Kvikusöfnun kann að vera hafin á ný undir Svartsengi
Of snemmt að lýsa yfir goslokum
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir í samtali við fréttastofu að gosinu við Sundhnúksgíga sé lokið. Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands, tekur undir fullyrðingar annarra sérfræðinga um að engin gosvirkni sé lengur í gangi. Þó sé ekki hægt að lýsa yfir goslokum eins og er.
Hún bendir á að atburðarásin geti verið hröð og breyst hratt. Mikilvægt sé að fara að öllu með gát þar sem mikilvægir innviðir séu nærri gossvæðinu.
Vísbendingar eru um að kvikusöfnin sé hafin á nýjan leik undir Svartsengi. Þó á eftir að rannsaka aðstæður betur til að fullyrða um hvernig þróunin verður. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að kvikusöfnun undir Svartsengi, sem virðist hafin á ný, sé svipuð og áður en gosið við Sundhnúksgíga hófst.
„Ef það heldur áfram að streyma kvika að neðan inn í þetta hólf sem er undir Svartsengi, þá er viðbúið að við fáum svipaða atburðarás aftur,“ segir Magnús Tumi. Vikur eða mánuðir geti liðið áður en það gerist og atburðarásin geti líka stöðvast.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að vísindamenn muni fara yfir gögn í fyrramálið og að fundað verði með Veðurstofunni klukkan eitt á morgun.
„Þessi fundur með Veðurstofunni er klukkan eitt á morgun. Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerist þá eða hvað gerist í nótt. En ég bind auðvitað vonir við að hægt verið að aflétta við því ástandi sem verið hefur á frá 10. nóvember síðastliðnum,“ segir Úlfar.
Opnað var fyrir umsóknir Grindvíkinga um leiguíbúðir hjá Leigufélaginu Bríeti í dag. Umsóknarfrestur er til klukkan tíu í fyrramálið og er stefnt að því að afhenda flestar íbúðirnar samdægurs.
Bindur vonir við að íbúar geti snúið heim
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að vísindamenn muni fara yfir gögn í fyrramálið og að fundað verði með Veðurstofunni klukkan eitt á morgun.
„Ég geri ráð fyrir að á þeim fundi verði farið yfir hættumatskort og ég bind auðvitað vonir við að það verði breyting á og að íbúar geti snúið aftur heim.“
Úlfar segir að vangaveltur um heimför hafi verið komnar af stað áður en að gosið datt alveg niður. „Það er alltaf von í brjósti og ég aflétti þessu öllu ef ástæða er til.“
Kvikusöfnunin undir Svartsengi komi til álita og vísindamenn verði að meta hættuna sem því fylgi segir Úlfar. „Þessi fundur með Veðurstofunni er klukkan eitt á morgun. Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerist þá eða hvað gerist í nótt. En ég bind auðvitað vonir við að hægt verið að aflétta við því ástandi sem verið hefur á frá 10. nóvember síðastliðnum.“
Gosinu líklega lokið en ekki tímabært að gista í Grindavík
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að kvikusöfnun undir Svartsengi, sem virðist hafin á ný, sé svipuð og áður en gosið við Sundhnúksgíga hófst.
„Það byggðist upp fyrir gosið, þessar vikur, nægjanlegur þrýstingur og síðan brast, hvað á maður að segja, lokinn eða þannig - og þetta ruddist upp. Það náði ekki að verða sírennsli upp og gosinu er að öllum líkindum lokið. Þá byrjar kvikan að safnast aftur fyrir niðri af því að streymið dýpra að hefur haldið áfram eins og var fyrir gos.“
Hann segir alveg eins líklegt að það fari aftur að gjósa ef þetta heldur áfram svona. „Ef það heldur áfram að streyma kvika að neðan inn í þetta hólf sem er undir Svartsengi, þá er viðbúið að við fáum svipaða atburðarás aftur.“
Hann segir vikur til mánuði geta liðið áður en það gerist og að atburðarásin geti líka stöðvast.
Magnús Tumi segir koma til skoðunar að endurmeta hættuna í Grindavík en ljóst sé að ekki sé tímabært að fólk fari að gista í bænum.
Líklegast að kvika safnist áfram undir Svartsengi í vikur eða mánuði
Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun segir líklegustu sviðsmyndina eftir að kvikusöfnun hófst á ný undir Svartsengi vera að þar safnist hún áfram í einhverjar vikur eða mánuði og hlaupi svo úr kvikuhólfinu.
Vísbendingar um nýja kvikusöfnun
Vísbendingar eru um að kvikusöfnin sé hafin á nýjan leik undir Svartsengi. Þó á eftir að rannsaka aðstæður betur til að fullyrða um hvernig þróunin verður.
„Það bendir til þess að við séum að fara í endurtekið mynstur að kerfið hlaði sig á ný,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur. „Það lítur út fyrir að það sé að halda áfram en það eru komnir svo fáir punktar.“ Því sé of snemmt að fullyrða nokkuð um hvað gerist.
Mbl.is sagði fyrst frá því að kvikusöfnun virtist hafin á ný.
Engrar gosvirkni hefur orðið vart í dag. Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands, sagði í viðtali við fréttastofu fyrr í dag að hún teldi ekki nægan kvikuþrýsting á þessum slóðum til að nýtt gosop opnaðist. Í hádeginu sagði hún engar sérstakar vísbendingar um kvikusöfnun en tók fram að töluverð óvissa væri í þessu.
Drónamyndir yfir slokknuðum gígum
Innviðir Grindavíkur á réttri leið
Staða grunninnviða í Grindavík fer batnandi og ætti að vera komin í nokkuð gott horf eftir áramót. Þar með er þó ekki öll sagan sögð og yfirmaður fasteigna í Grindavík segir til dæmis ekki gott að opna grunnskólann of fljótt. Hann telur að þegar fram líði stundir verði bærinn byggilegur og áfram gott að vera þar.
Þarf að meta kvikuþrýsting áður en goslokum er lýst yfir
Þó engin gosvirkni sé í gangi á þessari stunda segir Kristín Jónsdóttir að ekki sé hægt að lýsa yfir goslokum eins og er.
„Við þurfum þá í rauninni að vera viss um það að við teljum að það sé ekki nægilegur kvikuþrýstingur þannig að það opnist einhver gosop annarsstaðar. Það er þetta sem við þurfum að meta; hvort það sé nægileg kvika í kerfinu og þrýstingur til þess að það komi aftur til goss.“
Hún segir ekki tímabært að taka um líklegustu sviðsmyndir fyrr en eftir að sérfræðingar hafa farið yfir málin. Hið sama á við um ályktanir um það hvort kvikuhólf undir Svartsengi hafi tæmt sig.
Engar sérstakar vísbendingar um kvikusöfnun
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands, tekur undir fullyrðingar annarra sérfræðinga um að engin gosvirkni sé lengur í gangi. Hún flaug með Landhelgisgæslunni yfir hraunbreiðuna í morgun og þá sást aðeins glóð í hrauninu.
Hún bendir þó á að atburðarásin geti verið hröð og breyst hratt. Engar sérstakar vísbendingar eru um að kvika sé að safnast upp annars staðar en töluverð óvissa sé í þessu. Mikilvægt sé að fara að öllu með gát þar sem mikilvægir innviðir séu nærri gossvæðinu.
Opið fyrir umsóknir Grindvíkinga hjá Leigufélaginu Bríeti
Búið er að opna fyrir umsóknir Grindvíkinga um leiguíbúðir hjá Leigufélaginu Bríeti. Umsóknarfrestur er til klukkan tíu í fyrramálið og er stefnt að því að afhenda flestar íbúðirnar samdægurs.
Grindvíkingar geta sótt um á heimasíðu Bríetar, briet.is, og ef umsóknin er fullnægjandi fer í hún í pott ásamt öðrum umsóknum.
Ef umsóknir sem uppfylla skilyrðin eru fleiri en íbúðir í boði verður dregið úr pottinum undir eftirliti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Á heimasíðu Bríetar má sjá að íbúðir eru í boði í nokkrum sveitarfélögum eins og Reykjanesbæ, Selfossi, Akranesi, Suðurnesjabæ, Vogum og Hafnarfirði.
Tíu íbúðir eru í boði samkvæmt heimasíðunni.
Myndir frá hraunjaðrinum
Útsýnið er fallegt á gosstöðvunum við Sundhnúksgíga nú í birtingu. Gosinu er að öllum líkindum lokið, en á þessum myndum frá Benedikt Sigurðssyni fréttamanni má enn sjá glitta í logandi hraun.
Goslok „besta jólagjöfin“
„Þetta eru góðar fréttir. Besta jólagjöfin sem við hefðum getað fengið.“
Þetta sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur spurður út í tíðindi morgunsins um að engin gosvirkni væri lengur sjáanleg á gosstöðvunum við Sundhnúksgíga.
Hann sagði óhætt að fullyrða að gosinu væri lokið.
Atburðarásin væri svipuð og var við Litla Hrút í sumar. ÞAr hafi kvika safnast upp á 3-4 kílómetra dýpi sem náði ákveðnum þrýstingi sem hafi síðan brotið sér leið upp á yfirborðið með mikilli framleiðni í upphafi sem hafi síðan dottið hratt niður.
„Þetta er klassísk atburðarás í svona gosum. En þvert á það sem gerðist í Geldingadölum. Það var margt skrítið í því gosi sem við erum enn að reyna að átta okkur á.“
Ármann segir gosinu lokið
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur segir í samtali við fréttastofu að gosið við Sundhnúksgíga sé lokið.
„Nú erum við bara komin í þann farveg að ef gosin eru stór til að byrja með þá lifa þau stutt.“
Nú verði allir bara að læra að lifa með því að svona atburðir geti endurtekið sig.
Aðspurður um hvort hægt sé að sjá hvort enn sé kvika sem gæti leitað upp á yfirborð, annað hvort á sama stað eða annars staðar á svæðinu, segir Ármann að bíða verði eftir því aflögunarmælingum til að sjá hvers geti verið að vænta.
Það geti tekið nokkra daga að fá þau gögn.
Engin gosvirkni sjáanleg
Vísindamenn sem eru í flugi yfir gosstöðvunum staðfesta að engin gosvirkni er sjáanleg og virðist vera slokknað í gígum en glóð er enn sjáanleg í hraunbreiðu. Frá þessu segir á Facebooksíðu Veðurstofunnar.
Þetta staðfestist einnig af starfsmanni Eflu sem er á Sýlingarfelli. Virknin virðist hafa dottið niður seint í nótt eða mjög snemma í morgun.
Að sögn Veðurstofu er enn mögulegt að hraunrennsli sé í lokuðum rásum og því ótímabært að lýsa yfir goslokum.
Göngumaður sagðist hafa séð „síðustu lufsurnar úr gosinu“
Björgunarsveitarmenn á Reykjanesskaga hittu í nótt tvo menn sem höfðu verið hjá gosstöðvunum við Sundhnúksgíga. Þeir hittu mennina ofan við Bláa lónið og keyrðu niður í Voga. Mennirnir höfðu verið að taka myndir á gosstöðvunum.
„Þeir voru þarna í sitthvoru lagi og vissu ekki hvor af öðrum. Annar taldi sig hafa séð síðustu lufsurnar úr gosinu“ sagði Emil Kárason, björgunarsveitarmaður á vettvangi, í samtali við fréttastofu.
Hann sagði að mennirnir hefðu ekki verið í neinni hættu. Þeir hafi verið komnir niður á veg og vel útbúnir. Annar hafði þegar farið að gosstöðvunum.
Gæti hafa dregið úr virkni
Staðan á eldgosinu við Sundhnúksgíga er svipuð og í gær. Þó getur verið að það sé að draga úr virkninni, en það verður metið við birtingu.
Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að hugsanlega sé að draga úr virkni eldgossins. Kvikustrókavirknin virki aðeins minni en í gær.
„En svo er líka bara mjög erfitt að meta það nákvæmlega vegna þess að það er frekar lélegt skyggni. Þannig að við þyrftum eiginlega að bíða eftir að það birti og helst að reyna að geta farið í flug til að meta það almennilega.“
Skjálftavirkni er svipuð og verið hefur og ekki nema rúmlega tuttugu skjálftar sem hafa mælst yfir kvikuganginum frá miðnætti. Sigríður Magnea segir að líklegast sé að gosmengun berist á haf út í dag.
Hvernig verður skyggni við gosið í dag miðað við það sem það var í gær – verður betra að sjá?
„Það ætti að vera betra að sjá, já. Ég held að það eigi að létta til.“
Reglubundinn fundur um stöðuna verður klukkan hálf tíu.
Íbúum bent á að fara til Grindavíkur um Nesveg
Nýtt hættumat vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga hefur tekið gildi. Samkvæmt því hefur dregið úr hættu á að nýtt gosop myndist án fyrirvara í Grindavík, þó hættan á svæðinu sé enn töluverð.
Grindvíkingum er nú heimilt að dvelja og starfa í bænum til klukkan fjögur síðdegis, en ekki er talið öruggt að dvelja þar yfir nótt.
Rétt fyrir klukkan sjö voru nokkrir bílar komnir að lokunarpósti við Grindavíkurveg, en þær upplýsingar fengust að sú leið væri aðeins opin viðbragðsaðilum og þeim sem starfa við varnargarðanna. Íbúum og öðrum er bent á að fara Nesveg.
Fólk sem fer inn í bæinn er ekki skráð sérstaklega og fær ekki fylgd, en viðbragðsaðilar verða til staðar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum mælist til þess að fólk taki börn sín ekki með inn í bæinn vegna hættu sem fylgir sprungum. Hljóðmerki og ljósmerki verða notuð ef rýma þarf bæinn.
Tæplega tuttugu skjálftar frá miðnætti
Staðan við gosstöðvarnar við Sundhnúk er við það sama og í gærkvöld, segir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Sérfræðingar veðurstofunnar fylgjast vel með vefmyndavélum, jarðskjálftamælum og aflögunarmælingum.
Skjálftavirkni hefur verið lítil í nótt og mælingar sýna ekki afgerandi breytingar í aflögun. Tæplega tuttugu skjálftar hafa mælst í kvikuganginum frá miðnætti, sá stærsti 1,9 að stærð og mældist syðst á kvikuganginum.
Í gær mældust alls 65 skjálftar og var enginn þeirra yfir 2 að stærð.
Verulega hefur dregið úr hraunflæði frá því að gos hófst á mánudagskvöld. Þó er gosið miklu kröftugra en fyrri gos á svæðinu, sagði Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á þjónustu- og rannsóknasviði hjá Veðurstofu Íslands, í gær.
Nýtt hættumatskort veðurstofunnar sem birt var síðdegis í gær tekur gildi klukkan sjö. Samkvæmt því hefur dregið úr hættu á að nýtt gosop myndist án fyrirvara í Grindavík.
Íbúar fá að fara til Grindavíkur í dag
Byrjað verður að hleypa fólki inn í bæinn klukkan sjö en það þarf að vera farið aftur klukkan fjögur. Fjölmiðlar hafa aðgang að bænum á sama tíma og heimamenn.
Hljóðmerki og ljósmerki verða notuð ef rýma þarf bæinn. Akstursleiðir út úr bænum eru eftir Nesvegi, Suðurstrandarvegi og eftir atvikum Grindavíkurvegi.
Stjórnvöld tryggi Grindvíkingum vissu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti tillögu um framlengdan húsnæðisstuðning við Grindvíkinga á upplýsingafundi Almannavarna. Hún sagði að í ljósi stöðunnar væri mikilvægt að stjórnvöld gætu tryggt þeim eins mikla vissu og hægt væri.
Stjórnvöld höfðu áður tilkynnt áform um að tryggja framboð á íbúðum fyrir Grindvíkinga meðan þeir gætu ekki snúið heim. Opinbera leigufélagið Bríet myndi til að mynda festa kaup á íbúðum í áföngum.
Landsnet ætlar að fresta vinnu við varnargarða við möstur fyrirtækisins fram yfir áramót.
Fréttir gærdagsins má finna í fréttavaktinni hér að neðan: