Hraun flæðir ekki í átt að Grindavík
Staðan að morgni annars dags eldgoss
Við ljúkum þessari fréttavakt og hefjum nýja sem hægt er að nálgast hér
Dregið hefur úr krafti eldgossins sem hófst upp úr klukkan tíu í gærkvöld. Strókavirkni, órói og skjálftavirkni hefur minnkað. Staðan hefur þó lítið breyst síðan flogið var yfir svæðið milli klukkan fjögur og fimm í nótt.
Hraunflæðið leitar til austurs í nyrðri hluta gossprungunnar við Skógarfell. Virknin í syðri hluta hennar er heldur að koðna og þar leitar hraunflæðið til austurs.
Neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir.
Allar leiðir til Grindavíkur verða lokaðar næstu daga
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður, sem flaug yfir gosstöðvarnar í morgun, öðru sinni í nótt, segir ekki koma á óvart að dregið hafi úr umfangi gossins. „En það er ennþá töluvert gos og hraunið mjög virkt, á að giska þrír til fjórir ferkílómetrar sem eru komnir af hrauni. Bara til samanburðar þá er það kannski tvöfalt meira en kom í öllu síðasta gosi í Litla Hrút,“ og það hafi gerst á sjö klukkustundum.
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, var við Sýlingarfell við mælingar í nótt. Hann sagði um klukkan þrjú að sprungan væri stór. Hann sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 á áttunda tímanum í morgun að eldgosið væri á góðum stað miðað við að eldgosið hæfist á verstu slóðum, í Sundhnúkagígaröð.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna Ísland, sagði í nótt að líklega muni hraun ekki falla varnargarðana alveg strax. „Miðað við þau hraunlíkön sem við höfum verið að skoða þá mun ekki reyna á varnargarðana næstu klukkustundirnar að minnsta kosti,“ segir hann „við höfum góðan tíma til að vinna áfram í þeim.“
Gerð varnargarða sem hafa verið reistir vegna orkuversins í Svartsengi var „algjörlega á síðustu metrunum“ sagði Jóhann Haukur Steingrímsson, sérfræðingur í varnargörðum hjá Eflu.
Hraun stefnir ekki í átt að Grindavík. Þetta sagði Björn Oddson jarðeðlisfræðingur eftir stöðufund Almannavarna í Skógarhlíð. Hann lýsti þar niðurstöðum vísindamanna eftir fyrra flug þeirra yfir gosið í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hann sagði gosið vel staðsett, miðað við að það gaus við Sundhnúk.
„Þetta er rétt rúmlega 4 kílómetra löng sprunga sem nær yfir Vatnaskil í átt að Grindavík. Við vonum að hún teygi sig ekki lengra til suðurs. Hraunið fer fyrst og fremst að Fagradalsfjalli.“
Línur Landsnets, Svartsengislína 1 og Suðurnesjalína 1 eru ekki í hættu að því er segir í tilkynningu frá Landsneti.
Hraunflæði frá eldgosinu við Sundhnúkagíga ógnar ekki innviðum í Grindavík eða í Svartsengi eins og staðan er núna. Þetta sagði Páll Erland, forstjóri HS veitna í samtali við fréttastofu snemma nætur. Hann segir stöðuna eins hagfellda og hægt sé að hugsa sér í ljósi þess að umfangsmikið eldgos er hafið.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði að enginn eigi að vera í hættu.
Mesta hætta af gosinu eins og stendur er ef breytingar verða á sprungunni.
Gosið mun umfangsmeira en fyrri eldsumbrot
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður segir gosið töluvert að vöxtum og mjög öflugt til að byrja með. Hann segir mjög ákveðið draga úr gosinu en það sé mun umfangsmeira en fyrri eldsumbrot í hrinunni sem hófst fyrir þremur árum.
Til samanburðar hafi runnið tvöfalt meira hraun á sjö klukkustundum en úr öllu síðasta gosi, við Litla Hrút. Ekki sé hægt að áætla hve lengi eldsumbrotin vari né hve stór hraunbreiðan kunni að vera.
Dregið hefur úr krafti gossins
Gossprunga við Sundhnúkagíga
Heldur hefur dregið úr kröftugri strókavirkni og órói og skjálftavirkni hefur minnkað. Staðan hefur lítið breyst síðan flogið var yfir svæðið á milli 4 og 5 í nótt segir vakthafandi sérfræðingur á Veðurstofunni. Hann segir heildarlengd sprungunnar ekki hafa breyst að ráði.
Virknin er heldur að koðna í suðurendanum við Vatnaskil og þar leitar hraunflæðið til austurs í átt að Dalahrauni. Í efri hlutanum við Skógarfell leitar flæðið til vesturs.
Línurnar þrjár sem sjást í miðjunni eru þrír gígar. Mesta virknin er í einum gígnum en heldur minni í hinum tveimur.
Vísindaráð Almannavarna fundar kl: 9:30 um stöðu mála.
Magnaðar myndir úr Vogum
Eldtungurnar gnæfa yfir byggð í Vogum á Vatnsleysuströnd, sem er næsti bær við Grindavík, og engu líkara en eldgosið sé í bakgarðinum eins og sjá má á þessum myndum sem Arnór Fannar Rúnarsson, myndatökumaður RÚV, tók.
Varnargarðarnir voru á lokametrunum
„Varnargarðarnir voru algjörlega á síðustu metrunum. Það var bara sáralítið eftir í kringum Bláa lónið,“ segir Jóhann Haukur Steingrímsson, sérfræðingur í varnargörðum hjá Eflu verkfræðistofu upp úr klukkan þrjú í nótt.
Hann segir staðsetningu gossins heppilega.
„Flæði í átt að Grindavík ekki orðið neitt að ráði og lítið potast í átt að Sýlingafelli.“ Hins vegar liggi aðalþunginn niður í lægðina í átt að Fagradalsfjalli. „Þetta er eiginlega eins heppilegt og þetta gat orðið við þessar aðstæður.“
Allar leiðir að Grindavík lokaðar næstu daga
Allar leiðir inn í Grindavík verða lokaðar næstu daga að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum á Facebook.
Aðeins viðbragðsaðilum og verktökum, sem eiga erindi, verður heimill aðgangur inn á hættusvæðið við Grindavík. Lögregla biður fólk að fara ekki að gosinu enda kann gas sem frá því streymir að vera hættulegt. Vísindamenn þurfi nokkra daga til að meta ástandið og staðan í raun endurmetin á hverri klukkustund. Vegfarendur eru beðnir að virða lokanir og sýna skilning á stöðu mála.
Syðri endi gossprungunnar tæpa þrjá kílómetra frá Grindavík
Gossprungan er um fjögurra kílómetra löng og syðri endi hennar tæpa þrjá kílómetra frá jaðri Grindavíkur. Norðurendi sprungunnar er rétt austan við Stóra-Skógfell. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar sem segir heldur tekið að draga úr krafti eldgossins, sem sé til marks um að það sé að ná jafnvægi, líkt og gerst hefur í gosum síðustu ára á Reykjanesskaga.
Bílaröð og gígaröð á Reykjanesi
Mikil bílaröð myndaðist á Reykjanesbraut eftir að eldgosið hófst í gærkvöld. Hér getum við séð hvernig bílaröðin kallast á við eldgosið við Sundhnúksgígaröðina.
Víðir fer yfir stöðufundinn
Sjá má viðtal sem tekið var við Víði Reynisson, sviðstjóra Almannavarna eftir stöðufundinn í heild sinni hér. Þar fer hann yfir stöðu mála hjá helstu viðbragðsaðilum.
Hann tekur fram að farið sé að draga úr virkni eldgossins á syðsta hluta sprungunnar.
Hvað eru vatnaskil?
Hugtakinu vatnaskil hefur verið fleygt oft í kvöld. Jarðfræðingar tala um að sprungan liggi að mestu leyti norðan vatnaskila og að það sé gott, enda renni hraun þá frekar frá byggðinni í Grindavík.
Vatnaskil eru útskýrð á Vísindavef Háskóla Íslands. Þau eru hæsta lína fjallshryggs milli tveggja dala. Ef vatn – já, eða hraun – rynni frá efsta punkti rennur það niður beggja veggna og niður í báða dali.
Svo á meðan hraun rennur norðan vatnaskila þá rennur hraunið frá Grindavík.
„Það væri langbest ef það færi sem mest í norðvestur en það eru dældir þar norður af Svartsengi sem geta tekið við ansi mikið af hrauni,“ sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við RÚV.
„Hraun streymir bæði norður og vestur frá sprungunni og eins virðist líka ansi öflugur straumur í austurátt,“ segir hann „Ef þetta fer í austur er möguleiki að flæðið fari sunnan við vatnaskilin og þannig farið suður til Grindavíkur.“
Heldur hefur dregið úr krafti eldgossins
Samkvæmt tilkynningu á heimasíðu Veðurstofunnar virðist heldur vera að draga úr krafti eldgossins sem hófst fyrir um fjórum klukkustundum. Það sést bæði á skjálftamælum og GPS mælum.
Það að þegar sé að draga úr virkninni er ekki vísbending um hversu lengi eldgosið mun vara, heldur frekar að gosið sé að ná jafnvægi. Þessi þróun hefur sést í upphafi allra gosanna á Reykjanesskaganum síðustu ár.
Áfram gýs á allri gossprungunni, mestur er krafturinn um miðja sprunguna á því svæði sem er merkt „Svæði 3“ og er appelsínugult á hættumatskorti sem gefið var útfyrir viku.
Samráðsfundur vísindamanna verður haldinn í fyrramálið.
Líst þokkalega á ástandið
„Mér líst þokkalega á ástandið núna, en mér leist ekkert á þetta í byrjun meðan við vorum ekki komnir með staðsetningu,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í viðtali við Sigríði Hagalín Björnsdóttur.
Upptökin séu á stað sem er talsvert langt frá bæði innviðum í Svartsengi og Grindavíkurbæ. „En staðan getur breyst mjög hratt ef hraunflæðið tekur einhverjum breytingum,“ segir hann.
Mun ekki reyna á varnargarða strax
Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna Ísland segir að líklega muni hraun ekki falla varnargarðana alveg strax.
„Miðað við þau hraunlíkön sem við höfum verið að skoða þá mun ekki reyna á varnargarðana næstu klukkustundirnar að minnsta kosti,“ segir hann „við höfum góðan tíma til að vinna áfram í þeim.“
Hann segir að verið sé að undirbúa lokun á garðinum í gatinu sem Grindavíkurvegur lá í gegnum. Búið hafi verið að flytja efni á staðinn fyrir það.
„Það er verið að ýta alveg að veginum núna en við ætlum að reyna að hafa Grindavíkurveg opinn eins lengi og hægt er. Við viljum ekki loka því gati nema nauðsynlegt verði. Við höfum ekki áhyggjur af því í augnablikinu,“ segir Víðir.
Varðandi varnargarða um Grindavík sjálfa
Víðir segir að bygging á varnargörðum fyrir Grindavík sjálfa ekki hafna.
„Það liggur fyrir hönnun á slíkum garði og hann er mjög stór og umfangsmikill og það tekur langan tíma að gera hann,“ segir Víðir.
Komið hafi verið af stað samráðsferli um varnargarðinn en enginn ákvörðun verið tekin varðandi byggingu hans.
„Því miður tekur bygging á svona garði lengri tíma en við hefðum ef hraun fer að streyma til suðurs á næstu klukkustundum,“ segir Víðir.
Víðir segir þó að Almannavarnir séu með mannskap og tæki á staðnum og farið verði í neyðarviðbragð ef hraun taki að flæða í átt að bænum.
Stærsta gosið og einhvern veginn það óhugnanlegasta
„Við erum náttúrulega undir það búin að fara, en við vitum ekkert hvað verður,“ segir Ragnheiður Ólafsdóttir, íbúi í Vogum á Vatnsleysuströnd í samtali við fréttastofu.
„Maður hugsar, hvar heldur maður jólin? Við eigum náttúrulega okkar skjól, við getum farið heim til mömmu minnar og bróður míns. Við getum farið þangað og leitað okkur skjóls.“ Ragnheiður hefur búið í Vogum í um þrjú ár, jarðskjálftahrinan á Reykjanesi hófst sama dag og hún tók við lyklunum að húsinu sínu.
„Við erum búin að sjá hvert eldgosið á fætur öðru, þetta er það stærsta og einhvern veginn það sem manni finnst óhugnanlegast.“ Ragnheiður segir eldgosið hafa brostið óvænt á, hún hafi verið vakin af fastasvefni. „Þetta er náttúrulega stórkostlegt, maður veit ekkert hvað verður maður veit ekki hvernig þetta fer.“
Ragnheiður kveðst hafa orðið ögn skelkuð og velt fyrir sér hvað yrði þegar eldgosið hófst í gærkvöld.
„Það er náttúrulega búinn að vera langur aðdragandi, en kannski ekki akkúrat núna, þannig að já, þetta er mjög sérstakt og maður veit ekki hvað verður.“ Ragnheiður segist alls ekki hafa búist við einhverju svona þegar hún flutti í það sem hún bjóst við að væri rólegheitin í Vogum úr fæðingarbænum Kópavogi.
Gasmengun oft í hlutfalli við magn kviku
Um það hvort fólk þurfi að loka gluggum eða gera varúðarráðstafanir varðandi gasmengun segir Víðir Reynisson, sviðstjóri Almannavarna, að ekkert slíkt hafi enn verið gefið út.
„Það er verið að fylgjast með þeim mælum sem eru hér á svæðunum. Síðan eru jarðvísindamenn komnir á vettvang til að mæla gas og annað slíkt,“ segir hann.
Björn Oddson jarðeðlisfræðingur segir að gasmengun gæti orðið meiri þar sem gosið sé stærra en fyrri gos.
„Það er oft í hlutfalli við magn kviku sem kemur upp og þarna erum við að horfa á meira rúmflæði en við höfum séð í síðustu atburðum,“ segir Björn.
„Það er meira magn af gasi sem fer út í andrúmsloftið og það leggur til austurs eins og staðan er núna,“ segir hann.
Hann segir að Veðurstofa Íslands keyri spálíkön um gasmengun allan sólarhringinn.
Hægt er að nálgast upplýsingar frá veðurstofunni hér.
Helsta hættan ef sprungan breytist
Hraun stefnir ekki í átt að Grindavík. Þetta sagði Björn Oddson jarðeðlisfræðingur eftir stöðufund Almannavarna í Skógarhlíð.
Hann lýsti þar niðurstöðum vísindamanna eftir flug þeirra yfir gosið í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
„Það sem við sáum er um fjögurra kílómetra löng sprunga sem raðar sér í gömlu sundhnúkagígaröðina,“ segir Björn. „Þetta er á besta stað ef það þurfti að gjósa þarna.“
„Gosið er að fara fram norðan við vatnaskilin þannig að hraun rennur ekki í átt að Grindavík. Fylgjast þarf þó með hvort sprungan teygi sig lengra suður,“ segir Björn en breytingar á sprungunni sé helsta váin sem gæti fylgt gosinu núna.
Ármann segir alla sprunguna logandi og mikinn kraft í gosinu
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, er við Sýlingarfell við mælingar. Hann segir sprunguna ansi stóra.
„Þetta er rétt rúmlega 4 kílómetra löng sprunga sem nær yfir Vatnaskil í átt að Grindavík. Við vonum að hún teygi sig ekki lengra til suðurs. Hraunið fer fyrst og fremst að Fagradalsfjalli.“
Ármann segir staðsetninguna heppilega þrátt fyrir að þetta hafi verið versta sprungan til að gjósa á. Það er ekkert hraun að renna í átt að virkjununum.
Aðspurður segir Ármann að gosið sé mjög fallegt og það séu engin mannvirki í hættu eins og er.
„Í nótt geta menn verið tiltölulega rólegir. Ef allt er eðlilegt fer að draga úr þessu seinnipartinn á morgun, sprungan fer að draga sig í gíga. Gosið gæti staðið í viku til 10 daga,“ segir Ármann.
Ármann reiknar með að vera við mælingar framundir rauðan morgunn.
Línur Landsnets ekki í hættu
Eins og er eru línur Landsnets, Svartsengislína 1 og Suðurnesjalína 1, ekki í hættu að því er segir í tilkynngu frá Landsneti. Þar segir að náið sé fylgst með stöðunni á Reykjanesi í samvinnu við Almannavarnir, Veðurstofu og orkufyrirtækin á svæðinu, HS Veitur og HS Orku. Unnið er af kappi við að ná utan um atburði kvöldsins.
Best ef hraun flæðir í norðvestur
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur segir að atburðarás í eldgosinu geti breyst hratt . Aðspurður um hvar hraun verði statt snemma á morgun segir hann erfitt að segja til um það.
„Það er góð spurning og það fer alveg eftir því í hvaða átt það fer en ef það heldur þessum dampi sem er ekki sjálfgefið, þá getur það farið nærri stórum innviðum á tiltölulega stuttum tíma.
„Ég segi nú bara eins gott að við erum búin að setja upp þessa varnargarða við Svartsengi og Bláa lónið og vonandi reynast þeir okkur vel,“ segir hann.
Hraun flæðir nú hálfan til einn kílómeter á hverri klukkustund.
„Gossprungan nær frá Hagafelli og norður fyrir Litla-Skógfell,“ segir Þorvaldur sem fylgist með þróun gossins eins og svo margir aðrir.
„Hraun streymir bæði norður og vestur frá sprungunni og eins virðist líka ansi öflugur straumur í austurátt,“ segir hann „Ef þetta fer í austur er möguleiki að flæðið fari sunnan við vatnaskilin og þannig farið suður til Grindavíkur.“
„Sá flaumur sem fer til norðurs getur fikrað sig í áttina að Reykjanesbrautinni og aftur að Vogum svo við erum með tvö þéttbýli sem eru í ákveðinni hættu,“ segir hann.
Kvikustrókar við sprunguna teygja sig nú hátt í hundrað metra upp í loftið.
Þorvaldur segir að best væri ef hraun flæddi sem mest í norðvesturátt.
„Það væri langbest ef það færi sem mest í norðvestur en það eru dældir þar norður af svartsengi sem geta tekið við ansi mikið af hrauni,“ segir hann.
Við megum þó ekki gleyma því að um það svæði liggja mikilvægar vatnsleiðslur.
Vindátt hagstæð hvað varðar gasmengun
Varðandi gasmengun segir hann það jákvætt að vindáttin sé þannig að hún ber gosmökkinn frá byggðum bólum. Þorvaldur var staðsettur á Eyrarbakka þegar hann ræddi við fréttastofu.
Hann segir að bent hafi verið frá upphafi á að hlutirnir gætu gerst mjög hratt eins og raun bar vitni. Þetta sé ein af þeim sviðsmyndum sem hann hafi hugsað mikið um frá því jarðhræringar hófust.
Innviðum í Grindavík og Svartsengi ekki ógnað eins og staðan er núna
Hraunflæði frá eldgosinu við Sundhnúkagíga ógnar ekki innviðum í Grindavík eða í Svartsengi eins og staðan er núna.
Þetta segir Páll Erland forstjóri HS veitna í samtali við fréttastofu. Hann segir stöðuna eins hagfellda og hægt sé að hugsa sér í ljósi þess að umfangsmikið eldgos er hafið.
Neyðarstjórn HS Veitna kom saman á fundi eftir að gosið hófst, sem er hefðbundið viðbragð við náttúruvá og öðrum hættum. Páll segir að náttúran fari ávallt sínu og fram og því verði áfram fylgst náið með framvindu mála.
TF-EIR flaug með vísindamenn yfir Sundhnúkagíg til að meta umfang eldgossins
Áhöfnin á TF-Eir, þyrlu Landhelgisgæslunnar, flaug yfir Sundhnúkagígaröðina fyrr í kvöld. Með í för voru vísindamenn almannavarna, Veðurstofunnar og Háskóla Íslands, til að meta umfang eldgossins sem hófst þar á ellefta tímanum. Þetta kemur fram á Facebooksíðu Landhelgisgæslunnar. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi er eldgosið mikið sjónarspil.
Hvaða hættur geta fylgt eldgosum?
Hætta getur stafað frá eldgosum meðal annars vegna hraunrennslis, öskufalls og eiturefna sem frá því berast, að því er segir á vef Almannavarna.
Hraun er kvika sem komist hefur upp á yfirborð í eldgosi og flæðir frá gosopi. Hraði hraunrennslisins ræðst af hitastigi kvikunnar, efnainnihaldi hennar, þrýstingi og landslaginu.
Banvæn eiturefni streyma frá eldgosum, kolefnissambönd sem almennt eru lyktarlaus og sjást illa. Eiturefnin leggjast í lægðir utandyra í nágrenni gjósandi eldstöðva og í kjallara húsa. Efnin geta valdið köfnun manna og dýra.
Myndir frá Njarðvík
Rýming gekk vel og allir komnir burt áður en gos hófst
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir verkefni lögreglu í kvöld hafa gengið ágætlega. Töluvert mikill fjöldi fólks sé á Reykjanesbraut sem opin sé í báðar áttir.
Úlfar segir öruggt að enginn sé í Grindavík, rýming hafi gengið vel þar, og í Svartsengi, og allir verið komnir burt áður en gos hófst.
Helstu verkefni séu að manna lokunarpósta og stýra umferð um Reykjanesbraut. Tugir lögreglumanna séu við störf.
Drónabanni aflétt
Drónabann sem var sett í upphafi eldgossins er ekki nauðsynlegt lengur og hefur því verið aflétt. Frekara vísindaflug er ekki fyrirhugað í bili og því hefur banninu verið aflétt.
Margfalt meira hraunflæði en í fyrri gosum
Áætlað hraunflæði í eldgosinu er um hundrað til tvö hundruð rúmmetrar á sekúndu sem er margfalt meira en í fyrri gosum á Reykjanesskaga síðustu ár. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.
Til samanburðar þá var fyrsta gosið í Geldingadal um 8,5 rúmmetrar á hverri sekúndu. Gosið í Meradölum á síðasta ári, var nokkuð stærra en það fyrsta, og mældist þá fimmtíu rúmmetra flæði á sekúndu. Það er því ljóst að hér er um margfalt stærri viðburð að ræða þegar kemur að eldunum á Reykjanesskaga.
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar hvetur fólk til að halda sig heima
Íbúar í Reykjanesbæ eru beðnir um að halda sig heima, fylgjast með loftgæðum og fréttum. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir að ekki hafi verið rætt um rýmingu bæjarins á fundi aðgerðarstjórnar í kvöld.
„Ekki heppileg staðsetning fyrir gos“
Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði, segir staðsetning gossins ekki góða þó hún fylgi ekki verstu sviðsmynd.
„Miðað við það sem á undan er gengið er þetta ekki heppileg staðsetning fyrir gos. Það eru margar sviðsmyndir sem dregnar hafa verið upp af mögulegri atburðarás. Þetta er ekki sú versta, en hún er ekki góð.“
Erfitt sé að segja til um þróunina. Byrjunin minnir á Kröfluumbrotin á sínum tíma og sprungan er lengri en við þekkjum frá fyrri gosum síðustu árin, en er ekki nema brot af því sem þekkist frá öðrum eldstöðvum.
Páll segir það algengt að það byrji með látum áður en dregur úr krafti. Virknin einangrast svo oft á fáa gíga, jafnvel bara einn, þar sem hraungos getur mallað nokkuð lengi. Það er erfitt að segja til um lengd gossins, en það er algengt að á fyrstu dögum svona goss þá dragi úr lengd sprungu. Það sé miðbik sprungu sem heldur lengst áfram.
Páll segir ekki óeðlilegt hvað aðdragandinn var stuttur. Það er frekar óvenjulegt hvað aðdragandinn var langur í fyrri gosunum.
Elín biður fólk um að halda sig heima: „plís“
Elín Björk Jónasdóttir, sérfræðingur í umhverfisráðuneyti, biður fólk um að halda sig heima. Hún segir á Facebook að það verði suðvestanátt og éljagangur í nótt og örþreytt björgunarsveitarfólk sé búið að vera að störfum meira eða minna í þrjú ár. „Hugsið nú um einhverja aðra en ykkur sjálf og fylgið leiðbeningum almannavarna. Plís.“
Íbúi í Grindavík: Ótrúlega óraunverulegt
Sara Símonardóttir, íbúi í Grindavík, varð hissa þegar hún sá eldana koma upp í Sundhnjúkagígaröðinni í kvöld, en hún er sjálf stödd í Reykjanesbæ.
„Manni finnst þetta bara allt ótrúlega óraunverulegt,“ segir hún en Sara hefur ekki getað búið á heimili sínu síðan jarðskjálftahrinan skók bæinn í byrjun nóvember.
„Maður varð bara hissa, maður átti ekki alveg von á þessu,“ segir Sara sem hefur eðlilega miklar áhyggjur af eigum sínum.
„Auðvitað hefur maður áhyggjur af eigum sínum, en líka bara öllu þarna í kring. Meðal annars hitaveitunni, enda stödd í Reykjanesbæ núna.
Sara segist ekki vera byrjuð að fylla baðkarið af vatni en segist þó gera sínar varúðarráðstafanir.
Reykjanesbraut opin en fólk beðið að fara ekki um nema nauðsyn krefji
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, hvetur fólk til að fara ekki um Reykjanesbraut ef það þarf þess ekki. Hún er þó ekki lokuð. „Við erum að reyna að hafa Reykjanesbrautina opna í báðar áttir.“ Fólk sem er að koma úr eða fara í flug kemst því leiðar sinnar.
Fyrr í kvöld komu upplýsingar frá Vegagerðinni og Lögreglunni á Suðurnesjum um að Reykjanesbraut yrði lokað svo viðbragðsaðilar kæmust örugglega leiðar sinnar.
Hraunstraumurinn liggur til norðvesturs, nokkuð langt frá innviðum. Næst sprungunni eru Grindavíkurvegur og heitavatnslögn. Tími gefst til að grafa heitavatnslögnina í jörðu svo hraun geti runnið yfir hana, segir Víðir. „Við munum aldrei setja fólk í hættu, aldrei, en við munum fara í þetta verkefni ef það er hægt.“
Svona opnuðust sprungurnar
Eldgosið sem hófst í kvöld er mikið sjónarspil. Birkir Helgi Stefánsson, sem er virkur á X sem allir þekkja sem Twitter, tók saman lygilegt myndskeið af því hvernig gosið hófst. Myndirnar eru fengnar að láni úr vefmyndavélum.
Allt flug Icelandair og Play á áætlun
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir atburðina ekki hafa áhrif á flug félagsins, náið sé þó fylgst með stöðunni og hvernig þróunin verður. Félagið vinnur að því að uppfæra heimasíðu sína, þar sem farþegar fá nýjustu upplýsingar. Brottfarir félagsins í fyrramálið eru á áætlun.
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir allt flug á áætlun hjá Play á morgun.
Eldgosið séð úr þotu
Stefanía Anna Þórðardóttir tók meðfylgjandi myndir ef eldgosinu úr þotu á leið inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli.
Stærsti bókunarglugginn fram undan í íslenskri ferðaþjónustu
Það eru fjórir dagar síðan menningar-og viðskiptaráðherra lagði fram hundrað milljónir í sérstakt framlag á vegum Íslandsstofu til að kynna Ísland sem áfangastað. „Tilgangur aðgerðanna er að styðja við ferðaþjónustu í kjölfar jarðhræringanna á Reykjanesi og þeirrar alþjóðlegu umfjöllunar sem fylgt hefur í kjölfarið,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins.
Þar kom jafnframt fram að stærsti bókunargluggi ársins væri fram undan en hann nær frá lokum desember fram í miðjan janúar um það bil. „Þetta tímabil hefur mikil áhrif á það hvernig ferðasumarið 2024 mun líta út, en þá eru stærstu markaðir íslenskrar ferðaþjónustu að skipuleggja sín sumarleyfi.“
Svona horfa vefmyndavélarnar yfir gosstöðvarnar
RÚV rekur fimm vefmyndavélar við gosstöðvarnar norðan við Grindavík sem hægt er að fylgjast með hér á vefnum. Sjónsvið þeirra er vítt og sér yfir alla gossprunguna. Vélunum er stjórnað úr Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Hægt er að færa þær til og þysja inn.
Hægt er að fylgjast með vefmyndavélum RÚV í færslunni hér að neðan.
Hugsar hlýtt til Grindvíkinga
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist hugsa hlýtt til Grindvíkinga á þessari stundu. Hún hafi verið stödd í Silfrinu fyrr í kvöld til að ræða stjórnmálin, þegar eldgos hafi hafist í beinni útsendingu.
„Nú mun reyna á varnargarðana sem nánast voru orðnir tilbúnir. Vísindamenn og aðrir viðbragðsaðilar hafa sinnt verkefninu af alúð og áfram mun reyna á okkar öfluga fólk,“ skrifar Áslaug í stöðuuppfærslu á Facebook.
Hvað gerðist, hvenær og hvað gerist næst?
Það byrjaði að gjósa klukkan 22:17 eftir að skjálftahrina hófst klukkan 21. Áætluð lengd gossprungunnar sem er milli Sýlingarfells og Hagafells er nærri fjórir kílómetrar og hún lengist hratt.
Til að setja þetta í samhengi var gossprungan við Litla-Hrút um 800 til 900 metrar. Hraunflæðið er líka margfalt meira en í fyrri gosum á Reykjanesskaga síðustu ár eða um 100 til 200 metrar á sekúndu.
Miðað við síðustu upplýsingar er skjálftavirknin að færast suður í átt til Grindavíkur. Þetta er vísbending um að gossprungan gæti lengst í áttina að Grindavík sem yrði versta mögulega sviðsmynd.
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, kallaði þetta dæmigert íslenskt sprungugos. Þau eru kröftug í byrjun en um miðjan dag á morgun gætu þetta verið tveir til þrír gígar sem séu virkir. Hann sagði þetta þrisvar til fjórum sinnum stærra en fyrri gos á Reykjanesskaga en aðeins hálfdrættingur á við gosið í Holuhrauni.
Byggð í Vogum ekki í hættu
Byggð í Sveitarfélaginu Vogum er ekki í hættu eins og staðan er núna, sagði Kristín Jónsdóttir í aukafréttatíma RÚV í sjónvarpi. Hún sagði að það gæti breyst ef gosið yrði mjög langt en benti á að reynsla væri komin á að byggja varnargarða til að koma í veg fyrir að eldgosið næði þangað.
Kristín sagði þó lang líklegast að dragi úr kraftinum á næstu dögum.
Hraunið rennur allt til norðurs
Staðan er fljót að breytast og nýjar upplýsingar koma sífellt fram.
Hraunið er farið að renna í norðurátt í átt að Reykjanesbraut, sagði Sigríður Hagalín Björnsdóttir fréttamaður sem fylgist með eldgosinu. Hún tók þó fram að aðrir þyrftu að meta hvað þetta þýddi.
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár, sagði í aukafréttatíma RÚV í sjónvarpi, að gosið rynni allt til norðurs. Mjög lítil virkni er í suðurhluta sprungunnar, þeim hluta sem er sunnan vatnaskila. Þetta eru góðar fréttir því það þýðir að hraun rennur ekki í átt að Grindavík, í það minnsta að svo stöddu.
Grindavíkurbær á að vera mannlaus
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir búið að kalla viðbragðsaðila sem voru í Grindavík út úr bænum. Bærinn á að vera mannlaus.
Hraun gæti runnið til Grindavíkur á nokkrum klukkutímum
Kristín Jónsdóttir segir að þau hraunflæðilíkön sem mest hafi verið skoðuð hafi gert ráð fyrir minna gosi, á stærð við gos síðustu ára á Reykjanesskaga. Samkvæmt þeim hafi mátt búast við að hraun gæti flætt til Grindavíkur á um 12 klukkutímum.
Hraun gæti ógnað ýmsum innviðum. Reykjanesbrautin, Svartsengi og Grindavíkurvegur þar á meðal.
Kristín segir vísindamenn þurfa að keyra ný líkön en fari hraun að flæða í áttina til Grindavíkur megi búast við því að það geti tekið styttri tíma enda kraftmeira gos.
Fannar segir tímasetningu gossins hafa komið sér á óvart
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segist hafa verið farinn að fylgjast með skjálftahrinunni sem hófst um klukkan 21 í kvöld. Sviðsstjóri hjá Grindavíkurbæ, sem var staddur í Njarðvík, hringdi í hann og sagðist hafa séð bjarma út um gluggann hjá sér. Þannig fékk hann fyrstu fréttir af eldgosinu.
Hann segir staðsetninguna ekki koma á óvart. „Þetta var sá staður sem vísindamenn höfðu sagst vera líklegasti staður gossins. Tímasetningin kom á óvart, það hafði róast yfir þessu. Kvikugangurinn undir Grindavík var ekki lengur virkur og var farinn að storkna. En það mátti alveg búast við þessu og miðað við kort Veðurstofunnar var þetta hættulegasta svæðið.“
Aðspurður segir hann staðsetning gossins ekki góða. Hann segir að ef hraunið fari að renna til suðurs yrði það mjög slæmt. Hann vilji þó ekki spá fyrir um framtíðina. Hann segir að nú verði að sjá hvernig hlutirnir muni þróast og hvar upptökin halda áfram að verða.
Fannar segist ekki vita til þess að nokkur hafi verið í Grindavík þegar gosið hófst.
„Það skiptir mestu máli að það verði ekki manntjón þó að það sé alvarlegt ef mannvirki eru í hættu.“
Aðspurður um framhaldið hjá sér segir Fannar:
„Ég verð eitthvað hér í stjórnstöð Almannavarna fram á nóttina og svo eru fundir strax í fyrramálið. Mitt hlutverk að gæta hagsmuna bæjarins ef einhverjir eru í þessari stöðu,“ segir Fannar að lokum.
Skjálftavirknin að færast í átt til Grindavíkur
Samkvæmt nýjustu mælingum Veðurstofunnar er skjálftavirknin að færast í suður í átt til Grindavíkur. Virknin sem mælist er aðeins austan við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Þessi þróun skjálftavirkninnar, ásamt mælingum úr GPS tækjum er vísbending um að kvikan sé að færast í suðvestur og gossprungan gæti lengst í áttina að Grindavík.
Landsnet fylgist vel með stöðu mála
„Við hjá Landsneti fylgjumst mjög vel með stöðunni á Reykjanesinu í góðri samvinnu við Almannavarnir , Veðurstofuna og orkufyrirtækin á svæðinu HS Veitur og HS Orka. Eins og er eru línurnar okkar, Svartsengislína 1 og Suðurnesjalína 1, ekki í hættu en við erum eins og aðrir að vinna í að ná utan um atburð kvöldsins,“ segir í tilkynningu frá Landsnet.
Sprungan margfalt lengri en sprungur fyrri eldgosa á Reykjanesskaga
Veðurstofan hefur gefið út uppfært kort af áætlaðri staðsetningu gossprungunnar. Á heimasíðu eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands kemur fram að lengd sprungunnar eftir miðnætti er nú metin 4000 metrar. Sprungan er því margfalt lengri en sprungur eldgosa á Reykjanesskaga á síðustu árum. Þá er goskrafturinn einnig meiri en í upphafi fyrri gosa og framleiðnin líklega margföld.
Syðri endi gossprungunnar er um 2500 metrar frá Grindavík.
Við fyrstu sýn virðist sem svo að hraunið muni renna til norðurs, en óvissan þykir mikil. Sprungan hefur síðustu tvo tímana verið að lengjast til beggja enda.
HS orka heldur neyðarstjórnarfund
Framkvæmdastjórn og lykilaðilar HS orku ætla að funda í nótt.
Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS orku, segir að Svartsengi hafi verið mannlaust þegar gosið hófst.
„Virkjuninni í Svartsengi hefur verið stjórnað frá Reykjanesvirkjun síðan í nóvember. Við vorum ekki búin að stíga þau skref að hafa mannskap í Svartsengi á nóttunni enn þá en vorum með lágmarksstarfsemi á daginn.“
Staða virkjuninnar verður tekin á neyðarfundinum á eftir.
Sprungan allt að 4 kílómetrar
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, segir gossprunguna vera að lengjast og nýjustu upplýsingar bendi til þess að sprungan sé allt að 4 kílómetrar að lengd.
Mælitæki veðurstofunnar séu mjög nálægt sprungunni og í hættu. Miðað við nýjustu upplýsingar liggi hluti sprungunnar sunnan vatnaskila og þá geti hraun runnið til Grindavíkur.
„Góðu fréttirnar eru samt líka þær að það eru nú yfirleitt endarnir sem að deyja út fyrst og það er það sem að við búumst við að gerist á næstunni. Að virknin fari að draga sig á ákveðna gíga og yfirleitt er þá mið sprungan staðurinn sem að mesta virknin verður, og sú sprunga er klárlega norðan vatnaskila.“
Sprungan nú talin vera um 2,5 kílómetra norður af Grindavík
Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, segir atburðarásina vera mjög hraða.
„Það er frekar hröð þróun á gossprungunni. Við sáum hana koma upp um klukkan 22.17, hún hefur breitt úr sér mjög hratt og hefur færst til suðvesturs. Er komin um 2,5 kílómetra norður af Grindavík. Eldgosið sjálft er aðeins norðar en það.“
Sprungan sjálf er líklega komin vel yfir þrjá og hálfan kílómetra, og dreifir hratt úr sér. Hraunflæðið sjálft virðist vera til norðurs eins og staðan er núna. Ekki er nokkur leið að segja til um hvernig þróunin verður, segir Benedikt.
Mikil umferð á Reykjanesbraut þvert á tilmæli almannavarna
Reykjanesbrautin er lokuð samkvæmt Vegagerðinni. Mikil umferð er á brautinni þar sem fólk er að flykkjast að gosinu, þvert á tilmæli almannavarna.
Farþegar á Keflavíkurflugvelli eiga að komast Reykjanesbrautina heim til sín.
Fylgst með frá Njarðvík
Þorgils Jónsson, fréttamaður RÚV, er staddur í Njarðvík þar sem fólk hefur safnast saman til að fylgjast með eldgosinu úr fjarska. Fólk stendur upp á Kambinum í Innri Njarðvík og þar er gott útsýni.
Íbúar í Njarðvík slegnir
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, íbúi í Njarðvík, segir íbúa mjög slegna en eldgosið sést vel í bakgarðinum heima hjá henni eins og sést á myndskeiðinu hér fyrir neðan.
Eiginmaður hennar og dætur voru úti og urðu ekki vör við brennisteinsfnyk. Þau eru þó búin að loka öllum gluggum heima hjá sér.
„Við hugsum til Grindvíkinga og erum auðvitað stressuð varðandi rafmagnið og heita vatnið,“ segir Hilma.
Reykjanesbrautinni var lokað vegna örtraðar
Sigríður Hagalín Björnsdóttir fréttamaður var í beinni frá hringtorginu við Grindavíkurafleggjarann í aukafréttatíma sjónvarps í kvöld. Hún segir eldvegg blasa við og augljóst að gosið sé stærra en gosin á Reykjanesskaga síðustu ár.
Sigríður segir talsverða umferð inn á svæðið þar sem hún er stödd. Helgi Karl Brynjarsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir Reykjanesbrautinni hafa verið lokað vegna örtraðar. Brautin er lokuð við Innri Njarðvík og við álverið í Hafnarfirði.
Tveir lögreglubílar hafi verið inni í Grindavík þegar gosið hófst. „Þeir tóku rýmingu bara svona til öryggis,“ segir Helgi Karl sem telur engan vera inni á svæðinu núna.
Neyðarfundur sveitarfélagsins Voga
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga, segir að hann sitji nú fund neyðarstjórnar sveitarfélagsins. Hann segir að aðallega sé verið að fylgjast með þróun mála.
„Við erum að fylgjast með stöðunni eins og flestir aðrir,“ segir hann. Engar ákvarðanir liggi fyrir að svo stöddu en stjórnin sé í góðu sambandi við Almannavarnir og aðra viðbragðsaðila.
„Við bíðum og vonum að það verði enginn skaði á innviðum,“ segir Gunnar Axel.
Forseti Íslands sendir hlýjar kveðjur til Grindvíkinga
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendir hlýjar kveðjur til Grindvíkinga og þeirra sem nú sinna störfum á vettvangi. „ Eldgos er hafið í grennd við Grindavík. Ekki er ljóst hvaða usla það getur valdið en nú reiðum við okkur á vísindafólk okkar auk allra þeirra sem þurfa að sinna eftirliti og öðrum aðgerðum. Framar öllu verndum við mannslíf en sinnum öllum vörnum mannvirkja eftir bestu getu,“ skrifar Guðni á Facebook.
Flug- og drónabann yfir sama svæði og fyrir 15. desember
Bannað er að fljúga drónum yfir sama svæði umhverfis Grindavík og var í gildi fram til 15. desember. Þetta kemur fram á vef Isavia þar sem segir að flug- og drónabann hafi verið skilgreint á þessu svæði vegna eldgossins sem hafið er við Sundhnúka. Á vef Isavia má sjá þau hnit sem afmarka svæðið:
635621N0222218W
635440N0221323W
634902N0223533W
634641N0222232W
Ekkert hægt að segja um mögulega gasmengun strax
Ekkert er enn vitað um mögulega gasmengun sem gæti mælst vegna gossins. Vindurinn á svæðinu fer í áttina að Fagradalsfjalli og Kleifarvatni þar sem ekki er byggð fyrr en komið er í Þorlákshöfn. Gasmælar eru í Grindavík en vindurinn fari ekki þangað og því mælist ekki mengun.
Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir næsta mæli vera á Selfossi. Gosið sé nýbyrjað þannig að ekki sé hægt að segja neitt um gasmengunina enn.
Óvissan mikil og sprungan lengist í báða enda
Eldfjalla-og náttúruvárhópur Suðurlands segir fyrstu gögn benda til þess að hraun muni renna til norðurs. Óvissan sé mikil og allt geti breyst sökum kraftsins í gosinu. Sprungan er margfalt lengri en þær sprungur sem gosið hafa á Reykjanesskaga á síðustu metrum. „Gosskrafturinn er einnig sýnilega mun meiri en í upphafi fyrri gosa og framleiðnin líklega margföld.“
Enginn í Bláa lóninu þegar gosið hófst
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu Bláa lónsins, segir í samtali við fréttastofu að allir hafi verið búnir að yfirgefa staðinn þegar eldgosið hófst.
„Við erum bara að reyna að átta okkur á stöðunni,“ segir Helga. Hún segir að strax hafi verið farið í það að upplýsa starfsfólk um stöðuna og nú sé unnið að því að meta framhaldið.
Hún segir lónið ekki munu opna á morgun.
Margfalt meira hraunflæði en í fyrri gosum
Sprungan sem opnaðist norður af Grindavík upp úr klukkan tíu í kvöld er orðin þriggja og hálfs kílómetra löng samkvæmt athugunum sérfræðinga. Þessu greindi Kristín Jónsdóttir frá í aukafréttatíma RÚV í sjónvarpi.
Hún sagði að hraunflæðið væri um 100 til 200 rúmmetrar á sekúndu sem er margfalt meira en í fyrri gosum.
„Það má reyndar segja um fyrsta mat að það dregur oft hratt úr gosi á fyrsta sólarhring.“
Grindvíkingar geta varpað öndinni léttar í bili
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, segir í samtali við Valgeir Örn Ragnarsson og Ragnhildi Thorlacius á Rás 2 að Grindvíkingar geti varpað öndinni léttar í bili. Sprungan virðist teygja sig norður og það þýði að hraunið fari ekki ofan í Grindavík. Hann segir sprunguna þegar orðna slitna og önnur sprunga hafi opnast aðeins norðar. Hann telur þetta þrisvar til fjórum sinnum stærra en fyrri gos á Reykjanesinu en aðeins hálfdrættingur á við Holuhraun.
Ármann segir þetta klassískt íslenskt sprungugos; kröftugt í byrjun en um miðjan dag verði þetta tveir til þrír gígar sem séu virkir. „Það gæti tórað í sjö til tíu daga, það er svona mín spá.“ Ármann sagðist síðan þurfa drífa sig inn á svæðið til að geta metið stöðuna betur og tóku þau Valgeir og Ragnhildur af honum það loforð að geta heyrt í honum aftur síðar í kvöld.
Fannar Jónasson: Bæði óvænt og viðbúið
Fannar Jónasson segist hafa verið heima hjá sér að fylgjast með skjálftahrinunni þegar gos hófst. Hann segist ekki vita til þess að nokkur hafi verið í bænum þegar gosið hófst. „Konan var að kíkja á netið og var að athuga hvort eitthvað væri að gerast neðanjarðar hjá okkur og tók eftir skjálftahrinu,“ bætti Fannar við í ítarlegra viðtali á Rás 2. Það hafi síðan verið sviðsstjóri hjá Grindavíkurbæ sem hafði samband og lét hann vita af bjarma sem gat eiginlega ekki verið annað en eldgos.
„Ég veit að það stendur til að hafa samband við þá sem kunna að vera þarna inni, þá sem hafa svona lýst því yfir að þeir gætu verið á staðnum,“ segir Fannar en hann telur það ekki vera marga.
Hann segir Grindvíkinga bæði hafa verið undirbúna undir að gos kæmi upp þarna en á sama tíma ekki beint viðbúna því að það gerðist í kvöld.
„Þessi staður var talinn líklegastur af vísindamönnum ef að kæmi til goss. Þannig að það má segja að það komi ekki á óvart, staðsetningin. En það var enginn alveg við því búinn að þetta væri að gerast núna,“ segir Fannar.
Fannar segist verða í stjórnstöð Almannavarna í nótt og fylgjast náið með framvindunni. „Það er ekkert annað að gera en að bíða, þetta er fjórða gosið okkar á þremur til fjórum árum og skjálftahrinurnar hafa verið margar þannig að við þekkjum þetta. Þetta er auðvitað miklu nær heldur en fyrri gos. Þannig að nú er bara að vona það besta, en auðvitað lítur þetta alls ekki vel út.“
Fannar segir ekki halda að versta sviðsmyndin sé að raungerast. Hún hefði alltaf verið sú að gosið hefði á kvikuganginum sem myndaðist undir Grindavík. En þetta sé slæmur staður og ef eldgosið fari að ógna Svartsengi og varnargörðunum.
Hafa hugsað til Sundhnúkagígaraðar með hryllingi
„Þetta er bara ákaflega óheppilegur atburður að Sundhnúkagígaröðin, gígaröð sem við sem fylgjumst með eldgosavánni á Reykjanesskaganum höfum hugsað með hryllingi til í langan tíma,“ sagði Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, í aukafréttatíma RÚV í sjónvarpi
„Það er oft svo með þessi gos að þau eru kröftugust í upphafi,“ sagði Kristín. Hún sagði erfitt að spá fyrir um hversu lengi gosið myndi standa. Henni fannst þó líklegt að miðað við stærð þess í upphafi myndi það vara í einhverja mánuði frekar en vikur.
Kristín sagði að kerfin við Fagradalsfjall og Svartsengi séu svipuð og Krafla. Fleiri svona kerfi séu til í heiminum.
„Það sem þessi kerfi sýna okkur er að stærsti gangurinn myndast í fyrstu atrennu. Svo eru seinni kvikuhlaup minni. Það er að raungerast hér. Þetta kvikuhlaup gýs hérna á þremur kílómetrum en ekki öllum fimmtán.
„Það sem við getum búist við er að það verði fleiri svona sprettir á næstu árum.“
Fyrri gos á Reykjanesskaga síðustu ár hafa öll staðið í innan við ár, það stysta í þrjá mánuði og það lengsta í hálft ár. „En í ljósi þess hvað þetta er kröftugt og hvað þetta er löng sprunga er líklegt að þetta standi lengur en þrjár vikur,“ sagði Kristín.
Bandarískir fjölmiðlar taka við sér
New York Times og Washington Post segja frá eldgosinu á vefjum sínum í kvöld. Washington Post segir hraunið teygja sig í áttina að Grindavík úr norðri og New York Times hefur eftir Benedikt Ófeigssyni að þetta sé versta mögulega útkoman.
Franska fréttastofan France 24 segir gos hafið suður af Reykjavík.
Auk þess eru komnar fréttir á Reuters, Fox, ABC News, CNN, þýska miðilinn Bild, el Periodico á Spáni og aðra miðla um alla Evrópu og víðar um heim.
Flugumferðarstjórar aflýsa verkfallsaðgerðum
Flugumferðarstjórar hafa aflýst boðuðum verkfallsaðgerðum á miðvikudag vegna gossins. Arnar Hjálmsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en Vísir greindi fyrst frá. Hann segir að ekki boðað til frekari verkfalla að svo stöddu.
Feginn að hafa yfirgefið Grindavík áður en byrjaði að gjósa
Ólafur Benedikt Arnberg Þórðarson, veitingamaður og íbúi í Grindavík, sem undanfarnar nætur hafði ásamt eiginkonu sinni gist á heimili þeirra hjóna í Grindavík, segist feginn að hafa farið að tilmælum lögreglu og yfirgefið bæinn fyrr í kvöld. Íbúum hafði verið heimilt að dvelja í Grindavík til klukkan níu að kvöldi, en ekki að næturlagi.
„Við vorum búin að vera þarna nokkrar nætur og eins á hótelinu að undirbúa. Maður var svo auðtrúa að maður hélt að þetta væri búið. En þessu átti maður ekki von á,“ segir Ólafur.
Ólafur rekur hótel og veitingastað í bænum og var nýbúinn að bóka nokkra hópa í þriggja rétta málsverð milli jóla og nýárs.
„Þetta eru í kringum hundrað manns sem ætluðu að mæta til okkar í mat. Það verður að afpanta það í fyrramálið. Það er nokkuð ljóst.“
Ólafur segir að hann hafi ráðgert að halda jólin í Grindavík. Sá draumur sé nú úr sögunni.
„Ég var ákveðinn í því að halda jólin heima hjá mér í Grindavík. Það verður ekki. En maður veit aldrei hvernig þetta þróast. Kannski heldur maður þau aldrei aftur þar. Ef þetta ætlar að verða svona, og mögulega flæða niður í bæ. Þá erum við að sjá annað eins gos og í Vestmannaeyjum.“
Grindvíkingur segist áhyggjufullur
Helgi Sævar Halldórsson, íbúi í Grindavík, segist áhyggjufullur vegna eldgossins. Hann er einn þeirra sem flúði heimili sitt vegna jarðskjálftanna og hefur undanfarnar vikur búið hjá vini sínum á höfuðborgarsvæðinu.
Í samtali við fréttastofu segir Helgi Sævar að sprungan sem liggur í gegnum Grindavík valdi honum áhyggjum nú þegar eldgos sé hafið. Hann óttast að gosið teygi sig nær Grindavík. Hann segist hafa áhyggjur af eigum sínum og finnst horfurnar ekki góðar.
Forsætisráðherra segir hug allra hjá heimafólki
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir varnargarða langt komna sem muni geta skipt verulegu máli. „Hugur okkar er hjá heimafólki nú sem fyrr, við vonum það besta en ljóst má vera að þetta er töluvert gos.“
Gossprungan næstum 3 kílómetrar
Skjálftahrina hófst um klukkan níu í kvöld. Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands segir þetta hafa verið skamman fyrirvara og að upphaf gossins hafi komið vísindamönnum á óvart. „Þetta gerðist mjög hratt, virkilega.“
Kristín segir nýjustu upplýsingar segja að gossprungan sé 2800 metra löng. „Það er auðvitað mjög langt, og þetta þýðir það að hún er aðallega inn á svæði norðan vatnaskila en nær líklega að vatnaskilum og hugsanlega suður fyrir.“ Þetta þýði að hraun muni flæða í báðar áttir bæði til norðurs og í suðurátt til Grindavíkur.
Hún segir gosið mun kraftmeira en það sem við höfum séð í Fagradalsfjalli. „Þar vorum við að horfa á sprungur sem voru bara brot af þessu. Kannski 500-800 metrar á meðan þetta er næstum 3 kílómetrar. Þannig að það segir sig sjálft að það er miklu meira gosefni að koma upp núna en þar.“
Kristín telur kvikuna koma frá Svartsengi og segir það benda til goskerfis svipaðs því sem var í Kröflu.
Eldogsið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Bragi Valgeirsson myndatökumaður á fréttastofu tók þessar myndir úr þyrlu Landhelgisgæslunnar fyrir stuttu.
Hraun virðist renna norður en ekki suður
Sprungan sem hefur opnast milli Sýlingarfells og Hagafells er líklega um þrír kílómetrar. Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, segir gosið hefjast af meiri krafti en fyrri gos enda hefjist það undir þrýstingi og það sé áfram jarðskjálftahrina. Nú eigi tíminn eftir að leiða það í ljós hversu öflugt þetta gos verði.
Hann segir að verið sé að safna saman upplýsingum úr þyrluflugi Landhelgisgæslunnar sem fljúgi nú yfir gosstöðvunum. Benedikt segir þau í miklu ágiskunarferli en við fyrstu sýn virðist hraun renna norður en ekki suður.
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra var að birta þessar myndir af gosinu.
Meiri kraftur í gosinu miðað við gos síðustu ára
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir að kvikustrókarnir virðast ná allavega 100 metra hæð þar sem mest er.
„Framleiðnin í þessu gosi er mun hærri í augnablikinu en við sáum í Fagradalsfjalli. Það þýðir að hraunið flæðir þeim mun hraðar frá gígunum. Það gefur okkur minni viðbragðstíma, því miður.“
Staðsetningin er hins vegar heppileg, miðað við hvað má telja núna, með tilliti til mögulegs hraunflæðis til Grindavíkur. Nokkrir kílómetrar eru þangað.
Neyðarfundur hjá HS veitum
Neyðarstjórnarfundur stendur yfir hjá stjórnendum og starfsfólki HS veitna.
Páll Erland forstjóri HS veitna segir of snemmt að segja til um það núna hvaða áhrif gosið mun hafa á dreifikerfin en þau hafi búist við gosi í nokkurn tíma núna og undirbúið sig samkvæmt því. HS veitur sjá um dreifingu á bæði heitu vatni og rafmagni á öllum Suðurnesjum.
Myndir úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Þyrla Landhelgisgæslunnar er flogið yfir gosstöðvarnar sem stendur þar sem vísindamenn og fulltrúar almannavarna meta umfang gossins og merkja staðsetningu þess.
Eins og með öll eldgos þá er það tilkomumikið.
Reykjanesbraut lokuð
Umferð um Reykjanesbraut er nú lokuð frá Hafnarfirði. Þetta kemur fram á upplýsingavef vegagerðarinnar.
Þá er einnig Grindavíkurvegur lokaður ásamt Nesvegi og Suðurstrandavegi.
Frekari upplýsingar um lokanir á vegum má sjá á upplýsingavef Vegagerðarinnar.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að lokanir séu byggðar á upplýsingum Almannavarna Íslands.
Upphaf eldgossins á vefmyndavél RÚV
Hér er upphaf eldgossins á vefmyndavél RÚV.
Verktakar á svæðinu komnir í öruggt skjól
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, segir að verktakar hafi verið á svæðinu að vinna við varnargarðana.
„Þeir eru komnir í öruggt skjól. Þeir sáu þetta gerast. Við vorum búnir að vera í samskiptum við þá. Þeir sáu bjarmann áður en formleg tilkynning var komin um að gos væri byrjað.“
Hann segir að almannavarnir hafi fengið staðfest að engir starfsmenn HS Orku séu í Svartsengi. Ekki er búið að fá staðfest hvort starsfólk sé í Bláa lóninu.
Staðan 23:25
Eldgos hófst milli Sýlingarfells og Hagafells, norðvestur af Grindavík, um klukkan 20 mínútur yfir tíu í kvöld. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir.
Hætta er á að hraun renni til Grindavíkur, sagði Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, í viðtali á Rás 2. Eldgosið virðist vera á Sundhnúkagígaröð en enn á eftir að staðfesta staðsetningu hennar.
Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur eru sammála um að við fyrstu sýn sé eldgosið á versta mögulega stað.
Þetta er ekki túristagos, segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna. Hann segir að gera verði ráð fyrir að eldgosið geti bæði runnið í átt að Grindavík og þeim varnargörðum sem hafa verið reistir. Hann biður fólk sem kann að vera í Grindavík að yfirgefa bæinn.
Þrír vísindamenn og tökumaður frá RÚV eru í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flaug í átt að eldgosinu upp úr klukkan ellefu.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að enginn eigi að vera í hættu vegna eldgossins eins og staðan er núna.
Landhelgisgæslan lögð af stað
Þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað fyrir um 15 mínútum síðan.
Um borð eru þrír vísindamenn ásamt tökumanni frá Ríkisútvarpinu.
Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Hann segir verkefni vísindamannanna að meta stærð, eðli og umfang eldgossins.
Að öðru leyti er viðbragð Landhelgisgæslunnar með eðlilegu móti.
„Þetta er ekki túristagos sem við erum að horfa á“
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, segir að beðið sé eftir upplýsingum frá vísindafólki um nákvæma stærð og hraunrennsli.
„Við erum ekki með nákvæma staðsetningu á því. Það vantar aðeins betri upplýsingar, en það virðist renna í allar áttir frá sprungunni sem virðist vera nokkuð stór. Strókarnir eru nokkuð háir, þannig þetta virðist vera kröftugt gos í byrjun.“
Það verður að gera ráð fyrir því að hraun geti bæði runnið í átt að Grindavík og á varnargarðana. Víðir biður fólk um að halda sig heima, gefa viðbragðsaðilum tíma til að ná utan um þetta verkefni. Ekki æða út á Reykjanesbraut, sem dæmi.
„Þetta er ekki túristagos sem við erum að horfa á.“
Íbúar í Njarðvík láta vatn renna í baðkör
Fréttastofu barst ábending þess efnis að íbúar í Njarðvík séu farnir að láta vatn renna í baðkör, væntanlega af ótta við vatnsleysi.
Fréttirnar fljótar að berast til erlendra miðla
Norrænu fjölmiðlarnir voru snöggir að bregðast við fréttum af eldgosinu á Reykjanesskaga. Danska ríkisútvarpiðgreinir frá því að Grindavík hafi verið rýmd.
Norska ríkisútvarpið deilir beinu vefmyndavélinni frá RÚV á vef sínum.
Efsta frétt á vef sænska ríkissjónvarpsins SVT er um eldgosið og fréttastofan þar á bæ er með lifandi fréttavakt líkt og hér.
Finnar fylgjast einnig vel með stöðu mála og eru með fréttina efst í sérstökum borða á vef ríkismiðilsins YLE.
Sky News og Daily Mail voru fyrst bresku fjölmiðlanna að taka við sér. Daily Mail segir stærðarinnar hraunslettur skjótast upp úr jörðinni. Umfjöllun BBCer að hefjast.
Mynd frá Garði
Eldgosið séð frá Garði.
Staðsetning eldgossins á korti
Eldgosið sem hófst fyrr í kvöld er við Sundhnúka norðan við Grindavík við Hagafell. Gera má ráð fyrir að það gjósi á sprungunni undir Sundhnúkagígum.
Enn hefur nákvæm staðsetning eldgossins ekki fengist staðfest. Fulltrúar almannavarna fljúga yfir gosstöðvarnar í þessum rituðu orðum.
Biður fólk sem gæti verið í Grindavík að yfirgefa bæinn
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, ræddi við fréttastofu að loknum stöðufundi nú fyrir skömmu.
„Við sáum fyrstu merki um þetta á níunda tímanum í kvöld og svo gerist þetta hratt. Þetta virðist vera frekar stórt, svona að sjá. Þyrla Gæslunnar er að fara í loftið og þá fáum við betri upplýsingar þegar vísindafólk sér þetta. Ef einhver er ennþá í Grindavík þá vil ég biðja þá um að yfirgefa bæinn, aðra en viðbragðsaðila. Við vitum að fólk hefur verið þar.“
Eru líkur á því, nú átti bærinn að vera rýmdur klukkan níu?
„Við sáum í fréttum að fólk var í bænum og ætlaði að vera þar áfram.“
Fólk sem ætlar að yfirgefa Grindavík er bent á að fara Suðurstrandarveginn.
Mynd frá Vogum
Eldgosið séð frá Vogum.
Aukafréttatími innan skamms
Aukafréttatími verður sendur út innan skamms í sjónvarpi þar sem greint verður frá eldgosinu. Verið er að undirbúa útsendingu og fréttafólk á leiðinni að gosstöðvunum.
Myndir eða myndböndaf eldgosinu?
Tókst þú myndir eða myndbönd af eldgosinu?
Sendu okkur á netfangið frettir@ruv.is.
Hætta á að hraun renni til Grindavíkur
„Þetta eldgos hófst líklega svona 20 mínútur yfir tíu. Þá sáum við fyrstu merki um gosóróa. Svo hefur rifnað þarna ansi löng sprunga. Þetta virðist vera á þessari Sundhnúkagígaröð. Við erum núna að senda fólk í loftið með Gæslunni að mæla nákvæmlega þessa sprungu. En það sem við sjáum frá Reyjavík, við sjáum vel þennan gosbjarma. Ansi háir gosstrókar sem sjást á vefmyndavélum,“ segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands. Hún ræddi við Ragnhildi Thorlacius á Rás 2 fyrir skömmu.
Aðspurð hversu nálægt byggð þetta er þá segir Kristín erfitt að segja til um það á meðan ekki er búið að fá nákvæmar mælingar. Gosið virðist hins vegar hafa hafist réttu megin við varnargarðana, eins og Kristín orðaði það. Líklegast er að þetta sé kvikan sem hafði skapað þenslu við Svartsengi frá í síðasta mánuði.
„Þetta var talsvert mikil kvika sem var komin. Það er oft í svona gosum að þau eru kröftugust í upphafi, og við sjáum mjög kröftuga virkni núna. Við fylgjumst svakalega vel með núna næstu klukkutímana.“
Það er hætta á að hraun renni til Grindavíkur?
„Já, það er hætta á því.“
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, fylgist með fréttum
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segist fylgjast með fréttum og bíða eftir frekari upplýsingum.
Hann segir að aðdragandi gossins hafi ekki verið mikill þar sem skjálftahrinan stóð ekki lengi yfir áður en gosið hófst.
Hann telur að bærinn hafi verið mannlaus þegar gosið hófst.
Lögreglustjórinn segir að enginn eigi að vera í hættu
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðrnesjum, segir að enginn eigi að vera í hættu vegna eldgossins eins og staðan er núna. Björgunarsveitir verða kallaðar út og svæðið fært yfir á neyðarstig. Fyrsta sem lögreglan hugar er að setja allt viðbragð af stað.
Neyðarstigi lýst yfir
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, hefur ákveðið að fara neyðarstig Almannavarna vegna eldgoss á Reykjanesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.
Þar segir jafnframt að samhæfingastöð Almannavarna hafi verið virkjuð.
Almannavarnir biðja almnenning að fara ekki á staðinn á meðan viðbragðsaðilar meta stöðuna.
Rauður himinn
Eldgosið séð frá Grandavegi í Reykjavík.
Stór sprunga sést frá Njarðvík
Þorgils Jónsson fréttamaður tók þetta myndband af sprungunni ofan af turninum í Krossmóa í Njarðvík. Hann segir greinilegt að sprungan sé að lengjast í áttina að Grindavík.
„Worst case scenario,“ segir Benedikt
Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, segir að gosið sé eins nálægt landrisinu og kvikuganginum og hugsast getur. Hann segir fyrirvarinn afar stuttur, þau hafi gefið sér fjóra tíma og það virðist vera að standast en hann hafi þó átt von á meiri fyrirvara. Hann kallar þetta „worst case scenario“.
Fólk beðið um að rýma Reykjanesbraut
Lögreglan á Suðurnesjum biður fólk að rýma Reykjanesbrautina. Henni hefur verið lokað.
Versta mögulega staðsetning, segir Þorvaldur
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir að við fyrstu sýn sé þetta versta staðsetning bæði fyrir Grindavík og fyrir Svartsengi. Hann segir þetta vera eina af þessum sviðsmyndum. Tekið hafi að draga úr skjálftum. „Teygjan var komin í botn þangað til að hún slitnar.“ Þorvaldur ítrekar að þetta sé við fyrstu sýn en hann giskar á að hæstu strókarnir séu um hundrað metrar að hæð og gosið sé nokkuð öflugt.
Fréttavakt á Rás 2
Eins og við sögðum fyrr í kvöld er á fullu undirbúningur aukafréttatíma í sjónvarpi. Á Rás 2, líkt og á vefnum, eru stöðugt fluttar nýjustu fréttir af eldgosinu. Þar er rætt við sérfræðinga og farið yfir stöðuna.
Kanna nákvæma staðsetningu
„Eldgos er hafið norðan við Grindavík. Það sést á vefmyndavéĺum og virðast vera staðsett nærri Hagafelli.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá náttúruvársérfræðingi Veðurstofu Íslands.
„Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið innan skamms til þess að staðfesta nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins. Nánari upplýsingar verðar aðgengilegar fljótlega.“
Myndin að ofan er tekin í Njarðvík.
Aukafréttatími í sjónvarpi
Undirbúningur er hafinn að aukafréttatíma í sjónvarpi sem hefst eins fljótt og auðið er.
Fyrstu myndir af eldgosinu í sjónvarpi voru sýndar í Silfrinu skömmu eftir að það hófst.
Fjórða eldgosið á þremur árum
Eldgos hófst milli Sýlingarfells og Hagafells á Reykjanesskaga, norðvestur af Grindavík, upp úr klukkan tíu í kvöld. Þetta er fjórða eldgosið á Reykjanesskaga á þremur árum. Um klukkustund áður en jörð rofnaði og kvikan streymdi upp á yfirborðið hófst skjálftahrina í kvikuganginum.