Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Samantekt

Land rís hraðar í Svartsengi en áður en kvikugangurinn myndaðist

Vefritstjórn

,
21. nóvember 2023 kl. 6:55

Samantekt síðasta sólarhrings

  • Skjálftavirknin hefur verið nokkuð stöðug. Tæplega 90 jarðskjálftar hafa mælst nærri kvikuganginum undir Grindavík frá miðnætti. Næmni mælitækja á litla jarðskjálfta er minni en ella vegna veðurs.
  • Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, segir það erfitt að meta hvenær tjónamat í Grindavík eigi að hefjast þar sem jarðhræringar séu enn í gangi.
  • Kallað er eftir mataraðstoð fyrir viðbragðsaðila og björgunarsveitir sem starfa í kringum Grindavík. Hægt er að hafa samband við framtakið í gegnum tölvupóst á netfanginu matargjafir@landsbjorg.is og láta vita hvað verið sé að bjóða upp á.
  • Nýjasta hættumatskort Veðurstofu Íslands sýnir nýjustu svæðaskiptingu hættusvæða nærri Grindavík. Svæðin eru þrjú og flokkast í A, B og C.
  • Viðskiptaráðherra lofaði í gær býsna hressilegum viðbrögðum stjórnvalda grípi fjármálastofnanir ekki til frekari aðgerða.
  • Nýjar gervitunglamyndir af Svartsengi og kvikuganginum sýna skýr merki um landris í Svartsengi á sömu slóðum og landris hafði mælst áður en kvikugangurinn myndaðist föstudaginn 10. nóvember.
  • Á Ísland.is er þjónustugátt sem heitir Fyrir Grindvíkinga. Þar er hægt að nálgast ýmsar upplýsingar, sækja um að komast inn í Grindavík og leggja fram beiðni um húsnæði fyrir þau sem ekki hafa öruggt húsnæði fram yfir miðjan janúar. Þar er einnig hægt að finna símanúmer og netfang þjónustumiðstöðvarinnar í Tollhúsinu.

Við lokum þessari fréttavakt en höldum áfram að flytja nýjustu fréttir af jarðhræringum á Reykjanesskaga hér.

21. nóvember 2023 kl. 1:50 – uppfært

Jarðskjálftavirknin nokkuð stöðug í nótt

Uppundir 90 jarðskjálftar hafa mælst nærri kvikuganginum undir Grindavík frá miðnætti. Undanfarinn sólarhring voru skjálftarnir ríflega eitt þúsund. Sá stærsti var 2,7 að stærð fyrir laust eftir klukkan eitt aðfaranótt mánudags.

Skjálftavirknin er nokkuð stöðug en hafa ber í huga að næmni mælitækja á litla jarðskjálfta er minni en ella vegna veðurs. Þannig skýrist betur þegar lygnir hvert umfang skjálftanna hefur verið. Engin merki eru um gosóróa að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

21. nóvember 2023 kl. 0:04

Erfitt að segja hvenær tjónamat hefst í Grindavík

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, segir það erfitt að meta hvenær tjónamat í Grindavík eigi að hefjast þar sem jarðhræringar séu enn í gangi. Aðstæður séu þannig að tjón geti breyst dag frá degi. Þetta sé ástand sem stofnunin hafi aldrei áður verið í.

Hulda Ragnheiður segir að notast sé aðallega við tvær leiðir til að meta tjónið. Það séu hefðbundnar vettvangsskoðanir og svo þrívíddarmyndir teknar með dróna.

„Við byrjuðum strax í síðustu viku að fá aðila með þrívíddardróna sem er búinn að mynda allan bæinn,“ segir Hulda Ragnheiður og bendir á að mikil vinna sé framundan í eftirvinnslu á þeim myndum sem teknar hafa verið.

„Þetta hjálpar okkur mikið í atburði sem tekur svona langan tíma. Hægt er að leggja myndirnar í lögum hver ofan á aðra og sjá breytingar sem eru undir. Það er líka hægt að leggja þessar myndir ofan á eldri myndir af Grindavík,“ segir hún.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands.
RÚV

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands

Þetta hjálpi til við að sjá skekkjur og halla á húsum og gera þær breytingar sem orðið hafa á bænum greinilegar. Hægt verði svo að skoða hverja eign þegar búið sé að vinna úr þrívíddarmyndunum.

Þetta verði unnið samhliða hefðbundnu tjónamati þar sem matsaðilar mæta á staðinn. Þrjú teymi fóru til Grindavíkur á laugardaginn til að leggja mat á tjón eigna. Þar voru skoðaðar um tuttugu eignir sem stofnunin hafði vísbendingar um að væru mest skemmdar.

„Við komumst ekki í það að skoða allar eignir en við ákváðum að fara til að fá tilfinningu fyrir því hversu alvarlegt þetta væri,“ segir Hulda Ragnheiður.

Nokkrar af þeim eignum sem skoðaðar voru eru taldar svo skemmdar að ekki verði hægt að gera við þær en einnig séu eignir sem eru lítillega skemmdar.

20. nóvember 2023 kl. 22:46

Kalla eftir mataraðstoð fyrir viðbragðsaðila og björgunarsveitir

Kallað er eftir mataraðstoð fyrir viðbragðsaðila og björgunarsveitir sem starfa í kringum Grindavík. Íris Dögg Ásmundsdóttir, aðgerðastjórnandi á Suðurnesjum segir nauðsynlegt að hafa nægan mat svo aðgerðir gangi vel.

„Það þarf að gefa viðbragðsaðilum að borða sem eru að standa vaktina í Grindavík og koma íbúum inn á svæðið,” segir hún. „Við viljum ekki hafa svanga aðila gangandi um eins og uppvakningar. Okkur vantar mikla hjálp við að mata þetta fólk og allt er vel þegið.”

Í kringum 40 – 50 manns séu vinnandi hverjan dag segir Íris og mikinn mat þurfi til að halda starfseminni gangandi.

Um það hvort framtakið sé aðallega hugsað fyrir fyrirtæki eða einstaklinga segir Íris að í raun geti allir hjálpað.

„Bara bæði, ef einhver er til dæmis ótrúlega klár í að baka þá eru hér margir sælkerar. Við erum tilbúin að vera í samskiptum við fólk og sjá hvað það hefur í huga,“ segir hún.

Hægt er að hafa samband við framtakið í gegnum tölvupóst á netfanginu matargjafir@landsbjorg.is og láta vita hvað verið sé að bjóða upp á.

20. nóvember 2023 kl. 20:41 – uppfært

Telur að hægt væri að snúa aftur til Grindavíkur með litlum fyrirvara

Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður hjá Björgunarsveitinni Þorbjörn og fyrrum formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjörg var gestur í Kastljósi í kvöld og fór þar yfir stöðuna hjá björgunarsveitum sem taka þátt í aðgerðum í Grindavík.

„Við höfum það bara svona Grindavíkurgott,“ segir Otti Rafn um það hvernig björgunarsveitarfólk hafi það almennt. „Það eru allir heilir og það slasaðist enginn en ástandið er vissulega frekar glatað. Þannig að Grindavíkurgott er kannski einhvers konar mælikvarði sem fólk gæti skilið,“ segir hann.

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Landsbjörg

Otti Rafn Sigmarssonar björgunarsveitarmaður hjá Björgunarsveitinni Þorbjörn

Staðan í Grindavík heilt yfir góð

Um stöðuna í Grindavík sjálfri segir Otti Rafn að litlar skemmdir hafi í raun orðið í bænum þrátt fyrir jarðhræringarnar.

„Staðan er bara býsna góð miðað við allt. Það er eðlilegt að það séu skilgreind hættusvæði þar sem eldgos er yfirvofandi. Það er öryggisins vegna sem svæðið er lokað,“ segir Otti og tekur fram að bærinn sé mikið tjónaður á afmörkuðu svæði og nefnir að ekki séu margar myndir af mismunandi sprungum þar sem sprungurnar séu ekki mjög margar í raun.

„Til dæmis eru leikskólarnir í fínu lagi, íþróttamannvirki í fínu lagi. Grunnskólinn er lítið laskaður í einni álmunni,“ segir Otti Rafn sem telur að heilt yfir væri hægt að snúa til baka í þessar byggingar með mjög stuttum fyrirvara.

20. nóvember 2023 kl. 19:40 – uppfært

Þarf að taka mið af sprungum við mannvirkjagerð

Það er frekar líklegt að atburðirnir á Reykjanesskaganum undanfarin fjögur ár marki upphaf virks tímabils eldgosa þar, að mati Páls Einarssonar prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. „Það er í sjálfu sér ekkert rosalega hræðilegt,“ bætir hann við. Rætt var við Pál í Speglinum í kvöld. Hægt er að hlýða á viðtalið hér. „Þessi gosvirkni sem þarna er, er ekki af því tagi sem veldur miklu manntjóni eða gríðarlegu tjóni. Þetta eru hraungos, yfirleitt alltaf og hraungos eru með mildari eldgosavá sem þekkt er í heiminum,“ segir Páll. „Við erum ekki að búast við neinu sprengigosi, þannig að það er ástæðulaust að fara alveg á límingunum þó að menn búist við kannski 10-20 hraungosum á næstu 200-300 árum.“

Páll Einarsson, jarðfræðingur.
RÚV / Kveikur

Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði

Í Speglinum var rætt við Pál um samanburð á þessum eldum á Reykjanesskaganum við Kröfluelda fyrir um 40 árum og hvort reynslan úr Kröflueldum geti sagt eitthvað til um hvers sé að vænta við Svartsengi.

Atburðurinn í og við Svartsengi er mjög flókinn að sögn Páls. Tjónið sé vegna sprungna, ekki jarðskjálfta. Taka þurfi mið af sprungum við mannvirkjagerð og það hefði átt að gera af meiri alvöru fyrir löngu.

20. nóvember 2023 kl. 19:29

Viðbrögð við landlægu kalli björgunarsveita góð

„Viðbrögð björgunarsveita hafa verið góð það sem af er degi,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjörg, um hið landlæga útkall sem út fór til björgunarsveita í dag. Hann undirstrikar að skilning þurfi frá atvinnuveitendum svo fólk geti fengið frí frá vinnu til að sinna kallinu.

Ákallið sé ekki tilkomið vegna erfiðleika að manna stöður í Grindavík.

„Nei, það er kannski ekki erfitt en það er vissulega kominn tími til að dreifa álaginu. Til að þeir sem hafa staðið vaktina síðan bærinn var rýmdur fái hvíld,“ segir hann.

Um það að nú fari að styttast til jóla og annarra hátíða segir Jón Þór það vissulega erfitt.

„Þetta er ekki besti tíminn á árinu til að fá svona stóran atburð. En við höfum ekkert val, við verðum bara að fást við hann,“ segir hann.

Jón Þór segir að björgunarsveitir séu enn tilbúnar að bregðast við þeim útköllum sem upp gætu komið annars staðar á landinu.

„Já það teljum við vera, það eru ekki allir björgunarsveitaraðilar í Reykjavík á sama tíma í Grindavík. Við höfum alltaf upp á eitthvað að hlaupa,“ segir hann.

Jón Þór Víglundsson er upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
RÚV

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjörg.

20. nóvember 2023 kl. 16:59

Nýtt hættumatskort Veðurstofu Íslands

Nýjasta hættumatskort Veðurstofu Íslands sýnir nýjustu svæðaskiptingu hættusvæða nærri Grindavík. Um þrjú svæði er að ræða sem flokkast í A, B og C.

Hættusvæðið hefur verið stækkað eftir athugun á nýjustu gervitunglamyndum af svæðinu og samtal við Almannavarnir Íslands.

Hættumatskort Veðurstofu Íslands sem sýnir hættusvæði nærri Grindavík. Svæðinu er skipt upp í þrjú svæði eftir hvaða hætta steðjar að á hverjum stað. Hættusvæðin nefnast A, B og C.
Veðurstofa Íslands

20. nóvember 2023 kl. 16:18 – uppfært

Eldað allan daginn fyrir viðbragðsaðila

Meðlimir slysavarnadeildarinnar Dagbjargar hafa unnið að matargerð síðan á laugardaginn eftir að jarðhræringar hófust fyrir viðbragðsaðila nærri Grindavík.

„Við erum að elda mat fyrir viðbragðsaðila á svæðinu. Við erum að elda heitan mat og búa til samlokur og senda á þær stöðvar og pósta þar sem björgunarsveitir og viðbragðsaðilar eru á,“ segir Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir formaður Dagbjargar og einn af stofnendum sveitarinnar.

Að sögn Kristbjargar er eldað allan daginn og boðið upp á heita máltíð fyrir alla viðbragðsaðila í hádeginu og kvöldmat fyrir aðgerðastjórn. Framtakið er rekið á matvælastyrkjum og leitar Björgunarsveitin Dagbjörg nú að fleiri styrktaraðilum. Kristbjörg segir gott að geta verið til aðstoðar á tímum sem þessum.

„Þetta er náttúrulega rosalega gefandi að vera í slysavarnardeild og hefur gert og maður er einn af stofnendum og við elskum að aðstoða fólk sem þarf á því að halda,“ segir hún.

Viðtalið við Kristbjörgu má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

20. nóvember 2023 kl. 16:05

Ráðherra lofar býsna hressilegum viðbrögðum stjórnvalda

Viðskiptaráðherra lofaði býsna hressilegum viðbrögðum stjórnvalda grípi fjármálastofnanir ekki til frekari aðgerða, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi sem hófst klukkan þrjú.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, út í aðgerðir fjármálastofnanna vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Grindvíkingurinn Sigríður María Eyþórsdóttir skrifaði grein á Vísi 15. nóvember, þar sem hún sagði tilboð bankana um að frysta húsnæðislán Grindvíkinga gagnsæja blekkingu „til að nýta sér hörmungar sem nú dynja yfir heilt sveitarfélag og skara eld að sinni köku.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, á Alþingi 20. nóvember.
Alþingi

Lilja sagði í svari sínu til Þórhildar Sunnu að stjórnvöld séu að ræða við fjármálastofnanir vegna stöðunnar í Grindavík. „Ég hef lýst því yfir að ég telji að fjármálastofnanir séu ekki að sýna fulla samfélagslega ábyrgð með því að rukka vexti og verðbætur og skilaboðin sem Grindvíkingar fengu í síðustu viku voru býsna köld.“

Fastlega megi gera ráð fyrir því að sjá aðgerðir í þessari viku svo fjármálastofnanir sýni fulla samfélagslega ábyrgð. „Nú er það svo að það er fjármálaráðherra sem fer með þessi mál í ríkisstjórninni og ég með neytendamálin. Sjáum við ekki frekari aðgerðir núna á allra næstu dögum þá verðum við auðvitað að grípa til þeirra ráða sem við höfum hér og ég útiloka ekkert að það verði bara býsna hressilegt.“

20. nóvember 2023 kl. 15:38

Byggingar bogna á mörkum sigdalsins

Myndir teknar í Grindavík í dag sýna sigdali og skurði í bænum.

Á nokkrum stöðum má sjá húsgrunna síga og byggingar bogna. Djúpir skurðir liggja í gegnum bæinn á eystri og vestri mörkum sigdalsins.

20. nóvember 2023 kl. 15:11

Afköst verðmætabjörgunar að aukast

Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum og aðgerðarstjóri, segir að mest hafi verið einblínt á verðmætabjörgun í Grindavík í dag. Bæði hjá fólki og fyrirtækjum.

Helst hafi farið fram verðmætabjörgun í heimahúsum á rauða svæðinu og svo hjá fyrirtækjum utan þess.

„Aðstæður breytast skjótt eins og við höfum séð síðustu dag. Í gærkvöldi bárust þær upplýsingar til okkar að mikið landris væri á Svartsengissvæðinu,“ segir Gunnar en landrisið hafi átt sér stað við þá leið sem lögregla nýtti til að taka íbúa inn á svæðið. Því hafi þurft að breyta snarlega um staðsetningu en fólk sé nú tekið inn um Suðurstrandaveg.

Gunnar segir það hafa gengið framar vonum að koma fólki inn í Grindavík. „Þetta er smurðara og afköstin hafa verið að aukast en þetta er háð mörgum þáttum eins og mönnun,“ segir Gunnar sem telur mönnun nokkuð góða. „Við teljum okkur geta leyst þau verkefni sem við stefndum að í dag,“ segir hann.

Ný skráning tekin í gagnið

Ný skráning í verðmætabjörgun sé nú komin í gagnið á island.is þar sem hægt er að biðja um leyfi til að komast inn í bæinn. „Við misstum þetta aðeins úr böndunum fyrstu dagana á meðan við vorum að þróa verkferlana í kringum þetta en teljum okkur hafa góða yfirsýn yfir þetta núna og vonandi áfram,“ segir hann.

Hægt er að sjá viðtalið við Gunnar í heild sinni hér fyrir neðan.

20. nóvember 2023 kl. 14:05

Gerir ráð fyrir að flestir hafi komist að sækja verðmæti

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, gerir ráð fyrir því að flestir íbúar hafi nú þegar komist að heimilum sínum. Þeir sem enn eiga eftir að komast inn í bæinn hljóti að komast inn fljótlega.

20. nóvember 2023 kl. 14:03

Fjórir safnskólar í Reykjavík fyrir börn úr Grindavík

20. nóvember 2023 kl. 13:02

Skýr merki um landris í Svartsengi

Um 700 jarðskjálftar hafa mælst nærri kvikuganginum. Sá stærsti var 2.7 að stærð.

Nýjar gervitunglamyndir af Svartsengi og kvikuganginum ásamt öðrum gögnum voru til umræðu á samráðsfundi sérfræðinga Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og Almannavarna í morgun. Á gervitunglamyndunum má sjá skýr merki um landris í Svartsengi á sömu slóðum og landris hafði mælst áður en kvikugangurinn myndaðist föstudaginn 10. nóvember. Einnig benda gögn til þess að landrisið í Svartsengi sé talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.

Þrátt fyrir skýr merki um landris í Svartsengi breytir það ekki líkunum á því að það gjósi á kvikuganginum. Jarðskorpan yfir kvikuganginum er miklu veikari en jarðskorpan yfir landrisinu í Svartsengi auk þess sem hún liggur grynnra.

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að áframhaldandi landris við Þorbjörn í kjölfar myndunar kvikugangsins, sýni að við erum ennþá í miðri atburðarás. Áfram þurfi að gera ráð fyrir því að þessi atburðarás á svæðinu geti breyst með litlum fyrirvara.

COSMO-Skymed bylgjuvíxlmynd frá 18 - 19 nóvember kl. 06:41. Merki um landris sést í appelsínugulu/rauðu litunum í kringum Svartsengi sem gefur til kynna djúpa þenslu (>5 km).
Veðurstofan

Bylgjuvíxlmynd frá 18. - 19. nóvember kl. 06:41. Merki um landris sést í appelsínugulu/rauðu litunum í kringum Svartsengi sem gefur til kynna djúpa þenslu.

20. nóvember 2023 kl. 11:30

Áfallahjálp fyrir börn

Foreldrar eru hvattir til þess að koma í þjónustumiðstöðina í Tollhúsinu þar sem sálrænn stuðningur er veittur. Jafnframt er verið að setja upp námskeið þar sem foreldrar geta skráð sig.

20. nóvember 2023 kl. 11:28

Málefni leikskólabarna

Búið er að kortleggja laust húsnæði svo hægt sé að starfrækja safnleikskóla. Lagt verður upp með að Grindvísk leikskólabörn komi saman með kennurum sem þau þekkja og jafnvel foreldrum í byrjun til að auka öryggi barna.

Frekari upplýsingar um framhaldið koma á næstu dögum.

20. nóvember 2023 kl. 11:20 – uppfært

Málefni grunnskólabarna

Ekki er skólaskylda fyrir Grindvísk börn en okkur ber skylda til þess að veita þeim tækifæri á að sækja skóla og unnið er að því með aðstoð nágrannasveitarfélaga.

Aðstæður barna eru misjafnar og hvetur foreldra til þess að eiga opið samtal við börnin sín um skólagöngu þeirra.

Tvær leiðir eru í boði. Öllum börnum býðst að ganga í skóla þar sem fjölskyldan dvelur nú. Til þess að innrita barn í hverfisskóla þurfa foreldrar að hafa beint samband við skólastjórnendur þess skóla.

Öll börn í Grindavík geta sótt safnskóla, saman í nokkrum hópum á mismunandi stöðum í Reykjavík. Lagt er upp með að þeir hefjist næsta miðvikudag.

Skipt verður eftir aldri og kennarar úr Grindavík fylgja nemendum.

Hóparnir munu hittast á eftirfarandi stöðum:

Fyrsti og annar bekkur verður saman í skólahúsnæði við Hvassaleitisskóla.

3. og 4. bekkur verður saman í skólahúsnæði við Tónabæ.

5. -8. verður saman í skólahúsnæði við Ármúla 30.

9. og 10. bekkur verður saman í skólahúsnæði í Laugalækjarskóla.

Nánari upplýsingar koma í dag á Mentor en það er ekki skylda að mæta.

20. nóvember 2023 kl. 11:15

Þjónustugátt á Ísland.is

Á Ísland.is er þjónustugátt sem heitir Fyrir Grindvíkinga.

Þar verður að finna ýmsar upplýsingar og í dag er hægt að sækja um að komast inn í Grindavík og beiðni um húsnæði fyrir þau sem ekki hafa öruggt húsnæði fram yfir miðjan janúar. Þar var ákveðið að opna strax og bætt verður í eftir því sem fram vindur.

Þar er hægt að finna símanúmer og netfang þjónustumiðstöðvarinnar.

20. nóvember 2023 kl. 11:11

Starfsemi Þjónustumiðstöðvarinnar í Tollhúsinu

Þjónustumiðstöðin er opin frá 10-18 og hundrað manns sækja hana daglega.

Markmið með henni er að hafa stuðning og ráðgjöf á einum stað.

Alla jafna er þjónustumiðstöðin ekki opin fjölmiðlafólki. Í dag fá þó fjölmiðlar að koma í heimsókn á milli 17-18.

Í þjónustumiðstöðinni býður Rauði krossinn upp á sálfélagslegan stuðning. Í svona aðstæðum þarf fólk ráðgjöf af ýmsu tagi.

Í dag hafa fulltrúar frá NTÍ og Vinnumálastofnun komið sér fyrir í þjónustumiðstöðinni og veita ráðgjöf.

20. nóvember 2023 kl. 11:06

Upplýsingar frá Veðurstofunni

Gervitunglamyndir sýna breytingar og skýr merki um landris. Þetta er í samræmi við það sem hefur verið í gangi við Svartsengi.

Merki um landris í Svartsengi minnkar ekki líkur á að það gjósi í kvikuganginum. Það er metið út frá því að jarðskorpan yfir kvikuganginum er mun sprungnari en í Svartsengi og einnig liggur hún grynnra. Ekki miklar líkur á gosi við Svartsengi.

Landris við Þorbjörn sýnir að við séum enn í miðri atburðarás og staðan geti breyst án fyrirvara.

20. nóvember 2023 kl. 10:49

Galli í myndvinnslu setti rauða punkta í sprunguna

Netverjar veltu vöngum yfir því sem virtist vera rauður bjarmi í sprungunni í miðbæ Grindavíkur í kvöldfréttum sjónvarps í gær. Tæknimenn RÚV sem greindu myndirnar í morgun hafa nú skorið úr um þetta mál, eins og náttúruvársérfræðingur gerði í gærkvöldi: Þarna er engin kvika, bara galli myndunum.

Skjáskot úr kvöldfréttum RÚV 19. nóvember 2023 sem sýnir loftmynd tekna yfir bílastæði íþróttahúss Grindavíkur. Rauður bjarmi í sprungu á stæðinu vakti mikla athygli og vangaveltur um hvort kvika væri á leið til yfirborðs. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands taldi það harla ólíklegt enda engin merki í mælitækjum um að kvika væri komin til yfirborðs. Tækin hafi heldur ekki sýnt nokkurn gosóróa.
Skjáskot/RÚV

Myndirnar sem Guðmundur Bergkvist, fréttatökumaður RÚV, tók á laugardaginn með dróna fréttastofunnar sýna ekki þennan rauða bjarma. Drónanum var flogið norður yfir sprunguna í gegnum Grindavík frá sjó og upp á land.

Brot úr þessu myndskeiði sem sent var út var litaleiðrétt, eins og venja er með allar myndir sem sendar eru út í sjónvarpi, og í því ferli hafa myndvinnsluforritin sett rauða punkta í myndirnar þar sem myndin er alveg niðasvört.

„Þetta er bara galli í myndvinnslunni,“ segir Birgir Þór Harðarson, vefstjóri RÚV. „Það eru rauðir punktar víðar í þessar mynd. Þegar maður rýnir í myndina sjást þessir punktar mjög greinilega og það er ekkert náttúrulegt við þá.“

Drónamyndirnar hans Guðmundar eru mjög flottar og merkilegt að sjá sprunguna alla, þvert í gegnum bæinn. Hér að neðan er myndskeiðið hrátt, engin litaleiðrétting og í heild.

20. nóvember 2023 kl. 10:27 – uppfært

15 bílar bíða við lokunarpóst

Við lokunarpóst á Suðurstrandarvegi.
RÚV / Anna Lilja Þórisdóttir

Við lokunarpóst á mótum Krýsuvíkurvegar og Suðurstrandavegar bíða 15 bílar eftir því að fá að komast inn í Grindavík.

Björgunarsveitarfólk tekur á móti fólki við bílastæði við Fagradalsfjall og það sem það verður flutt heim til sín. Áréttað er að þetta á aðeins við þau sem hafa fengið boð um að mæta en áfram verður unnið að skipulagningu móttöku fleiri íbúa.

Gott er að hafa í huga að við þessar breytingar gæti orðið meiri bið eftir að komast inn til Grindavíkur. Fólk er jafnframt beðið um að sýna þolinmæði, biðlund og umburðarlyndi gagnvart þeim sem taka á móti því, þar sem sem færri verða að störfum en verið hefur undanfarna daga.

20. nóvember 2023 kl. 10:18 – uppfært

Upplýsingafundur Almannavarna í dag klukkan 11

Upplýsingafundur Almannavarna verður haldinn í dag, mánudag klukkan 11.

Streymt verður frá fundinum á vef RÚV, í sjónvarpi og á Rás 2. Fundurinn verður táknmálstúlkaður á RÚV2.

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri endurreisnar hjá Almannavörnum fer yfir starfssemi Þjónustumiðstöðvar Almannavarna sem opnuð var sl. miðvikudag. Grindvíkingar hafa í ríkum mæli nýtt sér þjónustuna sem í boði er og sú þjónusta vex með degi hverjum.

Jóhanna Lilja Birgisdóttir, yfirsálfræðingur á félagsþjónustu- og fræðslusviði hjá Grindavíkurbæ fer yfir stöðu mála í skólamálum vegna atburðanna í Grindavík.

Fundinum stýrir Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna.

20. nóvember 2023 kl. 9:04

Íbúar fá að vitja 120 húsa í dag

Nú klukkan níu var opnað inn í Grindavík fyrir þá íbúa sem hafa skráð sig á island.is og fengið boð um það. Að þessu sinni er fólki hleypt inn um lokunarpóstinn á Suðurstrandarvegi , en ekki Grindavíkurveg eins og síðustu daga. Viðbragðsaðilar flytja íbúa frá söfnunarstað utan Grindavíkur að heimilum og til baka.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að eigendum 120 fasteigna verður hleypt inn í bæinn í dag, en eftir kl. 15 fá fyrirtæki að fara inn á svæðið.

Íbúum Grindavíkurbæjar er bent á góða upplýsingagjöf á heimasíðu Grindavíkurbæjar www.grindavik.is og heimasíðu almannavarna www.almannavarnir.is

Til athugunar fyrir íbúa:

  • Ekki fara ef þú þarft ekki nauðsynlega að fara
  • Skráið niður lista yfir það sem þið hyggist sækja áður en lagt er af stað
  • Munið eftir húslykli
  • Poka eða annað undir muni
  • Íbúar hafa stuttan tíma inni á heimilum
20. nóvember 2023 kl. 7:04 – uppfært

Helstu fréttir síðasta sólarhrings

  • 460 jarðskjálftar hafa mælst við kvikuganginn frá miðnætti, sá stærsti 2.7 að stærð.
  • Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafund klukkan 11 í dag.
  • Þeir Grindvíkingar sem fengið hafa boðun um að vitja eigna sinna í dag eiga að koma eftir Suðurstrandavegi en ekki Grindavíkurvegi og Norðurljósavegi eins og áður.
  • Bylgjuvíxlmynd frá Veðurstofu Íslands sýnir aukinn hraða í landrisi á svæðinu umhverfis Svartsengi.
  • Ráðherrar ríkisstjórnarinnar, fulltrúar ráðuneyta, sveitarstjórnarfólk, starfsfólk Grindavíkurbæjar, ríkislögreglustjóri og fulltrúar viðbragðsaðila verða í þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga, að Tryggvagötu 19, í dag frá klukkan 16-17.
  • Upplýsingafulltrúi Rauða krossins, hvetur íbúa Grindavíkur að leita eftir hjálp finni þeir fyrir vanlíðan. Íbúar geta haft samband við hjálparsímann 1717 og netspjallið www.1717.is.
Loftmynd af Grindavík frá sjó 19.11
Vilhelm Gunnarsson

Loftmynd af Grindavík frá sjó.

Tengdar fréttir