Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Langþreytt á biðinni eftir nýju hjúkrunarheimili

Ólöf Rún Erlendsdóttir

Framkvæmdir við hjúkrunarheimili á Húsavík, sem til stóð að yrði íbúðarhæft á næsta ári, eru um þremur árum á eftir áætlun. Eldri borgarar á Húsavík segjast orðnir langþreyttir á töfunum.

Undir lok árs 2021 var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili sem átti að bylta þjónustu við eldra fólk á Húsavík. Síðan eru liðin tvö ár og hér hefur lítið breyst.

Hjúkrunarheimilið hefur síðustu ár farið langt fram út kostnaðaráætlun, eða úr tveimur komma tveimur milljörðum í yfir fimm milljarða. Þá varð að endurmeta stöðuna og öll áform stöðvuð á meðan.

Sveitarfélögin sem standa að byggingunni; Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur, undirrituðu loks nýja samninga við ríkið í vor eftir talsvert langar viðræður um skiptingu kostnaðar og nú stendur til að bjóða verkið út.