Jarðskjálftar við Djúpavatn í nótt
Jarðskjálfti af stærðinni 3,3 varð við Djúpavatn á Reykjanesskaga rétt eftir klukkan fjögur í nótt. Annar skjálfti 2,6 að stærð varð skömmu seinna, um hálf fimm, og svo aðrir smærri skjálftar í kjölfarið.
Ríkey Júlíusdóttir jarðfræðingur á Veðurstofunni segir afskaplega eðlilegt að þarna mælist jarðskjálftavirkni. „Það er hefðbundið að fá þarna og tengist spennulosun á Reykjanesskaga.“
Ekkert í mælingum bendi til að þessir skjálftar tengist kviku.
Ríkey bendir á að fleka- og sprunguvirkni sé á Reykjanesskaga auk eldvirkni. Á þessu svæði komi reglulega skjálftar og það ætti ekki að koma neinum á óvart.
Vísindamenn vakti svæðið og skagann allan þó vel þar sem búist er við að gos geti hafist með stuttum fyrirvara. „Við erum með nálarauga á Reykjanesinu.“