Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Bjarni telur ekki ástæðu til að flýta þingkosningum

Alexander Kristjánsson

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur að bjóða sig fram til forseta marka meiriháttar vatnaskil í stjórnarsamstarfinu sem kalli á samtal um framhaldið.

„Það sem við erum með efst í huga eru þau málefni sem við viljum að séu hér á dagskrá í þinginu. Það er það sem er alltaf mest til umræðu í þingflokki okkar,“ segir hann.

Bjarni segist þurfa að ræða frekar við samstarfsflokka áður en tekin verður ákvörðun um stólaskipti. Hann segist ekki telja ástæðu til að flýta þingkosningum, nema að ekki náist þingmeirihluti fyrir góðri stefnu fyrir landið.

Hann segir ekki tímabært að ræða það nú hver tekur við embætti forsætisráðherra.

„Þetta snýst um málefnin og að það sé áfram meirihluti fyrir ákveðnum stefnumálum þar sem ríkir áfram traust og eindrægni,“ segir hann.