Katrín baðst lausnar en situr áfram þar til flokkarnir ná saman um arftaka
Smá samantekt í lok dags
Við förum að segja það gott í bili. Fyrst stutt samantekt:
- Katrín Jakobsdóttir fráfarandi forsætisráðherra hélt á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands á Bessastöðum í dag þar sem hún baðst lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti.
- Forseti Íslands samþykkti lausnarbeiðnina en bað Katrínu að sitja áfram sem forsætisráðherra þar til ný ríkisstjórn hefði verið mynduð. Féllst Katrín á það.
- Hver leiðir þá stjórn er með öllu óvíst, og einnig hvort frekari breytingar verða á ráðherraskipan.
- Það eina sem virðist ljóst er að flokkarnir þrír sem mynda núverandi ríkisstjórn, sjálfstæðisflokkurinn, framsókn og vinstri græn, myndi þá nýju.
- Bæði Guðni og Katrín sögðust búast við því að það yrði fyrr heldur en seinna.
- Forsvarsmenn flokkanna hafa fundað með einum eða öðrum hætti alla helgina og halda spilunum þétt að sér.
- Katrín sjálf segist ekki koma að myndun nýrrar ríkisstjórnar, né vita hver verður arftaki hennar.
- Hún segist vongóð um að línur skýrist fljótlega svo hún geti hafið kosningabaráttu sína að fullu.
Við fylgjumst að sjálfsögðu með gangi mála og greinum frá helstu vendingum á öllum okkar miðlum. Fréttavakt er lokið.
Spennt fyrir kosningabaráttunni en fyrst þurfi línur að skýrast í stjórnmálunum
Katrín er vongóð um að línur skýrist fljótlega svo hún geti hafið kosningabaráttu sína að fullu.
„Ég er auðvitað mjög spennt fyrir því en auðvitað þarf þetta að skýrast sem allra fyrst svo ég geti hellt mér út í hana af fullum krafti,“ segir Katrín.
Sjálf kemur hún ekkert að ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna þriggja, enda ekki lengur í forsvari fyrir Vinstri græn.
„Það var auðvitað algjörlega fyrirsjáanlegt að ef ekki lægi fyrir á þessum tímapunkti hver tekur við þá myndi ég að sjálfsögðu ekki skorast undan því að taka það að mér að vera áfram starfandi forsætisráðherra. En ég er nú vongóð um að þessi mál skýrist mjög fljótlega.“
Viðtalið við Katrínu má finna í heild sinni hér fyrir neðan.
„Senn“
Ekkert liggur fyrir um það hvenær nýr forsætisráðherra tekur við eða hver það verður.
Eina sem við vitum er að það komi í ljós „senn“.
Guðni Th. Jóhannesson forseti hefur rætt við bæði formenn ríkisstjórnarflokkanna en einnig vissa formenn stjórnarandstöðunnar.
Guðni býst við að áfram verði ríksisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna, enda hafi þau lýst yfir ríkum vilja um að starfa áfram saman.
Þau ráða enn ráðum sínum.
„Svo verðum við að sjá hver niðurstaðan verður,“ sagði Guðni og vísaði til fyrri yfirlýsingar sinnar:
„Þess má vænta að senn komi í ljós hver það verður sem verður forsætisráðherra.“
Er ekki „senn“ svolítið teygjanlegt hugtak?
„Jú. Vissulega,“ svaraði Guðni og bætti svo við að ekki væri ólíklegt að senn yrði boðað til ríkisráðsfundar á Bessastöðum.
„Svo sjáum við hvað setur. Senn.“
Sjá má yfirlýsingu Guðna hér fyrir neðan:
Væru settar skorður ef það þætti „óheppilegt“
Það að starfandi forsætisráðherra fari í forsetaframboð hefur aldrei gerst hér á landi.
Það er ekki að heyra á Guðna að sér þyki það óheppilegt.
„Óheppilegt? Ef það þætti afskaplega óheppilegt þá væru settar einhverjar skorður að því tagi í okkar stjórnskipun. Það eru ákveðin ákvæði um kjörgengi og við getum unað þokkalega við þau held ég,“ segir hann.
Katrín mun að óbreyttu segja sig frá þingstörfum á morgun. Hún er ekki lengur formaður Vinstri grænna.
Ríkur vilji til að starfa áfram saman
Guðni kveðst hafa átt í viðræðum við forystumenn ríkisstjórnarflokkanna sem hafa tjáð honum að „ríkur vilji“ sé meðal flokkanna þriggja að starfa áfram saman.
Hann hefur einnig verið í samskiptum við formenn flokka stjórnarandstöðunnar.
„Það er nú einfaldlega vegna þess að hver sá sem gegnir þessu embætti, [embætti forseta], þarf að eiga traust samband við þau öll sem sitja á þingi, hvort sem sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Skiljanlegt og sjálfsagt er við þessi tímamót að heyra í þeim hljóðið.“
Veit ekki hver verður næsti forsætisráðherra og hefur ekki skoðun á því
Katrín sjálf kemur ekki að ákvörðun um framtíð ríkisstjórnarinnar. Hún veit ekki hver verður næsti forsætisráðherra.
„Nú þurfa auðvitað flokkarnir að svara því hvort þau séu reiðubúin að halda áfram og þá með hvaða hætti,“ sagði Katrín þegar hún kom af fundinum.
Hefur þú á því skoðun?
Nei í sjálfu sér ekki. Nú er þetta bara úrlausnarefni stjórnmálanna, hvernig þau haga sínum málum. Þegar maður tekur ákvörðun um það að sölum – að stíga út úr stjórnmálum – þá er þetta í raun og veru orðið verkefni annarra.“
Katrín Jakobsdóttir er stigin út af fundi sínum með forseta.
Guðna þykir ekkert athugavert við forsætisráðherra í forsetaframboði
Katrín verður að óbreyttu forsætisráðherra í einhvern tíma í viðbót, eða þar til arftaki hennar hefur verið valinn.
Guðni var inntur eftir svörum hvort sér þyki athugavert að Katrín fari í forsetaframboð sem ráðherra.
Sérðu eitthvað athugavert við að sitjandi forsætisráðherra fari í forsetaframboð?
„Nei.“
Katrín baðst lausnar en situr áfram
Guðni hefur samþykkt lausnarbeiðni Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra.
Hún situr þó áfram sem forsætisráðherra í starfsstjórn þar til leiðtogar ríkisstjórnarsamstarfsins hafa ákveðið hver verður arftaki hennar.
„Þess ber að vænta að senn komi í ljós hver það verður,“ segir Guðni.
Von er á yfirlýsingu frá forseta
Fundinum er lokið og von er á yfirlýsingu frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands í beinu streymi hér fyrir ofan.
Skrifað í gestabók og sest á fund með Guðna
Hífandi rok á Bessastöðum en Katrínu líður vel
Hífandi rok var á Bessastöðum þegar Katrín Jakobsdóttir mætti á Bessastaði, líklegast í síðasta skipti sem forsætisráðherra.
„Það er bara mjög góð tilfinning,“ sagði Katrín áður en hún gekk inn á fund forseta.
Flokkur fólksins mun ekki stíga inn í samstarfið
Flokkur fólksins neitar með öllu að flokkurinn muni stíga inn í ríkisstjórnarsamstarfið.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins tjáði sig um málið á Facebook.
Fundurinn hafinn
Katrín Jakobsdóttir er mætt á Bessastaði. Sjá streymi hér fyrir ofan.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokks viðbúinn öllu
Þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna þriggja þurfa að samþykkja hvers kyns breytingu á ríkisstjórn sem formennirnir leggja til.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tjáir fréttastofu að ekki hafi verið boðað formlega til þingflokksfundar. Þingmenn flokksins séu þó viðbúnir að boðað gæti verið til slíks fundar með skömmum fyrirvara.
Hildur Sverrisdóttir.
Formenn og varaformenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, og fulltrúar Vinstri grænna: Guðmundur Ingi Guðbrandsson sitjandi formaður og Svandís Svavarsdóttir, funduðu frá morgni til kvölds í gær.
Þau samtöl hafa dregist inn í daginn í dag en ekkert meira er vitað.
Styttist í fundinn
Nú eru um tíu mínútur í að fundur þeirra Katrínar og Guðna hefjist á Bessastöðum. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður er við Bessastaði og freistar þess að ná tali af forsætisráðherra áður en hún gengur inn á fundinn.
Beint útsending hefst hér á vefnum um leið og Katrín kemur að Bessastöðum.
Sjö hafa setið lengur sem forsætisráðherra
Aðeins sjö hafa setið lengur en Katrín Jakobsdóttir í forsætisráðherrastólnum, þar af fimm á lýðveldistímanum.
Katrín hefur verið í embætti í sex ár og fjóra mánuði, eða í alls 2.318 daga.
Davíð Oddsson hefur setið lengst, en hann sat í þrettán ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Benedikt Gröndal, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, sat skemmst, eða í 116 daga.
Á undan honum koma Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar sem var forsætisráðherra í 281 daga árið 2016 og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sem sat í 323 daga árið 2017.
Vert er að nefna að Sigurður Ingi tók við sem forsætisráðherra einmitt á þessum degi, 7. apríl, fyrir 8 árum.
28 dögum síðar, eða 5. maí, tilkynnti Guðni Th. Jóhannesson um forsetaframboð sitt.
Á Wikipediu má finna lista yfir alla forsætisráðherra Íslands, byggðan á upplýsingum af vef Alþingis.
Hér fyrir neðan má sjá það þegar Katrín tók við lyklunum að forsætisráðuneytinu af Bjarna Benediktssyni í byrjun desember árið 2017.
Gæti beðið Katrínu um að sitja áfram þar til lending næst
Markmið leiðtoga stjórnarflokkanna hefur verið að komast að niðurstöðu um framhald ríkisstjórnarsamstarfsins áður en Katrín biðst lausnar, en margt bendir til þess að það náist ekki.
Fari svo eru líkur á að forsetinn biðji Katrínu um að sitja áfram í forsætisráðherrastólnum í svokallaðri starfstjórn þar til lending næst. Samkvæmt stjórnskipan Íslands má ekki vera forsætisráðherralaust í landinu.
Katrín útilokar ekki að hún geri það. Hún var gestur Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi á Bylgjunni.
„Maður hefur sínar skyldur. En ég tel nú að þessir flokkar sem hafa myndað meirihluta og eru með stjórnarsáttmála – þau hafa setið við. Þannig ég vænti nú þess að það fáist einhver niðurstaða í það fyrr en síðar,“ sagði Katrín og bætti við að hún væri ekki þátttakandi í því samtali.
Katrín sagði af sér formennsku í Vinstri grænum á föstudag.
„Ég get sagt það alveg að ég veit í raun og veru ekkert hvert þetta samtal er komið. En ég veit að það hefur staðið yfir alla helgina.“
Hvað gerist klukkan tvö?
Katrín gengur á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, klukkan tvö. Katrín mun þar biðjast lausnar sem forsætisráðherra og þannig leysa upp ríkisstjórn sína.
Ríkisstjórnin situr þó að öllum líkindum áfram.
Hafsteinn Þór Hauksson, dósent í lögfræði, sagði í sjónvarpsfréttum í gær að á fundinum myndi Guðni fallast á beiðni Katrínar en jafnframt óska eftir því að ríkisstjórn hennar sæti áfram sem starfstjórn.
„Þetta er gert til þess að landið sé ekki stjórnlaust og ríkisstjórn sé starfandi þar til búið er að finna annan forsætisráðherra og mynda nýja ríkisstjórn.“
Spurður hvort forsetinn muni skerast í leikinn segir hann að líklegast bíði hann og beiti sér ekki nema að viðræður stjórnarflokkanna hefðu siglt í strand. Sama þyrfti að eiga við til þess að annar flokkur en ríkisstjórnarflokkarnir fengju stjórnarmyndunarumboð.
Að fundi loknum mun Guðni ávarpa fjölmiðlafólk. Sýnt verður beint frá því hér á rúv.is.
Velkomin í vaktina
Góðan dag og velkomin í vaktina. Katrín Jakobsdóttir fráfarandi forsætisráðherra heldur á Bessastaði klukkan tvö til að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.
Hún tilkynnti um forsetaframboð sitt á föstudag.
Helsta forystufólk stjórnarflokkanna hefur fundað stíft undanfarna daga til þess að ræða áframhaldandi stjórnarsamstarf.
Ekki liggur fyrir hver verður eftirmaður Katrínar í forsætisráðuneytinu.
Hér fyrir neðan má sjá fréttavaktir síðustu tvo daga, eða allt frá því að Katrín greindi frá ákvörðun sinni: