæ, þannig að við stefnum á að hleypa fyrirtækjum þarna inn til þess að bjarga verðmætum, þá erum við að tala um sjávarfang.“
Hvert hefur hraunið runnið?
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvert hraunið var búið að renna klukkan 18 í gærkvöld. Eins og sérfræðingar hafa greint frá hefur hægst verulega á rennslinu síðan þá. Hraunið er farið yfir Grindavíkurveg norðan Grindavíkur og yfir Nesveg vestan Grindavíkur.
Ekki eins auðvelt og hefur verið að leggja nýja vegi
Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá Vegagerðinni, var í viðtali í útvarpsfréttum klukkan níu. Hún segir ástand veganna til Grindavíkur hafa verið skoðað í gærkvöldi og að starfsfólk Vegagerðarinnar sé á svæðinu núna.
„Suðurstrandarvegur er fær og óskemmdur. Þannig að það er góð leið til Grindavíkur í dag en eina leiðin.“
Bergþóra segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um viðgerðir á vegunum sem fóru undir hraun í gær. „Við munum fara að skoða möguleikana en við munum ekki aðhafast neitt fyrr en gosinu er lokið og við erum viss um að hraunrennslið sé hætt í þessum hraunstraumum sem eru við vegina.“
Virðist ykkur að það yrði auðvelt að leggja þar nýja vegi?
„Það er ekki eins auðvelt og hefur verið áður. Þetta er bæði á lengri kafla og eins eru aðstæður umhverfis fyrri veg sem veldur því að það þarf að horfa betur á hvaða möguleika við höfum. Þetta þarf að skoða betur áður en ráðist er í einhverjar aðgerðir.“
Allt grænt á mælum Umhverfisstofnunar
Loftgæðamælar Umhverfisstofnunar eru allir skærgrænir á vef stofnunarinnar. Gasið var yfir höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en engin mengun mældist á mælunum. Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í viðtali við Fréttastofu í morgun að sáralítil gasmengun mældist frá gosstöðvunum.
Skoða skemmdir á innviðum
Fyrstu verkefni viðbragðsaðila í dag verða að skoða skemmdir á innviðum. Rafmagnslaust er í Grindavík eftir að loftlínan var tekin úr rekstri í gær vegna þess að hraun stefndi að henni.
Víðir Reynisson sagði fréttastofu í morgun að kviknað hafi í möstrum og línurnar hafi svo slitnað. „Við vitum svo sem ekki hvernig það endar. Það virtist vera ein lína eftir en hvernig ástandið á þessu öllu saman er verður bara að koma í ljós þegar við getum skoðað það en það er ekki að gerast alveg strax.“
Gosið hefur þróast eftir bókinni
Nú þegar nokkur reynsla er komin á eldvirknina á Reykjanesskaga er hægt að segja að gosið sem hófst í gær sé nokkuð eftir bókinni. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að það hafi tekið gosið um klukkutíma eða einn og hálfan að komast í hámark og síðan hafi byrjað að draga úr því.
Hegðunin á gosinu hefur verið í takt við það sem verið hefur í hinum gosunum. Hraunrennslið var þó talsvert mikið í byrjun, gæti hafa náð allt að 2.000 rúmmetrum á sekúndu. Síðan datt það mikið niður og gæti verið um 30-50 rúmmetrar á sekúndu núna að mati Magnúsar Tuma.
Hann segir ósennilegt að hraunrennslið sé að ógna Suðurstrandarvegi. Eins og í síðustu gosum var hraunrennslið gríðarlega mikið í upphafi. Það nær þá dálítið langt áður en það fer að kólna. Í gær var það komið langleiðina niður að sjó vestur eftir Grindavík en síðan hefur það vart hreyfst.
Innviðir virðast ekki í frekari hættu
Góðan dag. Við hefjum nýja fréttavakt vegna eldgossins við Sýlingafell í dag. Hægt er að sjá framvinduna í gær í fyrri fréttavakt.
Fréttastofa ræddi við Sigríði Kristjánsdóttur, náttúruvársérfræðing hjá Veðurstofu Íslands, í morgun. Hún sagði virknina hafa verið mjög svipaða og hún var í gærkvöldi.
„Það hægðist svolítið um þarna seinni partinn og fram á kvöld. Þá dró verulega úr virkninni og hún dró sig saman í nokkur virk gosop og virðist hafa haldið þannig áfram í alla nótt.“
Fremur lélegt skyggni var við gosstöðvarnar í nótt en hún segir að þegar fór að rofa til í morgun virðist sem þetta hafi verið svipað í alla nótt.
Af vefmyndavélum sést hraun renna til suðurs úr syðsta gosopinu. „Það er örugglega líka hraunrennsli norðar á sprungunni en við vitum ekki nákvæmlega hvert það er að renna. Það hefur ekki verið neitt öflugt hraunrennsli núna,“ sagði Sigríður.
Hraun fór yfir Grindavíkurveg og Nesveg í gær en eins og staðan er virðast fleiri innviðir ekki í hættu.
Gasmengun berst til austurs í dag, yfir Hveragerði og Selfoss. Gas lá yfir höfuðborgarsvæðinu í nótt en það sáust engar breytingar á loftgæðamælum á höfuðborgarsvæðinu. „Það virðist vera frekar lítið gas að koma upp með þessu,“ segir Sigríður.