Gleði, leikur, pallíettur og tjullpils á öldungamóti í blaki
Öldungamót Blaksambands Íslands, eitt stærsta íþróttamót landsins, fór fram um helgina. Þar keppast á annað þúsund miðaldra blakarar við að skemmta sér sem best og svo eru þau líka að keppa í blaki.
Vel yfir 1300 eru samankomin við Varmá í Mosfellsbæ um helgina, þar er spilað blak á 15 völlum. Sungið, dansað, hvatt og fagnað. Og svo eru það búningarnir, keppendur leggja mikinn metnað í frumlega og skemmtilega búninga.
Leikið er í deildum - 15 kvennadeildum og 7 karladeildum þar sem lið fara upp og niður um deild á milli móta. Mótið hófst á fimmtudagsmorgun og því lýkur í kvöld með mikilli skemmtun, 900 manna lokahófi í íþróttasalnum.