Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Samantekt

Bjarni Benediktsson segir af sér vegna vanhæfis við söluna á Íslandsbanka

Ari Páll Karlsson, Freyr Gígja Gunnarsson og Alexander Kristjánsson

,
10. október 2023 kl. 22:40

Í lok dags

Við förum að loka þessari fréttavakt en fyrst smá samantekt:

  • Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi sem hann boðaði til með skömmum fyrirvara í morgun.
  • Ástæðan var álit umboðsmanns Alþingis um að hann hafi ekki verið hæfur til að samþykkja tillögu Bankasýslunnar um sölu á hlut í Íslandsbanka í mars á síðasta ári.
  • Ekki liggur enn fyrir hver tekur við embætti fjármálaráðherra.
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra styður ákvörðun Bjarna. Hún segir að engar ákvarðanir hafi enn verið teknar um frekari uppstokkun á ráðuneytunum.
  • Stjórnarandstaðan efast um að stjórnin sé fær um að takast á við komandi verkefni í ljósi afsagnar Bjarna.
  • Ákvörðunin kom fjölda fólks í opna skjöldu, ekki síst bandamönnum Bjarna innan ríkisstjórnarinnar. Formaður Framsóknar komst að ákvörðuninni á blaðamannafundinum líkt og aðrir.
  • Kenningar eru um það að Bjarni sækist eftir því að taka við utanríkisráðuneytinu af varaformanni sínum úr Sjálfstæðisflokknum, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, eða þá að aðrar hrókeringar verði innan ríkisstjórnarinnar. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun hvað ráðherrastóla varðar, segir forsætisráðherra.

Við segjum það gott í kvöld. Fréttavakt er lokið.

10. október 2023 kl. 22:29

Skilur eftir fleiri spurningar en svör

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir að of snemmt sé að segja til um hvaða þýðingu afsögn Bjarna Benediktssonar hefur, það fari eftir því hvað gerist í framhaldinu.

Það dragi þó til tíðinda að formaður Sjálfstæðisflokksins segi af sér sem fjármálaráðherra vegna „ályktana frá umboðsmanni Alþingis sem eru það alvarlegar að hann telur sig ekki geta setið áfram“.

„Í dag hafa menn rætt um að þetta geti verið stólaskipti, eða eitthvað svona léttvægt. En þá finnst mér nú þyngdin í því sem var gert í dag þess eðlis að það gangi kannski ekki mjög auðveldlega eftir,“ segir Eiríkur.

Það sé ljóst að ákvörðunin kom flestum á óvart, bæði innan stjórnarandstöðunnar en einnig ríkisstjórnarinnar.

Um þann orðróm um að Bjarni taki við utanríkisráðuneytinu og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðuneytinu, segir Eiríkur að hann krýni þá Þórdísi í raun sem næsta formann flokksins.

„Það er ein leið, en þá hefði maður haldið að þetta yrði allt kynnt í einu.“ Bjarni eigi einnig eftir að tilkynna um hvort hann hyggist sitja áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins og hvort hann sækist eftir öðru ráðherrasæti.

„Satt að segja finnst mér fleiri spurningum ósvarað í þessu máli en svarað.“

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor í stúdíóinnkomu í fréttum 10. október 2023, eftir að Bjarni Benediktsson sagði af sér embætti fjármálaráðherra.
RÚV

10. október 2023 kl. 20:45 – uppfært

Segir ekki rétt að ákvörðunin verði fordæmisgefandi

Katrín kveðst ekki þeirrar skoðunar að málið verði fordæmisgefandi. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa velt fyrir sér í dag hvort afsögn fjármálaráðherra séu skilaboð til Vinstri grænna, þar sér í lagi til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Umboðsmaður Alþingis hefur til skoðunar ákvörðun hennar um að stöðva hvalveiðar í vor.

Telur þú að þessi afsögn sé fordæmisgefandi í sambærilegum málum – það er að segja, ef umboðsmaður Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að embættismaður hafi brotið reglur eða lög í embættisverkum sínum – þá bara hljóti þeir að segja af sér?

„Þessi ákvörðun sem fjármálaráðherra tekur í dag, hún á auðvitað við um þetta einstaka mál.“ Hverju sinni þurfi að skoða aðstæður og eðli mála.

„Þannig ég held að það sé erfitt að tala um eitthvert fordæmisgildi í því.“

Katrín Jakobsdóttir í Kastljósi 10. október 2023.
RÚV

Svandís Svavarsdóttir situr við fundarborð.
RÚV / Ragnar Visage

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

10. október 2023 kl. 20:34

Telur ekki rétt að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd um bankasöluna

Katrín segist ekki þeirrar skoðunar að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd um bankasöluna.

Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir því.

Er ástæða til þess að verða við því núna?

„Ef þetta ferli sýnir okkur eitthvað þá er það nú það að eftirlitsstofnanir bæði þingsins og framkvæmdavaldsins hafa sinnt sínu hlutverki mjög vel.“

Dæmi um það sé skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabankans sem kom út í júní.

„Sama má segja um álit umboðsmanns í dag og um skýrslu Ríkisendurskoðunar á sínum tíma.“

10. október 2023 kl. 20:25

Treystir Bjarna til að sitja áfram í ríkisstjórn

Katrín kveðst treysta Bjarna til þess að sitja áfram í ríkisstjórninni þrátt fyrir að hafa sagt af sér embætti fjármálaráðherra.

„Já, ég geri það,“ sagði forsætisráðherran innt eftir því hvort hann nyti trausts hennar, í viðtali við Bergstein Sigurðarson í Kastljósi.

Þannig þú reiknar með að hann taki þá annað sæti?

„Það hefur ekkert verið ákveðið með það en það liggur fyrir að það geti vel komið til þess.“

Kannski heimspekileg spurning, en ef maður segir af sér ráðherraembætti og fer strax í annað embætti, er maður þá að segja af sér?

„Já, því þessi afsögn snýst um þessa framkvæmd á þessari sölu, sem fjármálaráðuneytið og fjármálaherra bar stjórnskipulega ábyrgð á.“

10. október 2023 kl. 20:14 – uppfært

Ekki hefur verið kallað eftir frekari uppstokkun á ráðuneytum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst ekki vita hver tekur við embætti fjármála- og efnahagsráðherra en býst við því að það komi í ljós um helgina þegar gengið verður til ríkisráðsfundar.

Katrín var gestur Kastljóss í kvöld.

Hún segir að ekki hafi verið kallað eftir því að það verði frekari uppstokkun á ráðuneytunum. Engar ákvarðanir hafi enn verið teknar.

„Að sjálfsögðu höfum við skoðun á því en, ég meina, eins og í öllu samstarfi þá er þetta mál sem við ræðum saman áður en til ákvörðunar kemur.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Kastljósi 10.10 23 þegar Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra.
RÚV

10. október 2023 kl. 19:49 – uppfært

Ánægður með ákvörðunina þótt hún sé stór persónulega

Bjarni Benediktsson, fráfarandi efnahags- og fjármálaráðherra, segist ánægður með þá ákvörðun sína að segja af sér.

Engu að síður sé um að ræða stóra ákvörðun fyrir sig persónulega.

„Við vorum bara að bera saman bækur okkar og kannski svona fara yfir fundinn sem ég átti með Sigurði og Katrínu í dag,“ sagði Bjarni þegar fréttastofa náði tali af honum eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins í kvöld.

Bjarni segir fund formanna stjórnarflokkanna í dag hafa verið til þess að stilla saman strengi.

„Við töldum rétt að meta það hvernig við myndum helst vilja haga okkar áherslumálum á næstunni – stilla saman strengi.“

Hvort hann sjái fyrir sér að taka við öðru ráðuneyti svarar Bjarni:

„Það er engu hægt að svara um það fyrr en við höfum náð að tæma þetta samtal sem við erum í núna; sem hófst í dag.

Þannig það er ekki útilokað?

„Það er ekki útilokað, nei nei.“

10. október 2023 kl. 18:34

„Hólmganga Sjálfstæðisflokksins og VG“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir atburðarás dagsins „hólmgöngu Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins“. Ákvörðun Bjarna kom honum á óvart.

„Mér virðist hafa birst í dag hólmganga Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Bjarni Benediktsson hefur gert sér grein fyrir því að honum gæti kannski ekki verið vært ef hann héldi áfram – ekki treyst á stuðning VG.

Hann hafi því ákveðið að snúa stöðunni við: Setja þrýstinginn yfir á Vinstri græn.

„Því að miðað við hvernig hann talaði á blaðamannafundinum þá fór ekki á milli mála að mínu mati að nú sé hann setja pressu á VG, sérstaklega matvælaráðherrann, um hvernig þau bregðist við.“

Framsókn sé höfð úti í horni í þessu máli.

„Vissu ekki einu sinni af málinu fyrr en þau sáu það á netinu.“

Kom þetta þér á óvart?

„Já já, ég verð að viðurkenna það. Þetta kom mér á óvart.“ Það hafi þó hvarflað að honum þegar hann sá að boðað var til blaðamannafundar með skömmum fyrirvara.

„En þetta er á margan hátt mjög óvenjulegt, sérstaklega í ljósi þess hversu opin staðan er. Fjármálaráðherrann segist ætla að stíga til hliðar en skilur það alveg eftir opið hvort hann haldi áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins, ráðherra eða þingmaður.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðustól Alþingis.
RÚV / Ragnar Visage

10. október 2023 kl. 18:11

Klukkutíma hlé á þingfundi og stjórnarflokkarnir koma saman

Klukkutíma hlé var gert á þingfundi á Alþingi klukkan 18 í kvöld. Þingflokkar ríkisstjórnarinnar funda nú í sitt hvoru lagi.

10. október 2023 kl. 16:56

Afsögnin „stórtíðindi“ að mati forseta Íslands sem tjáir sig ekki meir

„Stórtíðindi urðu í íslenskum stjórnmálum í dag. Breytingar á ráðherraskipan ríkisstjórnar fara ram á ríkisráðsfundi sem senn verður boðað til,“ hefst pistill Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands á Facebook-síðu hans í dag. Því næst er vikudagskrá forsetans reifuð í stuttu máli.

Að öðru leyti hefur forsetinn ekki tjáð sig um afsögn fjármálaráðherra. Hann baðst undan viðtali þegar fréttastofa náði tali af honum í dag.

10. október 2023 kl. 16:34 – uppfært

Svarar ekki hvort Bjarna sé stætt áfram sem ráðherra

Katrín svarar ekki með beinum hætti hvort Bjarna sé stætt að halda áfram. Það komi í ljós á næstu dögum hvar ríkisstjórnarflokkarnir standa.

Orðrómar hafa verið á kreiki um að Bjarni taki við utanríkisráðuneytinu af varaformanni Sjálfstæðisflokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, og hún færist í fjármálaráðuneytið.

Finnst þér honum ennþá stætt í ráðherrastól?

„Eins og fram kom þá fjallar þetta álit um þessa tilteknu sölu og þessa tilteknu framkvæmd. Eins og Bjarni fór yfir á sínum blaðamannafundi þá er mjög mikilvægt að það geti ríkt friður um verkefni og störf fjármálaráðuneytisins.

Af þessum sökum – vegna þess að hann tekur þetta álit alvarlega og það er mikilvægt að sá friður ríki – þá stígur hann úr stóli fjármálaráðherra.

Hvað framhaldið varðar verður bara að koma í ljós hvernig flokkarnir sjá það fyrir sér.“

10. október 2023 kl. 16:24

Viðtal við forsætisráðherra í heild sinni

Hér fyrir neðan má sjá viðtal Urðar Örlygsdóttur fréttamanns við forsætisráðherra í heild sinni.

10. október 2023 kl. 16:12

„Svona ákvörðun hefur auðvitað áhrif á samstarfið“

Katrín segir að ríkisstjórnin muni taka sér tíma til þess að meta næstu skref eftir ákvörðun Bjarna. Hún segir ríkisstjórnina standa fyrir stórum verkefnum í efnahagsmálum.

„Já já, það er ekkert breytt í því að á milli okkar er áfram traust og samstaða. En auðvitað hefur þetta áhrif á samstarfið og þess vegna gefum við okkur tíma núna til þess að fara yfir stöðuna.“

Hún kveðst þó treysta Bjarna.

„Hann hefur viljað axla ábyrgð í þessu máli og hefur sýnt það í verki – allt frá sinni fyrstu ákvörðun þegar hann ákvað að birta listann yfir ákvörðun.

Hann hafi viljað axla ábyrgð.

„Það auðvitað birtist síðan í dag með þessari ákvörðun.“

10. október 2023 kl. 16:04 – uppfært

Ríkisráðsfundur um helgina

Ekki hefur verið ákveðið hver tekur við embætti efnahags- og fjármálaráðherra. Það skýrist þó á næstu dögum.

Katrín kveðst hafa upplýst forseta Íslands um stöðu mála og gerir ráð fyrir ríkisráðsfundi um helgina.

10. október 2023 kl. 16:01 – uppfært

„Ákvörðun sem ég virði hann mjög vel fyrir“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ákvörðun Bjarna stóra og hún virði hann mjög fyrir hana.

„Þetta er auðvitað mjög stór ákvörðun sem fjármálaráðherra tók í dag. Ákvörðun sem ég virði hann mjög vel fyrir.“

Hann vilji sýna það í verki að hann axli ábyrgð út frá niðurstöðu álitsins

Bjarni hafi gert vel grein fyrir sínum sjónarmiðum á blaðamannafundi sínum í morgun.

„Ég held að þetta sé góð ákvörðun.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali í Ráðherrabústaðnum.
RÚV

10. október 2023 kl. 15:07 – uppfært

Segir að Bjarni hefði átt að stíga til hliðar strax

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata segir að ákvörðun Bjarna um að stíga til hliðar sé aðeins virðingarverð upp að vissu marki. Bjarni hefði átt að stíga til hliðar strax þegar rannsókn hófst.

„Höfum það algjörlega á hreinu að þegar pabbi minn fer í banka og ætlar að opna bankareikning þá er það ekki hægt – þá þarf að bíða í sólarhring á meðan það er verið að rannsaka hvaðan peningurinn kemur og svoleiðis, sagði Björn Leví í dagskráliðnum Störf þingsins á Alþingi í dag.

En þegar pabbi fjármálaráðherra ætlar að kaupa banka þá gerist það bara á einni nóttu – ekkert mál – bara samdægurs.“

Því næst vísaði Björn Leví til laga um söluferli fjármálafyrirtækja og benti á að þar væri skýrt að tilboðsfyrirkomulag væri frábrugðið almennu útboði.

„Hérna er talað um tímamót, um að axla ábyrgð. En þegar málið liggur svona augljóst fyrir um vanhæfi til að taka ákvörðun um sölu á eignarhlut til föður síns, þá hefði ráðherra tvímælalaust átt að stíga til hliðar strax, á meðan rannsóknarferlið væri í gangi, en ekki í lok þess.“

RÚV / Ragnar Visage

10. október 2023 kl. 14:17

Óli Björn og Guðlaugur Þór lýsa yfir stuðningi við Bjarna

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist vera ósammála niðurstöðu umboðsmanns Alþingis en hann beri virðingu fyrir henni.

Álit umboðsmanns sé mjög leiðbeinandi og það þurfi að ræða. Hann vitnar beint í álit umboðsmanns um að ekkert tilefni sé til að draga í efa staðhæfingu fjármálaráðherra um grandleysi hans um þátttöku hlutafélags föður hans.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, segist hafa átt von á öðrum viðbrögðum frá stjórnarandstöðunnar og tekur undir orð Óla Björns um grandleysi fjármálaráðherra.

Umboðsmaður segir reyndar á öðrum stað í áliti sínu að hvorki hann né almenningur hafi forsendur til að staðreyna fullyrðinguna.

10. október 2023 kl. 14:03

„Þetta er alvarlegt brot“

Þingmenn stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar nýta áfram liðinn „fundarstjórn forseta“ til að ræða álit umboðsmanns Alþingis og afsögn fjármálaráðherra. Þegar þessari umræðu lýkur stendur til að ræða störf þingsins og svo samgönguáætlun næstu fimm ára.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sakar áróðursvél Sjálfstæðisflokksins komna á fullt við að mála fjármálaráðherra upp sem einhvern sakleysingja. „Við þurfum að muna eftir því að þetta brot lá fyrir og hefur legið fyrir lengi.“ Stjórnarandstaðan hafi lengi kallað eftir rannsóknarnefnd en stjórnarflokkarnir talið það of hættulegt. „Þetta er alvarlegt brot.“

10. október 2023 kl. 13:57

Dómsmálaráðherra segir mat umboðsmanns umdeilanlegt

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, rifjar upp að hún hafi sjálf sagt í ræðustóli Alþingis að velta þyrfti við öllum steinum varðandi söluna í Íslandsbanka. Það eigi ekki að vera hafið yfir gagnrýni að selja ríkiseignir.

Hún segir söluna á hlutnum í Íslandsbanka hafa gengið vel og hún dragi heilindi fjármálaráðherra ekki í efa. Hann sé maður að meiri og sýni Alþingi sóma með því að bregðast við mati sem hún segir umdeilanlegt.

10. október 2023 kl. 13:53

Segir Bjarna ekki hafa verið stætt á öðru

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að á sínum tíma hafi stjórnarþingmenn og stjórnarflokkarnir slegið varnarmúr um Bjarna Benediktsson. Ýmis stór orð hafi verið látin falla varðandi sölu Íslandsbanka. Nú þurfi menn að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikið hafa verið sagt um þetta mál og margt hrakið. Hún segir álit umboðsmanns byggja á túlkun á einu atriði sem engan hafi grunað að yrði túlkað á þennan hátt.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir álit umboðsmanns sýna svart á hvítu að gagnrýni stjórnarandstöðunnar hafi átt rétt á sér. Fjármálaráðherra hafi brugðist yfirstjórnunar-og eftirlitsskyldum sínum, ekki gætt að sérstöku hæfi og „auðvitað segir hann af sér. Honum er ekki stætt á öðru.“

10. október 2023 kl. 13:47

Þingflokksformaður VG fagnar ákvörðun Bjarna

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG, sagði undir liðnum fundarstjórn forseta núna rétt í þessu að hann fagnaði ákvörðun Bjarna. Álit trúnaðarmanns Alþingis lægi fyrir sem ráðherra hefði brugðist við. „Það þykir mér rétt niðurstaða og fagna henni.“

10. október 2023 kl. 13:33 – uppfært

Spjótin beinast að Svandísi

Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, eru meðal þeirra sem hafa tjáð sig um afsögn Bjarna í morgun. Brynjar segir á Facebook síðu sinni að hann telji álit umboðsmanns ekki hafa gefið tilefni til svona drastískrar ákvörðunar.

Brynjar telur að umboðsmaður hafi heldur ekki gert ráð fyrir þessum afleiðingum. „Verst að Bjarni skuli ná að eyðileggja upphlaup og leiksýningar stjórnarandstöðunnar á þinginu og hin skemmtilegu og sívinsælu mótmæli á Austurvelli þar sem krafist yrði afsagnar.“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir Bjarna enn og aftur hafa sýnt hversu öflugur stjórnmálamaður hann sé. Hann telur þetta auka enn frekar pressuna á Svandísi Svavarsdóttur sem hann segir hafa brotið lög með hvalveiðibanninu fyrr í sumar. „Vart hyggst hún reyna að sitja það af sér eftir þetta útspil.“

Í sama streng tekur Guðmundur Andri Thorsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni. Hann segir rétt hjá Bjarna að segja af sér og setja þannig fordæmi „þar á meðal öðrum ráðherrum sem gætu átt yfir höfði sér svipaðan áfellisdóm vegna starfa sinna frá Umboðsmanni.“

10. október 2023 kl. 13:23

Ráðherra telji „þau atvik óheppileg“

Álit umboðsmanns um hæfi Bjarna Benediktssonar er nokkuð ítarlegt og þar er margt sem vekur athygli. Til að mynda segir umboðsmaður að hugsanlega megi skilja svör Bjarna til embættisins að hann telji „þau atvik óheppileg sem upp komu við söluna 22. mars 2022, þ.e. að meðal kaupenda hafi reynst vera félag í eigu föður hans, og tryggt verði til framtíðar að sambærileg aðstaða komi ekki upp.“

10. október 2023 kl. 12:46 – uppfært

Sigurður Ingi: Ákvörðunin kom á óvart

Magnús Geir Eyjólfsson fréttamaður náði tali af Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra í þinghúsinu nú fyrir skemmstu.

Þar kom fram að Sigurður Ingi hefði fengið tíðindin á blaðamannafundinum. „Við vorum bara á ríkisstjórnarfundi og hann hélt blaðamannafund í kjölfarið.“

Sigurður Ingi segir að ákvörðun Bjarna hafi komið honum á óivart. Hins vegar hafi álit umboðsmanns verið með þeim hætti að „það þyrfti að bregðast við með einhverjum hætti“.

Forystufólk stjórnarflokkanna ætlar að hittast síðar í dag. Þangað til vill Sigurður lítið tjá sig. Hann telur ekki ástæðu til að útiloka að Bjarni taki annað sæti í ríkisstjórn.

„Ég ætla bara að segja að forystufólkið í ríkisstjórninni ætlar að hittast seinna í dag og mér finnst allt koma til greina,“ sagði Sigurður Ingi.

10. október 2023 kl. 12:43

Yfirlýsing Bjarna í heild sinni

Bjarni Benediktsson hefur birt yfirlýsingu sína í heild á Facebook. Á 28 mínútum hefur hún fengið 280 like, 94 hjörtu og 78 umhyggjutjákn. Bjarni sagðist í yfirlýsingu sinni hafa algjörlega „hreina samvisku“ í þessu máli. Margt í áliti umboðsmanns þyki honum orka tvímælis en hann virði niðurstöðuna. „Ég tel, í ljósi þessarar niðurstöðu, að mér sé í reynd ókleift að starfa áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra að frekari undirbúningi sölu á eignarhlutum ríkisins.“

10. október 2023 kl. 12:43

Afsögnin hefur afleiðingar fyrir stjórnarsambandið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir Bjarna hafa sýnt hvers konar stjórnmálamaður og hvers konar maður hann er þegar hann tilkynnti ákvörðun sína um afsögn í morgun.

„Mín viðbrögð af því að fylgjast með blaðamannafundinum og hvernig hann skýrði frá sinni ákvörðun, það fannst mér hann gera afskaplega vel og sýna bæði hvers konar stjórnmálamaður hann er en líka hvers konar maður hann er. Og hvernig hann byggir sínar stærri ákvarðanir á gildum sem ekki verður haggað. Að því leytinu til fannst mér það afskaplega vel gert.“

RÚV / Ragnar Visage

Aðspurð um næstu skref segir Þórdís Kolbrún Bjarna stýra för sem formaður Sjálfstæðisflokksins og sem ráðherrann sem tók þessa ákvörðun.

Afsögnin sé stórt skref og nú þurfi að ákveða næstu skref. Hún hafi afleiðingar fyrir stjórnarsambandið.

„Við erum í þessu stjórnarsamstarfi og þessi ákvörðun hefur ákveðnar afleiðingar fyrir stjórnarsamstarfið því það blasa við ákveðnar breytingar. Hver næstu skref verða, það kemur í ljós þegar þau skref verða tekin og samtöl hafa átt sér stað.

10. október 2023 kl. 12:31

Stjórnarflokkarnir að missa trúna á samstarfið

Auðvitað kemur það á óvart að Bjarni Benediktsson skuli segja af sér sem fjármálaráðherra, segir Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, í hádegisfréttum RÚV. Hann segir augljóst að það sé komin þreyta í ríkisstjórnarsamstarfið og flokkarnir séu smám saman að missa trúna á að ríkisstjórnin haldi áfram út kjörtímabilið. Rætt verður við Eirík Bergmann í fréttaskýringaþættinum Þetta helst á Rás 1.

10. október 2023 kl. 12:24

Afsögn Bjarna sögð rétt og tímamót

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir þetta rétta ákvörðun hjá Bjarna að segja af sér. Hann beri fyrir sig að hann geti ekki sinnt sínu hlutverki eftir álit umboðsmanns Alþingis. Hún segir ríkisstjórnina þurfa að líta í eigin barm og spyrja sig hvort hún geti áfram sinnt sínum verkefnum.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir afsögn Bjarna vera tímamót. Það sé ekki algengt að ráðherrar axli ábyrgð. Þetta sé ákveðið klækindaútspil hjá Sjálfstæðisflokknum og hafi verið undirbúningi í fjóra daga. „Ég held að ríkisstjórnin muni halda áfram ótrauð og hafi ekki efni á að blása til kosninga.“

10. október 2023 kl. 12:20 – uppfært

Skynsamleg og rétt viðbrögð Bjarna

Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálaprófessor, segir viðbrögð Bjarna vera rétt og skynsamleg. Það sé alltaf áfall fyrir flokk þegar ráðherra segir af sér. Viðbrögð stjórnmálamanna skipti miklu máli. „Hann er að brjóta ofurlítið blað með að ráðherrar taki ábyrgð á gjörðum sínum þegar stofnanir telja að stjórnsýslan hafi ekki verið í lagi.“

Ólafur segir mikið til í orðum Þorgerðar um að Bjarni fari í utanríkisráðuneytið og Þórdís Kolbrún taki við lyklavöldum í fjármálaráðuneytinu.

10. október 2023 kl. 12:17 – uppfært

Fjórði til að segja af sér „að eigin frumkvæði“

En hvaða ráðherrar hafa sagt af sér að eigin frumkvæði?

Að mati Ólafs eru þeir aðeins fjórir: Bjarni, Guðmundur Árni Stefánsson árið 1994, Björgvin G. Sigurðsson á lokadögum hrunstjórnarinnar og Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Ólafur segist ekki líta svo á að Sigríður Á. Andersen, sem sagði af sér embætti dómsmálaráðherra, árið 2019 hafi gert það að eigin frumkvæði heldur hafi verið þrýst á hana.

Þá hafi Albert Guðmundsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verið hraktir úr embætti á sínum tíma.

10. október 2023 kl. 12:16

Þorgerður segir Bjarna vera mann að meiri

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir Bjarna vera mann að meiri og hann sendi ákveðin og skýr skilaboð um að virða þurfi stofnanir samfélagsins þótt maður sé þeim ekki endilega sammála.

Hún segir þetta veikja ríkisstjórnina og sé hún nógu veikburða fyrir. Hún sé ekki með augun á boltanum heldur glími við átök við ríkisstjórnarborðið. „Ég geri ráð fyrir að Bjarni færist til innan ríkisstjórnarinnar. Þetta á allt eftir að koma í ljós. Bjarni er ekki að fara segja af sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins.“

10. október 2023 kl. 12:14 – uppfært

Ákvörðun Bjarna kom á óvart

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir afsögn Bjarna vera áfall fyrir flokkinn og ákvörðun hans hafi komið á óvart. Bjarni kynnti álitið á þingflokksfundi í morgun. „Bjarni Benediktsson er mikill heiðursmaður í stjórnmálum. Þó hann sé eiginlega ósammála forsendum álitsins þá unir hann þeim.“

Hildur segist ekkert sjá því til fyrirstöðu að Bjarni verði áfram formaður Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir þessi tíðindi.

10. október 2023 kl. 12:14

Ólafur Þ: Mjög óvenjulegt – og hugsanlega nýtt fordæmi

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að ákvörðun Bjarna sé mjög óvenjuleg. Afar sjaldgæft sé að ráðherrar segi af sér að eigin frumkvæði.

Ólafur nefnir að Bjarni hafi sagst vera efnislega ósammála umboðsmanni Alþingis, en þrátt fyrir það telji hann sér ekki sætt í embætti. „Þar með er Bjarni að sýna stofnunum íslenska ríkisins meiri virðingu en flestir ráðherrar á lýðveldistímanum,“ segir Ólafur.

Slíkt gæti orðið einhvers konar fordæmi fyrir því að íslensk pólitík færist nær því sem gerist í nágrannalöndunum.

10. október 2023 kl. 11:35 – uppfært

Sjöundi ráðherrann til þess að biðjast lausnar

Bjarni Benediktsson er sjöundi ráðherrann sem biðst lausnar í sögu Lýðveldisins.

Hér eru þeir ráðherrar sem hafa sagt af sér embætti.

  • Albert Guðmundsson, 1987.
  • Guðmundur Árni Stefánsson, 1994.
  • Björgvin G. Sigurðsson, 2009.
  • Hanna Birna Kristjánsdóttir, 2014.
  • Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 2016.
  • Sigríður Andersen, 2019.
  • Bjarni Benediktsson, 2023.
10. október 2023 kl. 11:32

Katrín tjáir sig síðar í dag

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ætlar að tjá sig um afsögn fjármálaráðherra síðar í dag. Aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa ekki látið ná í sig.

Þótt aukafréttatími verði í Sjónvarpinu klukkan tólf breytir það því ekki að hádegisfréttir verða á sínum stað klukkan 12:20.

Í þessum fréttatímum verður rætt við stjórnmálafræðingana Ólaf Þ. Harðarson og Eirík Bergmann um tíðindi dagsins. Þá er rétt að geta þess að einnig verður fjallað um afsögnina á fréttaskýringaþættinum Þetta helst á Rás 1 eftir hádegisfréttir.

10. október 2023 kl. 11:21

Allur fundur Bjarna og spurningar fréttamanna í lokin

Blaðamannafundur Bjarna fól í sér stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum. Bjarni útskýrði ákvörðun sína í framsögu sinni og fréttamenn fengu svo tækifæri til þess að spurja hann nánar út í ákvörðunina í kjölfarið.

Hér má horfa á allan fundinn.

10. október 2023 kl. 11:19 – uppfært

Bjarni í utanríkisráðuneytið?

Fréttastofa hefur heyrt það úr tveimur ólíkum áttum að Bjarni hafi síður en svo sagt skilið við pólitík og að hann sé mögulega á leið í utanríkisráðuneytið. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir færi þá í fjármálaráðuneytið. Bjarni nefndi á engum tímapunkti á blaðamannafundinum í morgun að hann ætlaði að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins.

10. október 2023 kl. 11:15 – uppfært

Faðir Bjarna áður verið örlagavaldur í pólitísku lífi sonar síns

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, er örlagavaldur í pólitísku lífi sonar síns. Fyrir sex árum var upplýst að Benedikt hefði verið einn þeirra sem hefði skrifað undir meðmælabréf með uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Hjalti hafði verið dæmdur fyrir gróf kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni. Þetta varð til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sprakk. Í yfirlýsingu sem Björt framtíð sendi frá sér stóð að Bjarni og Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefðu vitað af þessu en ekki deilt þeim upplýsingum með samráðherrum sínum.

10. október 2023 kl. 11:01 – uppfært

Þegar Bjarni kynnti ákvörðunina

Svona kynnti Bjarni Benediktsson ákvörðun sína um að segja af sér sem fjármálaráðherra.

10. október 2023 kl. 10:56 – uppfært

Aukafréttatími í sjónvarpi klukkan tólf

Afsögn Bjarna Benediktssonar úr fjármálaráðuneytinu eru stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum enda hefur hann gegnt stöðu fjármálaráðherra síðan 2013, í nærri áratug. Hann var forsætisráðherra í eitt ár, árið 2017.

10. október 2023 kl. 10:54 – uppfært

Hefði viljað að faðir hans hefði ekki tekið þátt

„Ég hef áður sagt að það hefði á alla kanta verið heppilegra að hann hefði ekki tekið þátt í útboðinu,“ segir Bjarni um þátttöku föður síns. Hann segist ósammála sumum af þeim forsendum sem umboðsmaður gefi sér í áliti sínu en hann telji engu að síður mikilvægt að virða það.

Hann segir ákveðið ferli fara af stað þegar ráðherra segi af sér embætti og það hefjist núna.

10. október 2023 kl. 10:50 – uppfært

Segir frumkvæðið koma 100 prósent frá sér

Bjarni segir að næstu skref ráðist af samtali hans við samstarfsflokkanna. Ekki sé gott að segja hvaða afleiðingar þetta hafi fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. „Ég er knúinn til að láta af störfum hér.“ Hann segir þetta hafa verið erfiða ákvörðun og persónulega. Hann virði niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og ítrekar að honum sé ókleift að sinna sínu starfi áfram.

Hann segir tvennt ólíkt að fást við pólitíska andstæðinga og svo álit umboðsmanns. Hann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort hann ætli að fara í annað ráðuneyti. Hann segir frumkvæðið að þessari ákvörðun koma „hundrað prósent“ frá honum.

Hann segir ákvörðunina tekna vegna þess skugga sem hafi verið varpað yfir hann og ráðuneyti hans vegna þess eina kaupenda af 24 þúsund sem hafi keypt hlut í Íslandsbanka.

10. október 2023 kl. 10:44 – uppfært

Bjarni segir af sér – völdum fylgir ábyrgð

Bjarni Benediktsson segir af sér sem fjármálaráðherra. Þetta tilkynnti hann eftir að hafa farið yfir skoðun sína á áliti umboðsmanns Alþingis. Hann gagnrýndi ýmislegt sem þar kom fram en sagði engu að síður mikilvægt að virða álitið. Hann sagðist hafa rætt þessa niðurstöðu við forsætisráðherra. Hann myndi ræða niðurstöðuna við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. „Mér er í reynd ókleift að starfa áfram í þessu embætti. Ég vil skapa frið um verkefni ráðuneytisins og ég er að undirstrika að völdum fylgir ábyrgð.“

10. október 2023 kl. 10:42 – uppfært

Segir það koma sér á óvart að hann hafi brostið hæfi

Bjarni segir málið snúast um þátttöku eins aðila. Alls hafi 24 þúsund tekið þátt í að kaupa hlut í bankanum í tveimur útboðum. Hann segir það óumdeilt að hann hafi ekki vitað að félag föður hans myndi taka þátt í útboðinu og hann hafi ekki haft neina ástæðu til að láta reyna á hæfi sitt.

Hann segir það koma sér á óvart að niðurstaða umboðsmanns hafi verið sú að hann hafi brostið hæfi. Hann segir framkvæmd sölunnar hafa verið í höndum Bankasýslu ríkisins. Hann segir engar athugasemdir hafa verið gerðar eftir fyrra útboðið. „Mín aðkoma að útboðunum tveimur (2021 og 2022), skref fyrir skref, nákvæmlega sú sama,“ segir Bjarni.

10. október 2023 kl. 10:37 – uppfært

Segist hafa hreina samvisku

Bjarni kominn. Hann býður góðan dag og spyr hvort allir fjölmiðlar séu reiðubúnir til að hefja beina útsendingu. Takk fyrir að koma með svona stuttum fyrirvara, segir ráðherra.

„Ég verð að segja svona fyrsta kastið að mér er brugðið við að lesa þessa niðurstöðu,“ segir Bjarni. Hann sé miður sín yfir að hann hafi brostið hæfi. Hann sé með hreina samvisku. Honum finnist margt í þessu áliti orka tvímælis og margt sé í beinni andstöðu við þær ráðleggingar sem hann hafi fengið sem ráðherra.

10. október 2023 kl. 10:32 – uppfært

Blaðamannafundur Bjarna að hefjast

Fjármálaráðherra ætlar að bregðast við áliti umboðsmanns um hann hafi verið vanhæfur til að samþykkja sölu á 22,5 prósenta hlut í umdeildri sölu á Íslandsbanka. Álitið var gert opinbert kl. 9:30 á vef umboðsmanns og 11 mínútum seinna var boðað til blaðamannafundar í fjármálaráðuneytinu. Fundurinn átti að hefjast fyrir tveimur mínútum. Beint streymi er á vef RÚV.

10. október 2023 kl. 10:29 – uppfært

Bjarni fékk álitið fyrir þremur dögum

Bjarni Benediktsson fékk álit umboðsmanns Alþingis fyrir þremur dögum, á laugardag. Þetta má sjá á vef umboðsmanns þar sem birt er bréf frá fjármálaráðuneytinu sem er dagsett 7. október. Þar segir ráðuneytið að ráðherra hafi haft sama hlutverki að gegna í útboðinu í mars í fyrra og þegar 35 prósenta hlutur í bankanum var seldur fyrir tveimur árum. Umboðsmaður segir í áliti sínu að hann telji hlutverk ráðherra hafa verið ólík en ráðuneytið fullyrðir að aðkoma hans hafi verið með sama hætti.

10. október 2023 kl. 10:20 – uppfært

Bankastjóri hættur og metsekt FME eftir útboðið

Útboðið á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka hefur sannarlega dregið dilk á eftir sér. FME sektaði Íslandsbanka um 1,2 milljarða króna og í framhaldinu lét Birna Einarsdóttir, bankastjóri bankans, af störfum.

Birna Einarsdóttir fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka. Íslandsbanki í Norðurturni við Smáratorg í bakgrunni.
RÚV / Fréttagrafík

Nú hefur umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að fjármálaráðherra hafi ekki verið hæfur til að samþykkja söluna. Hvað ráðherra segir sjálfur um þetta álit kemur væntanlega í ljós á blaðamannafundi sem hefst í fjármálaráðuneytinu eftir tíu mínútur. Honum verður streymt beint á RÚV.is.

10. október 2023 kl. 10:15 – uppfært

Faðir fjármálaráðherra átti sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af sölunni

Hér eru fleiri molar úr áliti umboðsmanns Alþingis. Hann segist hafa gengið út frá því að faðir fjármálaráðherra hafi verið einn eigandi að félaginu Hafsilfur. Því verði að ganga út frá því að hann hafi átt „sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af sölunni fyrir sitt leyti,“ segir umboðsmaður.

Hann tekur jafnframt skýrt fram að ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að draga staðhæfingu Bjarna í efa um grandleysi hans um þátttöku Hafsilfurs í útboðinu. „Á hinn bóginn verður að árétta að hvorki ég, né almenningur í landinu, ef því er að skipta, hefur forsendur til að staðreyna fullyrðingu ráðherra um þetta atriði,“ segir í álitinu.

10. október 2023 kl. 10:09 – uppfært

Stjórnsýsla ráðherra ekki nógu góð

Umboðsmaður Alþingir segir í áliti sínu að ráðherra hefði borið að fylgjast með því eftir föngum hvort og hvernig sölumeðferðin horfði við kröfum sérstakra hæfisreglna stjórnsýsluréttar. Ekkert kæmi fram í samtímagögnum um þetta atriði og því yrði að líta svo á að stjórnsýsla ráðherra hefði ekki verið í nægilega góðu samræmi við stjórnunar- og eftirlitsskyldu hans.

Álit umboðsmanns eraðgengilegt hér.

10. október 2023 kl. 10:06 – uppfært

Meira úr áliti umboðsmanns

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, afmarkaði athugun sína við þrjú atriði. Hann segir það hafa vakið athygli embættisins að í samtímagögnum um söluna komi hvergi skýrt fram hvort og þá með hvaða hætti stjórnvöld sáu fyrir sér „að tryggt yrði að reglna stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi yrði gætt.“

Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis
RÚV / Ragnar Visage

Umboðsmaður bendir jafnframt á að skort hefði á að gerð væri grein fyrir því í undirbúningsgögnum sölunnar hvort og þá hvernig reglur um sérstakt hæfi horfðu við. Þetta segir hann hafa skapað hættu á því að aðkoma ráðherra að ákvörðunartöku um verð og magn samrýmdist ekki reglunum. „Sú hætta hefði verið til þess fallin að grafa undan trausti almennings á ráðstöfuninni andstætt markmiðum Alþingis á þessu sviði.“

10. október 2023 kl. 9:57 – uppfært

Um hvað snýst málið?

Félagið Hafsilfur er eigu föður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og var meðal þeirra sem keyptu hlut í Íslandsbanka þegar 22,5 prósenta hlutur í bankanum var seldur í útboði. Bjarni hefur ítrekað sagt að hann hafi fyrst fengið að vita af kaupum félagsins þegar ráðuneytið fékk lista yfir kaupendur frá Bankasýslunni þegar útboðinu var lokið.

Umboðsmaður hóf athugun á þessum þætti í mars, fékk svör frá Bjarna nokkrum vikum seinna og óskaði í maí eftir frekari gögnum. Umboðsmaður segir það ekki hagga niðurstöðu sinni þótt ekkert hafi komið fram sem dragi í efa þá staðhæfingu Bjarna um að honum hafi verið ókunnugt um þátttöku Hafsilfurs í útboði Íslandsbanka.

10. október 2023 kl. 9:50 – uppfært

Bjarni boðar skyndilega til blaðamannafundar

Fjármálaráðuneytið sendi út tilkynningu kl. 9:41 og boðaði fjölmiðla á blaðamannafund kl. 10:30 Ellefu mínútum áður hafði álit umboðsmanns Alþingis birst á vef embættisins. Þar segir umboðsmaður að stjórnsýsla ráðherra við undirbúning sölumeðferðarinnar hafi ekki verið í nægilega góðu samræmi við stjórnurnar- og eftirlitsskyldu hans gagnvart Bankasýslu ríkisins.

Fréttin hefur verið leiðrétt