Krafturinn í eldgosinu stöðugur í dag
Staðan að mestu óbreytt og lítil skjálftavirkni
Staðan við gosstöðvarnar við Sundhnúk er að mestu leyti óbreytt frá því í kvöld, segir náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands. Sérfræðingar Veðurstofu fylgjast vel með vefmyndavélum, jarðskjálftamælum og aflögunarmælingum. Skjálftavirkni hefur verið lítil í nótt og mælingar sýna óbreytta aflögun. Verulega hefur dregið úr hraunflæði frá því að gos hófst.
Þó er gosið miklu kröftugra en fyrri gos á svæðinu, segir Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á þjónustu- og rannsóknasviði hjá Veðurstofu Íslands. Hraunbreiðan er um 3,7 ferkílómetrar. Til samanburðar varð hraunbreiðan eftir fyrsta eldgosið við Fagradalsfjall um 5 ferkílómetrar. Hraunrennsli sé nú um 10 rúmmetrar á sekúndu, samanborið við 300 rúmmetra í upphafi gossins.
Nýtt hættumatskort veðurstofunnar sem birt var síðdegis tekur gildi klukkan sjö í fyrramálið. Samkvæmt því hefur dregið úr hættu á að nýtt gosop myndist án fyrirvara í Grindavík.
Byrjað verður að hleypa fólki inn í bæinn klukkan sjö á morgnana en það verður að koma sér út úr honum aftur fyrir klukkan fjögur. Fjölmiðlar hafa aðgang að bænum á sama tíma og heimamenn. Hljóðmerki og ljósmerki verða notuð ef rýma þarf bæinn. Akstursleiðir út úr bænum eru eftir Nesvegi, Suðurstrandarvegi og eftir atvikum Grindavíkurvegi.
Framlengja húsnæðisstuðning
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að mörgu að hyggja áður en Grindvíkingar snúa aftur heim, þá sérstaklega að viðgerðum á innviðum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti tillögu um framlengdan húsnæðisstuðning við Grindvíkinga á upplýsingafundi Almannavarna. Hún sagði að í ljósi stöðunnar væri mikilvægt að stjórnvöld gætu tryggt þeim eins mikla vissu og hægt væri.
Stjórnvöld höfðu áður tilkynnt áform um að tryggja framboð á íbúðum fyrir Grindvíkinga meðan þeir gætu ekki snúið heim. Opinbera leigufélagið Bríet myndi til að mynda festa kaup á íbúðum í áföngum.
Landsnet ætlar að fresta vinnu við varnargarða við möstur fyrirtækisins fram yfir áramót.
Við ljúkum nú þessari fréttavakt en stofnum nýja með morgninum.
Gosið mallar áfram og litlar breytingar í virkni
Náttúruvársérfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands segir litlar breytingar hafa orðið á virkni við gosstöðvarnar í dag.
Sérfræðingar veðurstofunnar fylgjast vel með vefmyndavélum, jarðskjálftamælum og aflögunarmælingum. Virknin í eldgosinu er fyrst og fremst um miðbik sprungunnar og á myndavélum má sjá reglulega kvikustrókavirkni. Skjálftavirkni hefur verið lítil og mælingar sýna óbreytta aflögun.
Það er mat Veðurstofunnar að líkur á að ný gosop myndist án fyrirvara hafi minnkað.
Nýtt hættumatskort veðurstofunnar sem birt var síðdegis í dag tekur gildi klukkan sjö í fyrramálið. Þá verður íbúum hleypt inn í Grindavíkurbæ.
Samantekt eftir daginn í flettifrétt
Í meðfylgjandi frétt er farið yfir stöðu eldgossins við Sundhnúksgíga á myndrænan hátt.
Nýja Sundhnúksgígahraunið ekki eins og gamla Sundhnúksgígahraunið
Kvikan sem kom upp í og við Sundhnúksgíga á mánudagskvöld er af sama stofni og kvikan sem kom upp í síðustu þremur gosum á Reykjanesskaga.
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands safnaði hraunsýni aðfaranótt 19. desember. Niðurstöður úr mælingum þeirra bendir til þess að:
- Kvikan dvaldi lengur í jarðskorpunni á leið til yfirborðs en kvikan í öðrum nýlegum gosum í Fagradalsfjalli.
- Kvikan eigi annan uppruna en 2400 ára gamla Sundhnúksgígahraunið.
Hér má sjá niðurstöður mælinga Háskóla Íslands.
Kvikugangur reyndi að brjóta sér leið í átt að Grindavík
Eldgos hófst af miklum krafti á mánudagskvöld. Hraun streymdi upp úr mörgum gígum á tæplega 4 km langri sprungu. Áður en hraunflæði minnkaði og einskorðaðist við tvo gíga leit út fyrir að kvikan myndi leita bæði norðar og sunnar.
Þrýstingur var svo mikill að kvikugangurinn reyndi að brjóta sér leiðum út frá endum sprungunnar bæði til norðausturs og suðvesturs til Grindavíkur.
Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár hjá Veðurstofu Íslands, segir þessar hreyfingar og jarðskjálftavirknin milli Grindavíkur og gosstöðvanna hafa valdið miklum áhyggjum á Veðurstofu Íslands.
Líkur á að nýjar sprungur opnist hafa minnkað.
Ýmislegt breyst á gosstöðvum
„Það hafa orðið þarna breytingar, jákvæðar vonandi.“
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist ánægður með nýtt hættumat Veðurstofu Íslands.
Íbúum verður hleypt aftur inn í Grindavík strax frá klukkan 7 í fyrramálið en verulega hefur dregið úr hraunflæði frá því að gos hófst.
„Það hefur ýmislegt breyst á gossvæðinu. Það er allt annað að horfa á gosið í dag en á mánudagskvöldið. Það hafa orðið þarna breytingar, jákvæðar vonandi,“ segir Úlfar.
Íbúum verður hleypt aftur inn í Grindavík að degi til
Íbúum Grindavíkur og starfsmönnum fyrirtækja í bænum verður hleypt aftur inn í bæinn að degi til frá og með morgundeginum. Byrjað verður að hleypa fólki inn í bæinn klukkan sjö á morgnana en það verður að koma sér út úr honum aftur fyrir klukkan fjögur. Fjölmiðlar hafa aðgang að bænum á sama tíma og heimamenn.
Öðrum er áfram bannaður aðgangur að bænum.
Þetta tilkynnti Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í kvöld eftir að Veðurstofan gaf út nýtt hættumatskort. Samkvæmt því hefur hættan á fyrirvaralausri gosopnun í bænum minnkað en er áfram töluverð.
Sem fyrr er ekki talið öruggt að dvelja í bænum að næturlagi.
Fólk sem fer inn í Grindavík verður ekki skráð og fær ekki fylgd en viðbragðsaðilar verða í bænum. Eftirlit verður með bílum á leið inn og út úr bænum.
Hljóðmerki og ljósmerki verða notuð ef rýma þarf bæinn. Akstursleiðir út úr bænum eru eftir Nesvegi, Suðurstrandarvegi og eftir atvikum Grindavíkurvegi.
Til athugunar fyrir þá sem fara inn í bæinn:
- Íbúar í Grindavík þurfa ekki að skrá sig til að komast inn í bæinn. Bílar eru taldir inn og út af svæðinu.
- Grindavík er lokuð fyrir öllum öðrum en íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.
- Mælst er til þess að fólk komi á eigin bílum. Ekki er æskilegt að börn séu tekin með en sprungur geta reynst viðsjárverðar.
- Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/ þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is
- Mikilvægt er að þeir sem fara til Grindavíkur fylgi tilmælum viðbragðsaðila.
Minni hætta á nýrri gosopnun í Grindavík en hættan áfram töluverð
Veðurstofa Íslands birti nýtt hættumat rétt fyrir klukkan sex. Samkvæmt því hefur dregið úr hættu á að nýtt gosop myndist án fyrirvara í Grindavík, sem er á svæði fjögur á hættumatskorti Veðurstofunnar.
„Það skal tekið fram að þrátt fyrir að líkur á gosopnun innan svæðis 4 hafi minnkað, er hættan á því svæði engu að síður metin töluverð.
Þó svo að dregið hafi úr virkninni frá því að gos hófst, er kraftur gossins núna engu að síður mikill og er sambærilegur við gosin sem urðu við Fagradalsfjall. Það hefur einnig sýnt sig að kvikan getur komist hratt upp á yfirborðið sem gefur ekki mikið ráðrúm til þess að senda út viðvaranir. Taka þarf tillit til þessa þegar kemur að endurskoðun á hættumati. Eins þurfa nokkrir dagar að líða frá því að hraunflæði hættir við gosstöðvarnar og þangað til hægt væri að lýsa yfir goslokum.“
Færslan hefur verið uppfærð með tilliti til þess að matið á hugsanlegri gosopnun miðast við Grindavík.
Rauðgulur logi á alhvítri jörð
Grindavík og landsvæðið í kring voru alhvít þegar gervihöttur flaug þar yfir í gær, eða því sem næst. Eina undantekningu var að finna, svart hraun og logandi kviku í efra hægra horni myndarinnar að neðan.
Hraun runnið yfir um 3,7 ferkílómetra
Á þessu korti Veðurstofunnar má sjá hvar hraunbreiðan lá klukkan 19:35 í gær, tæpum sólarhring eftir að eldgosið hófst. Þá náði hraunið um 3,7 ferkílómetrum.
Vonar að varnargarðar rísi sem fyrst um Grindavík
Yfirvöld í Grindavík vilja að varnargarðar verði reistir við bæinn sem fyrst. Búið sé að hanna garðana og vonast Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, til þess að fjárveitingar verði samþykktar fyrir honum.
Skólaskylda grindvískra barna tekur aftur gildi 4. janúar og vel hefur gengið að koma börnum á grunnskólaaldri fyrir. Leikskólamálin hafa verið nokkuð lausari, en Fannar segir að þar horfi til betri vegar eftir áramót. Tímabundið úrræði fyrir leikskólabörn í Bakkakoti í Grafarvogi verður framlengt og önnur úrræði verða einnig í boði.
Fannar segist hafa heyrt af einhverjum sem ætla ekki að snúa til baka til Grindavíkur þegar bærinn verður opnaður að nýju. Lang flestir vilji snúa til baka, margir séu að hugsa sinn gang og einhverjir vilji ekki snúa aftur.
Mynda keilur til að verja möstur
Jarðvegur verður notaður til að mynda um fimm metra háar keilur í kringum möstur sem þarf að verja nærri Grindavík.
Þannig eiga þau að geta staðið af sér hraunrennsli sem nær þeirri hæð, þó það fari í raun eftir því hversu seigfljótandi hraunið verður.
Varnargarðurinn í kringum Svartsengi er kominn í fulla hæð, og á aðeins eftir að fylla í vegskörðin sem verður lokað fyrir í skyndingu ef þarf.
Samhliða því vinna HS Veitur að því að leggja nýja heitavatnslögn, og er byrjað að leggja hana í jörðu þar sem hún fer undir varnargarðinn. Alls verður hún lögð á um 1.200 metra kafla og á verkið eftir að taka um einn til tvo mánuði.
Fresta varnargarðavinnu
Landsnet ætlar að fresta vinnu við varnargarða við möstur fyrirtækisins fram yfir áramót. Í gær var greint frá því að verja þyrfti þrjú möstur, en í ljósi þess að virkni eldgossins hefur minnkað var þessi ákvörðun tekin.
Gætu lokað varnargörðum í bráðaviðbragði
Varnargarðarnir í Svartsengi eru að jafnaði 5-8 metrar á hæð. Á nokkrum stöðum ná varnargarðarnir upp í 10-15 metra þar sem eru djúp skörð.
Unnið er í kappi við tímann við að klára að fylla í op í varnargörðunum við orkuverið og Bláa lónið.
Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Verkís, segir að efni og vélar verða skilin eftir við þessi op yfir hátíðarnar þannig hægt verði að loka þeim í bráðaviðbragði.
Framkvæmdir í fullum gangi
Benedikt Sigurðsson fréttamaður er á ferðinni um Reykjanesskaga og náði þessum myndum af framkvæmdum vegna jarðhræringanna.
Frumskylda að tryggja öryggi fólks
Staðan er alltaf metin út frá bestu fáanlegum vísindagögnum og upplýsingum, en það koma alltaf spurningar sem ekki er hægt að svara, segir Katrín Jakobsdóttir. Hún segir skiljanlegt að fólk leiti fullvissu, en það sé ekki alltaf hægt. Það sé frumskylda yfirvalda að tryggja öryggi fólks.
Þetta voru lokaorð upplýsingafundarins. Að útsendingu lokinni héldu þau fund á ensku fyrir erlenda fjölmiðla.
Rýmingarvinna endurskoðuð
Það verður að endurskoða rýmingarvinnu almannavarna þar sem eldgosið varð með mjög skömmum fyrirvara, segir Víðir Reynisson.
Misjöfn líðan Grindvíkinga
Grindvíkingum líður misjafnlega segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri. Það sem veldur þeim helst áhyggjum eru húsnæðismálin, of margir eru ekki í öruggu húsaskjóli. Flestir hafa náð að bjarga sér sjálfir en það er erfitt að koma 1.100 fjölskyldum í öruggt skjól.
Skólamálin eru í ágætu standi og verið að bæta um betur í leikskólamálum.
Hann bendir á að hægt sé að leita aðstoðar í þjónustumiðstöðinni í Tollhúsinu í miðborg Reykjavíkur.
Spurning hvort öll kvikan komist í gegn
Kristín Jónsdóttir segir helstu spurninguna nú vera hvort kvikugangurinn sem hefur myndast undir Svartsengi komist í gegnum þá pípu sem kvika kemur upp úr núna. Þeirri spurningu sé þó erfitt að svara.
Miklu kröftugra en fyrri gos
Gosið nú er miklu kröftugra en fyrri gos á svæðinu. Allt er stærra og meira um sig og full ástæða til að fara varlega á upphafsdögum goss og á meðan farið er yfir atburðinn, segir Kristín Jónsdóttir.
Aðgengi að gosinu verður ekki auðveldað
Ekki stendur til að fara í framkvæmdir til að auðvelda aðgengi að gosinu. Gönguleiðin er löng og erfið segir Víðir Reynisson.
Nýtt hættumat í gildi á morgun
Kvikan kemur líklega undan Svartsengi, þaðan sem kvikan hefur safnast upp frá 2020, segir Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofunni.
Virknin hefur minnkað verulega en er ennþá nokkur. Hraunbreiðan er um 3,7 ferkílómetrar. Til samanburðar varð hraunbreiðan eftir fyrsta eldgosið við Fagradalsfjall um 5 ferkílómetrar.
Ekki ert gert ráð fyrir mikilli gasmengun. Möguleiki á að gasmengun berist yfir höfuðborgarsvæðið um tíma í dag. Gasmengunarspá er aðgengileg á vefsíðu Veðurstofunnar og hægt að fylgjast með loftgæðum á vef Umhverfisstofnunar.
Nýtt hættumat Veðurstofunnar verður birt og tekur gildi á morgun.
Margt sem þarf að gera áður en Grindvíkingar snúa heim
Grindvíkingar hafa séð fyrir sér að klára skólaár barna sinna á þeim stöðum sem þau eru komin í skóla. Ekki hafi verið reiknað með því að færa námið þeirra aftur til Grindavíkur, segir Fannar Jónasson.
Hann segir mikilvægt að tryggja allan stuðning fram á vor svo það sé ekki alltaf einhver bútasaumur til þess að hjálpa Grindvíkingum.
Hann segir að mörgu að hyggja áður en Grindvíkingar snúa aftur heim, þá sérstaklega að viðgerðum á innviðum. Fylla þurfi upp í sprungur, laga vegi og fráveitu.
Vinna áfram að frekara framboði
Athugað verður hvort það er þörf á að leigja meira húsnæði eða kaupa meira húsnæði til þess að létta undir með Grindvíkingum, segir Katrín Jakobsdóttir.
Hún segir stjórnvöld ætla að vinna áfram að því að tryggja frekara framboð á íbúðum fyrir Grindvíkinga eftir áramót.
Tugir íbúða tilbúnar fyrir Grindvíkinga fyrir jól
Það liggur fyrir að töluverð óvissa er um búsetu í Grindavík, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Hún er þakklát þeim sem svöruðu kallinu og buðu fram húsnæði. Stuðningur ríkisstjórnarinnar til þriggja mánaða verður framlengdur út veturinn, segir Katrín. Leigufélagið Bríet hefur keypt 80 íbúðir og verða 70 þeirra komnar í notkun fyrir jól.
Leigufélagið Bjarg hefur keypt nýjar íbúðir sem verða komnar í notkun fyrir áramót.
Upplýsingafundur að hefjast
Upplýsingafundur almannavarna hefst eftir útvarpsfréttir klukkan 14. Víðir Reynisson, Katrín Jakobsdóttir, Kristín Jónsdóttir og Fannar Jónasson verða á fundinum.
Ferðalangurinn „hefði orðið úti“
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir að maður sem bjargað var í gærkvöld hefði orðið úti ef honum hefði ekki verið bjargað.
„Það þurfti að ræsa út þyrlu og björgunarsveitir en það fór vel. Þessi maður hefði orðið úti ef honum hefði ekki verið bjargað,“ sagði Úlfar Lúðvíksson.
Úlfar segist ekki hafa upplýsingar um það hvort maðurinn sé Íslendingur eða ferðamaður. Hann segir erfitt að tryggja stórt svæði eins og gosstöðvarnar eru en lokunarpóstar komi til með að gera sitt gagn.
„En það eru alltaf einhverjir sem fara þarna í gegn. Þetta er reyndar mjög óaðgengilegt eins og staðan er í dag, og tóm della að ætla sér að ganga frá Reykjanesbraut inn á gossvæðið. Þetta eru einhverjir 20 kílómetrar áætla menn, fram og til baka.“
Varðandi hvernig standa mætti að skipulagi gönguferða að svæðinu ef fólk fer að hópast að því, segir Úlfar að næstu daga verði fylgst með stöðunni eftir því sem fram vindur.
„En við erum ekki að fara í það að skipuleggja eitthvað í kringum ferðamenn að svo stöddu. Það er ekki pláss fyrir akkúrat þá vinnu í okkar dagatali.“
Hraunstreymi nú um 10 rúmmetrar á sekúndu
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á þjónustu- og rannsóknasviði Veðurstofu Íslands, sagði í hádegisfréttum útvarps að gosvirkni væri heldur meiri á nyrðri sprungunni, austan við Stóra-Skógfell.
Gervihnattamyndir sýni að hraunbreiðan sé 3,7 ferkílómetrar. Hraunrennsli sé nú um 10 rúmmetrar á sekúndu, samanborið við 300 rúmmetra í upphafi gossins.
Raflínumöstur verði varin fyrir helgi
Landsnet áætlar að vinnu við varnir þriggja raflínumastra í Svartsengislínu verði lokið fyrir helgi. Möstrin þrjú liggja utan nýju varnargarðanna utan um orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið og eru mögulega í hættu, miðað við hraunflæðislíkön.
Hugmyndin er að verja þau með leiðigörðum, sem er ætlað að beina hraunstraumi frá þeim.
Starfsfólk Landsnets og verkfræðistofunnar Verkís hyggst skoða aðstæður á svæðinu í dag. Efnið í garðana, sem eru hannaðir af EFLU verkfræðistofu, sé tiltækt á staðnum og því sé gert ráð fyrir að framkvæmdir taki ekki langan tíma.
Í framhaldinu verði svo skoðað að færa möstrin á annan og öruggari stað en sú aðgerð muni taka lengri tíma.
Grindavík lokað til 28. desember
Lögreglustjórinn á á Suðurnesjum ákvað eftir fund aðgerðastjórnar og vettvangsstjórnar í morgun að banna alla umferð og viðveru í Grindavíkurbæ á meðan nýtt hættumatskort er í gildi, eða til 28 desember. Auk þess verður áfram takmörkuð starfsemi í nágrenni Svartsengis og Bláa lónið verður lokað.
Lokunarpóstar eru sem fyrr á Grindavíkurvegi, Nesvegi og Suðurstrandarvegi. Viðbragðsaðilar dvelja ekki lengur í Grindavík en þurfa í undantekningartilfellum að sinna verkefnum í bænum. Lögreglan er með sólarhringsvakt við Grindavík.
Vísbendingar um kvikuhólf undir Svartsengi
Í eldgosinu við Sundhnúk er að koma upp kvika, sem kemur væntanlega úr einhverskonar kvikuhólfi sem undir Svartsengi eða jafnvel frá Eldvörpum, segir Halldór Geirsson dósent í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.. „Þar virðist vera einhverskonar kvikugeymir niður á svona ef til vill 5-7 km dýpi,“ segir hann.
Betra að fara í Kringluna en að gosstöðvunum
Gangan að gosstöðvunum er sérlega erfið, segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna. Hraunið sé slæmt yfirferðar og það hefur fennt yfir sprungur og gjótur. Því sé töluverð hætta á ferðum.
„Það eru akkúrat þessar aðstæður sem fólk er að fara í. Ég og öll hin, við sjáum myndir af fólki sem ákveður að fara á inniskónum að kíkja á þetta. Þetta er ekki svoleiðis staður. Það er þá betra að fara bara í Kringluna; kíkja á jólagjafir og ná sér í jólastemningu. Eða kannski bara fá sér heitt kakó heima og pakka inn jólagjöfum. Það væri líklega betri staður að vera á en þarna.“
Betra loft í Reykjanesbæ
Loftgæði í Reykjanesbæ hafa batnað mikið síðan í morgun þegar magn brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti náðu rúmum 1.300 míkrógrömmum á hvern rúmmetra.
Nýjustu tölur inni áloftgaedi.is eru frá klukkan 9 og stóðu þá í 66,8 míkrógrömmum.
Sunnanátt, 6 m/s var á gosstöðvunum, klukkan níu, en loftgæðamælar á Suð-vesturhorni landsins gefa allir til kynna góð eða mjög góð loftgæði.
Mögulega bara eitt gosop opið eins og er
Skjálftavirkni fer dvínandi við gosstöðvarnar við Sundhnúka. Þetta segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu.
Aðeins sex skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga síðan klukkan 6 í morgun, einn náði 1,2 að styrkleika en aðrir voru minni.
„Þetta mallar áfram, en það er erfitt að sjá hvernig staðan er,“ segir hún. Skyggni á gosstöðvum er takmarkað.
Mögulega sé aðeins eitt gosop opið eins og staðan er, en það sé ekki hægt að staðfesta.
Loftgæði snöggversna í Reykjanesbæ
Ljósmynd/Benedikt Sigurðsson
Loftgæði í Reykjanesbæ hafa farið mjög versnandi síðan um klukkan 7 í morgun. Áberandi brennisteinslykt er í lofti í Reykjanesbæ að sögn Benedikts Sigurðssonar fréttamanns sem er nú staddur í aðgerðastjórn Almannavarna þar í bæ.
Vindátt á Reykjanesi hefur verið nokkuð hagstæð frá upphafi eldgossins við Sundhnúkagíga á mánudagskvöld þar sem reykur hefur ekki borist yfir byggð að ráði.
Í morgun var breyting á þar sem magn brennisteinstvíoxíðs í lofti fór úr 0,2 míkrógrömmum á rúmmetra klukkan 6.50 í rúmlega 1.300 klukkan 7.40 samkvæmt tölum á vefnum loftgaedi.is. Nýjustu tölur, frá kl. 7.50, voru tæplega 1.200 míkrógrömm.
Slík loftgæði flokkast sem óholl fyrir viðkvæma.
Gosi gæti jafnvel lokið fyrir helgi
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að dregið hafi nokkuð úr eldgosinu við Sundhnúksgíg og það gæti lognast út af á næstu dögum, jafnvel fyrir helgi.
Að hans mati séu litlar líkur á að fleiri op opnist á sprungunni eftir að dregur úr virkni. Svo gott sem engar líkur séu á að fari að gjósa í Grindavík eða nágrenni.
Þorvaldur segir þó ekki ólíklegt að meira fari að gjósa á svæðinu frá Eldvörpum að Fagradalsfjalli á næstu árum. Annað hvort á Sundhnúkasprungunni eða þessari línu sem er í Fagradalsfjalli, eða jafnvel aðeins vestar.
„Ég held að þetta sé ekki búið, því miður. Það eru jafnmiklar líkur á að við fáum endurtekningu á þessum atburðum á næstu árum.“
Þegar hann er beðinn um að spá fyrir um framhaldið segir hann það alltaf erfitt.
„En mér finnst margt benda til þess að þetta verði stutt gos sem gæti hætt á allra næstu dögum. Jafnvel fyrir helgi.“
Byrjað á hjáveituaðgerð á Njarðvíkuræð
Byrjað er að grafa fyrir heitavatnslögn neðanjarðar, til að tryggja íbúum Suðurnesja heitt vatn, renni hraun að gömlu Njarðvíkuræðinni.
Heitt vatn rennur frá orkuverinu í Svartsengi rennur um Njarðvíkuræð til heimila og fyrirtækja á Suðurnesjum. Hátt í 30 þúsund manns treysta á heitt vatn úr þessri lögn.
Lögnin liggur ofanjarðar á stöplum og fer að hluta um lægð í landslaginu, þar sem óttast er að hraun gæti runnið að henni og eyðilagt hana.
Ef til þess kæmi yrði heitavatnslaust víðast hvar á Reykjanesskaganum, utan Grindavíkur, en þangað liggur sér lögn frá Svartsengi.
Lélegt skyggni á vefmyndavélum
Þau sem fylgst hafa með vefmyndavélum af gosstöðvunum við Sundhnúksgíga hafa ef til vill ekki séð mikið í nótt. Er það vegna lélegs skyggnis af völdum mikillar snjókomu, að sögn Veðurstofu Íslands.
Því eru allar líkur á því að gossprungan blasi við um leið og dregur úr snjókomunni.
Erfitt að staðfesta virkni sökum veðurs
Dregið hefur úr virkni eldgossins við Sundhnúk með morgninum. Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir þó erfitt að staðfesta nákvæma virkni í nótt vegna lélegs skyggnis á vefmyndavélum sökum mikillar snjókomu.
Mjög lítil jarðskjálftavirkni er í grennd við gosstöðvarnar en hún féll hratt eftir að gossprungan opnaðist á mánudagskvöld. Alls hafa 24 skjálfrar mælst við gosstöðvarnar frá miðnætti.
Staðan eftir nóttina verður könnuð nánar á stöðufundi sérfræðinga Veðurstofunnar með vísindaráði almannavarna klukkan hálf tíu.
Litlar breytingar á virkni í nótt
Virkni eldgossins við Sundhnúksgíga er stöðug og lítið hefur breyst í nótt, að sögn náttúruvársérfræðinga Veðurstofu Íslands. Gossprungan er ekki lengur samfelld og nokkuð hefur dregið úr gosinu frá upphafi þess á mánudagskvöld. Sprungan var um fjögurra kílómetra löng þegar mest var en aðeins þriðjungur hennar var enn virkur í gærkvöld.
Upplýsingafundur Almannavarna verður haldinn í Björgunarmiðstöð í Skógarhlíð klukkan 14 í dag og verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.
Á nýju hættumatskorti Veðurstofunnar hefur hætta aukist verulega á öllum svæðum sem skilgreind voru á eldra hættumatskorti. Kortið gildir að óbreyttu til 28. desember. Hætta í og í næsta nágrenni Grindavíkur er metin mikil, og á sprungusvæðinu þar sem gosið er hættan mjög mikil.
Á svæðinu í kringum Svartsengi er hættan metin talsverð en í kring er talin nokkur hætta á ferðum.
Samkvæmt nýjum hraunflæðilíkönum eru þeir innviðir sem helst gætu verið í hættu vegna eldgossins við Sundhnúksgíga; Grindavíkurvegur, hitaveitulögn og raflagnir.
Öllum viðbragðsaðilum sem staðsettir voru í Grindavík var gert að yfirgefa bæinn í gærkvöld. Vegir sem liggja að eldstöðvunum og Grindavík eru lokaðir.
Hraun gæti náð til Grindavíkurvegar
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur sagðist í Morgunútvarpi Rásar 2 í gær reikna með því að áfram dragi úr virkni. Hann telur ekki mikla hættu á að gosið ógni byggð eða mannvirkjum. Haldi það áfram með þessum krafti gæti hraunstraumurinn þó náð Grindavíkurvegi.
Í gær var unnið í kappi við tímann við að klára byggingu varnargarða við Svartsengi. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er vongóð um að nýreistir varnargarðar verði að gagni.
Grindvíkingar vilja varnargarða
Fannar Jónasson sagði eftir fund sinn með innviðaráðuneyti í gær að Grindvíkingar vilji að reistir verði varnargarðar norðan við bæinn. Hann segir fleiri en 100 fjölskyldur frá Grindavík vera í brýnum húsnæðisvanda fram í janúar.
Lögreglan á Suðurnesjum biður fólk um að fara ekki að gosinu og huga að því að gas sem kemur frá eldgosinu getur verið hættulegt.
Allar helstu fréttir um eldgosið í gær má finna hér fyrir neðan: