Aðeins þriðjungur upphaflegu sprungunnar enn virkur
Virkni nokkuð stöðug í gærkvöld og nótt
Lítið hefur verið um breytingar í virkni eldgossins á Reykjanesskaga í kvöld og nótt, að sögn náttúruvársérfræðinga Veðurstofu Íslands. Gossprungan er ekki lengur samfelld og nokkuð hefur dregið úr gosinu frá upphafi þess á mánudagskvöld. Sprungan var um fjögurra kílómetra löng þegar mest var en aðeins þriðjungur hennar var enn virkur í gærkvöld.
Á nýju hættumatskorti Veðurstofunnar hefur hætta aukist verulega á öllum svæðum sem skilgreind voru á eldra hættumatskorti. Kortið gildir að óbreyttu til 28. desember. Hætta í og í næsta nágrenni Grindavíkur er metin mikil, og á sprungusvæðinu þar sem gosið er hættan mjög mikil.
Á svæðinu í kringum Svartsengi er hættan metin talsverð en í kring er talin nokkur hætta á ferðum.
Samkvæmt nýjum hraunflæðilíkönum eru þeir innviðir sem helst gætu verið í hættu vegna eldgossins við Sundhnúksgíga; Grindavíkurvegur, hitaveitulögn og raflagnir.
Öllum viðbragðsaðilum sem staðsettir voru í Grindavík var gert að yfirgefa bæinn í gærkvöld. Vegir sem liggja að eldstöðvunum og Grindavík eru lokaðir.
Í gær var unnið í kappi við tímann við að klára byggingu varnargarða við Svartsengi. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er vongóð um að nýreistir varnargarðar verði að gagni.
Upplýsingafundur Almannavarna verður haldinn í Björgunarmiðstöð í Skógarhlíð klukkan 14 í dag og verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.
Við lokum nú þessari fréttavakt en höfum opnað nýja hér.
Snjókoma byrgir sýn vefmyndavéla
Þau sem fylgst hafa með vefmyndavélum af gosstöðvunum við Sundhnúksgíga í nótt sjá nú lítið sem ekkert. Er það vegna lélegs skyggnis af völdum mikillar snjókomu sem skall á í nótt, að sögn Veðurstofu Íslands.
Því eru allar líkur á því að gossprungan blasi við um leið og dregur úr snjókomunni.
Gosið gengur í bylgjum líkt og fyrri gos
Gosið heldur áfram með sama móti og fyrr í kvöld. Þetta staðfesta jarðfræðingar á vakt Veðurstofu Íslands.
Fyrir þá sem fylgjast með vefmyndavélum þessa stundina er það talið eðlilegt að gosvirkni gangi upp og niður. Það hafi einnig sést í fyrri gosum á Reykjanesskaga.
Ráðlegt að reisa varnargarða við Grindavík
Lögreglan á Suðurnesjum biður fólk að fara ekki að gosstöðvunum
Í yfirlýsingu sem lögreglan á Suðurnesjum birti fyrr í kvöld er fólk beðið um að hugsa sig um áður en það leggur af stað í göngu að gosstöðvunum.
Um 9-10 kílómetra gangur er frá Reykjanesbrautinni að gosstöðvunum, hvora leið. Svæðið er erfitt yfirferðar um gróft, úfið hraun. Gera má ráð fyrir því að það taki vanann göngumann um 4-5 klukkustundir að ganga leiðina.
Gangan er gríðarlega krefjandi og veðuraðstæður ekki góðar, kalt og blautt. Auk þess er talsverð gasmengun á svæðinu og óvissa.
Lögreglan biður fólk að hugsa til björgunarsveitafólks og annarra viðbragðsaðila. Það vilji allir vera heima hjá sér yfir hátíðarnar.
Virkni gossins hefur haldist stöðug í kvöld
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, segir að virkni eldgossins hafa haldist nokkuð stöðug í kvöld.
„Það er örlítill breytileiki í hæð gosstrókanna en það bendir allt til þess að virknin sé að mestu fyrir austan Sýlingarfell. Hraun rennur til austurs, norðurs og vesturs,“ sagði Kristín í 22 fréttum sjónvarps í kvöld.
Hún segir að þó að dregið hafi úr virkni sé hraunflæðið meira en sést hefur í fyrri gosum við Fagradalsfjall.
Göngumaðurinn sem leitað var að er fundinn
Þyrla Landhelgisgæslunnar fann einn göngumann nærri Litla-Hrút eftir að kall barst um týnt göngufólk nærri gömlu gosstöðvunum. Þetta staðfesti Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Enginn var á ferð með göngumanninum sem var kaldur og hrakinn þegar þyrlan komst til hans. Hann hefur nú verið fluttur til Reykjavíkur.
„Þetta var stórkostleg sjón,“ segja íbúar.
Leitað að göngufólki við Litla-Hrút
Björgunarsveitir sinna nú kalli vegna göngufólks sem talið er týnt við eldri gosstöðvarnar við Litla-Hrút.
Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Kall barst frá flugmanni á lítilli flugvél sem sá neyðarmerki frá ljósgjafa, mögulega vasaljósi, þegar hann flaug yfir svæðið.
Björgunarsveitir eru á leið að Meradölum til að leita að fólkinu. Þá hefur þyrla Landhelgisgæslunnar einnig verið kölluð út.
Ekki er ljóst hversu margir göngumenn eru en talið er að þeir séu að minnsta kosti tveir.
Kristín Jónsdóttir fer yfir nýjasta hættumatskort Veðurstofunnar
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands var gestur kvöldfrétta á RÚV. Þar fór hún yfir helstu upplýsingar í nýju hættumatskorti Veðurstofunnar sem kom út fyrr í kvöld.
Bæjarstjóri leggur áherslu á húsnæðisvanda og varnargarða við Grindavík
Öllum viðbragðsaðilum gert að yfirgefa Grindavík
Öllum viðbragðsaðilum sem staðsettir voru í Grindavík hefur nú verið gert að yfirgefa bæinn. Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Ákvörðun um þetta var tekin út frá nýju hættumatskorti Veðurstofu Íslands. Þar kom fram að nýjar sprungur gætu myndast nærri þeim sem kvika flæðir upp úr núna.
Farið verði yfir stöðuna betur á morgun hverjir fá að fara inn á svæðið og hvenær.
Upplýsingafundur klukkan 14 á morgun
Upplýsingafundur almannavarna verður klukkan 14 á morgun, miðvikudag 20. desember.
Fundurinn verður haldinn í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og verður sýndur í sjónvarpinu og streymt frá honum á vef RÚV. Fundurinn verður táknmálstúlkaður og túlkaður á pólsku.
Fjallað verður um húsnæðismál Grindvíkinga, hættumat Veðurstofu Íslands og fleira.
Nýtt hraunflæðilíkan
Samkvæmt nýjum hraunflæðilíkönum eru þeir innviðir sem helst gætu verið í hættu vegna eldgossins við Sundhnúksgíga; Grindavíkurvegur, hitaveitulögn og raflagnir.
Út frá gefnum forsendum líkansins ógnar hraun þeim þó ekki næstu vikuna.
Hætta aukist umtalsvert á öllum svæðum
Á nýju hættumatskorti Veðurstofunnar hefur hætta aukist verulega á öllum svæðum sem skilgreind voru á eldra hættumatskorti. Kortið gildir að óbreyttu til 28. desember.
Hætta í og í næsta nágrenni Grindavíkur er metin mikil, og á sprungusvæðinu þar sem gosið er er hættan mjög mikil. Á svæðinu í kringum Svartsengi er hættan metin talsverð en í kring er talin nokkur hætta á ferðum.
Eins og sést á vefmyndavélum hefur áfram dregið úr krafti gossins. Nú gýs úr þremur gosopum suðaustur af Stóra-Skógfelli en gosopin voru áður fimm. Hraun hefur að mestu flætt í austur frá eldstöðvunum.
Kort sem sýnir innviði nálægt gosstöðvunum
Hraunrennsli ógnar ekki mikilvægum innviðum á Reykjanesskaga eins og staðan er núna. Í færslunni hér að neðan má sjá kort sem sýnir mikilvæga innviði og útbreiðslu hraunsins.
Efnasamsetning hraunsins áhugaverð
Stofan breyttist í stúkusæti
Íbúar í Njarðvík og Keflavík urðu vel varir við eldgosið á Reykjanesskaga í gærkvöldi. Svava Bogadóttir segir að hún og eiginmaður hennar hafi fundið fyrir jarðskjálftahrinunni í undanfara gossins, rétt áður en þau ætluðu að fara að leggjast upp í rúm.
Ingibjörg Ragnarsdóttir var nýbúin að kveðja systur sína við dyrastafinn heima hjá sér þegar systirin baknar aftur upp á. Þegar hún kemur út segir hún himininn hafa logað.
Kauphöll græn þrátt fyrir gos
Hlutabréfavísitalan íslenska hækkaði í dag og virðist sem jarðhræringar á Reykjanesskaga hafi ekki haft neikvæð áhrif á þeim bæ. Hækkunin nam tæpu prósenti. Icelandair gerði gott betur og hlutabréf félagsins hækkuðu um hálft annað prósent í rúmlega 230 milljóna króna viðskiptum. Svipaða sögu er að segja af Play. Bréf þess hækkuðu um 1,33%, viðskiptin þar á bak við námu 23 milljónum króna.
Drónamyndband af sprungunum
Gýs aðallega á tveimur stöðum á sprungunni
Nýjar drónamyndir frá Landhelgisgæslunni sýna að aðallega gjósi á tveimur stöðum á sprungunni og í litlu gosopi syðst. Þetta segir Kristín Jónsdóttir sviðsstjóri hjá Veðurstofu Íslands.
„Syðsta sprungan sem gýs á núna er um tvo kílómetra norðan við Sundhnúk og aðalsprungurnar tvær, sem gýs á núna, eru bara 300 til 500 metra langar hvor.“
Þriðja gosopið, sem er mjög lítið, er rétt norðaustan við Stóra-Skógsfell.
Á myndunum sjáist einnig að hraun renni til austurs frá syðri gosopunum tveimur en til norðurs og vestur frá nyrðra gosopinu.
Engir innviðir eru í hættu miðað við þetta og segir Kristín myndirnar sýna glöggt hvað hefur dregið mikið úr gosvirkninni.
Heilmikið hafi dregið úr skjálftavirkninni og ekkert sem bendi til þess að það sé aukning í því sem er að gerast neðanjarðar. „Þvert á móti benda gögn til þess að það sé að draga úr þessari virkni,“
Fannar ávarpar íbúa Grindavíkur
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, ávarpar Grindvíkinga á vef sveitarfélagsins. Hann segir síðasta sólarhring hafa verið viðburðarríkan og því miður hafi sú von sem kviknaði í brjóstum margra um að halda jólin heima orðið alveg úti þegar byrjaði að gjósa í gær. Flóknar og erfiðar tilfinningar brjótist efalaust um í mörgum og minnir hann á þjónustumiðstöðina í Tollhúsinu þar sem hægt er að leita í sálrænan stuðning.
Þá dregur hann saman staðreyndir um gosið og segir ljóst að það liggi á að leysa húsnæðisvanda þeirra sem enn eru ekki með tryggt húsnæði næstu vikur og mánuði.
„Nú skiptir máli að við Grindvíkingar stöndum áfram saman og hugum vel að hvert öðru, pössum upp á líðan okkar og fólksins í kringum okkur,“ segir Fannar að lokum.
Gossprungan í samanburði við Reykjavík
Þegar gossprungan var lengst náði hún fjórum kílómetrum. Hér sést lengdin í samanburði við Reykjavík.
Von á þreföldu sjónarspili ef léttir til
Sævar Helgi Bragason bendir á að íbúar á suðvesturhorninu gætu átt von á þreföldu sjónarspili ef léttir til síðdegis; glitskýjum, eldgosi og norðurljósum.
Hann hvetur fólk til að horfa til himins og jarðar. Hér má skoða norðurljósaspána.
Glitský myndast í heiðhvolfinu þegar þar er óvenjukalt, eða 70 til 90 stiga frost. Þau eru úr ískristöllum, eða úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum.
Glitský sjáist helst um miðjan vetur, við sólarlag eða sólaruppkomu. Litadýrð þeirra sé mjög greinileg því þau séu böðuð sólskini, þótt rökkvað sé eða jafnvel aldimmt við jörð.
Hluti aukafréttatíma rittúlkaður með gervigreind
Aukafréttatími RÚV í sjónvarpi í gærkvöld var rit- og táknmálstúlkaður í heild sinni. Þegar fréttatíminn var um það bil hálfnaður leysti gervigreind starfsmann RÚV af hólmi við að rittúlka.
Venjan er sú að textarar sendi út texta og rittúlki fréttatíma. Það gerði Atli Sigþórsson, verkefnastjóri aðgengis og fjölbreytileika, framan af í gærkvöld. Miðað er við að túlkar vinni ekki lengur en stundarfjórðung í senn. Atli var þó búinn að vera einn í rittúlkun í klukkustund þegar hann var leystur af og í þessu tilfelli ekki af öðrum starfsmanni heldur af gervigreindartækni.
Máltæknifyrirtækið Tiro vinnur að þróunarverkefni með RÚV um textun í rauntíma í því skyni að auka þjónustu við fólk með heyrnarskerðingu. Þegar aukafréttatíminn í nótt var um það bil hálfnaður var gerð tilraun með að láta Tiro texta jafnóðum það sem fréttamenn og viðmælendur þeirra sögðu.
Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur segir að tilraunin hafi tekist nokkuð vel. Gervigreindin sé fljótari að skila af sér texta en fólk en eigi þó ýmislegt ólært. Hún þurfi kannski að læra meira í jarðfræðimáli og var ekki með öll örnefni á hreinu. Anna Sigríður segir að í náinni framtíð megi búast við að stafræn textun í rauntíma verði meira áberandi á miðlum RÚV.
Staðan klukkan þrjú
Mjög hefur dregið úr eldgosinu sem hófst upp úr klukkan tíu í gærkvöld. Um hádegisbil hafði hraunflæðið minnkað um þrjár fjórðu og aðeins þriðjungur upphaflegu sprungunnar var enn virkur.
Virkni eldgossins afmarkast við 300 til 500 metra langt svæði um miðbik upphaflegu gossprungunnar.
Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að búast megi við því að sprungur geti opnast fyrirvaralaust.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði hjá Háskóla Íslands, segir að Grindavík sé ekki í beinni hættu. Þó sé erfitt að sjá fyrir sér hvernig eldgosið þróast.
Þrír kílómetrar eru frá jaðri hraunsins að Grindavík.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS orku, segir að engar lagnir séu í beinni hættu og að staðan sé nokkuð góð. Eldgosið þarf að standa lengi til að hraunflæði fari að valda áhyggjum.
Varnargarðarnir sem byrjað var að reisa við Svartsengi verða kláraðir. Framkvæmdir við þá eru langt komnar og allir garðar komnir nánast í endanlega hæð.
Landsnet undirbúa varnir fyrir þrjú möstur í Svartsengislínu sem standa næst varnargarðinum við Svartsengi.
Hraunið nærri eldgosinu er erfitt yfirferðar. Þar leynast gjótur og sprungur. Fólki er ráðið fyrir því að ganga að eldgosinu. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir óljóst hvenær fólki verður hleypt að gosstöðvunum.
Þjónustumiðstöðin í Tollhúsinu opin fyrir Grindvíkinga
Í fréttatilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum er vakin athygli á því að þjónustumiðstöðin í Tollhúsinu í Reykjavík sé opin fyrir íbúa Grindavíkur.
Aðgangur inn fyrir lokunarpósta hefur verið mjög takmarkaður.
Síðar í dag eða í fyrramálið verður send út tilkynning um fyrirkomulag næstu daga.
Undirbúa varnir fyrir möstur í Svartsengislínu
Landsnet er að undirbúa varnir fyrir þrjú möstur í Svartsengislínu en eins og er eru hvorki línur né möstur frá Landsneti í hættu. Möstrin standa næst varnargarðinum við Svartsengi. Þetta kemur fram á facebook-síðu Landsnets.
Þar segir að áfram verið fylgst með framvindu mála á svæðinu og að þau séu í góðu samstarfi við almannavarnir, HS Veitur og HS Orku.
Magnaðar ljósmyndir úr dróna
Ragnar Visage, ljósmyndari RÚV, náði þessum frábæru myndum af eldstöðvunum við Sundhnúksgíga með drónanum sínum í dag.
Vísindamenn á ferð nálægt gossprungunni
Á vefmyndavél RÚV sem staðsett er á Sýlingafelli má sjá fólk á ferðinni að því er virðist nokkuð nálægt gossprungunni. Þetta eru vísindamenn að störfum.
Að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, hafa mannaferðir við gosstöðvarnar enn sem komið er ekki skapað vandræði fyrir viðbragðsaðila. Ekki hafi þurft að leita að fólki en erfitt sé að fylgjast vel með öllum mannaferðum þar sem gosstöðvarnar séu nokkurn veg frá Reykjanesbraut.
„Fólk verður að bera ábyrgð á sjálfu sér,“ segir Úlfar.
Glæsilegar drónamyndir frá Sundhnúksgígum
Viðar Hákon Söruson, myndatökumaður RÚV, náði þessum fallegu myndum við Sundhnúksgíga í dag.
Vara við langri og erfiðri göngu að gosinu
„Þetta er mjög löng og erfið ganga að gosinu og alls ekki ráðlegt að ganga þangað,“ segir Hlynur Stefánsson í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Hann er á vakt í nágrenni eldgossins. Nokkrum göngumönnum var vísað frá í morgun.
Hlynur segir að vel hafi gengið í morgun en tekur fram að það er kalt og hvasst.
Það eru gjótur og sprungur í hrauninu sem eru hættulegar. Það er komin ótraust snjóþekja yfir á köflum sem leynir sprungunum. Við fundum það á okkar stuttu göngu upp á jaðarinn að það er auðvelt að falla í sprungur. Það leynast ýmsar hættur í hrauninu.“
Miðstöð fyrir erlenda fjölmiðla opnuð aftur
Fjölmiðlamiðstöðin sem sett var upp í nóvember fyrir erlenda fjölmiðla, vegna jarðhræringanna á Reykjanesi, hefur verið opnuð aftur. Ferðamálastofa sér um rekstur og umsjón hennar í samstarfi við Íslandsstofu, SafeTravel og Almannavarnir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra fundaði í morgun með aðgerðastjórn ferðaþjónustunnar vegna eldgossins. Á þeim fundi voru meðal annars ferðamálastjóri og fulltrúar frá ráðuneytinu, Íslandsstofu, ISAVIA, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Ferðamálastofu og Áfangastaðastofu Reykjaness.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að ráðherra leggi mikla áherslu á góða og samræmda upplýsingagjöf til fjölmiðla og ferðamanna til þess að koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu.
Hraunflæði um fjórðungur af því sem var í upphafi
Áfram dregur úr krafti eldgossins við Sundhnúksgíga og fimm stök gosop eru að myndast á sprungunni. Hraunflæði er nú um það bil fjórðungur af því sem það var í byrjun. Þriðjungur upphaflegu sprungunnar er virkur. Þetta kemur fram í frétt á vef Veðurstofunnar.
Kvikustrókar eru líka lægri nú en í byrjun goss og ná um það bil 30 metrum þar sem þeir ná hæst að mati vísindamanna sem fóru í könnunarflug yfir gosstöðvarnar. Annað mælingaflug er fyrirhugað nú klukkan eitt. Þar ætti að fást skýrari mynd af þróun virkninnar.
„Þróun gossins svipar til eldgosa við Fagradalsfjall þar sem gossprungurnar eru byrjaðar að draga sig saman og mynda stök gosop. Á þessum tímapunkti eru um fimm gosop sem eru dreifð eftir upphaflegu sprungunni.“
Lítil virkni var við suðurenda sprungunnar við Hagafell og mesta hraunrennslið leitar í austur í átt að Fagradalsfjalli. Tveir taumar ná í vestur, báðir norðan við Stóra-Skógfell.
Gasmengunar gæti orðið vart í Vestmannaeyjum í dag, en ekki annars staðar í byggð, en íbúar á höfuðborgarsvæðinu gætu fundið fyrir gasmengun seint í nótt eða í fyrramálið.
Verið er að vinna nýtt hættumatskort og verður það gefið út síðar í dag.
Nýjar sprungur geti opnast fyrirvaralaust nær Grindavík
Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur, segir gosið hafa minnkað verulega frá því að það hófst. „Hraunflæðið er ekki nema um einn fjórði af því sem það var og það er svona þriðjungur af upphaflegu sprungunni sem er virkur.“
Virknin einangrist við miðbik sprungunnar. „Raunar var þróunin mjög hröð í gærkvöldi. Það hófst þarna klukkan 22:17, austan við Sýlingafell. Það breiðir mjög hratt úr sér til norðausturs og suðvesturs og um klukkan eitt er syðsti hlutinn af gossprungunni alveg kominn að Sunnhnúksgígum en svo heldur kvikuinnskotið áfram og náði kannski upp úr tvö alveg vestan við Þorbjörn. Eftir það fór að draga verulega úr því,“ segir Benedikt.
Hann segir að búast megi við því að sprungur geti opnast fyrirvaralaust. „Það myndaðist samfara þessu líka kvikugangur sem gosið kom upp úr og hann nær talsvert sunnar og norðar en gossprungurnar sjálfar og við getum alveg búist við því að það byrji að gjósa úr þeim fyrirvaralaust. Eins og gerðist raunar í Fagradalsfjalli, það gerðist einhverjum dögum og minnir mig vikum eftir upphaf goss.“
Kvikugangurinn sem gýs úr nær ekki alveg að Grindavík að sögn Benedikts. „Þetta er svona 1,5 kílómeter norðan við Grindavík. Hann er rétt austan við Þorbjörn.“
Hann segir erfitt að spá fyrir um framhald gossins. „Við höfum dæmi um að gos séu allt frá því bara í nokkrar klukkustundir eða daga yfir í hálft ár á þessu svæði. Þannig að ég held að við verðum bara að bíða og sjá.“
Ekki ljóst hvenær fólki verður hleypt að gosstöðvum
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, sagði í sjónvarpsfréttum að útlitið hafi ekki verið sérlega gott þegar gos hófst í gærkvöldi. Atburðurinn hafi verið stórbrotinn en sem betur fer sé allt að þróast í rétta átt og viðbragðsaðilum sé létt að gosið sé ekki að ógna byggð.
Aðspurður um hvort rétt hafi verið að bíða með að hleypa íbúum alfarið heim fyrir jólin sagði Úlfar að það hafi verið ósköp eðlilegt að viðbragðsaðilar veltu fyrir sér að hleypa fólki heim.
„Það er allt hluti af okkar plani. En eins og ég sagði í gær, gat þetta fyrst komið til skoðunar á miðvikudag, eða á morgun. Nú er að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér, en í dag förum við yfir okkar vinnu. Dagurinn fer að mestu leyti í það, en svæðið er að mestu lokað.“
Úlfar segir að ekki sé farið að horfa til þess hvenær opnað verði fyrir aðgang almennings að gosstöðvunum, en fjölmiðlum verði fylgt þangað í dag.
Forsætisráðherra þakklát að rýming hafi enn verið í gildi
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, er þakklát fyrir að rýming hafi enn verið í gildi í Grindavík í gærkvöldi þegar fréttir bárust af gosinu. Sprungan sé nálægt byggð en ógni ekki innviðum. Hugmyndir liggi fyrir um varnargarð við Grindavík en ekki sé tímabært að taka afstöðu til hans enn sem komið er. Fylgst sé með þróun gossins frá klukkustund til klukkustundar og staðan geti breyst með skömmum fyrirvara.
„Eðlilega var komin ákveðin óþreygja í íbúa að fá að snúa heim enda hefur rýmingin staðið lengi. En í gær var ég þakklát fyrir það þegar þessi tíðindi bárust að varúðarsjónarmiðin hefðu verið höfð að leiðarljósi go rýmingin stæði enn. Þetta er risagos. Við eigum eftir að sjá hvernig það þróast og atburðarrásinni vindur fram. Um leið má segja að einmitt núna virðist hraunstreymið vera í hentuga átt en við vitum það líka að hraunstreymið breytir landslagi og það getur breyst með skömmum fyrirvara.“
Langt í að menn hafi áhyggjur af virkuninni vegna hraunflæðis
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS orku, sagði í aukafréttatíma í sjónvarpi að engar lagnir væru í beinni hættu og að staðan væri nokkuð góð. Virkjuninni hefur verið fjarstýrt síðan í byrjun nóvember. Vatnsgæði hafa verið mæld og fylgst með vélum en engra breytinga hefur orðið vart.
„Sprungan er á þessum stað. Hún er nálægt okkur en handan Sýlingarfells og garðanna þannig að sjálf virkjunin er nokkuð örugg. Við verðum að fylgjast vel með hraunflæði því ef gosið verður mjög langt gæti farið að renna að pípunum.“
Tómas segir enn langt í að hraunflæðið verði áhyggjuefni.
Endurmeta almannavarnastig eftir hádegi
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sagði í aukafréttatíma í sjónvarpi að neyðarstig almannavarna verði endurmetið eftir hádegi þegar liggur fyrir niðurstaða vísindamanna um gang eldgossins. Hann sagði að þá sé líklega hægt að færa almannavarnastigið niður á lægra stig þar sem ekki er mikil hætta á ferðum.
Slík breyting hefur aðeins áhrif á starfsemi almannavarna, lögreglu og annarra sem koma að viðbrögðum vegna eldgossins.
Víðir sagði að lækkað almannavarnastig hafi ekki áhrif á aðgang almennings að eldgosinu eða Grindvíkinga að heimabæ sínum. Það verður endurmetið á grundvelli niðurstöðu vísindamanna.
Farið verður í að skoða hvar óhætt er að hleypa fólki að svo það geti horft á eldgosið úr öruggri fjarlægð án þess að fara sér að voða, sagði Víðir.
„Grindavík ekki í beinni hættu, en vitum ekki hvernig þetta þróast“
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður, segir að búast hafi mátt við eldgosinu sem hófst í gærkvöld. „Og það var út af þessum möguleika sem vísindamenn stóðu alveg gegn því að það væri verið að opna Grindavík.“
Hann segir fyrirvarann ekki hafa verið mikinn. „Þetta voru mjög óljós merki og það er vegna þess að þetta opnaðist þarna fyrir 40 dögum, þessi gangur. Þetta er hálfopið, það þurfti mjög lítið til að brjóta leið og koma þessu af stað. Þannig að skjálftavirknin var ekki mjög afgerandi og þess vegna var ekki búið að lýsa því yfir að þetta væri að fara að gerast.“
Magnús Tumi segir hafa liðið um 90 mínútur frá því að virknin hófst og þar til byrjaði að gjósa. „Þetta segir okkur að við þurfum að taka þetta alvarlega, þetta er hálfopið.“
Hann segir ekki sérstaklega líklegt að fleiri sprungur opnist á svæðinu í bráð.
Ógnar ekki innviðum í bráð
Nokkuð hefur dregið úr gosinu frá því á miðnætti. „Í nótt um fimmleytið var búið að draga töluvert úr því en var samt töluvert stærra en hin gosin voru. Það má reikna með því að það haldi áfram að draga úr en síðan vitum við ekkert hversu langur hali verður á þessu. Það geta verið dagar, það geta verið vikur, jafnvel lengri tími.“
Hann segir hraun að mestu koma upp norðan við Sundhnúk. „Á svæði þar sem hraunið leitar mest í austur, þetta er mjög slétt svæði, í átt að Fagradalsfjalli og þangað. Og svo aðeins til norðvesturs í átt að Grindavíkurvegi,“ segir Magnús Tumi. Engir innviðir séu í beinni hættu í bráð en það fari eftir því hversu lengi gosið standi hvort hraun nálgist Grindavíkurveg.
„Varðandi Grindavík sjálfa er virknin dottin niður þarna sunnantil og Grindavík ekki í beinni hættu, en við vitum ekki hvernig þetta þróast.“
Virkni eldgossins afmarkast við 300 til 500 metra langa rein
Mesta virknin í eldgosinu sem hófst í gærkvöld afmarkast við 300 til 500 metra langa rein um miðbik upphaflegu gossprungunnar. Þetta kemur fram í færslu hjá Rannsóknareiningu í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands. Þar segir jafnframt að framleiðni virðist hafa minnkað verulega og sé nú tíu til tuttugu rúmmetrar á sekúndu eða minni. Í nótt var talið að hún væri um 100 til 200 rúmmetrar.
Rúmlega 100 fjölskyldur frá Grindavík í húsnæðisvanda
Rúmlega 100 fjölskyldur frá Grindavík eru í brýnum húsnæðisvanda fram í janúar segir Fannar Jónasson bæjarstjóri.
Fannar segir að hljóðið í bæjarbúum sé nokkuð gott í ljósi þess að bráð hætta steðjar ekki að bænum eins og er.
Bæjarstjórinn í Grindavík sagði fyrir fund með innviðaráðuneytinu í morgun að rúmlega 100 fjölskyldur frá Grindavík séu í húsnæðisvanda sem þurfi að leysa úr sem fyrst.
„Það eru því miður allt of margar fjölskyldur sem eru ekki í nógu góðum málum hvað það varðar,“ sagði Fannar Jónasson.
Hann segir að ýmis úrræði hafi verið komin í ferli eftir að Grindavík var rýmd í síðasta mánuði en hægt hafi á vinnu eftir því sem skjálftavirkni dróst saman og fólk fór að hugsa sér að snúa aftur heim. Nú séu breyttar forsendur þannig að þörf sé á að halda fullum dampi hvað þetta varðar.
„Rúmlega hundrað fjölskyldur eru í slæmum málum varðandi húsnæði fram yfir áramótin og fram eftir janúar. Þetta eru allt of margar fjölskyldur og einstaklingar sem um ræðir þannig að við verum að gera okkar allra besta til að leysa þessi mál.“
Fannar segist hafa heyrt í bæjarbúum og hljóðið í fólki sé nokkuð gott miðað við aðstæður. Að gosið hafi komið upp á þessum stað og engin slys hafi orðið á fólki.
„Miðað við aðstæður held ég að fólki líði alveg bærilega, þó að þetta sé alvarlegur atburður og eldgos nærri byggð eins og við erum að upplifa núna er alvarlegt. Sem betur fer er svo til slökkvað í gígunum sem eru syðst í sprungunni, þannig að hættan fyrir Grindavík er lítil eins og sakir standa, en það fer svo eftir magninu sem kemur þarna upp og tímanum sem þetta varir, hvernig hraunflóðið á eftir að haga sér.“
Hann segir að langflestir hafi búið sig undir að halda jólin annarsstaðar en í Grindavík en þetta séu vonbrigði fyrir marga.
„En við getum líka þakkað fyrir það að þessi atburður gerðist ekki á aðfangadagskvöld heldur á þessum tíma þegar enginn var í bænum.“
Fannar segist vonast til þess að allt endi vel og þau verði nú laus við skjálftana og eldgos alveg ofan í bænum.
„Framtíðin verður að leiða það í ljós, en við stefnum auðvitað að því að byggja aftur upp okkar góða samfélag um leið og tækifæri gefst til.“
Eldur stígur upp af snævi þakinni jörð
Strókarnir og upplýstur himinninn voru í aðalhlutverki þegar eldgosið hófst og fram eftir nóttu. Þegar lýsti af degi kom snævi þakið umhverfið betur í ljós. Þessar myndir tók Ragnar Visage á tólfta tímanum í dag.
Varnargarðarnir verða kláraðir
Linda Blöndal fréttamaður er stödd vestan við Svartsengi þar sem unnið er í kappi við tímann að klára byggingu varnargarða. Linda ræddi við Arnar Smára Þorvarðarson, byggingartæknifræðing hjá Verkís um gang verksins.
Verkið tafðist lítillega þegar gosið hófst, hætta þurfti framkvæmdum á meðan verið var að átta sig á umfangi þess en vinna hófst aftur klukkan sjö í morgun.
„Þessir garðar í kringum Svartsengi, þetta er síðasti áfangi hér sem er hérna næst Bláa lóninu,“ segir Arnar Smári. Að auki á eftir að klára að fylla upp í skörð í garðinum.
„Vegskörðin og þar sem að hitaveituæðin liggur í gegn. Þau standa opin en við erum komin með efni þar að og tæki til ryðja upp í þegar þess gerist þörf. En við erum komnir með alla aðra garða upp í nánast hæð eins og við viljum.“
Arnar Smári segir fátt geta komið í veg fyrir að garðarnir verði kláraðir. Hraun geti runnið í átt að görðunum. „Þá förum við bara í að loka skörðunum en við stoppum ekkert vegna þess.“
Slettir 3 kílómetrar frá nyrstu byggð Grindavíkur
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands skrifar á Facebook að nú sé lítið að gerast við syðri hluta hraunsins. Þar er yfirborð þess farið að storkna. Syðsti hluti hraunsins liggur utan í Sundhnúk og hefur þakið litla kvos milli gíganna og Vatnsheiðar.
Gosvirknin hefur einangrast um miðja spurnguna sem opnaðist í gærkvöldi.
Það eru sléttir þrír kílómetrar frá jaðri hraunsins að nystu byggð Grindavíkur, samkvæmt Facebook-færslunni.
Hraðar breytingar á eldgosinu
Eldgosið í Sundhnúksgígum hófst með miklum krafti laust eftir klukkan tíu í gærkvöld. Krafturinn var mikill fyrstu klukkustundirnar en það dró hratt úr honum.
Virðumst hafa verið nokkuð heppin með staðsetningu
„Þetta er svakalegur atburður,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í viðtali við Höskuld Kára Schram fréttamann á leið inn á ríkisstjórnarfund í morgun.
„Ég held að það sé nú voðalega erfitt að fullyrða nokkuð þegar náttúran er annars vegar en eins og þetta virðist teiknast upp í morgunsárið virðumst við hafa verið nokkuð heppin með staðsetningu og þróun og vonum að það haldi áfram.“
Gossprungan
Gossprungan var um fjögurra kílómetra löng þegar eldgosið stóð sem hæst í nótt. Síðan þá er eldvirknin búin að þéttast við miðbik kvikugangsins. Þar er ekki sami eldveggurinn og var í nótt.
Gossprungan liggur norðaustur af Hagafelli, eftir Sundhnúksgígum framhjá Stóra-Skógfelli fyrir austan Sýlingarfell. Á þessu korti má sjá sprunguna
Vegir í nágrenni eldgossins eru lokaðir
Vegir sem liggja að eldstöðvunum og Grindavík eru lokaðir. Lokunarpóstum hefur verið komið upp til að tryggja að ekki fari aðrir þar um en þeir sem hafa til þess heimild yfirvalda.
Ekki knýjandi þörf á viðveru björgunarsveita
Í augnablikinu er ekki knýjandi þörf á viðveru björgunarsveita á Reykjanesskaga vegna eldgossins að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Enginn sé í hættu eins og er og það sé engum að bjarga af svæðinu.
Björgunarsveitir hafa haft viðveru við Grindavík, fyrst og fremst til gæslu og öryggis, eftir að rýma þurfti bæinn 10. nóvember. Sveitirnar voru með vaktafyrirkomulag í tengslum við jarðhræringarnar en hægt og rólega hafi dregið úr viðveru björgunarsveitamanna eftir það. Þeir hafi aðallega verið í aðgangsstýringu til þessa.
Hann segir að send hafi verið út boð á sveitir á suðvesturhorninu, frá uppsveitum Borgarfjarðar og austur fyrir fjall, um að skrá sig á úthringilista vegna eldgossins. Ekki sé búið að kalla til fólk en hægt sé að hafa samband við þá ef þarf.
Helsti fjáröflunartími björgunarsveita er fram undan en Jón Þór segir eldgosið ekki hafa áhrif á það. Björgunarsveitirnar hafi tekist á við svipaðar kringumstæður áður, sem tengjast veðri, og þá hafi eldri félagar sem eru komnir af útkallsskrá stigið inn í fjáröflunina. „Það hækkar kannski aðeins meðalaldurinn á sölufólki.“
Suðurnesjalína ekki í hættu
„Eins og staðan er núna þá er Suðurnesjalína 1 ekki í hættu. Við höfum meiri áhyggjur af Svartsengislínu, línunni sem liggur frá Svartsengi að Rauðamel, en í augnablikinu er hraun ekki að renna í þá áttina.“
Þetta segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets. Þar á bæ hefur fólk notað morguninn vel til að skoða hraunflæðislíkön og viðbrögð við því sem kann að gerast í framhaldinu.
„Við erum að skoða hvernig við myndum verja þessi möstur, hvort það sé hægt að verja undirstöðurnar með einhverjum hætti eða jafnvel færa til möstur.“
„Það versta sem gæti gerst í þessu væri náttúrulega að hraunið myndi fara að Suðurnesjalínu því það er bara ein lína sem liggur að Suðurnesjunum en það er ekki í spilunum eins og þetta lítur út núna.“
Eldgos hefur ekki áhrif á flug Icelandair
Í fréttatilkynningu sem Icelandair sendi frá sér rétt í þessu segir að eins og staðan er núna hafi eldgosið á Reykjanesi ekki áhrif á flug. Fylgst sé náið með stöðu mála og farþegar verði upplýstir ef einhverjar breytingar verða. Hægt sé að fylgjast með nýjustu upplýsingum á heimasíðu Icelandair, undir ferðatilkynningar.
Mjög fegin að gerð varnargarða er langt komin
„Almannavarnir og Lögreglan á Suðurnesjum eru með góða stjórn á aðstæðum og Veðurstofan sömuleiðis,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í viðtali við Höskuld Kára Schram fréttamann fyrir ríkisstjórnarfund. „Veðurstofan rýnir þetta frá mínútu til mínútu, klukkutíma til klukkutíma má segja. Við vitum meira þegar líður á daginn.“
Guðrún er vongóð um að nýreistir varnargarðar verði að gagni.
„Ég vona það svo sannarlega. Ég ætla að fá að viðurkenna það að ég var mjög fegin í gær þegar þessi ósköp hófust að vinnan við varnargarðana hefði gengið svona vel. Við erum að verða búin að ljúka vinnu við þá að mestu leyti. 80 prósent af görðunum eru að verða tilbúin. Í gær var hafist handa við að fylla upp í skarðið við Grindavíkurveg til að koma í veg fyrir ef hraunið færi norður fyrir. Nú reynir á varnargarðana.“
Guðrún sagði að skoðað yrði hvort reisa þyrfti fleiri varnargarða.
Stórbrotnar myndir af eldgosinu
Þorsteinn Dagur Rafnsson tók þessar mögnuðu myndir af eldgosinu í gærkvöld og nótt.
Eldvirknin að þéttast yfir miðjum kvikuganginum
Eldvirknin við Sundhnúksgíga er að þéttast við miðbik kvikugangsins, að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings á vakt Veðurstofunnar. Vísindamenn sem flugu með þyrlu Landhelgisgæslunnar klukkan fimm í morgun sögðu mestu virknina vera fyrir miðbik sprungunnar sem opnaðist í gærkvöldi.
Á vefmyndavél RÚV frá Sýlingarfelli má sjá að það er ekki sami eldveggurinn og var í nótt. Nú standa kvikustrókarnir hátt í loft á stuttum kafla og svo glittir í stróka norðar yfir kvikuganginum.
„Syðsti hlutinn á ganginum er að dvína. Yfirleitt byrjar að gjósa á langri sprungu en virknin einangrast svo með tímanum við einn til tvo gíga,“ segir Lovísa Mjöll.
Hraun rennur nú mestmegnis til austurs í átt að Fagradalsfjalli. Nyrst rennur hraun til norðvesturs í átt að Grindavíkurvegi. Lovísa Mjöll segir að hraunið hafi þegar náð um það bil 40% af leiðinni að veginum. Það sé þó heldur að sljákka í virkninni við báða enda kvikugangsins.
Staðan klukkan níu
Eldgos hófst á Reykjanesskaga upp úr klukkan tíu í gærkvöld. Sprungan var um fjögurra kílómetra löng þegar mest var. Strókavirkni, órói og skjálftavirkni hefur minnkað.
Neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir.
Allar leiðir til Grindavíkur verða lokaðar næstu daga.
Eldvirknin við Sundhnúksgíga er að þéttast við miðbik kvikugangsins, að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings á vakt Veðurstofunnar.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður, flaug yfir gosstöðvarnar í morgun, öðru sinni í nótt. Hann segir ekki koma á óvart að dregið hafi úr umfangi gossins. Ennþá sé töluvert gos og allt mjög virkt.
Gosið er heldur minna nú en það var í blábyrjun sagði Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í Morgunútvarpi Rásar 2. Hann reiknar með því að það haldi áfram að draga úr virkni og þetta verði týpískt íslenskt gos.
Brennisteinslosun á tímaeiningu er tífalt meiri en var í eldgosum seinustu ára á Reykjanesi. Vindátt er hagstæð og minnkar hættu á mengun í byggð. Þetta er mat sem Rannsóknareining í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands birti á Facebook í nótt.
Línur Landsnets, Svartsengislína 1 og Suðurnesjalína 1 eru ekki í hættu.
Gerð varnargarða sem hafa verið reistir vegna orkuversins í Svartsengi var „algjörlega á síðustu metrunum“ sagði Jóhann Haukur Steingrímsson, sérfræðingur í varnargörðum hjá Eflu.
Mesta hætta af gosinu eins og stendur er ef breytingar verða á sprungunni.
Yngra fólk verið að stíga upp og gömlu refirnir tilbúnir að hoppa á vagninn
Arnar Steinn Elísson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á Reykjanesi, segir að ágætlega gangi að fá fólk til starfa. Tíminn sé þó nokkuð erfiður því um þessar mundir er hvað mest að gera í fjáröflun björgunarsveita.
Sjálfur segist Arnar Steinn orðinn þreyttur en hann náist að hvílast á milli.
Nýliðun í björgunarsveitina hefur verið mjög góð og yngra fólk verið að stíga upp að sögn Arnars. Gömlu refirnir séu líka tilbúnir að hoppa á vagninn þegar kallið kemur.
Arnar Steinn segist hafa fulla trú á að liðsmenn annarra björgunarsveita komi í verkefnið með þeim.
Neyðarstjórn virkjuð í Vogum
Neyðarstjórn Sveitarfélagsins Voga var virkjuð vegna eldgossins og kom saman í gærkvöld til að fara yfir stöðuna og þær upplýsingar sem þá lágu fyrir um eldgosið.
Ríkisstjórnin fundar
Ríkisstjórnarfundur fer fram í ráðherrabústaðnum klukkan hálf tíu. Þar má ætla að eldgosið á Reykjanesskaga verði meðal annars rætt.
Lega gossprungunnar
Veðurstofan birti kort í nótt þar sem búið er að merkja inn legu gossprungunnar eins og hún var klukkan 3 í nótt. Það gýs á um fjögurra kílómetra langri sprungu sem nær frá Sundhnúki í suðri og norðaustur fyrir Stóra-Skógfell.
Dæmigerðari aðdragandi eldgoss en síðustu ár
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að sumt í yfirstandandi eldgosatíð minni á Kröfluárin þegar gaus níu sinnum á níu árum frá 1975. „Þá sáum við í fyrsta sinn dæmigert íslenskt eldgos.“ Fram að því hafi menn séð stærri gos og afbrigðilegri miðað við íslenska eldgosasögu. Í Kröflueldum voru 20 gangainnskot sem leiddu til níu eldgosa.
Aðdragandi eldgossins í gærkvöld var um klukkutími. Það er mjög hefðbundið fyrir íslensk eldgos þótt undanfarið hafi Íslendingar vanist því að aðdragandinn sé mun lengri, allt að vika. „Sá aðdragandi er óvenjulega langur.“
Þetta er fyrsta dæmigerða íslenska eldgosið í þessari eldgosatíð á Reykjanesskaga, sagði Páll.
Hann sagði erfitt að meta hversu lengi eldgosið varir. „Það reynist mjög erfitt að spá fyrir um það. Við þekkjum bæði dæmi um öflugt gos sem stendur stutt og verður þess vegna lítið og eins lítið gos sem heldur áfram að malla í langan tíma eins og fyrsta gosið í Fagradalsfjalli. Það var af því tagi. Það byrjaði mjög pent, var mjög lítið gos til að byrja með en hélt áfram að malla í hálft ár og varð meðalstórt eldgos vegna þess.“
„Það er mjög erfitt að spá fyrir um byrjanir gosa en enn þá erfiðara að spá fyrir um endalokin á þeim.“
„Þetta er ekki staður fyrir fólk að vera á“
Hjördís Guðmundsdóttir
Nóttin var róleg hjá Almannavörnum, eins ótrúlegt og það megi virðast, sagði Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri hjá Almannavörnum í Morgunútvarpi Rásar tvö. Fólk hafi verið sent heim í hvíld í nótt en sé núna að koma til baka til að taka stöðuna og leggja upp daginn.
Hjördís sagðist ekki hafa heyrt af því að fólk hafi reynt að komast að gosinu en þau hafi sagt að það liggi við að það sé í DNA Íslendinga að hlaupa í átt að gosi í stað þess að hlaupa frá því.
Hún skilji vel að fólk vilji sjá þetta sjónarspil en fólk þurfi að leyfa viðbragðsaðilum að vinna vinnuna sína. Gosið sé stórt og mikið miðað við síðustu gos og þetta sé ekki staður til að vera á.
Reykjanesbraut sé opin og sé búin að vera það meira og minna en vegirnir að Grindavík séu lokaðir. Hjördís biður fólk um að virða lokunarpósta.
Rauður og appelsínugulur bjarmi
Rauðum eða appelsínugulum bjarma sló á himininn ofan eldstöðvanna í gærkvöld og í nótt.
Allar leiðir til Grindavíkur lokaðar almenningi
Öllum leiðum inn til Grindavíkur verður lokað nema fyrir viðbragðsaðila og verktaka sem eiga erindi inn á hættusvæðið. Lögreglan á Suðurnesjum biður fólk um að fara ekki að gosinu og huga að því að gas sem kemur frá eldgosinu getur verið hættulegt.
Gekk vel í nótt
„Nóttin gekk vel,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í morgunfréttum RÚV í útvarpi. Tímasetningin var heppileg fyrir viðbragðsaðila því eldgosið hófst þegar rýming Grindavíkur var afstaðin. Úlfar veit ekki til þess að neitt hafi farið úrskeiðis eða að þurft hafi að hafa afskipti af fólki.
„Við höfum alltaf áhyggjur af innviðum en verðum að sjá til á næstu klukkustundum hvernig mál þróast,“ sagði Úlfar. „Við erum með þann mannskap sem til þarf og drógum aðeins úr viðbúnaði yfir nóttina.“ Núna snýst þetta um að halda svæðinu lokuðu.
Aukafréttatími í sjónvarpi klukkan 12
Fréttastofa RÚV verður með aukafréttatíma í sjónvarpi í hádeginu. Þar verður fjallað um öll nýjustu tíðindi og greiningar vegna eldgossins sem hófst á Reykjanesskaga í gærkvöld.
Fréttatíminn hefst klukkan 12 og verður sendur út í sjónvarpi og á vefnum.
Sem fyrr er stöðug fréttavakt á RÚV.is og í útvarpi.
„Myndarlegt íslenskt gos“
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.
Gosið er heldur minna nú en það var í blábyrjun sagði Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í Morgunútvarpi Rásar 2. Hann reiknar með því að það haldi áfram að draga úr virkni og þetta verði týpískt íslenskt gos.
Ekki sé hægt að segja til um hversu lengi það mun vara en reynslan segir að það geti varað í 5-10 daga.
Sprungan hélt áfram að lengjast fram til klukkan eitt í nótt en hann telur að sú atburðarás sé hætt.
Ármann sagði ekki mikla hættu á að gosið gæti ógnað byggð eða mannvirkjum, það yrði allavega ekki á næstu dögum. Ef það héldi áfram með þessum krafti gæti hraunstraumurinn náð Grindavíkurvegi. Ef það færi suður úr myndi það ná fyrst og fremst í Þórkötlustaðahverfi.
Töluverð gosmengun er frá gosstöðvunum. Ef vindátt verður óhagstæð og færir mengunina yfir byggð myndi það hafa slæm áhrif á þau sem eru viðkvæm fyrir. Fólk þurfi þá að loka gluggum.
Spurður hvað sé fram undan sagði Ármann að nú verði unnið úr mælingum og staðsetja þurfi sprungurnar. Leggja þurfi mat á framleiðslu hverrar sprungu en það sé nauðsynlegt til að geta fylgst með framhaldinu.
Hagstæðar áttir fyrir Keflavíkurflugvöll
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að fyrst og fremst hafi tekist að halda Keflavíkurflugvelli opnum í nótt og í morgun vegna hagstæðra vindátta. Mökkinn frá eldgosinu hafi lagt frá flugvellinum en ekki yfir hann.
Gufurnar ber til austurs en gætu færst yfir óbyggðir og sjó með morgninum
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði á Morgunvakt Rásar 2 að mestu skipti fyrir hættu á mengun hvaða vindáttir væru ríkjandi.
„Eins og staðan er núna er vestanátt og vestanáttin ber gufurnar til austurs. Það er þá helst yfir Krýsuvík og þær slóðir, nærri Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri.“
Með morgninum hefur vindurinn orðið norðvestanstæður og þá berst mengun yfir óbyggðir og út á sjó. Í nótt og í fyrramálið er útlit fyrir suðvestanstæða átt og þá getur hún borist yfir Voga, Reykjanes og jafnvel höfuðborgarsvæðið.
„Það er engin spurning um að fólk mun finna fyrir þessu,“ sagði Einar um hvers væri að vænta í ljósi þess hversu öflugt eldgosið er. Á morgun kemur rigning. Þá hvarfast brennisteinsdíoxíð í brennisteinssýru. „Það er kannski það sem menn ættu að óttast á morgun.“
Dregur úr hættu á gasmengun í byggð
Brennisteinslosun á tímaeiningu er tífalt meiri en var í eldgosum seinustu ára á Reykjanesi. Vindátt er hagstæð og minnkar hættu á mengun í byggð. Þetta er mat sem Rannsóknareining í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands birti á Facebook í nótt.
Ennþá talsvert gos og hraunið mjög virkt
Gossprungan er ekki lengur samfelld og nokkuð hefur dregið úr gosinu frá því sem var á miðnætti þegar það var í hámarki. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir gosið töluvert að vöxtum og hraunrennslið mikið. Reykjanesbraut er ekki í hættu.
Fyrsta fréttavakt eldgossins
Við hófum fréttavakt þegar eldgosið hófst í gærkvöld. Hér má sjá allar fréttir sem birtust í henni.
Staðan að morgni
Dregið hefur úr krafti eldgossins sem hófst upp úr klukkan tíu í gærkvöld. Strókavirkni, órói og skjálftavirkni hefur minnkað. Staðan hefur þó lítið breyst síðan flogið var yfir svæðið milli klukkan fjögur og fimm í nótt.
Hraunflæðið leitar til austurs í nyrðri hluta gossprungunnar við Skógarfell. Virknin í syðri hluta hennar er heldur að koðna og þar leitar hraunflæðið til austurs.
Neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir.
Allar leiðir til Grindavíkur verða lokaðar næstu daga.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður, sem flaug yfir gosstöðvarnar í morgun, öðru sinni í nótt, segir ekki koma á óvart að dregið hafi úr umfangi gossins. „En það er ennþá töluvert gos og hraunið mjög virkt, á að giska þrír til fjórir ferkílómetrar sem eru komnir af hrauni. Bara til samanburðar þá er það kannski tvöfalt meira en kom í öllu síðasta gosi í Litla-Hrút,“ og það hafi gerst á sjö klukkustundum.
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, var við Sýlingarfell við mælingar í nótt. Hann sagði um klukkan þrjú að sprungan væri stór. Hann sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 á áttunda tímanum í morgun að eldgosið væri á góðum stað miðað við að eldgosið hæfist á verstu slóðum, í Sundhnúksgígaröð.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, sagði í nótt að líklega myndi hraun ekki renna á varnargarðana alveg strax. „Miðað við þau hraunlíkön sem við höfum verið að skoða þá mun ekki reyna á varnargarðana næstu klukkustundirnar að minnsta kosti,“ segir hann. „Við höfum góðan tíma til að vinna áfram í þeim.“
Gerð varnargarða sem hafa verið reistir vegna orkuversins í Svartsengi var „algjörlega á síðustu metrunum“ sagði Jóhann Haukur Steingrímsson, sérfræðingur í varnargörðum hjá Eflu.
Hraun stefnir ekki í átt að Grindavík. Þetta sagði Björn Oddson jarðeðlisfræðingur eftir stöðufund Almannavarna í Skógarhlíð. Hann lýsti þar niðurstöðum vísindamanna eftir fyrra flug þeirra yfir gosið í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hann sagði gosið vel staðsett, miðað við að það gaus við Sundhnúk.
„Þetta er rétt rúmlega 4 kílómetra löng sprunga sem nær yfir Vatnaskil í átt að Grindavík. Við vonum að hún teygi sig ekki lengra til suðurs. Hraunið fer fyrst og fremst að Fagradalsfjalli.“
Línur Landsnets, Svartsengislína 1 og Suðurnesjalína 1, eru ekki í hættu að því er segir í tilkynningu frá Landsneti.
Hraunflæði frá eldgosinu við Sundhnúkagíga ógnar ekki innviðum í Grindavík eða í Svartsengi eins og staðan er núna. Þetta sagði Páll Erland, forstjóri HS veitna í samtali við fréttastofu snemma nætur. Hann segir stöðuna eins hagfellda og hægt sé að hugsa sér í ljósi þess að umfangsmikið eldgos er hafið.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði að enginn ætti að vera í hættu.
Mesta hætta af gosinu eins og stendur er ef breytingar verða á sprungunni.
Ríkisstjórnarfundur
Ríkisstjórnin fundar í ráðherrabústaðnum klukkan hálf tíu. Þar má ætla að eldgosið á Reykjanesskaga verði meðal annars rætt.