Virknin hefur dregist saman en lítið breyttist í nótt
Ný fréttavakt tekin við
Góðan dag. Við hefjum nýja fréttavakt í dag þar sem hægt verður að fylgjast með framvindunni við gosstöðvarnar.
Lítið breyttist í nótt
Virkni í eldgosinu við Sundhnjúksgígaröðina breyttist lítið í nótt. Dregið hefur verulega úr krafti gossins frá því það hófst í gær.
„Mesta virknin er á nokkrum gosopum en vegna takmarkaðs skyggnis á svæðinu er erfitt að fullyrða hversu mörg þau eru,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni sem barst á sjötta tímanum.
Hraunflæði er mest norðarlega á sprungunni og við gosop við Sýlingarfell sem opnaðist um tíuleytið í gærkvöldi.
„Unnt verður að meta betur virknina og hraunflæði þegar léttir til með morgninum.“
Virknin dregist verulega saman
Verulega hefur dregið úr eldgosinu. Virknin hefur einangrast á að því er virðist sex gosopum norðarlega á sprungunni.
Að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni hefur hægt á framrás hraunrennslis við Grindavíkurveg til móts við Svartsengi og við varnargarðana vestur af Grindavík.
Engin sprengivirkni sést lengur og sáralítil skjálftavirkni mælist. Þá hefur gosórói einnig minnkað mikið.
Ólíklegt er að hraunið nái niður í sjó á næstunni og allir varnargarðar hafa haldið.
Eldgosin borin saman
Heilt yfir hafa eldgosin við Sundhnúka spýtt minna af gosefni upp á yfirborðið, en krafturinn hefur verið meiri.
Það sést best þegar magn hrauns að jafnaði á dag eldgosin hafa framleitt. Eldgosið sem stóð í einn dag í febrúar spýtti 12,8 milljón rúmmetrum af hrauni upp á yfirborðið. Til samanburðar framleiddi afkastamesta gosið – það fyrsta – að jafnaði 547 þúsund rúmmetra af hrauni á dag.
Með öðrum orðum þá framleiddi gosið í febrúar 2024 ríflega 23 sinnum meira hraun á dag en gosið í Geldingadölum.
Hafa orðið minni áhyggjur af Suðurstrandarvegi
Víðir Reynisson, sviðstjóri hjá Almannavörnum, segir þau hafa orðið minni áhyggjur af því að hraun muni flæða yfir Suðurstrandarveg. Mikið hefur dregið úr krafti gossins og framrás hrauns eftir því sem liðið hefur á kvöldið.
Að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, hefur lítil hreyfing verið á hrauninu sem runnið hefur meðfram varnargörðunum vestan Grindavíkur í kvöld og mest virkni verið norðarlega á gossprungunni.
Vísindamenn Veðurstofu og Almannavarnir fylgist áfram vel með stöðunni.
Virknin töluvert breytt frá því fyrr í dag
Alma Ómarsdóttir fréttamaður hefur verið á gosstöðvunum í dag.
Hún segir að gosvirknin sé töluvert breytt frá því fyrr í dag. „Það logar ekki svo glatt í sprungunni lengur. En á stangli sjáum við hraunslettur spýjast upp úr henni. Þegar við komum fyrr í dag var stór og stæðilegur eldveggur sem teygði sig marga kílómetra eftir sjóndeildarhringnum,“ segir Alma.
Sú þróun er í samræmi við það sem verið hefur í síðustu gosum þar sem gossprungan skiptist upp í nokkra gíga.
„Maður veltir því fyrir sér hvort þetta verði eins og síðasta gos sem stóð í mánuð eða hvort við séum að tala um gos sem er kannski bara í örfáa sólarhringa eins og gosin þar á undan.“
Aukinn kraftur í kvöld
Aukinn kraftur virðist hafa færst í gosvirknina í kvöld, að því er Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands segir á Facebook. Samhliða því má greina aukinn óróa á svæðinu.
Í færslunni segir ljóst að kraftur gossins sé nú einungis brot af því sem hann var þegar mest lét um miðjan dag.
Hraun yfir Nesveg
Guðmundur Bergkvist myndatökumaður tók þessa mynd sem sýnir hraun renna yfir Nesveg á níunda tímanum í kvöld.
Þótti vissara að flytja alla úr bænum
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að Grindavíkurbær sé nú algjörlega mannlaus. „Það ríkti óvissa í bænum og við töldum heppilegt að flytja alla úr honum,“ sagði Úlfar í kvöldfréttum sjónvarps.
Lokunarpóstar verða við Suðurstrandarveg, Nesveg og Grindavíkurveg upp við Reykjanesbraut eins og verið hefur í síðustu gosum.
Magnús Tumi: Ólíklegra að hraun renni inn í Grindavíkurbæ
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir eldgosið hafa verið aðeins lengur að ná hámarki en fyrri gos en að farið sé að draga úr því. Það þurfi ekki að koma á óvart að það sé öflugra en fyrri gos þar sem meiri kvika hafi verið búin að safnast fyrir undir Svartsengi en áður.
Mikill hraunstraumur hafi um tíma verið til suðurs sem renni meðfram varnargörðunum og vestan við Grindavíkurbæ. Nú hafi virknin í gosinu þó aðeins færst norðar og hægt hafi á hraunstraumnum á þessum stað. Þó ekkert sé hægt að fullyrða sé ólíklegt að hraun renni inn í bæinn ef gosið hagi sér með svipuðum hætti og fyrri gos.
„Sennilega er þetta nú að sleppa til að mestu leyti. Það hafa náttúrulega orðið verulegar skemmdir eins og komið hefur fram á ýmsu. Á lögnum og vegum og ýmsu.“
Þó að dregið hafi úr gosinu sé það enn þá stórt en það séu góðar fréttir að virknin hafi færst í norður.
Möguleg gasmengun á höfuðborgarsvæðinu í kvöld og nótt
Samkvæmt uppfærðum upplýsingum frá Veðurstofunni þá er áfram töluvert hraunflæði frá gosinu. Kvikustrókavirkni er enn á meginhluta sprungunnar, sem er um 2,4 km löng. Hún nær suður fyrir Hagafell og rennur hraun að mestu til suðurs og vesturs.
Nokkur hluti þess hraunstraums sem fer til suðurs fer ofan í sprungu til móts við Hagafell og kemur aftur upp rétt norðan varnargarða norðaustan við Grindavík. Það hefur verið misskilið sem nýtt gosop.
Talið er að um 14 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið frá Svartsengi yfir í Sundhnúgsgígaröðina.
Í kvöld snýst vindátt til suðvesturs. Gasmengunar gæti orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun.
Ítarleg umfjöllun í sjónvarpsfréttum
Við minnum á sjónvarpsfréttir sem hefjast á slaginu klukkan 19. Þar verður ítarlega farið yfir atburðarás dagsins og fáum nýjustu upplýsingar frá helstu sérfræðingum.
Glænýjar loftmyndir
Ragnar Visage, ljósmyndari RÚV, tók glænýjar loftmyndir af gosstöðvunum fyrir skömmu.
Líklega ekki nýtt gosop
Á vefmyndavélum má sjá hvar hraun kemur upp nær varnargörðunum við Grindavík. Það er engu líkara en þar hafi opnast nýtt gosop, náttúruvársérfræðingur telur þó að svo sé ekki.
Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir þau hafa fylgst með hrauni koma þarna upp í tæpan klukkutíma núna. Það sé mat vísindamanna Veðurstofu að þarna sé að koma upp hraun sem flæði ofan í sprungu annars staðar og leiti þarna upp á ný. Því sé líklega ekki um eiginlega nýja gosopnun að ræða.
„Við sjáum þetta ágætlega á vefmyndavélum og fylgjumst vel með þessu. Við munum gera það áfram inn í nóttina.“
Einar segir þau jafnframt fylgjast vel með framrás hraunsins víðar. Nú beinist athygli meðal annars að tjörn sem heitir Silfra vestan bæjarins. Renni hraun í hana megi búast við sprengingum og gjóskumyndun í samspili kviku og vatns.
Enn opin vegop í varnargörðum
Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís sem leitt hefur vinnu um varnir mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, segir að varnargarðarnir á Reykjanesskaga hafi staðið sig vel. Hraunrennsli hafi verið mikið og komið að görðunum á mörgum stöðum. Þeir halda enn sem komið er.
„Við vorum mjög langt komin með að klára það sem við ætluðum að klára í þessum varnargörðum. Það voru þó opin ákveðin vegop og það var farið í það í dag að loka þessum vegopum, meðal annars á Grindavíkurvegi við Svartsengi.“
Stög við fjarskiptamöstur í eigu bandaríska sjóhersins skammt frá Grindavík hafa laskast að sögn Ara. Varnargarðar hafi varið fjarskiptamiðstöðina að einhverju marki en þar sé vegop á varnargarði sem ekki hafi verið lokað.
„Við erum ekki komin með hraunrennsli inn fyrir það op en það er nálægt því,“ segir Ari. Hann segir vel fylgst með þessu en óljóst hvort farið verði í að loka opinu, staðan sé tekin jafnóðum, mikilvægustu verkefnum forgangsraðað og engum stefnt í hættu við vinnuna.
Magnaðar drónamyndir af gosinu
Ragnar Visage, ljósmyndari, og Stefán Jón Ingvarsson, myndatökurmaður, hafa náð mögnuðum loftmyndum af gosinu, og sjá má dæmi þess í meðfylgjandi myndbandi.
Hlupu út um leið og loftvarnarflautur fóru í gang
Margir höfðu búist við eldgosinu nokkurn tíma en það virðist þá alltaf koma á óvart þegar að því er komið. Rakel Lilja Halldórsdóttir, heilsunuddari og Grindvíkingur, var ásamt manni sínum í Grindavík að klára að ganga frá eign sinni þegar viðvörunarflautur Almannavarna fóru af stað í dag. Hún og maðurinn hennar tóku á rás um leið og þau heyrðu þær byrja.
„Við fórum til Grindavíkur í morgun og þetta átti að vera síðasta skiptið sem við færum til þess að klára að ganga frá eigninni okkar,“ sagði Rakel Lilja við fréttastofu. „Við áttum eftir að þrífa íbúðina á neðri hæðinni og um leið og ég opnaði hurðina þar og fór inn með skúringagræjurnar og þá byrjaði allt að ómar í þessum viðvörunarflautum,“ segir hún.
Þegar út var komið sáu þau að aðrir bílar voru byrjaðir að streyma út úr bænum áður en gosið hófst.
Magnús Tumi: Mikið hraunflæði en varnargarðar virka vel
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir hraunrennsli við upphaf gossins hafa verið á bilinu 50% til tvöfalt meira en í síðasta gosi. Farið sé að draga úr gosinu en það sé enn þá býsna öflugt. „Þetta er nú stærsti atburðurinn fram að þessu.“
Hann segir hraunrennsli hratt við upphaf goss þegar mikið magn kviku komi upp í einu, og haldist því heitari og þunnfljótandi lengur. Magnús Tumi segir að í upphafi goss þegar það sé svona öflugt verði ekki við hraunrennslið ráðið.
„En reynslan sýnir okkur að varnargarðarnir sem hafa verið byggðir virka mjög vel fyrir svona þunnfljótandi hraun. Það flæðir bara meðfram görðunum. Á meðan að það verður ekki þykkara en svo að það flæði yfir garðana. Þannig að þeir eru að virka mjög vel til þess að halda hrauninu frá Grindavík enn sem komið er.“
Svo megi reikna með því að mikið dragi úr hraunrennslinu eftir því sem á líður og þá geti staðan orðið líkari því sem var í síðasta gosi.
Dregur úr sprengingum og dökkum mekki
Dregið hefur úr sprengingum og dökkum mekki frá gosstöðvunum. Mikill dökkur mökkur steig upp og sprengingar urðu syðst á sprungunni upp úr klukkan fjögur þegar kvika komst í snertingu við grunnvatn.
Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þessu ekki lokið. Einhverjar sprengingar séu áfram að verða en úr þeim hafi dregið undanfarna klukkustund.
Þegar kvika kemst í snertingu við vatn verður til aska sem getur truflað flugumferð. Jóhanna Malen segir ösku ekki hafa stigið svo hátt enn þá að til þess komi en vísindamenn Veðurstofunnar fylgjast vel með stöðunni og eru í samskiptum við flugmálayfirvöld.
Grindavík gæti lokast af landleiðina í kvöld – „Staðan er ekki góð eins og er“
„Hraun rennur utan í varnargarðana við Grindavík á nokkrum stöðum og svo er hraun líka farið að renna utan í varnargarða við Svarstengi. Það reynir bæði á garðana vestan og austan við bæinn og garðana við fjarskiptastöð bandaríska sjóhersins sem er norðvestan við Grindavík,“ sagði Víðir Reynisson hjá almannavörnum í viðtali á Rás 2 fyrir stuttu.
Hraun rann einnig yfir einn af görðunum sem var orðinn fullur af hrauni af fyrra gosinu og það nálgast varnargarða sem voru gerðir til viðbótar.
Víðir segir alla farna úr bænum, bæði viðbragðsaðila og íbúa.
„Grindavík lokast af landleiðina ef hraun rennur að Suðurstrandarvegi.“ Víðir telur ekki ólíklegt að það geti gerst í kvöld haldi hraunflæði áfram á sama hraða.
Alltaf hætta á að hraun renni inn í Grindavík í eldgosi
„Mesti hraunstraumurinn er að fjarskiptastöðinni núna. Flestar háspennulínur eru farnar, möstrin eru mikið skemmd og einhver brenna.“
Dökki reykurinn sem steig upp frá gosinu áðan var hraun að komast í snertingu við grunnvatn við Hagafell. Víðir segir þetta geta endurtekið sig þar sem þarna er mikið af grunnvatni.
Óttist að hraun renni inn til Grindavíkur?
„Já, gerum það auðvitað, það er alltaf hætta á því meðan svona er. Húsin vestast og yst í bænum væru farin undir hraun ef ekki væri fyrir varnargarðana en þeir standa enn þá og verja. En það er líka þessi möguleiki að ef hraun rennur í miklu magni suður fyrir garðana þá gæti það hugsanlega komist inn í hverfin sem eru vestast og syðst í bænum. Vonandi ekki.“
Næstu klukkutímar fram á nóttina eru gríðarlega mikilvægir. „Þá vonandi verður nú kannski mesti krafturinn úr þessu og við sjáum eitthvað til sólar í þessu en staðan er ekki góð eins og er.“
Suðurstrandarvegur fær – aðrar leiðir farnar undir hraun
Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar, segir leiðirnar að Grindavík vera að lokast einni af annarri. „Eins og stendur er Suðurstrandarvegur enn þá fær en hann er að sjálfsögðu lokaður allri almennri umferð en hann er fær enn þá. Aðrar leiðir hafa í raun og veru farið undir hraun.“
Hraun hefur farið yfir töluverðan kafla á þessum vegum. Hraun rann yfir Grindavíkurveg á tveimur stöðum á töluvert löngum kafla að sögn Bergþóru. „Síðan fór Norðurljósavegur, sem er í raun leiðin frá Bláa lóninu inn í Grindavík og svo núna fyrir nokkrum mínútum fór Nesvegur undir hraun, þannig að hann er lokaður líka.“
Hraun streymir enn yfir vegina og það styttist í að hraun renni yfir Grindavíkurveg norðan við Svartsengi þar sem hraun rann fyrst yfir veginn í þessari hrinu jarðhræringa fyrr í vetur.
Fyrr í dag var töluvert hraunrennsli að Suðurstrandarvegi en það hefur hægt á því að sögn Bergþóru.
Hingað til hefur verið hægt að lappa upp á vegina en Bergþóra segir það fara eftir hve lengi rennsli verður í hraunrennslinu.
„Eftir að atburði lýkur og hraunrennsli hættir þá förumn við strax að skoða hvað við gerum.“
Algjörri rýmingu Grindavíkur að ljúka
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir algjörri rýmingu Grindavíkur að ljúka. Engir íbúar séu eftir í bænum, en greint hafði verið frá því fyrr í dag að þrír íbúar hafi neitað að yfirgefa bæinn. Viðbragðsaðilar eru að fara út úr bænum núna.
Þetta er gert vegna aukinnar óvissu um framvindu gossins sem Úlfar segir ekki útilokað að geti teygt sig nær bænum. Jafnframt eru leiðir inn og út úr bænum að lokast ein af annarri. Hraun hefur þegar runnið yfir Grindavíkurveg og Norðurljósaveg og miklar líkur á því að Nesvegur lokist innan tíðar.
Mökkur frá gosinu hefur engin áhrif á flug
Þykkur mökkurinn sem stígur upp frá eldgosinu hefur engin áhrif á flugsamgöngur eins og sakir standa og ekki er búist við að það breytist í bráð. Þetta segja upplýsingafulltrúar Play og Icelandair. Vestanáttin sé þeim hagstæð en flugfélögin og Isavia fylgjast náið með framvindunni.
Nýjar myndir af gosstrókum
Hér eru nýjar myndir frá Ragnari Visage, ljósmyndara RÚV, frá Grindavíkurvegi þar sem sést vel hvernig strókarnir eru núna eftir að kvika komst í snertingu við grunnvatn.
Hraun rennur hratt að fjarskiptamöstrum
Hraun rennur nú hratt í átt að fjarskiptamöstrum í eigu bandaríska sjóhersins skammt frá Grindavík. Búið er að byggja varnargarða í kringum möstrin og er vonast til þess að þeir haldi. Utanríkisráðuneytið fylgist grannt með stöðunni.
Hraun að loka flestum leiðum að Grindavík
Hraun hefur runnið yfir bæði Grindavíkurveg norðan við Grindavíkurbæ og Norðurljósaveg. Um 50 metrar eru í að hraun fari yfir Grindavíkurvegi norðan við Svartsengi og miklar líkur eru á því að Nesvegur lokist fljótlega vegna hraunflæðis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni á Facebook.
Hraun rennur einnig til Suðurs í átt að Suðurstrandarvegi. Allir vegir til og frá Grindavíkur eru lokaðir fyrir almenna umferð eins og stendur.
Sprengingar, dökkur mökkur og öskufall
Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir nýjar breytingar á eldgosinu geta orðið til þess að trufla flugumferð.
Dökkur mökkur stígur nú upp frá gosstöðvunum og sprengingar verða á sprungunni. Lovísa segist þó ekki vilja flokka gosið sem sprengigos. „En það eru að verða sprengingar vegna samspils kviku og grunnvatns.“
Við þetta segir Lovísa að til verði aska. Það er breyting frá fyrri gosum. Askan getur haft áhrif á flugumferð og öskufall orðið undan vindi.
Sérsveitin drónar til að kanna aðstæður
Dökkur reykmökkur fór að stíga upp rétt fyrir fjögur. Þetta gerðist skyndilega og Amanda Guðrún Bjarnadóttir fréttamaður, sem er á Reykjanesskaga, segir viðbragðsaðila ekki alveg vita hvað er að gerast en að sérsveitin sé að fara með dróna á loft til að kanna aðstæður nánar.
Ef þetta heldur svona áfram geti eitthvað farið að gefa sig
Fannari Jónassyni, bæjarstjóri Grindavíkur, líst ekki vel á stöðuna í eldgosinu á Reykjanesskaga. „Þetta er miklu meira magn sem er á ferðinni núna sem stefnir að bænum. og varnargarðarnir eru að veita því til vesturs og svo austurs.“
Hraun rennur yfir Grindavíkurveg og Nesvegurinn er við það að lokast líka. „Það eru tvær leiðir af þremur þannig að það er mikið magn þarna á ferðinni og mikið flæmi sem hraunið hefur lagt undir sig nú þegar.“
Hafandi fylgst með hinum gosunum líka segir Fannar þetta miklu meira umlykis en áður hefur sést.
Þannig að þú hefur verulegar áhyggjur af því að varnargarðar geti jafnvel brostið?
„Það verður að búast við því að ef að þetta heldur svona áfram að þá geti eitthvað farið að gefa sig.“
Ótrúlegur hraði sé á hraunflæðinu. Hann vonar að þessum jarðhræringum ljúki eða færi sig fjær mannvirkjum og mannabyggð. „Við getum ekki gert annað en að vona og búum okkur undir að þetta haldi áfram en svo verður tíminn að leiða það í ljós hvernig framhaldið verður.“
Hraun komið upp að varnarveggjum við Grindavík
Víði líst verr á þetta gos en þau fyrri
Það er margt sem spilar inn í að þau hjá Almannavörnum hafi meiri áhyggjur af þessu gosi en þeim sem á undan komu, sagði Víðir Reynisson í samtali við Rás 2 fyrr í dag. Magn hrauns og hraðinn á hraunflæðinu sé meiri en áður hefur sést.
Dökkur mökkur þar sem kvika kemst í snertingu við grunnvatn
Dökkur mökkur stígur nú upp frá gosstöðvunum. Náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands segir að þetta gerist þegar kvika komist í snertingu við grunnvatn, þá verði sprengingar og dökkur mökkur stígi upp.
Ekki er ljóst á þessari stundu hvort að gossprungan er enn að lengjast. segir náttúruvársérfræðingur.
Rafmagnsstaurar sem halda uppi loftlínu í ljósum logum
Rafmagnsstaurarnir sem halda uppi loftlínu sem tengir rafmagn úr Svartsengi til Grindavíkur standa nú í ljósum logum. Forsvarsmenn HS veitna eru ekki bjartsýnir á að línan hafi það af. Staurarnir standa enn sem komið er.
Sundhnúkahraunslína na er eini stofnstrengur rafmagns inn í Grindavíkurbæ. Vonir stóðu til þess að með því að setja línuna í loft héldi hún ef hraun flæddi yfir Grindavíkurveg en það virðist ekki ætla að ganga upp.
Rafmagn var tekið af bænum fyrr í dag vegna þess að hraun flæddi í átt að línunni. Ólíklegt er að hægt verði að hleypa straumi á aftur á næstunni. Engar varaaflstöðvar eru í bænum á vegum veitu- og orkufyrirtækjanna en lausna er nú leitað í nánu samstarfi við Almannavarnir.
Einhver fyrirtæki í Grindavík hafa eigið varaafl.
Hraun komið utan í varnargarða vestan við Grindavík
Benedikt Ófeigsson er kominn aftur í viðtal á Rás 2. Hann segir byrjun gossins hafa verið mjög öflugra. „Það er mun meira hraunflæði en við höfum séð áður.“
Ástæðan fyrir því er að það var miklu meiri kvika í kvikuhólfinu heldur en fyrir síðustu ár.
„Þetta endurspeglast í gríðarlegu hraunflæði. Hraunið er komið utan í varnargarða vestan við Grindavík.“
Aflögunarmælingar sýna að aflögun var mjög hröð til að byrja með, fyrstu tvo tímana, að sögn Benedikts.
Hann vonast til að flæðið sé að ná jafnvægi þar sem aflögunin er að minnka.
Aflögun er það sem gerist í jarðskorpunni sitthvoru megin við þar sem kvikan kemur upp á yfirborð. Þar ýtist jarðskorpan til og verður tilfærsla. Bendedikt segir að þegar kvikan flæði upp þurfi hún ekki meira rúmmál og þá dragi úr aflöguninni. „Sem segir okkur að það er jafnvægi í flæðinu að neðan og upp á yfirborð. Það þýðir ekki að gosið sé að hætta en að það hætti að færast í aukana, það er að ná stöðugu flæði.“
Væntanlega fari síðan að draga úr því eftir því sem líði á.
Hraun flæðir í átt að Njarðvíkuræðinni en ekki ástæða til að spara heitt vatn
Hraun flæðir í átt að Njarðvíkuræðinni, heitavatnsæðin fyrir öll Suðurnes, en þrátt fyrir það er ekki ástæða til að spara heitt vatn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Veitum á Facebook.
„Þess þá heldur er mikilvægt að halda uppi góðum þrýstingi og því biðlum við til íbúa að spara ekki heita vatnið,“ segir í tilkynningunni.
Ástæðan fyrir því er að lögnin er nú grafin í jörðu og með því standi vonir til að vel takist til að kæla hana ef á reynir. Þannig séu taldar auknar líkur á að lögnin haldi ef hraun flæðir yfir hana.
Telur tilefni til að hafa áhyggjur af hraunrennslinu
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, telur tilefni til að hafa áhyggjur af hraunrennslinu. Hraun rennur hratt og yfir Grindavíkurveg.
„Við getum haft áhyggjur af því að hraun nái þá til Bláa lóns vegar sem tengist Nesvegi við bæinn.“
Þá er möguleiki á því að ein leið út úr bænum fari í sundur en Úlfar hefur ekki stórar áhyggjur í augnablikinu af aðkomuleiðum inn í Grindavíkurbæ. „Það er mikil virkni í gosinu eins og hefur komið fram og við verðum bara að sjá og bíða með framahaldið.“
Ekki til eftirbreytni að fólk neiti að fara
Nokkrir íbúar hafa neitað að yfirgefa heimili sín í Grindavík. „Það er í sjálfu sér ekki gott og ekki til eftirbreytni en hingað til þá hefur lögregla ekki fjarlægt fólk með valdi. Ég vona að það komi ekki til þess. En þetta er svo sem ekki hegðun til fyrirmyndar að mati viðbragðsaðila.“
Úlfar segist ekki vita betur en að þetta fólk sé enn í bænum. „Það í er sjálfu sér ekki í hættu eins og er. Þetta fólk er á eigin ábyrgð.“
Reynt verði að bjarga fólki lendi það í lífshættu en Úlfar segir að það komi ekki til greina að setja viðbragðsaðila í lífshættu.
Loftmyndir af eldgosinu
Meðfylgjandi myndir tók Ragnar Visage ljósmyndari af gosinu með dróna um þrjú eftir hádegi.
Stæður á loftlínu við Grindavík standa í ljósum logum
Samkvæmt upplýsingum á Facebook-síðu HS Veitna standa stæður á loftlínu við Grindavík í ljósum logum. Rafmagnstenging er ekki lengur við Grindavík. Þar segir enn fremur að unnið sé að því að skoða hvaða möguleikar séu í stöðunni.
Rafmagn var tekið af bænum fyrr í dag sem varúðarráðstöfun þar sem hraun rann í átt að stæðunum.
Hraun á Grindavíkurvegi
Stefán Jón Ingvarsson, tökumaður RÚV, náði myndbandi af hrauninu sem runnið hefur yfir Grindavíkurveg. Mikinn reyk leggur af hrauninu og er bent á að reykur sem myndast þegar malbikið brennur er hættulegri en gosmökkurinn sem stígur upp frá hrauninu.
Plönin ganga út á að heitavatnslögnin haldi
Kristinn Harðarsson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, segir búið að undirbúa vel og fergja heitavatnslögn sem gæti farið undir hraun norðan megin við Þorbjörn renni hraunið þangað.
„Það er búið að undirbúa það vel, fergja heitavatnslgöngina nokkuð vel og plönin ganga út á að lögnin þoli það.“
Landsnet hefur einnig unnið að því að hækka háspennumöstur á þessu svæði. „Það er búið að byggja sterka varnargarða í kringum þau möstur, þá þarf bara að koma í ljós hvort þessar áætlanir og viðbrögð haldi.“
Magnús Tumi: Stærsta gosið í hrinunni
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, var að koma úr þyrluflugi yfir gosstöðvarnar. Þyrlan var komin á staðinn um 20 mínútum eftir að gos hófst.
„Við horfðum á sprunguna lengjast jafnt og þétt og hún er svona 3,2-3,4 km á lengd. Gosið var í rauninni að færsast í auknna mest af þessum tíma.“
Magnús segir mestan kraft vera syðst í gosinu núna, þar sem gígurinn var í síðasta gosi og suður fyrir það. „Þar fossar hraun niður með Hagafelli en dreifir mjög mikið úr sér,“ segir Magnús Tumi.
Hann metur það sem svo að eftir einn og hálfan tíma gæti umfang hraunsins verið orðið um 5 til 5,5 ferkílómetrar. Hann væntir þess að fljótlega fari að draga úr gosinu aftur. „Því það er farið nú þegar meira en helmingurinn af þeirri kviku sem var búið að safnast upp þarna undir, meira en 20 milljón rúmmetrar.“
Hann segir gosið greinilega stærst gosanna í þessari hrinu.
Ætlar að klára að hnýta lausa enda í Grindavík
Stefán Kristjánsson, eigandi og forstjóri Einhamar Seafood, er einn af þeim sem enn eru staddir í Grindavík.
„Ég er bara að hnýta lausa enda hérna,“ segir Stefán sem er staddur í bænum ásamt dóttur sinni. Hann segir að hann viti af tveimur eða þremur öðrum íbúum sem enn eru í Grindavík ásamt viðbragðsaðilum og slökkviliði.
Aðspurður hvort viðbragðsaðilar hafi verið að pressa á hann að yfirgefa svæðið segir hann svo ekki.
„Nei nei, við klárum bara það sem við þurfum að gera hérna. Ég er að færa féð mitt austast úr bænum og fer með það vestast á stað og svo er ég að koma fiski héðan í burtu sem var tilbúinn til útflutnings,“ segir Stefán.
„Síðan erum við klár að fara þar sem við Grindvíkingar erum að fara á leik á eftir, þar sem við förum í Valsheimilið og ætlum að gera okkar besta til að taka Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta,“ segir Stefán að lokum.
Lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér tilkynningu fyrir skemmstu þar sem tekið var fram að allir ættu að hafa yfirgefið Grindavík þar sem bærinn hefði verið rýmdur. Lögreglan segir það ekki til eftirbreytni að fara ekki að þeim fyrirmælum.
Rafmagnslaust í Grindavík
Rafmagnslaust er í Grindavík. Háspennulína sem liggur þangað var tekin út því að hún var í hættu, sagði Kristinn Harðarsonar framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku á Rás 2.
Samkvæmt upplýsingum frá HS Orku er þetta varúðarráðstöfun. Ef hraun nær yfir línuna meðan hún er tengd hefði það getað valdið skemmdum í orkuverinu í Svartsengi. Því er línan tekin út. Ekki liggur fyrir hversu lengi verður rafmagnslaust í bænum.
Hraun rennur nú yfir Grindavíkurveg sunnan Þorbjarnar og eru háspennulínur og heita- og kaldavantslagnir í jörðu, sem liggja til Grindavíkur í hættu.
Kristinn segir HS Orku einnig hafa undirbúið innviði norðanmegin við Þorbjörn þar sem hætta er á að hraun renni þeim megin líka.
„Þar er verið að undirbúa háspennulínur og lagnir í jörðu fyrir að hraun renni yfir það.“
Kristinn segir líklegt að það geti gerst í dag.
Hraun runnið yfir Grindavíkurveg
Hraun er runnið yfir Grindavíkurveg sunnan Þorbjarnar. Þetta staðfesti Bergþóra Þorkelsdsóttir forstjóri Vegagerðarinnar við Arnar Björnsson fréttamann sem er í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð.
Reykurinn frá brennandi malbikinu er hættulegri en gosmökkurinn sem stígur upp frá hrauninu.
Hraunflæðið um 1.000 rúmmetrar á sekúndu
Um 1.000 rúmmetrar af hrauni streyma úr gossprungunni á hverri sekúndu. Það er svipað og hraunflæðið í upphafi síðasta goss. Þúsund rúmmetrar eru álíka mikið og rúmmál Laugardalslaugar.
Björn Oddsson jarðeðlisfræðing segir að mesti krafturinn sé sunnarlega í gossprungunni, nærri Hagafelli.
„Það hlýtur síðan að draga úr því. Það er ólíklegt að það geti haldið áfram svona mjög lengi,“ segir Björn sem var um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir gosinu þegar fréttastofa ræddi við hann.
Myndskeið af eldgosinu
Þessi myndskeið voru tekin af Birni Oddsyni, starfsmanni Almannavarna í vísindaflugi fyrir rúmlega klukkustund.
Mengun gæti borist yfir höfuðborgarsvæðið seint í kvöld
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir gosmökkinn berast til austurs, seinna í dag gæti hann borist til Þorlákshafnar, Selfoss og lengra. Enn mælist ekki mengun á loftgæðamælum þar.
Seint í kvöld gæti mökkurinn borist yfir höfuðborgarsvæðið og lengra yfir landið.
Þorsteinn bendir fólki á að fylgjast með loftgæðum á loftgaedi.is. Hann ráðleggur fólki að láta börn ekki sofa úti sé von á gosmengun. Fólk sem er viðkvæmt fyrir er beðið um að loka gluggum yfir nótt ef von er á mengun.
Gasmælar eru komnir í alla þéttbýliskjarna á Suðurnesjum, þar eru líka mælar sem mæla fínt svifryk eða gosmóðu. „Þetta er ekki eiturgas en þeir sem eru viðkvæmir fyrir gætu fundið fyrir óþægindum.“
Þorsteinn brýnir fyrir fólk að fylgjast vel með loftgæðamælum í dag og næstu daga. Hægt er að fylgjast með á vefsíðunni loftgaedi.is.
HS veitur að meta hvaða innviðir eru í hættu
Sigrún Inga Ævarsdóttir, samskipta og markaðsstjóri HS veitna, segir neyðarstjórn fyrirtækisins að störfum. Verið sé að meta hvort og hvaða innviðir séu í hættu, hvaða sviðsmyndir sé líklegast að raungerist og til hvaða viðbragðsáætlana verði gripið.
Hraun hefur runnið í vestur í átt að Grindavíkurvegi nú í upphafi goss, þeir innviðir sem þar gætu farið undir hraun eru Njarðvíkuræð, heitavatnslögn sem fór undir hraun í febrúar. Þá leiddi það til heitavatnsleysis á öllum Suðurnesjum. Eins gæti hraunrennsli yfir Grindavíkurveg ógnað Svartsengislínu, raflínu í lofti, en það hefði ekki áhrif á afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum utan Grindavíkur.
Sigrún ítrekar þó að enn sé verið að meta hættuna og fleiri sviðsmyndir til skoðunar. Þetta muni skýrast fljótlega.
Meiri kraftur í sprungunni sunnanverðri
Amanda Guðrún Bjarnadóttir fréttamaður er stödd við Arnarnámu og sér gossprunguna. Hún segir meiri kraft virðist vera í sprungunni sunnanverðri en gat ekki sagt til um hvort sprungan sé að lengjast.
Gosmökkurinn sem stígur upp frá sprungunni virðist ekkert vera að minnka að sögn Amöndu.
Hún veit af einum íbúa í bænum og segir verið að rýma bæinn fyrir viðbragðsaðila líka.
Þrír Grindvíkingar neita að fara
Samkvæmt tilkynningu frá Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóranum á Suðurnesjum, gekk rýming í Grindavík, Bláa lóninu og orkuverinu í Svartsengi vel.
Þó dvelja enn þrír íbúar í Grindavík þrátt fyrir tilmæli viðbragðsaðila um að koma sér út úr bænum og segir lögregla slík viðbrögð ekki til eftirbreytni.
Ekki hafi enn komið til þess að lögregla hafi þurft að beita valdi í rýmingaraðgerðum.
Þeir einu sem fengið hafa aðgang að eldstöðvunum aðrir en viðbragðsaðilar eru frétta- og blaðamenn sem eru í fylgd viðbragðsaðila.
Lokunarpóstur er við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar og sem fyrr á Nesvegi og Suðurstrandarvegi.
Gosið ekki enn náð jafnvægi
Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, er í viðtali á eldgosavakt á Rás 2. Hann segir að flæði að neðan sé enn að aukast og gosið hafi ekki enn náð jafnvægi.
Sprungan hefur lengst til suðurs og nálgast Hagafell. „Það virðist samt vera að það sé að hægja á þessari lengingu þannig að kannski erum við að sjá það byrja að ná einhverju jafnvægi, það er bara of snemmt að segja til um það strax.“
Fyrir korteri var það metið svo að um 45 mínútur væru í að hraunstraumurinn næðu Grindavíkurvegi. „Þannig að það eru kannski þessir innviðir sem eru mest í hættu eins og er.“
Fólk beðið að fara ekki að gosstöðvum
Almannavarnir ráða fólki eindregið frá því að fara á vettvang. Þetta segir Karen Ósk Lárusdóttir, fagstjóri aðgerðasviðs hjá almannavörnum.
Benedikt Ófeigsson, fagstjóri á Veðurstofunni, segir hraunið að mestu renna til vesturs. Það verði að koma í ljós hvort sprungan nái að varnargörðum utan við Grindavík.
Benedikt Ófeigs: Sprungan 2,5 km og lengist enn
Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, sagði í aukafréttatíma sjónvarps nú eftir hádegi að það ætti að eftir að koma í ljós hvernig gosið muni þróast.
„Það er nýbyrjað. Þyrlan er bara að skoða það.“
Benedikt segir aðdragandann hafa verið aðeins lengri en þau hafi jafnvel átt von á, sem gæti verið merki um að kvikan eigi orðið erfiðara með að komast upp. Hann segir ekkert nákvæmt mat komið á stærð gossins enn þá.
„Við fyrstu sýn virðist þetta byrja mjög svipað og síðustu gos. Ég gæti alveg trúað að það sé aðeins meira flæði núna til að byrja með bara af því að það var meiri þrýstingur en það eru ekki komnar neinar tölur um það.“
Hann segist telja að sprungan sé orðin um 2,5 km á lengd, nálgist Hagafell og sé enn þá að lengjast. Búast megi við því að sprungan haldi áfram að lengjast fyrst um sinn eins og í fyrri gosum.
Búast ekki við að eldgosið hafi áhrif á flug
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA segir að eldgosið hafi sem stendur engin áhrif á flug til og frá flugstöðinni í Keflavík. Ekki er búist við því að það muni valda neinum truflunum á flugferðum.
„Það sem gerist fyrst er að það er afmarkaður hringur í kringum eldstöðina þar sem ekki er hægt að fljúga. Það gildir þangað til öskuspá er komin frá Veðurstofunni. Þá er sá hringur felldur niður og ákvörðun um flug tekin í samráði við flugrekendur,“ segir Guðjón en yfirleitt komi sú sá stuttu eftir að eldgos hefst.
ISAVIA er að hans sögn í góðu sambandi við Veðurstofu Íslands. Síðustu eldgos hafi haft lítil eða engin áhrif á flug og þar sem það gjósi á sama stað og áður sé ekki búist við neinum truflunum.
Nýjustu myndirnar af gosinu
Ragnar Visage, ljósmyndari RÚV, náði þessum myndum af eldgosinu.
Aukafréttatími í sjónvarpi að hefjast
Horfa má á aukafréttatímann í sjónvarpi og í færslunni hér að neðan. Þá minnum við á gosvakt í útvarpi á Rás 2.
Sprungan komin í gegnum gíginn sem myndaðist í síðasta gosi
Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, er staddur í Svartsengi núna en var á Hagafelli rétt áðan. Hann var í vettvangsstjórn í Grindavík þegar gosið hófst en fór upp á Hagafell þegar gosið hófst.
„Sprungan opnast norður af þeim gígunum sem voru í gangi í lok apríl,“ segir Jón Haukur og á þar við gosið sem lauk í maí.
Hann segir sprunguna hafa þróast bæði til norðurs og suðurs og rétt áðan hafi hún verið komin í gegn um gíginn sem gaus í í síðasta eldgosi. „Megin þunginn af þessu er samt heldur norðar og það er að streyma hraun til austurs og vesturs frá þeirri sprungu og það er komin taumur sem rennur í átt að Svartsengi.“
Taumurinn er að renna í svipaða átt og sá sem tók Grindavík tvisvar í sundur í febrúar og mars.
Gosmökkinn leggur til austurs. Jón Haukur segir aðstæður þannig séð hagstæðar fyrir þá sem vinna á svæðinu.
Jón Haukur segir gosin í febrúar og mars hafa fyllt upp í megin rás sem var á milli gömlu hraunanna. „Þannig að þetta er ekki eins afgerandi farvegur, þetta gæti breitt örlítið meira úr sér og það þýðir hægari straumur. Það er alveg óvíst hvað það gerir.“
Viðbragðsaðilar að störfum í Grindavík
Grindavíkurbær var rýmdur fyrir hádegi en þar eru viðbragðsaðilar enn þá að störfum. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir veru þeirra í bænum sífellt til skoðunar.
„Um leið og ástandið er metið þannig að þörf sé á, þá færum við viðbragðið út úr bænum,“ segir Úlfar. Það standi þó ekki til að svo stöddu.
Gossprungan á korti
Hér má sjá afstöðumynd af gossprungunni miðað við helstu kennileiti í nágreni Grindavíkur. Gossprungan er enn að lengjast til suðurs þegar þetta er skrifað. Eldgosið hófst klukkan 12:46.
Svo virðist sem að það gjósi á sömu slóðum og í fyrri gosum á Sundhnúkagígaröðinni, norðan Grindavíkur.
Eldgosið séð úr lofti
Björn Oddsson hjá almannavörnum tók meðfylgjandi myndir úr þyrluflugi yfir gosstöðvarnar fyrir skömmu.
Gosmökkurinn sést undir Eyjafjöllum
Gosmökkurinn sést undir Eyjafjöllum að sögn manns sem sendi tölvupóst. Það er bjart veður og léttskýjað þannig að mökkurinn er greinilega sjáanlegur víða.
Upphaf eldgossins - myndband
Hér fyrir neðan má sjá fyrstu fimm mínútur eldgossins á 30 sekúndum. Gosið byrjar að stíga upp úr eldri hraunbreiðunni og dreifir úr sér með jöfnum hraða.
Eldgosið stendur nú yfir á milli Stóra Skógfells og Sýlingarfells og er einnig hægt að fylgjast með gangi þess í vefmyndavélum RÚV og í beinni útsendingu á RÚV2.
Þrýstingsbreytingar mældust í borholum
Þrýstingsbreytingar mældust í borholum orkuversins í Svartsengi rétt fyrir hádegi. Þetta staðfestir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku.
Síðast þegar þrýstingsbreytingar mældust í borholum gerðist það áður en Veðurstofa Íslands byrjaði að nema breytingar. Að þessu sinni mældist skjálftavirkni hjá Veðurstofunni fyrst og fékk orkuverið skilaboð um að hefja rýmingu.
Aukafréttatími í sjónvarpi klukkan 13:30
Það verður aukafréttatími í sjónvarpinu klukkan 13:30.
Kvikugangurinn færist nær Grindavík
Í tilkynningu á Facebook-síðu almannavarna segir að kvikugangurinn sé að færast nær Grindavíkurbæ. Viðbragðsaðilar og aðrir sem eru í bænum eru beðnir um að vera tilbúnir að yfirgefa bæinn á mjög skömmum tíma.
Eldgosið séð frá Reykjanesbraut
Ragnar Visage, ljósmyndari RÚV, tók þessar myndir frá Reykjanesbraut.
Neyðarstig vegna eldgossins
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum farið á neyðarstigi vegna eldgossins sem hófst fyrir skömmu við Sundhnúkgsgígaröðina.
Tilkynning frá Ríkislögreglustjóra:
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að fara á neyðarstig vegna eldgoss við Sundhnúkagígaröð.
Eldgos hófst nú rétt fyrir klukkan eitt.
Gossprungan rúmlega kílómetri á lengd
Kristín Jónsdóttir jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, gos hófst fyrir nokkrum mínútum og löng gossprunga opnaðist. „Þetta opnaðist með krafti,“ segir Kristín við Ragnhildi Thorlacius á Rás 2.
Kristín segir þetta vera á svipuðum slóðum og síðast, á Sundhnúksgígaröðinni. „Gosstrókarnir ná að minnsta kosti 50 metra hæð og lengdin á sprungunni er rúmlega 1 kílómetri, 1,5 eitthvað slíkt.“
Kristín segir innistæðu fyrir kraftmeiragosi þar sem meiri kvika hafi safnast fyrir en fyrir fyrri gos.
„Við erum búin að bíða talsvert eftir þessu gosi og heppilegt að það kom upp þarna.“
Virðist vera staðsett norðaustan við Sýlingafell
Tilkynning frá Veðurstofunni:
„Eldgos er hafið nærri Sundhnúkum norðan við Grindavík. Það sést á vefmyndavéĺum og virðast vera staðsett norðaustan við Sýlingafell.
Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið innan skamms til þess að staðfesta nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins. Nánari upplýsingar verðar aðgengilegar fljótlega. Fluglitakóði hefur verið færður á rautt, þangað til nánari upplýsingar um öskudreifingu berast. “
Eldgos er hafið
Eldgos er hafið milli Stóra Skógfells og Sýlingarfells.
Fylgjast má með vefmyndavélum hér:
Björgunarsveitir kallaðar út til öryggis
Samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð var virkjuð í morgun. Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir tvo hópa björgunarsveita hafa verið boðaða út, ekki sé mikil þörf á þeim í augnablikinu.
„Viðvera björgunarsveitar er í raun og veru bara til öryggis.“
Aðallega ferðamenn á Grindavíkurafleggjara
Amanda Guðrún Bjarnadóttir fréttamaður er við Grindavíkurafleggjara ásamt Stefáni Jóni Ingvarssyni tökumanni. Hún segir umferð hafa verið töluverða úr bænum, aðallega hafi þetta verið erlendir ferðamenn og fjölmiðlamenn.
Ferðamenn sem Amanda talaði við voru á leiðinni í Bláa lónið þegar þeim var snúið við á afleggjaranum. „Meira að segja ein fjölskyldan sem ég talaði við kom alveg af fjöllum í samtalinu okkar og vissi ekki hvað var í gangi.“
Amanda hitti líka hjón sem vinna hjá Einhamar. Þau sögðu rýminguna hafa tekið mjög stuttuna tíma, mesta lagi fimm mínútur. „Eina málið var að þau voru bæði skólaus og enn í vinnslusloppnum, þau voru svo mikið að drífa sig.“
Skýrt að það er kvika komin á ferðina
Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði rétt í þessu í hádegisfréttum að rétt fyrir ellefu hafi hafist mjög áköf skjálftahrina austan við Sýlingarfell. Hún er enn á nokkru dýpi, þremur til fimm kílómetra dýpi. „Það er mjög skýrt að þarna var kvika að reyna að fara af stað.“
Þegar klukkan fór að nálgast tólf hafi breytingar orðið í borholuþrýstingi og aflögunarmerki orðið á ljósleiðurum, aðeins síðar hafi aflögunarmerki sést á GPS-mælum. „Þetta tekur lengri tíma en síðustu atburðir, það er erfiðara fyrir kvikuna að komast upp.“
Svo virðist sem kvikan sé staðbundin austan við Sýlingarfell, eins og hún sé að fara til norðurs en Benedikt segir of snemmt að segja til um hvert hún stefni.
„Aflögunarmerkin eru enn lítil þannig að það er eins og það taki tíma fyrir þetta að gerast.“
Það hafa ekki margir stórir skjálftar mælst, nokkrir í kringum tvo en mest smáskjálftavirkni. „Hún er mjög þétt og jókst aftur rétt upp úr tólf, þá komu mjög skýr aflögunarmerki.“
Benedikt gerir ráð fyrir að það gjósi en starfsfólk Veðurstofunnar fylgist með þrónuninni. „Hvort það nái sér á strik eða ekki.“
Frá lokunarpósti við Grindavíkurveg
Ragnar Visage, ljósmyndari RÚV, tók meðfylgjandi myndir frá lokunarpósti við Grindavíkurveg fyrir skömmu.
Kvikuhlaup hafið á Sundhnúksgígaröðinni
Kvikuhlaup er hafið á Sundhnúksgígaröðinni sem gæti endað í eldgosi á næstu klukkustundum. Þetta segir í tilkynningu frá Veðurstofunni sem má lesa hér að neðan.
Áköf jarðskjálftavirkni stendur yfir á Sundhnúksgígaröðinni, ásamt aukinni skjálftavirkni sýna gögn breytingar í borholuþrýstingi og aukin aflögun. Túlkun veðurstofunnar er því að kvikuhlaup sé hafið og geti endað í eldgosi á næstu klukkutímunum.
Við höldum áfram að vakta stöðuna og nánari upplýsingar berast ef eitthvað breytist.
Ítarleg umfjöllun í hádegisfréttum
Við minnum á hádegisfréttir sem hefjast klukkan 12:20 á Rás 1 og 2. Þar verður farið ítarlega yfir stöðuna á Reykjanesskaga.
Einnig er hægt að horfa á RÚV 2 og í RÚV appinu.
Landhelgisgæslan í viðbragðsstöðu
Þyrla Landhelgisgæslunnar og áhöfn hennar eru í viðbragðsstöðu segir Ásgeir Erlendsson. Ekkert gos er enn hafið en mögulegt er að þyrlan verði kölluð út til að fljúga yfir gosstöðvarnar ef til þess kemur.
Um sjö til átta hundruð í Bláa lóninu þegar rýming hófst
Rýming í Bláa lóninu gekk vel að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, reksturs og þjónustu hjá Bláa lóninu, segir rýmingu hafa lokið um tuttugu mínútur í tólf. Hún áætlar að um sjö til átta hundruð gestir og starfsmenn hafi verið í lóninu þegar rýming hófst.
Hún segir búið að koma gestum fyrir annars staðar.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir „við viljum þakka gestum góðan skilning, starfsmönnum fagleg vinnubrögð og viðbragðsaðilum gott samstarf. Starfsstöðvum Bláa Lónsins í Svartsengi hefur verið lokað. Frekari upplýsingar verða veittar eftir því sem líður á daginn.“
Rauði krossinn biður íbúa Grindavíkur um að skrá sig
Rauða krossinn biður fólk sem er búsett í Grindavík og er að rýma bæinn núna að hafa samband í síma 1717 svo það sé hægt að skrá fólk. Hægt er að koma við á aðalskrifstofu Rauða krossins í Efstaleiti 9 og skrá sig í móttökunni ef það hentar fólki betur.
Þau sem eru á svæðinu vinnu sinnar vegna þurfa þess ekki en þau sem eru búsett í Grindvaík eru beðin um að skrá sig.
Skjálftavirkni jókst og órói líka
Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir skjálftavirkni hafa aukist upp úr hálf 11, aðallega austur af Sýlingarfelli.
„Órói fór að rísa líka og það bendir til þess að það sé kvikuhlaup í gangi.“
Það hefur gerst nokkrum sinnum að það hefur orðið lítið kvikuhlaup án goss. „Það er spurning hvort það sé nægur þrýstingur fyrir kvikuna til að troða sér í gegn eða ekki.“
Skjálftarnir eru enn á þriggja til fimm kílómetra dýpi. „Kvikan er að reyna að troða sér, það er aðeins farið að hægja á skjálftavirkninnni en þetta getur breyst mjög hratt.“
Greinilega aukin skjálftavirkni
Eins og sjá má á sjálfvirku jarðskjálftakorti Veðurstofunnar varð greinilega aukin skjálftavirkni á Reykjanesskaga síðustu klukkustundirnar.
Tímasetningin góð ef af gosi verður
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir rýmingu í gangi í Grindavík og fyrirtækjum í Svartsengi. Hann segir að dvalið hafi verið í 38 húsum í Grindavík síðustu nótt.
„Tímasetningin er góð, þetta gerist á dagtíma ef af gosi verður.“
Úlfar segir rýmingu gerða samkvæmt ákveðnu skipulagi. „Það er ekki stórkostlegur asi en skilaboðin eru skýr.“
Allar leiðir úr Grindavík eru greiðfærar en fólki er beint burt um Nesveg.
Rýming stendur yfir í Bláa Lóninu
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa Lóninu segir að rýming standi nú yfir í Bláa Lóninu.
Fólk í Grindavík þekkir ferlið við rýmingu vel
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur gefið fyrirmæli um rýmingu í Grindavík vegna mögulegs kvikuhlaups við Sundhnúksgíga. Allt bendir til þess að það sé hafið eða að hefjast.
Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri hjá almannavörnum, er ekki með tölu yfir þá sem eru í Grindavík en segir almannavarnir vera með ágætis yfirsýn yfir fjölda fólks í bænum. „Það eru margir í vinnu í Grindavík, allt fólk sem þekkir þetta ferli við rýmingu.“
Hún biður fólk að vera rólegt og sýna stillingu.
„Það er búið að fara yfir allar viðbragðsáætlanir hjá fyrirtækjum og við óskum eftir því að fólk hlíði fyrirmælum viðbragðsaðila á staðnum.“
Hjördís hafði ekki upplýsingar um rýmingu í Bláa lóninu.
Almannavarnir fengu upplýsingar um breytingu á þrýstingi í borholum hjá HS Orku og ásamt því hófst áköf jarðskjálftahrina við Sundhnúksgíga og því var ákveðið að rýma Grindavík.
20 milljón rúmmetrar af kviku safnast saman
Veðurstofan greindi frá því í gær að um 20 milljón rúmmetrar af kviku hefðu safnast saman undir Svartsengi frá því síðasta eldgos hófst 16. mars.
Búið að rýma orkuverið
Allir starfsmenn eru farnir úr orkuverinu í Svartsengi. Þetta staðfestir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku.
Bein streymi frá svæðinu
Við minnum á vefmyndavélar RÚV frá svæðinu. Hér að neðan má sjá nokkur sjónarhorn.
Grindavík rýmd ásamt nærliggjandi svæðum
Almannavarnir ríkislögreglustjóra hafa fyrirskipað rýmingu í Grindavík og á nærliggjandi svæðum. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, hún segir að næstu skref séu að fylgjast með hver atburðarásin verður. Rýming var virkjuð eftir að upplýsingar bárust um skjálftavirkni frá Veðurstofu Íslands.
Búið er að virkja samhæfingarstöð Almannavarna í Skógahlíð.
Dæmigerð merki um byrjun á kvikuhlaupi
Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðing á Veðurstofunni segir mjög staðbundna skjálftavirkni vera núna við Sundhnúk sem sé dæmigerð fyrir kvikuhlaup. „Við erum ekki enn farin að sjá aflögun að neinu ráði eða miklar breytingar í borholum.“
Benedikt segir að það eigi eftir að koma í ljós hvernig þetta þróist. „Þetta eru dæmigerð merki um byrjun á kvikuhlaupi.“
Tilkynning frá Veðurstofunni
Þessi tilkynning var að berast frá Veðurstofunni.
Góðan daginn,
Áköf jarðskjálftavirkni stendur yfir á Sundhnúksgígaröðinni . Þetta bendir til þess að kvikuhlaup gæti verið að hefjast eða hafið og líklegt sé að eldgos hefjist í kjölfarið.
Nánari upplýsingar koma fljótlega.