Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Samantekt

Áfram lokað að gosstöðvunum og unnið að slökkvistarfi

Ásta Hlín Magnúsdóttir, Ástrós Signýjardóttir, Alexander Kristjánsson og Ísak Gabríel Regal

,

Þessum viðburði er lokið og því hefur streymið verið fjarlægt.

17. júlí 2023 kl. 8:44

Textalýsingin kveður í bili

Fréttastofan hefur verið með beina textalýsingu frá því að gosið í Litla Hrút hófst fyrir tæpri viku en ætlar nú að gera smá hlé. Áfram verður hægt að fylgjast með gosinu á vefmyndavél RÚV og nýjustu fréttir af gosstöðvunum birtast á ruv.is. Textalýsingin verður endurvakin um leið og einhverjar stórar breytingar verða á gosinu.

16. júlí 2023 kl. 16:10

Nýjar myndir af gígnum

Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, tók þessar myndir af eldgosinu í dag.

Mynd af gígnum úr fjarlægð.
Alma Ómarsdóttir/RÚV

Mynd af gígnum.
Alma Ómarsdóttir/RÚV

Mynd af gígnum.
Alma Ómarsdóttir/RÚV

16. júlí 2023 kl. 13:24

Gígurinn 22 metra hár

Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands birtir færslu á facebook nú fyrir skömmu þar sem þau segja frá rannsóknum gærdagsins. Vísindamenn lögðu þá leið sína að gígunum við Litla-Hrút á Reykjanesskaga.

Þau mældu gíginn og reyndist hann um 22 metra hár, sem gerir rúmlega þriggja metra hækkun á dag síðan eldgosið hófst.

Einnig settu vísindamennirnir upp háupplausnar myndavél til að fá betri upplýsingar um hvernig gasið losnar frá kvikunni í gígunum. Loks voru nýrunnin sýni tekin við gígana.

Meline Barbara Payet-Clerk, doktorsnemi, sést að störfum á meðfylgjandi myndum.

Facebook / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá

Facebook / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá

Facebook / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá

16. júlí 2023 kl. 13:02 – uppfært

Á sjötta hundrað reynt að komast að gosstöðvnum

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir nokkuð um að fólk sæki í að komast að gosstöðvunum við Litla-Hrút. Ekki sé hlaupið að því að opna aðrar gönguleiðir að gosstöðvunum.

Úlfar segir aðstæður við gosstöðvarnar erfiðari en fólk átti sig á. „Ég held að fólk geri sér engan veginn grein fyrir því hvað hér er í gangi. Okkar aðgerðir snúast fyrst og fremst um störf viðbragðsaðila, björgunarsveita og lokunin er auðvitað fyrst og síðast til þess að tryggja öryggi þessara sjálfboðaliða og heilsu þeirra. Síðan koma ferðamennirnir. Okkar áhersla er á okkar björgunarsveitir.“

Hann segir að ákvarðanir um að opna fyrir aðrar leiðir að gosstöðvunum, til að mynda frá Keili eða Vigdísarvöllum séu ekki á hans borði. „Það krefst auðvitað framkvæmda að gera breytingar. Aðgerðir lögreglustjóra og viðbragðsaðila snúast um að halda hér öllu svo til öruggu, það er okkar helsta verkefni. Hvað varðar aðrar aðkomuleiðir, það er í raun og veru verkefni fyrir skipulagsyfirvöld og stjórnvöld en ekki aðgerðarstjórn í þessum aðgerðum. Ekki að svo stöddu.“

RÚV / Alma Ómarsdóttir

Úlfar segir nokkuð um að fólk freisti þess að komast að gosstöðvunum. „Ef maður horfir á gærdaginn þá eru afskipti af kannski 500 til 600 manns. Þau eru vinsamleg, þetta fólk fer að ráðleggingum og leiðbeiningum þannig að það er ekki vandamál. Við erum ekki með fólk uppi við gosstöðvarnar.“

Úlfar segir fólk virða tilmæli þegar það hitti viðbragðsaðila við lokunarpósta. „En í sjálfu sér er umhugsunarefni að fólk skuli ekki virða þessi fyrirmæli frá okkur, það vita auðvitað flestir að svæðið er lokað en samt gerir fólk sér ferð hingað uppeftir til að láta á þetta reyna. Ég set auðvitað spurningamerki við það.“

16. júlí 2023 kl. 10:26 – uppfært

Þyrla landhelgisgæslunnar við slökkvistarf

Sagt var frá því í gær að Slökkviliði Grindavíkur hefði tekist að ná tökum á gróðureldum suðaustan við eldgosið og hyggðist nú færa þungann í slökkvistarfi sínu norður fyrir gosið. Í dag mun slökkvilið einbeita sér að slökkva í gróðureldum norðan við eldstöðvarnar.  Þyrla Landhelgisgæslunnar er nýtt við slökkvistarfið, en á fjórða tug manna koma að þessum aðgerðum sem hófust í morgunsárið.

Meðfylgjandi myndir frá Landhelgisgæslunni sýna þyrluna að störfum í gær, þar sem hún flutti vatnstanka og hellir vatni úr skjólu yfir gróðureldana.

Aðsend mynd / Landhelgisgæslan

Aðsend mynd: Landhelgisgæslan. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti vatnstanka norður fyrir gosið.

Aðsend mynd / Landhelgisgæslan

Aðsend mynd: Landhelgisgæslan. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti vatnstanka norður fyrir gosið.

Aðsend mynd / Landhelgisgæslan

Aðsend mynd: Landhelgisgæslan. Þyrlan losar vatn úr skjólu yfir gróðureldana.

Á myndbandinu sést þyrlan með skjóluna sem tekur um 2 tonn og setja vatnið yfir eldinn.

Fréttastofa talaði við Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóra í Grindavík seint í gærkvöld þar sem hann sagði frá því að hafist yrði handa norðan megin í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur fram að þessu einkum einbeitt sér að slökkvistarfi norðan gosstöðvanna en flutti í gærkvöld vatnstanka þangað til að undirbúa vinnu slökkviliðs á jörðu niðri.

Einar Sveinn Jónsson.
RÚV

Einar Sveinn Jónsson er slökkviliðsstjóri í Grindavík.

„Við höfum verið að undirbúa aðgerðir við að fara norðanmegin við gosstöðvarnar. Það er svolítið krefjandi að fara þangað. Aðgengi er mjög slæmt og þarf að fljúga bæði vatni og mannskap þangað í fyrramálið. Þyrla Landhelgisgæslunnar er byrjuð að fljúga með vatnstanka inn á svæðið. Þannig að dagurinn hefur farið í þetta.“

Og svo strax í fyrramálið ætliði að flytja mannskapinn norður?

„Já það verður flogið með mannskap snemma í fyrramálið. Við erum búin að fá liðsauka frá nágrannaslökkviliðunum. Bæði frá brunavörnum Árnessýslu og brunavörnum Suðurnesja og Björgunarsveitin Þorbjörn ætlar að hjálpa okkur, ásamt fleiri björgum og tækjum frá slökkviliðum hérna í kringum okkur. Þannig að það verður fjölmennt. Ætli það verði ekki í kringum þrjátíu manna hópur sem verður að störfum á morgun.“

Er þetta ekki með stærri verkefnum sem þið hafið þurft að kljást við?

„Jú, þetta eru orðnir nokkrir sólarhringar þannig að þetta er langstærsta verkefnið sem hefur verið hér í ansi mörg ár.“

16. júlí 2023 kl. 9:39 – uppfært

Áfram lokað að gosstöðvum

Gosstöðvarnar við Litla-Hrút verða áfram lokaðar almenningi í dag. Þetta var ákveðið eftir fund lögreglustjórans á Suðurnesjum með almannavörnum í morgun.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að enn berist reykur frá gróðureldum og gosmökkur yfir gönguleiðina, en vindáttin, norðanátt, sé göngufólki óhagstæð. Slökkvilið mun í dag einbeita sér að því að slökkva í gróðureldum norðan við eldstöðvarnar.

Úlfar Lúvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segist alveg eins gera ráð fyrir því að opnað verði inn á gosstöðvarnar á næstu dögum.

„Það er auðvitað mengun þarna sem liggur yfir gönguleiðir, vindátt er óhagstæð. Norðanátt, það hefur aðeins dregið úr vindi en ekki talin ástæða til þess að opna inn á svæðið. Þetta verður endurskoðað á fundi viðbragðsaðila klukkan níu í fyrramálið.“

Áttu von á að það verði opnað aftur eitthvað á næstu dögum?

„Ég geri alveg eins ráð fyrir því, það fer auðvitað bara eftir aðstæðum á þessu svæði. Það svona ræður för.“

RÚV / Stefán Jón Ingvarsson

16. júlí 2023 kl. 8:30

Lokun gosstöðva endurmetin á fundi

Stöðufundur lögreglustjórans á Suðurnesjum með viðbragðsaðilum vegna gossins við Litla-Hrút á Reykjanesskaga hefst núna klukkan níu. Þar verður lokun gosstöðvanna endurmetin. Lokað hefur verið fyrir aðgang almennings þangað síðan á fimmtudagsmorgun.

15. júlí 2023 kl. 21:21 – uppfært

Nýtt gasmælingatæki komið upp við gosstöðvarnar

Nýtt gasmælitæki er komið upp við gosstöðvarnar. Benedikt Gunnar Ófeigsson og Bergur H. Bergsson sérfræðingar hjá Veðurstofu Íslands settu upp í gærkvöldi og nótt DOAS gasmæli sem mælir magn brennisteinsdíóxíðs (SO2) sem kemur upp úr gosinu við Litla Hrút.

Mælingarnar gefa upplýsingar sem notaðar eru til að meta magn brennisteinsdíóxíðs sem losnar út í andrúmsloftið. Þessar upplýsingar eru svo nýttar í gasdreifingarspár.

Magn brennisteinsdíóxíðs sem kemur úr gosinu skapast einnig með kvikuflæði og getur hjálpað til við að meta stærð goss á hverjum tíma.

Mynd af DAOS gasmæli Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson/Veðurstofa Íslands.

15. júlí 2023 kl. 18:36 – uppfært

Nýja hraunið flæðir yfir hraun frá '21 og nálgast hraunið frá '22

Sagt var frá því í gær að nýja hraunið væri farið að flæða yfir eldra hraun, það er hraunið frá árinu 2021. Í færslu sem Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands birti á facebook í dag sést að nýja hraunið er nálgast nú hraunið frá því í fyrra líka.

Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá, Háskóli Íslands

Mynd af facebooksíðu Rannsóknarstofu í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands.

15. júlí 2023 kl. 17:23 – uppfært

Færa slökkvistarf vegna gróðurelda norður fyrir gos

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, segir hafa tekist að ná betri yfirsýn yfir gróðurelda á gosstöðvunum við Litla-Hrút í dag. Slökkvilið hafi að mestu náð tökum á gróðureldum suð-austan við gosið og beini nú kröftum sínum að eldum fyrir norðan það.

„Aðstæður hafa náttúrulega verið mjög krefjandi og stífur vindur og mikill eldur. Það eru svona sirka tveir og hálfur ferkílómeter sem að er brunninn. En við erum búin að ná tökum á þessum svæðum sem við höfum verið að vinna í og erum að skipuleggja okkur að fara norður fyrir gosið.“

Fram til þessa hefur slökkvilið einbeitt sér að svæðinu suð-austan við gosið, þar sem gönguleiðin liggur. Einar segir þá að mestu hafa náð tökum á eldinum þar, þó að sífellt kvikni nýir eldar í þurrum gróðrinum.

Einar Sveinn Jónsson.
RÚV

„Svona þessir stóru eldar gönguleiðarmegin erum við búnir að ná tökum á. Mínusinn við að fara norður fyrir er að aðgengi að þeim svæðum er gríðarlega torfarið. Við þurfum sennilega að nota þyrlu landhelgisgæslunnar til að fljúga vatnstönkum inn á svæðið fyrir okkur og koma svo mannskap ætli það sé ekki svona klukkutíma skak að komast á ökutæki inn á svæðið.“

Ein af þeim ástæðum sem gefnar voru upp fyrir því að halda áfram lokuðu inn á gosstöðvarnar var að hægt yrði að ná betri yfirsýn yfir gróðureldana.

Telur Einar þessa yfirsýn hafa náðst?

„Já, ég flaug yfir svæðið áðan og við erum búnir að kortleggja hvert þetta er að halda þannig að við teljum að þetta sé það næsta sem við þurfum að gera. Mengunin af þessu og reykurinn liggur áfram þétt yfir allt og ef að verður breyting á vindátt þá leggst þetta yfir byggð þannig að það er svolítið mikið í húfi að minnka þennan reyk þannig að við missum þetta ekki yfir byggð.“

15. júlí 2023 kl. 13:54 – uppfært

Hraunfoss neðan við gíginn

RÚV

Á vefmyndavél RÚV, sem hægt er að skoða hér að ofan, má nú sjá hvernig myndast hefur hraunfoss nokkru neðan við gíginn.

Gosstöðvarnar eru lokaðar í alemnningi.

15. júlí 2023 kl. 12:16

Erfiðar aðstæður við gosstöðvarnar

Meðfylgjandi myndir tók Hjalti Haraldson við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga í gær. Á þeim má sjá hversu krefjandi aðstæður eru þar.

Í morgun var tekin ákvörðun um að hafa áfram lokað fyrir aðgengi almennings að gosstöðvunum. Þá sagði Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við fréttastofu að aðstæður þar séu þær sömu í dag og í gær.

„Veðuraðstæður eru þær sömu og í gær og viðbragðsaðilar þurfa jafnframt að fá betri yfirsýn yfir útbreiðslu gróðurelda og nýta daginn til frekari framkvæmda á gönguleið. Þannig að ástand er bara svipað og í gær og ákvörðunin því að loka inn á svæðið.“

15. júlí 2023 kl. 10:37

Loftmynd sem sýnir nýja hraunið renna yfir gamla

Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands birti fyrir skömmu myndir sem sýna hvernig nýja hraunið úr eldgosinu við Litla-Hrút er farið að flæða inn á 2021 hraunbreiðuna í norðaustanverðum Meradölum.

Hraunin fóru fyrst að ná saman fyrir hádegi í gær.

Þetta hraunrennsli er í samræmi við spá hrauna-hermunar sömu rannsóknarstofu.

Facebook / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá

15. júlí 2023 kl. 9:50 – uppfært

Ekki opnað í dag

Gosstöðvarnar við Litla-Hrút verða áfram lokaðar almenningi í dag. Þetta var ákveðið á fundi lögreglustjórans á Suðurnesjum með viðbragðsaðilum í morgunsárið. Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri segir í samtali við fréttastofu að aðstæður við gosstöðvarnar gefi ekki tilefni til að opna fyrir aðgengi að svo stöddu.

„Niðurstaða fundar er að það verður áfram lokað inná gossvæðið. Veðuraðstæður eru þær sömu og í gær og viðbragðsaðilar þurfa jafnframt að fá betri yfirsýn yfir útbreiðslu gróðurelda og nýta daginn til frekari framkvæmda á gönguleið. Þannig að ástand er bara svipað og í gær og ákvörðunin því að loka inná svæðið.“

Hvenær kemur til greina að endurskoða þá ákvörðun?

„Sú ákvörðun verður endurskoðuð eftir fund viðbragðsaðila klukkan níu í fyrramálið.“

15. júlí 2023 kl. 4:55 – uppfært

Endurskoðað í dag hvort opnað verði að gosstöðvunum

Endurskoðað verður í dag hvort opnað verði aftur fyrir aðgengi almennings að gosstöðvunum við Litla-Hrút á Reykjanesskaga. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fundar með viðbragðsaðilum klukkan níu þar sem ákvörðun verður tekin.

Eldgos við Litla-Hrút hófst á mánudag og gosstöðvarnar voru opnaðar fyrir almenningi daginn eftir.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað að loka gosstöðvunum á fimmtudagsmorgun vegna reykmengunar. Mikinn reyk hefur lagt frá gosinu og gróðureldum í kring. Slökkvilið og Landhelgisgæsla hafa barist undanfarna daga við að slökkva í eldunum.

Veðurfar hefur verið óhagstætt, þurrt og mjög hvasst og hefur það torveldað slökkvistarf.

Eldgos við Litla-Hrút 12.7. myndir eftir Björgvin Sigurðarson.
Björgvin Sigurðarson

14. júlí 2023 kl. 22:34

Gasmengun berst til suðurs

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan 13-18 metrum á sekúndu í nótt en 10-15 metrum á sekúndu síðdegis á morgun. Gasmengunin frá eldgosinu berst til suðurs og má því búast við að mengunar verði vart á Suðurstandarvegi og mögulega í Grindavík.

14. júlí 2023 kl. 16:32

Mynd af nýja og gamla hrauninu

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, heldur utan um aðgengismál við gosstöðvar á Reykjanesskaga. Hann tók þessa mynd þar sem má sjá nýja hraunið mæta gamla hrauninu.

Hraunið vinstra megin á myndinni er frá gosinu í fyrra og hraunið hægra megin er úr núverandi gosi.

Jón Haukur Steingrímsson

14. júlí 2023 kl. 16:26

Slökkvistarf við gosstöðvarnar í myndum

Alma Ómarsdóttir fréttamaður og Hjalti Haraldsson myndatökumaður eru við gosstöðvarnar.

Alma tók þessar myndir rétt fyrir fjögur í dag.

Slökkviliðsmaður með gasgrímur á gosstöðvunum við Litla-Hrút, eldgosið sést í bakgrunni.
RÚV / Alma Ómarsdóttir

Slökkviliðsmaður með gasgrímu við gosstöðvarnar, eldgosið í bakgrunni.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði í viðtali við fréttastofu fyrr í dag að verkefni dagsins verði krefjandi miðað við hve mikil mengun komi frá gosinu og gróðureldum í kringum hann.

Slökkviliðsmenn við gosstöðvarnar, rykmökkur fyrir aftan þá vegna mikilla gróðurelda á svæðinu
RÚV / Alma Ómarsdóttir

Slökkviliðsmenn með gasgrímur við gosstöðvarnar, reykur frá eldgosinu í bakgrunni.

14. júlí 2023 kl. 14:35

Fyrsta þrívíddarlíkanið af gossvæðinu

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur birt fyrsta þrívíddarlíkanið af gossvæðinu við Litla-Hrút á Reykjanesskaga. Líkanið er unnið út frá ljósmyndum sem teknar voru í gær, 13. júlí, úr lofti.

Á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar segir að myndir notaðar við gerð þrívíddarlíkana hafi nýst vel við kortlagningu á gossvæðinu í Geldingadal á reykjanesi árin 2021 og 2022. Með líkönunum má fylgjast með framvindu gossins, áætla rúmmál og þykkt hrauna, hraunrennsli og fleira.

Þrívíddarlíkan af gossvæðinu við Litla-Hrút á Reykjanesskaga.
Náttúrufræðistofnun Íslands

14. júlí 2023 kl. 13:52

Vísindamenn unnu langt fram á nótt við gosstöðvarnar

Nýtt gasmælitæki Veðurstofunnar á að gefa betri heildarmynd af gosinu. Vísindamenn unnu langt fram á nótt við gosstöðvarnar í gær.

Meðal verkefna þeirra í nótt var einnig uppsetning veðurstöðvar og vefmyndavél RÚV var snúið og sýnir hún nú betra sjónarhorn beint á gíginn.

Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur, er annar tveggja vísindamanna sem fóru í leiðangurinn í nótt. Hann segir að notaðir séu tvenns konar gasmælar til að vakta gosstöðvarnar. Í nótt hafi þeir verið að setja upp svokallaða DOS mæla sem settir séu til að meta heildarflæði brennisteinsmengunar úr öllu gosinu. Það hjálpi til við að segja til um hvað sé mikil kvika að koma upp og gefi betri heildarmynd af gosinu.

Slökkvistarf við gosstöðvar 13. júlí 2023
RÚV / Ragnar Visage

Slökkistörf stóðu yfir á sama tíma og þeir voru við gosstöðvarnar í nótt. Þrátt fyrir að svæðið sé lokað almenningi lögðu þó örfáir leið sína að gosinu í gær. Benedikt segir verstu mengunin stafi af gróðureldunum.

„Gasmengunin á gosstöðvunum var ekki vandamálið í gær, samsvararnir okkar fundu ekki neitt. En það var mjög mikill reykur, það var varla líft þarna,“ segir Benedikt.

„Þegar við komum í bæinn þá lyktuðum við eins og öskubakki, bíllinn og allt sem við vorum í. Við vorum bara stöðugt í reyk þannig að það er eiginlega langversta mengunin þarna og hún er mjög svæsin.“

14. júlí 2023 kl. 12:54

Gamla og nýja hraunið hafa náð saman

Nýja hraunið hefur sameinast hrauninu sem rann í Meradalagosinu í fyrra.

Þetta segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, sem heldur utan um aðgengismál við gosstöðvarnar.

„Þetta gerðist bara núna í morgun,“ sagði Jón Haukur í samtali við fréttastofu.

Þar með hafa hraun allra eldgosa á Reykjanesskaga síðustu þrjú árin sameinast. Hraunið sem rann 2021 er stærst og syðst. Hraunið sem rann í fyrra var á svipuðum slóðum og náðu þau fljótlega saman. Eldgosið sem hófst á mánudag er nyrst en náði saman við hin í morgun, sem fyrr segir.

14. júlí 2023 kl. 12:40

Dagsverk slökkviliða verður krefjandi

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, er einn þeirra sem hefur barist við gróðureldana við gosstöðvarnar. Hann segir sér hafi oft litist betur á aðstæður og gríðarlegur reykur sé af eldunum.

„Það er náttúrulega bara strekkingshvasst þannig að reykinn leggur niður gönguleiðina. Síðustu 2-3 kílómetra gönguleiðarinnar er blár og þykkur reykur af gróðureldum og algjörlega útilokað að labba þessa leið og varla bílfært fyrir mengun, þú varla sérð til. Þannig hér er ekkert hægt að vinna öðruvísi en með góðan búnað.“

Einar segir slökkvistarf í gærkvöldi og nótt hafa gengið vel.

„En það er töluvert mikið eftir og verkefni dagsins verður sennilega krefjandi, miðað við hvað það er mikil mengun af þessu. En það hefur ekki versnað það mikið að við þurfum að hætta.“

Slökkvistarf við gosstöðvar 13. júlí 2023
RÚV / Ragnar Visage

Fjölmargir koma að aðgerðunum. Slökkvilið Grindavíkur nýtur til dæmis aðstoðar Brunavarna Suðurnesja og Árnessýslu, Hjálparsveit skáta í Reykjavík og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Einar segist vera bjartsýnismaður að eðlisfari og fólk leggi ekki svo mikið á sig nema til að sjá árangur.

„En þetta eru krefjandi aðstæður og það þarf ekkert mikið út af bregða þannig að við þurfum að hætta og þá náttúrulega segir sig sjálft hver niðurstaðan verður. Það er útilokað að labba þessa leið í þessari mengun.“

Slökkvistarf við gosstöðvar
RÚV / Ragnar Visage

14. júlí 2023 kl. 10:52

Sýni tekin úr rennandi hraunkviku

Diana Alvarez, meistaranemi við Rannsóknarstofu í eldfjallafræði og náttúruvá í Háskóla Íslands tók í dag sýni úr rennandi hraunkviku. Á myndum sem deilt var á Facebooksíðu Rannsóknarstofunnar má sjá Diönu taka sýnin í sérstökum varnargalla.

Facebook / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá

14. júlí 2023 kl. 9:40

Rúmlega þúsund fóru að gosinu í gær

Rúmlega þúsund manns fóru að gosstöðvunum í gær. Gosstöðvunum var lokað klukkan tíu í gærmorgun. Á mælaborði Ferðamálastofu má sjá að fjöldi fólks við stöðvarnar tók dýfu eftir að tilkynnt var um lokunina en jókst svo aftur upp úr hádegi. Lokunin er í gildi til morguns.

Fjöldi þeirra sem fóru að gosstöðvunum 13. júlí 2023
Ferðamálastofa

14. júlí 2023 kl. 9:33 – uppfært

Meðalhraunrennsli er svipað og mest var í gosinu 2021

Meðalhraunrennsli í eldgosinu við Litla-Hrút milli 11. og 13. júlí er um 13 rúmmetrar á sekúndu, sem er svipað og þegar mest var í gosinu fyrir tveimur árum. Þetta sýna nýjar mælingar á hraunflæði sem gerðar voru í gær og birtust á vef Jarðvísindastofnunnar Háskóla Íslands í morgun.

Landmælingar Íslands unnu landlíkan úr myndum úr Pleaides gervitunglinu sem náðust í gær.

Heildarrúmmál hraunsins er 3,4 milljón rúmmetrar og flatarmálið er um 0,4 ferkílómetrar. Hraunið rennur til suðurs, meðfram Litla-Hrút og út á hraunið austan hans.

14. júlí 2023 kl. 9:18

Nokkur fóru að eldgosinu í nótt þrátt fyrir lokanir

Þrátt fyrir að lokað sé fyrir aðgang að gosstöðvunum á Reykjanesskaga lögðu nokkrir leið sína að þeim eftir öðrum leiðum í gærkvöldi og í nótt. Hvorki björgunarsveitir né lögregla þurftu að hafa afskipti af þeim.

Vísindamenn á vegum Veðurstofunnar unnu langt fram á nótt við gosið en gönguleið að gosinu var lokuð almenningi. Sett var upp veðurstöð og gasmælitæki og einnig var vefmyndavél RÚV snúið, sem sýnir nú betra sjónarhorn beint á gíg gossins.

Slökkvilið Grindavíkur hóf störf að nýju við að slökkva í gróðureldum í kringum gosstöðvarnar klukkan átta í morgun. Að sögn Daníels Karlssonar varðstjóra hjá slökkviliðinu gengu slökkvistörf ágætlega í gærkvöldi og fram til klukkan tvö í nótt þegar ákveðið var að gera hlé á þeim.

14. júlí 2023 kl. 7:28 – uppfært

Ekki hægt að mæla hraunbreiðuna í gær vegna vinds

Hraunið á gosstöðvunum hefur lengst frá í gær samkvæmt áætlaðri útbreiðslu hraunbreiðunnar. Ekki tókst að mæla hana í gær vegna roks, en Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá birti rétt í þessu kort sem sýnir áætlaða útbreiðslu.

14. júlí 2023 kl. 6:24 – uppfært

Gekk ágætlega að slökkva í gróðureldum en þó mikið eftir

Slökkviliði Grindavíkur gekk ágætlega við að slökkva í gróðureldum sem hafa myndast vegna eldgossins á Reykjanesskaga í gær og í nótt. Þetta segir Daníel Karlsson varðstjóri hjá slökkviliðinu. „Við vorum komnir niður svona um tvöleytið,“ segir Daníel. Hann bætir við að slökkvistörf hefjist aftur um áttaleytið.

Gróðureldar hafa kviknað á nokkrum stöðum á Reykjanesskaga langt frá gosstöðvunum, enda skraufaþurr jörð og mikill vindur.
RÚV / Ragnar Visage

14. júlí 2023 kl. 3:27 – uppfært

Dýraeigendur gætu þurft að flytja búfénað á brott ef mengun eykst

Matvælastofnun fylgist með efnamælingum Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar í úrkomu og stöðuvötnum í nágrenni gosstöðvanna á Reykjanesi. Þetta er get til að meta hvort grípa þurfi til ráðstafana vegna nýtingar beitarhólfa til að tryggja heilsu og velferð dýra.

Dýraeigendum er bent á að loftmengun hafi svipuð áhrif á menn og dýr. Það sé því ekki ráðlagt að fara með dýr að gosstöðvunum vegna ýmis konar hættu. MAST segir í tilkynningu að stofnunin muni gera dýraeigendum viðvart telur hún þörf á sérstökum ráðstöfunum. Eigendur gætu þurft að flytja búfé sitt á brott ef efna- eða reykmengun eykst mikið.

Eldgos við Litla-Hrút 12.7
Björgvin Sigurðarson

14. júlí 2023 kl. 1:28 – uppfært

Eru að skríða niður fjallið

Slökkviliðið í Grindavík berst enn við gróðurelda á Reykjanesskaga sem myndast hafa vegna eldgossins við Litla-Hrút. Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóri í Grindavík segir að slökkviliðsmenn hafi verið uppi á fjalli en séu núna farnir að skríða niður. Mannskapurinn fær að hvílast áður en hann byrjar aftur í fyrramálið.

„Við byrjum aftur svona um áttaleytið í fyrramálið,“ segir Einar. Hann segir að það sé mikil mengun og að ekki sé hægt að vera að störfum án þess að vera með gasgrímu. Skyggnið sé þó farið að batna lítillega. Enn er mjög þurrt á svæðinu þrátt fyrir lítilsháttar vætu.

14. júlí 2023 kl. 0:19

Ætti að gefa góða mynd af væntanlegu hraunrennsli í eldgosum síðar meir

Jarðfærðingurinn Birgir V. Óskarsson sem starfar á Náttúrufræðistofnun var að senda út nýtt myndgreiningarlíkan af hraunbreiðunni frá gosinu við Litla-Hrút eins og hún var klukkan þrjú í dag.

Náttúrufræðistofnun greinir frá því á Facebook að hraunhermun af breiðunni og breiðan sjálf séu mjög svipuð. Út frá því hvernig það hefur þróast ætti hermunin að gefa góða mynd af væntanlegu hraunrennsli strax í upphafi gosa í framtíðinni.

Hraunhermun af gosinu við Litla-Hrút.
Facebook / Náttúrufræðistofnun við Háskóla Íslands

13. júlí 2023 kl. 21:56 – uppfært

Slökkvistarf gengur hægt en örugglega - hvíla mannskapinn í nótt

Miklir gróðureldar loga í kringum gosstöðvarnar við Litla-Hrút á Reykjanesskaga. Slökkvistarf stendur yfir en unnið er í kapp við tímann því óttast er að eldurinn dreifi verulega úr sér. Aðstæður eru eins óhagstæðar og hugsast getur, hvöss norðanátt og skraufaþurr gróður.

RÚV

Einar Sveinn Jónsson er slökkviliðsstjóri í Grindavík.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, segir slökkvistarfið ganga hægt en örugglega. „Þetta er enn þá aðeins að dreifa úr sér en við erum samt að ná árangri.“

Hátt í 20 manns vinna að slökkvistarfi með Slökkviliði Grindavíkur og margvíslegur búnaður víða að er notaður við vinnuna.

„Við erum með þyrlu Landhelgisgæslunnar, við erum með tvær gröfur frá verktaka, við erum með tankbíl frá brunavörnum Árnessýslu, bíl frá hjálparsveit skáta í Reykjavík og tank frá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins. Björgunarsveitin Þorbjörn er með buggy bíla að hjálpa okkur. Fyrir utan allan búnað frá Slökkviliði Grindavíkur; dælubíla og tankbíla. Við notum allt sem við getum notað.“

Einar er ekki bjartsýnn á að það náist að slökkva eldinn fyrir nóttina. „Ég hugsa að við setjum mannskapinn í hvíld eftir miðnættið og tökum svo þráðinn upp í fyrramálið.“

RÚV / Ragnar Visage

13. júlí 2023 kl. 21:29

Myndir af slökkvistarfi vegna gróðurelda

Ragnar Visage tók meðfylgjandi myndir af slökkvistarfi vegna gróðurelda við gosstöðvarnar í kvöld.

Slökkvistarf vegna gróðurelda á gosstöðvum.
RÚV / Ragnar Visage

Slökkvistarf við gosstöðvar
RÚV / Ragnar Visage

Slökkvistarf við gosstöðvar
RÚV / Ragnar Visage

RÚV / Ragnar Visage

Slökkvistarf við gosstöðvar
RÚV / Ragnar Visage

Slökkvistarf við gosstöðvar
RÚV / Ragnar Visage

13. júlí 2023 kl. 20:59

Kvikugangurinn hefur valdið eins metra hreyfingu á yfirborðinu

Svonefnd bylgjuvíxlmynd úr gervihnetti frá 27. júní til 12. júlí sýnir aflögunina sem átti sér stað í aðdraganda gossins og fyrstu tvo dagana eftir að eldgos hófst. Hún er í sitthvora áttina þvert út frá kvikuganginum sem liggur frá Fagradalsfjalli að Keili.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að færslan nemi 50 cm í norðvestur og 50 í suðvestur. Nú hefur dregið verulega úr aflögun og eins úr skjálftavirkni.

Veðurstofa Íslands

Mynd: Veðurstofa Íslands

13. júlí 2023 kl. 20:13 – uppfært

Aðstæður til slökkvistarfs ekki góðar

Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóri í Grindavík var í viðtali í kvöldfréttum sjónvarps þar sem hann sagði frá slökkvistarfi á gosstöðvunum við Litla-Hrút á Reykjanesskaga. Þar loga gróðureldar og illa gengur að ná þeim niður. Einar segir verkefnið ærið og aðstæður erfiðar.

13. júlí 2023 kl. 19:29 – uppfært

„Sorglegt hvernig komið er fram við björgunarsveitarfólk“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, segist skilja vel að það geti verið vonbrigði fyrir suma að komast ekki að gosstöðvunum. „Ég minni þó á að það eru aðeins fjórir dagar síðan fór að gjósa og það getur staðið, þetta gos, í vikur eða mánuði enn.“

Fannar segir það einmitt vera hlutverk viðbragðsaðila að meta aðstæður og loka ef aðstæður kalli á það. „Það er náttúrulega hlutverk lögreglustjórans og viðbragðsaðila hér að bregðast við aðstæðum eins og þessum. Þar sem ekki er boðlegt að vera með fólk þarna upp frá.“

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar stendur við bílastæðið við upphaf gönguleiðarinnar að Merardölum.
RÚV / Ragnar Visage

Hann tekur undir að það sé áhyggjuefni að gróðureldar geti breiðst enn frekar út og jafnvel til byggða. „Það er verulegt áhyggjuefni, og búið að liggja yfir því með alls konar úrræðum sem menn hafa reynt að hugsa sér. Í versta falli getur þetta haldið áfram óheft að næsta vegi, eða einhvers konar fyrirstöðu þar sem ekki er gróður. Þá gætu þetta verið einhverjir mestu gróðureldar sem menn hafa séð og upplifað mjög lengi hér á Íslandi.“

Fannar segir unnið að því í samráði við önnur stjórnvöld að auka gæslu við gosstöðvarnar til að unnt verði að tryggja að lokan ir séu virtar. „Það versta er að það hlýða ekki allir fyrirmælum björgunarsveitarfólks og landvarða og sýna af sér afskaplega ómerkilega hegðun. Þetta er sorglegt, hvernig komið er fram við þessa aðila sem eru að reyna að leiðbeina. Það hefur meira að segja þurft að kalla til sérsveitina til að vísa fólki í burtu.“

13. júlí 2023 kl. 18:00

„Það tekur tíma fyrir fólk að koma sér niður“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum segir engar líkur á að ákvörðun um lokun gosstöðvanna verði endurskoðuð fyrr en í fyrsta lagi á laugardag. Hann segir að viðbragðsaðilar nýti tímann á meðan á lokunum stendur vel.

„Nú er lokað inn á svæðið og viðbragðsaðilar nota þá tækifærið og gera þarna til að mynda lagfæringar á leiðinni upp að gosstöðvum þannig að við reynum að nota tímann. Eins að reyna að hafa einhver ráð með að hafa einhver ráð með að slökkva í gróðureldum.“

Úlfar segir svæðið ekki vera alveg rýmt enn þá. „Nei, en ég held að það séu nú ekki margir á gönguleiðinni í þessum töluðu orðum. Einhver fjöldi þó, þetta er auðvitað langt ferðalag, það tekur tíma fyrir fólk að koma sér niður. Ég held að það sé í sjálfu sér ekkert vandræðaástand þarna. Það er bálhvasst þarna upp frá í augnablikinu, búið að vera þannig í dag.“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
RÚV / Ragnar Visage

13. júlí 2023 kl. 16:48

Kjöraðstæður fyrir gróðurelda

Gróðureldar hafa kviknað á nokkrum stöðum á Reykjanesskaga langt frá gosstöðvunum, enda skraufaþurr jörð og mikill vindur. Slökkvilið hefur staðið í ströngu við að slökkva eldana í dag.

Helgi Einarsson hjá Þorbirni var að aðstoða slökkvilið neðan við Suðurstrandarveg þegar fréttamaður tók hann tali.

Þetta er eldur hérna langt frá eldstöðvunum, hvað gerðist?

„Heyrðu, að öllum líkindum sígarettustubbur sem hefur verið kastað út. Jarðvegurinn er bara svona þurr; þetta á auðvelt með að kvikna,“ sagði hann.

Gróðureldar hafa kviknað á nokkrum stöðum á Reykjanesskaga langt frá gosstöðvunum, enda skraufaþurr jörð og mikill vindur.
RÚV / Ragnar Visage

Gróðureldar hafa kviknað á nokkrum stöðum á Reykjanesskaga langt frá gosstöðvunum, enda skraufaþurr jörð og mikill vindur.
RÚV / Ragnar Visage

RÚV – Ragnar Visage

13. júlí 2023 kl. 16:45 – uppfært

Myndir frá gosstöðvunum

Meðfylgjandi myndir tók Björgvin Sigurðarson ljósmyndari við gosstöðvarnar í gærkvöld. Á þeim má sjá mikla mengun frá gosinu og gróðureldum í kring. Myndirnar sýna líka vel hversu illa mengunin fer í ferðafólk sem lagt hafði leið sína að gosinu til að virða það fyrir sér.

Eldgos við Litla-Hrút 12.7
Björgvin Sigurðarson

Eldgos við Litla-Hrút 12.7
Björgvin Sigurðarson

Eldgos við Litla-Hrút 12.7
Björgvin Sigurðarson

Eldgos við Litla-Hrút 12.7
Björgvin Sigurðarson

Eldgos við Litla-Hrút 12.7
Björgvin Sigurðarson

Eldgos við Litla-Hrút 12.7.
Björgvin Sigurðarson

Eldgos við Litla-Hrút 12.7. Myndir eftir Björgvin Sigurðsson.
Björgvin Sigurðarson

Eldgos við Litla-Hrút 12.7. myndir eftir Björgvin Sigurðarson.
Björgvin Sigurðarson

13. júlí 2023 kl. 16:03

Páll Bergþórsson - 45 eldgos á 100 ára ævi

Páll Bergþórsson veðurfræðingur setti fyrir skömmu inn skemmtilega færslu á facebook. Páll verður 100 ára eftir sléttan mánuð og nefnir í færslunni þau eldgos sem orðið hafa á Íslandi síðan hann fæddist.

„Eftir sléttan mánuð verð ég aldargamall. 1923, árið sem ég fæddist gaus í Öskju og Grímsvötnum, en frá því ég fæddist árið 1923 til dagsins í dag hafa samtals orðið 45 eldgos á Íslandi, 36 á 20. öld og 9 á þessari öld.
Flest eldgosin hafa orðið í Grímsvötnum eða 12 talsins, Kröflueldar teljast níu, Hekla hefur gosið 5 sinnum og Askja 4 sinnum.“

Facebook

13. júlí 2023 kl. 15:49

Fólk reynir að komast framhjá lokunum

Björgunarsveitarfólk hefur þurft að kalla til lögreglu til að sækja fólk sem virðir ekki tilmæli um að fara ekki að gosstöðvunum.

Fólk leggur bílum sínum langt frá bílastæðum og heldur á gosstöðvarnar þaðan. Lögreglan hefur ekið Suðurstrandaveginn til að reyna að grípa þá sem virða ekki lokanir.

RÚV / Kristján Þór Ingvarsson

13. júlí 2023 kl. 15:19

Gengur ágætlega að rýma svæðið

Að sögn Hjálmars Hallgrímssonar hjá lögreglunni í Grindavík gengur ágætlega að rýma svæðið í kringum gosstöðvarnar. Veður er mjög slæmt, mikið rok og viðbragðsaðilar hafa þurft að aðstoða fólk í vandræðum á Suðurstrandarvegi.

„Það er ofboðslegur vindstrengur, kerra fauk á Suðurstrandarvegi og fólk, bæði á hjólum og mótorhjólum, hefur lent í vandræðum.“

Hjálmar segir að þeir sem séu að lenda í vanda á Suðurstrandarvegi hafi lagt af stað með það í hyggju að fara upp að gosstöðvunum en sennilega verið löngu hætt við það, nú sé áskorunin að komast heil heim.

Hjálmar reiknar ekki með því að það sé neinn á leið upp að gosinu orðið en það var lokað inn á svæðið um klukkan hálf 11 í morgun.

„Við höfum ekki farið í að smala niður beint, en þetta mun tæma sig sjálft á næstu klukkutímum. Fólk er sem betur fer með vindinn í bakið á leið niður.

13. júlí 2023 kl. 15:07

Ætla ekki að endurskoða ákvörðunina

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á suðurnesjum segir engar líkur á að ákvörðun um að loka gönguleiðum að gosinu fram á laugardag verði endurskoðuð. Greint var frá ákvörðuninni fyrr í dag.

Eru líkur til þess að þið endurskoðið þessa ákvörðun og hleypið fólki jafnvel fyrr inn en á laugardag?

„Við komum ekki til með að gera það. Við komum til með að standa við þessa ákvörðun. En varðandi aðrar leiðir, þá er allt til skoðunar,“ segir Úlfar.

Hvort það hafi komið til greina að halda einhverjum leiðum að gosinu opnum svarar Úlfar:

„Nei, það kom ekki til greina. Það að taka á móti svona slíkum fjölda ferðamanna er auðvitað stórmál og krefst skipulaggningar þannig svarið er nei.“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
RÚV / Ragnar Visage

13. júlí 2023 kl. 13:47 – uppfært

Rúmlega 4.000 fóru að gosinu í gær

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu fóru rúmlega 4.000 manns eftir gönguleiðinni að eldgosinu, sem nú hefur verið lokað, í gær. Flest voru á ferðinni síðdegis og fæst yfir blánóttina.

Ferðamálastofa

13. júlí 2023 kl. 13:36

Hraunið hefur þykknað og útbreiðslan aukist

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá hefur birt kort sem sýnir útbreiðslu hraunbreiðunnar í gærkvöldi. Útbreiðslan hefur aukist um ~15% og hraunið hefur þykknað verulega.

13. júlí 2023 kl. 12:51 – uppfært

Óábyrgt fólk við gosstöðvarnar veldur vonbrigðum

Samkvæmt mælingum Ferðamálastofu fóru um 4.000 manns að gosstöðvunum síðasta sólarhringinn. Þeim hefur nú verið lokað og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, telur þá ákvörðun vera vitræna.

„Fréttir síðasta sólarhringinn hafa verið frekar neikvæðar, ég meina, þarna er mikil mengun og ekki bara frá gosinu sjálfu heldur erum við að glíma við gróðurelda og sá reykur getur verið banvænn. Þannig að ákvörðun um að loka svæðinu, hún er auðvitað tekin að yfirlögðu ráði og þá í samráði við mína helstu samstarfsaðila, viðbragðsaðila. Og stendur fram á laugardag. Veður er mjög óhagstætt í dag, það er stíf norðanátt, 13-15 m/s og slær kannski í 20 metra kviðum.“

RÚV / Kristinn Þeyr

En nú hafa einhverjir verið að benda á leið, til að mynda, um Móhálsadal þar sem vindáttin er hagstæð - hefði ekki komið til greina að halda henni opinni?

„Ég held að menn þurfi að hafa í huga að við erum á fjórða degi í gosi, við náttúrulega skoðum alla möguleika þegar fram í sækir. En eins og staðan er í dag þá höfum við notast við þessa leið, hún er löng en hún er tiltölulega örugg, útsýnisstaður er utan hættusvæðis.

Það hefur valdið miklum vonbrigðum, og hefur svo sem gert það áður að margir hverjir sem þarna fara eru óábyrgir. Þeir fara inn á hættusvæði, þrátt fyrir fyrirmæli björgunarsveita og lögreglu. Þannig það er að ýmsu að huga.

Mitt hlutverk er að tryggja öryggi fólks eins og best verður á kosið. Við þurfum að átta okkur á því að það er ekki sjálfgefið að eiga aðkomu inn á svona svæði.“

Vaðið inn í mökk og reyk.
Benedikt Sigurðsson

13. júlí 2023 kl. 12:34

Mörg hafa sýnt björgunarsveitarmönnum vanvirðingu

Nokkur þúsund hafa lagt leið sína að gosinu. Tómas Logi Hallgrímsson, félagi í björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði, hefur staðið vaktina síðan það hófst á mánudag. Hann segir marga hafi verið mjög hortugir og sýnt björgunarsveitarfólki dónaskap.

„Rosalega margir sem halda að við höfum tekið þessar ákvarðanir bara úr einhverjum jeppa uppá fjalli. Við eigum bara að breyta þessu í snarasta afþví að þeim finnst það ekki rétt ákvörðun,“ segir Tómas og bætir við að fólk virðist ekki átta sig á að ekkert þýði að rífast við björgunarsveitarfólkið. Þau séu einungis að fylgja fyrirmælum yfirvalda.

13. júlí 2023 kl. 12:31

Dregið úr skjálftavirkni en eldgosið heldur svipuðum takti

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands, segir dregið hafa úr skjálftavirkni og hugsanlega úr gosinu sjálfu.

„Staðan núna á gosinu sjálfu er að það bara heldur áfram í svipuðum takti, hugsanlega eitthvað aðeins dregið úr virkninni. Helstu tíðindin eru þau að það hefur dregið mjög mikið úr skjálftavirkninni þannig við erum komin í rauninni bara alveg niður í eðlilega bakgrunnsvirkni á skaganum, sem hljóta að teljast mjög góðar fréttir.“

Er eitthvað hægt að segja um framhaldið?

„Það er voða erfitt að segja, en við náttúrulega erum að frekar mikinn stöðugleika í framleiðslunni á gosinu, kannski helst að það sé aðeins að draga úr.“

Kristín Jónsdóttir, head of department at the service and research division of the Icelandic Meteorological Office
RÚV

13. júlí 2023 kl. 11:32

Hegðun fólks ekki til fyrirmyndar

Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna segir að gosstöðvunum hafi verið lokað til að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila. Reykmengun hefur verið viðvarandi og fólk hefur farið sér að voða.

„Almenn hegðun þarna í gær var ekki til fyrirmyndar, við sáum myndir þar sem um hundrað manns voru upp við gíginn. Það segir sig sjálft að þá er bara tímaspursmál hvenær eitthvað alvarlegt gerist.“

13. júlí 2023 kl. 11:20 – uppfært

Gengu upp að börmum gígsins

Fleiri hafa hætt sér ískyggilega nálægt gosopinu. Fréttastofu bárust þessar myndir frá Mateusz Krasucki rétt í þessu, þar sem tveir menn sjást standa við hlið opsins. Gosstöðvunum var lokað rétt fyrir klukkan tíu, meðal annars vegna hegðunar fólks á svæðinu.

„Þessir gaurar voru að klifra upp gíginn og stoppuðu ekki fyrr en björgunarsveitarfólk fór að öskra á þá,“ segir Mateusz.

Ferðamenn ganga á bannsvæði við gosstöðvar, á nýstorknuðu hrauni, við hliðina á gígnum.
Aðsend / Mateusz Krasucki

Ferðamenn hætta lífi sínu á nýstorknuðu hrauni við Litla Hrút.
Aðsend / Mateusz Krasucki

Ferðamenn hætta lífi sínu á nýstorknuðu hrauni við Litla Hrút.
Aðsend / Mateusz Krasucki

Ferðamenn hætta lífi sínu á nýstorknuðu hrauni við Litla-Hrút. Myndin er dökk, af háum gíg. Upp úr gígnum spýtist kvika. Mikinn reyk ber við himin. Undir gígnum er fólk á gangi.
Aðsend / Mateusz Krasucki

13. júlí 2023 kl. 10:20

Gosstöðvunum lokað

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka aðgengi almennings að gosstöðvunum. Í tilkynningu segir að það sé gert til að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir að ákvörðunin verði ekki endurskoðuð fyrr en á laugardag. Mikil mengun er á staðnum og ekki síst vegna gróðurelda - sem nú á að reyna að slökkva, að sögn Hjördísar. Lögreglustjóri segist ekki geta tryggt öryggi þeirra sem fara inn á svæðið við þessar aðstæður. Hvasst verður í dag og á morgun við gosstöðvarnar og vindátt er óhagstæð göngufólki. Lokunin tekur þegar gildi.

Margir hætta sér einnig inn á skilgreint hættusvæði og hundsa fyrirmæli viðbragðsaðila.

13. júlí 2023 kl. 9:14 – uppfært

Hópur manna á torfærutækjum virti ekki bann við utanvegaakstri

Nóttin var tiltölulega róleg hjá björgunarsveitarfólki í nótt. Flytja þurfti tíu manns af svæðinu vegna örmögnunar og hlúa þurfti að um tíu manns til viðbótar vegna minniháttar meiðsla.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi slysavarnarfélagsins Landsbjargar segir þó ekki alla hafa farið eftir fyrirmælum björgunarsveitarólks.

„En kannski það helsta sem var til tíðinda í nótt var að það kom einhver hópur manna á torfærutækjum inn á svæðið, að norðan virðist vera. Og voru bara með dólg, sinntu ekki tilmælum björgunarsveitafólks um að vera ekki að stunda utanvegaakstur, sem þeir voru að gera. Þegar lögregla kom upp eftir voru þeir horfnir af braut.“

RÚV

Jón segir alltaf vera eitthvað um það að fólk sem leggi leið sína að gosinu fylgi ekki fyrirmælum björgunarsveitarfólks og sé með leiðindi. Það sé þó, sem betur fer, í miklum minnihluta.

„Fólk tekur leiðbeiningum vel. Þetta eru fyrst og fremst bara leiðbeiningar settar fram með öryggi fólks í huga. Og lang, langflestir taka þeim bara vel.“

13. júlí 2023 kl. 8:20

Hraunið hefur fyllt dalverpið austan við Kistufell

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá birti snemma í morgun kort og mynd sem sýnir flæði hraunsins úr gosinu. Í lok gærdags hafði það fyllt dalverpið austan við Kistufell, líkt og sjá má á myndunum.

13. júlí 2023 kl. 7:59

Manneskja sást rétt við gíginn í vefmyndavél RÚV

Félagi í hópnum Jarðsöguvinir á Facebook benti í gærkvöldi á að í vefmyndavél RÚV mætti sjá manneskju standa skuggalega nálægt gjósandi hrauninu.

Manneskja stendur mjög nálægt eldgíg í gærkvöldi.
RÚV

Það er rétt að benda á að það er mjög hættulegt að fara alveg að virkum gosstöðvum.

13. júlí 2023 kl. 6:22 – uppfært

„Eldgos er eldgos“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi lengi undirbúið eldgosið á Reykjanesskaga, eða allt frá því að fyrsta gosið hófst 2021.

„Í aðdraganda þessa eldgoss var það okkar mat að það sem mestu skipti væri að fá gasmæla á svæðið og eins að efla landvörslu. Heimild var veitt í síðustu viku til að kaupa fleiri mæla til þess að við gætum tryggt mælingar með loftgæðum og fyrsti landvörðurinn mætti á svæðið í morgun. Þannig að þetta hefur allt gengið ágætlega.“

13. júlí 2023 kl. 2:56

Björgunarsveitarfólk kemur langt að til að aðstoða við gosstöðvarnar

Björgunarsveitarfólk Ok hefur ferðast langa leið til að standa vaktina við gosstöðvarnar. Verkefnið er talsvert ólíkt því sem björgunarsveitin er vön.

„Við erum vel búin og getum tekið að okkur öll þau verkefni sem er farið fram á að við leysum hérna. Mannskapurinn og tækjabúnaðurinn er klár. Þetta er einhver réttlætiskennd sem grípur mann. Maður hefur unun af því að aðstoða og hjálpa og þetta er spennandi,“ segir Vigfús Ægir Vigfússon björgunarsveitarmaður.

13. júlí 2023 kl. 0:19

Allhvöss norðvestanátt um landið norðaustanvert seint á morgun

Í athugasemd veðurfræðings segir að það verði allhvöss norðvestanátt um landið norðaustanvert seint á morgun og vestantil á landinu, með hvössum vindstrengjum við fjöll. Búast má við slyddu á fjallvegum norðaustanlands og á hálendinu norðantil.

12. júlí 2023 kl. 22:37 – uppfært

1.200 gráðu sletta slæmur hausverkur

Hætt er við því að barmar gígsins séu að verða ótraustir. Hraunið gæti brotið niður gígbarminn og hraungusa streymt á fólk sem hættir sér of nálægt. Þetta segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur, sem var við gosstöðvarnar í dag.

Hann segir margar hættur leynast á gossvæðinu, á borð við reykinn sem umlykur það. Hann sé í raun stærra vandamál en brennisteinninn.

„Ég hugsa að vel flestir sem eru hér í kvöld vakni með væg einkenni reykeitrunar í fyrramálið,“ segir Ármann.

„Auðvitað þyrftum við að hafa hér einhvern perimeter-merkja-eitthvað svo fólk sé að fara of nálægt,“ bæti hann við.

Ekki þurfi meira en eina góða loftbólu til að springa svo hætt sé við því að fólk fái hraun í höfuðið.

„Það er ekki að spyrja að, 1.200 gráðu sletta sem kemur í höfuðið á þér, það verður vondur hausverkur.“

12. júlí 2023 kl. 21:24 – uppfært

Fóru vegna útkalls en reyna mögulega aftur á morgun

Landhelgisgæslan ætlar að skoða það hvort þyrla þeirra fari aftur upp að gosstöðvunum á morgun til að slökkva í og sporna gegn gróðureldum á svæðinu.

Þyrla gæslunnar þurfti að hverfa frá verkefninu í kvöld vegna útkalls sem barst stuttu fyrir kl. 19. Um var að ræða slasaðan göngumann í Þjórsárdal. Maðurinn var sóttur af landhelgisgæslu og honum komið til borgarinnar með minni háttar áverka.

Þetta staðfestir Gunnar Örn Arnarson í aðgerðarstjórn Landhelgisgæslunnar. Hann segir vel koma til greina að þyrlan fari aftur á morgun að gosstöðvunum að vinna á eldunum. Það verði skoðað í fyrramálið.

Samkvæmt svörum frá almannavörnum var það aðeins Landhelgisgæslan sem fór í verkefnið í dag og sú eina sem kemur til greina að svo stöddu. Til þess þarf sérstakan búnað, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra almannavarna.

Þyrla landhelgisgæslunnar þann 12.7 2023. Þyrlan þurfti að hverfa frá aðgerðum sínum við Litla-Hrút vegna útkalls í Þjórsárdal. Hér er hún að útkalli loknu.
RÚV / Ari Páll Karlsson

Þyrlan sést hér fljúga frá Landspítalanum Fossvogi eftir að útkalli lauk í kvöld.

12. júlí 2023 kl. 20:07 – uppfært

Nemarnir dást að gosinu meðan þau mæla það í bak og fyrir

Ármann Höskuldsson rannsóknaprófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands fór með nemendur sína að gosinu síðdegis í dag. Þau mæla hraunrennslið til þess að fá sem besta mynd af því hvert líklegast er að það renni og hve mikið af kviku kemur upp.

Finna má viðtal við Ármann og margt fleira í fréttinni hér að neðan.

12. júlí 2023 kl. 19:58 – uppfært

Minni skjálftavirkni vegna jafnvægis í kvikuganginum

Flest bendir til að jafnvægi sé komið á þrýsting í kvikuganginum undir gossprungunni. Aflögun sem mældist samfara kvikuinnskotinu hefur minnkað verulega eftir að gos hófst í fyrradag. Þessu greinir Veðurstofa Íslands frá á vef sínum, en GPS-gögn þeirra benda til þessa.

„Það þýðir að jafnvægi sé smám saman að komast á milli magns kviku sem streymir af dýpi inn í kvikuganginn og magns kviku sem flæðir frá eldgosinu upp á yfirborðið,“ segir á vef veðurstofunnar.

Jafnvægið í kvikuflæði þýðir minni skjálftavirkni þar sem þrýstingur innskotsins á jarðskorpuna hefur minnkað.

RÚV / Kristján Þór Ingvarsson

12. júlí 2023 kl. 19:02

Niðurstöður mælinga vísindamanna 11. júlí birtar

Fyrstu niðurstöður mælinga á gosinu við Litla-Hrút hafa verið birtar á vef Jarðvísindastofnunar.

Farið er yfir mælingar á hraunflæði, efnasamsetningu hraunsins og gasútstreymi. Þá eru birtar myndrænar niðurstöður.

Mælingar á hraunflæði voru gerðar með því að fljúga yfir gosstöðvarnar í gær og taka myndir. Niðurstöður sýna að kl. 18, um 25 tímum eftir gosbyrjun hafi rúmmál hraunsins hafi verið 1,7 milljón rúmmetrar, sem samsvarar því að meðalhraunflæði þessa 25 tíma hafi verið um 18-20 rúmmetrar á sekúndu.  Áætlað er að safna meiri upplýsingum á næstunni og fylgjast með þróun hraunrennslisins.

Jarðvísindastofnun

Myndin er tekin af vef Jarðvísindastofnunar, unnin í samstarfi fjölda vísindamanna og stofnanna. Hún sýnir útbreiðslu hraunsins við Litla-Hrút samanborið við hraunrennsli síðustu ára.

Mælingar á efnasamsetningu hraunsins sýna að hraunið sem kom upp í upphafi goss við Litla-Hrút er af svipaðri gerð og hraunið sem kom upp í lok gossins 2021 og þess sem gaus í ágúst í fyrra. Efnasamsetning gassins er jafnframt sambærileg og í upphafi goss 2022, með tiltölulega háan styrk koltvíoxíðs.

12. júlí 2023 kl. 18:35

Þyrla landhelgisgæslunnar slekkur gróðurelda við gosstöðvarnar

Þyrla landhelgisgæslunnar er nú að störfum við gosstöðvarnar þar sem unnið er að því að bleyta í gróðri til að slökkva í og sporna við gróðureldum. Vinnan hófst upp úr klukkan fjögur síðdegis og verður haldið áfram á meðan aðstæður leyfa.

Slökkvistarfið fer þannig fram að skjóla er hengd neðan í þyrluna og vatn sótt í nærliggjandi stöðuvötn og nýtt til að bleyta í gróðrinum.

Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna sagði í kvöldfréttum útvarps að nú sé einblínt á svæðið norðan við gossprunguna.

„Við erum að reyna að slökkva eldana eða allavega minnka áhrif af gróðureldunum. Með því erum við að reyna að minnka bæði mengunina og hindra frekari útbreiðslu eldanna.“

Hjördís segir vera mikla mengun á svæðinu, ekki síst vegna gróðureldanna. Ef vel gangi að slökkva í gróðureldum með þessum hætti segir hún ekki útilokað að rýma gæti þurft svæðið til að slökkva elda víðar umhverfis gosstöðvarnar.

„Það var ákveðið að byrja norðanmegin við sprunguna, þar er ekki fólk og þar af leiðandi þurfum við ekki að rýma vegna þessarar prófunar. Ef þetta gengur vel þá vitum við ekki hvað við þurfum að gera til að hjálpa til til að sporna við þessari mengun.“

12. júlí 2023 kl. 18:06

Krísuvíkurvegur verður lokaður í nótt

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni verður Krýsuvíkurvegur lokaður í nótt, aðfararnótt fimmtudags, frá miðnætti til klukkan sex í fyrramálið vegna vinnu við ræsagerð.

Þeim sem ætla að ferðast til og frá eldgosinu er bent á að fara um Reykjanesbraut, Grindavíkurveg og Suðurstrandarveg á meðan á þessari vinnu stendur.

12. júlí 2023 kl. 16:49

Geta ekki bjargað þeim sem æða út á hraunið

Enn streymir fólk að gosinu. Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir alltof mörg dæmi um að fólki fari sér að voða og gangi hættulega nálægt því.

Hann segir björgunarsveitir lítið getað gert ef fólk fer of nálægt.

„Það er ljóst að fólk sem að hættir sér inn á hraunið og lendir í vandræðum og kemst ekki sjálft til baka því verður ekki bjargað. Það er enginn að fara að ganga inn á nýrunnið hraun, þar sem undir kraumar 800 þúsund gráðu heit kvika til þess að bjarga þér.“

Engin stór óhöpp hafa þó orðið það sem af er degi.

12. júlí 2023 kl. 15:44 – uppfært

Hvað kostar að leggja hjá gosinu?

Bílastæði við nýja gönguleið gossins eru stæðin P2 og P4, örlítið austar en P1 bílastæðin við leiðina að Meradölum.

Gjaldskylda á bílastæðunum P2 og P4 hefur ekki hækkað frá gosinu 2022. Enn kostar 1.000 krónur að leggja fólksbíl á stæðunum og gildir það í 24 tíma, samkvæmt Guðrúnu Björk Guðsteinsdóttur, hjá Landeigendafélagi Ísólfsskála.

Meira kostar að leggja rútum, sé miðað við 24 sæta rútu er verðið 2.400 krónur en séu þær stærri kostar dagurinn 4.000 krónur.

Sigurður Guðjón Gíslason, formaður Landeigendafélags Hrauns, tjáir fréttastofu að bílastæði félagsins P1 hafi verið lokað af lögreglu. Sjálfur kveðst hann ekki hafa fengið skýringu, en honum þykir líklegt að lokunin stafi af mengun á svæðinu.

Bílastæðið við Meradalaleið. Eldgos hófst við Litla-Hrút þann 10. júlí 2023.
RÚV / Ari Páll Karlsson

RÚV – Ari Páll Karlsson

Bílastæði P1 við Meradalaleiðina hefur verið lokað af lögreglu.

12. júlí 2023 kl. 15:37 – uppfært

Fjöldi fólks við gosstöðvarnar

Svo virðist sem fjöldi fólks hafi ákveðið að nýta góða veðrið til þess að skoða gossvæðið í dag, af myndum að dæma.

Benedikt Sigurðsson fréttamaður er við gosstöðvarnar og sendi fréttastofu mynd frá svæðinu.

Líkt og sjá má eru flestir vel búnir, en fram og til baka er gönguleiðin um það bil 18 kílómetrar.

„Líf og fjör við gosstöðvarnar“ –Benni
RÚV / Benedikt Sigurðsson

RÚV – Benedikt Sigurðssn

12. júlí 2023 kl. 14:18 – uppfært

Endurmeta allt sem snýr að ferðamennsku á Reykjanesi

Búið er að auglýsa eftir landvörðum í tímabundin störf við gosstöðvarnar vegna þess gríðarlega álags sem við blasir með fjölgun gesta.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir í samtali við fréttastofu einboðið að taka til endurskoðunar allt það sem snúi að ferðmennsku á Reykjanesi, mikið álag hafi verið á björgunarsveitunum frá fyrsta gosinu í mars 2021 og því verði að hugsa allt skipulag uppá nýtt.

Guðrún segist vona að fólk sem leggi leið sína að gosstöðvunum fari varlega og sé vel útbúið og hlýti tilmælum almannavarna og annarra sem sjá um umgengni um svæðið. Þannig geti allir notið betur þeirrar upplifunar sem heimsókn á gosstöðvarnar sé segir Guðrún Hafsteinsdóttir.

12. júlí 2023 kl. 14:03

Lánaði ókunnugum ferðamönnum bíl til að skoða gosið

Halldóra Guðbjörg Sigtryggsdóttir, sumarstarfsmaður í menningar- og upplýsingamiðstöð í Grindavík, lagði sitt af mörkum í ferðaþjónustu bæjarins þegar hún lánaði breskum ferðamönnum bílinn sinn óvænt. Halldóra birti færslu á Facebook þar sem hún tilkynnti að bíllinn hefði skilað sér.

Facebook / Halldóra Sigtryggsdóttir

Halldóra sagði í samtali við fréttastofu að fólk sem er að ferðast frá með skútu frá Bretlandi hafi komið til hennar í vinnuna í gær og beðið um upplýsingar. Hún hafi bent þeim á gosið, en þá var nýbúið að opna gosstöðvarnar. Fólkið var mjög áhugsasamt en ekki með bíl og þegar þau höfðu rætt sín á milli um það hvernig þau ættu að fara að gosinu bauð Halldóra þeim bílinn sinn.

„Þau héldu auðvitað að ég væri að djóka en stukku svo á boðið. Ég er pínu hvatvís og mér finnst gaman að gera stundum eitthvað klikkað.“

Ferðamennirnir höfðu svo gaman af gosinu að þau komu ekki heim fyrr en að verða fjögur í nótt. Halldóra ætlar að hitta þau aftur í kvöld áður en þau halda ferðalaginu áfram.

12. júlí 2023 kl. 13:49

Reykeitrun gæti verið hættulegri en gasmengun

Reykeitrun vegna gróðurelda getur reynst hættulegri en gasmengun. Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir, líkir áhrifum gróðureldanna við hraunjaðarinn við það sem sést hefur í Bandaríkjunum og Kanada.

Reykurinn frá gróðureldunum geti haft haft slæmt áhrif á öndunarfæri fólks og því varað við að vera mikið innan um hann.

Gæti þetta þýtt að þetta gossvæði sé hættulegra en hin tvö?

„Já, við erum að reyna að komast betur að greiningu hvað nákvæmlega er í reyknum en það er alveg hugsanlegt,“ segir Gunnar.

Hann bætir við að vegna þess hve hlýtt sé úti í dag fari gosgufan beint upp og því sé minni hætta af gosstróknum sjálfum. Reykurinn af gróðureldunum liggi hins vegar lágt og því gæti stafað meiri hætta af honum.

12. júlí 2023 kl. 13:32

Betra að fylgjast með gosinu úr fjarlægð

Fréttastofa ræddi við nokkur þeirra sem virtu fyrir sér gosið í gærkvöldi og nótt. Öll voru sammála um að þetta væri mikil sjónarspil og best væri að fylgjast með úr fjarlægð, þó einhver hafi hætt sér nær.

12. júlí 2023 kl. 13:14

Loftgæði mælast mjög góð eða góð um allt land

Loftgæði um allt land mælast mjög góð eða góð og brennisteinsmengun virðist ekki mælast neins staðar. Þetta sýnir kort Umhverfisstofnunnar. Mengun og loftgæði geta þó breyst hratt, allt eftir vindátt og vindhraða.

Loftgæði í Reykjavík klukkan 13 miðvikudaginn 12. júlí 2023. Kortið sýnir loftgæði af völdum SO2 (brennisteinstvíoxíð).
Umhverfisstofnun

12. júlí 2023 kl. 12:54

Reyna að stýra bílum inn á bílastæði

Lögreglan kvartar yfir að bílstjórar leggi á Suðurstrandarvegi og loki fyrir aðgang sjúkrabíla. Um 550 bílar voru á bifreiðastæðum við Skála – Mælifell á miðnætti. Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður í Grindavík brýnir fyrir þeim sem ætla að skoða gosið að nota bílastæði.

„Það hefur verið lagt hérna alveg niður á Suðurstrandarveg sem er alveg bannað og akkúrat í þessum töluðum orðum erum við að reyna að stýra þessu inn á bílastæðin sem taka hundruð bíla. Hjarðhegðunin er þannig að ef einhver leggur niður við veg þá virðast allir elta hann. Við megum ekki líta af þessu.“

Hjálmar reiknar með að margir leggi leið sína að gosstöðvunum í dag. Í gærkvöldi var byrjað að lagfæra göngustíga.

Gosstöðvarnar við Litla Hrút 2023.
RÚV / Kristján Ingvarsson

„Við erum byrjaðir að stika leiðir til að að stýra fólki á örugga staði til þess að horfa á eldgosið og höfum hættumatskortið frá Veðurstofu Íslands til hliðsjónar og erum að reyna að tryggja öruggt aðgengi að svæðinu bæði fyrir ferðamenn og svo ekki síður fyrir viðbragðsaðila.“ segir Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar.

Hann segir að haft sé samstarf við Verðurstofuna, almannavarnir og vísindamenn.

„Við erum bara að taka góðar ákvarðanir, þetta gæti verið stutt gos og gæti verið langt og við þurfum líka að horfa fram í tímann hvernig við sjáum aðgengið fyrir okkur.“

Atli segir að fólki sé vísað á Merardalaslóðina, gangan sé löng en leiðin sé að stærstum hluta greiðfær.

„Við erum búin að koma fyrir einum stika leið upp á útsýnispall sem veitir gott útsýni yfir gossvæðið. Við erum ekki gera gönguleið upp að gosopi sem er innan hættusvæðisins sem þar er.“

12. júlí 2023 kl. 12:45

Engir nýir gígar hafa myndast

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir stöðuna á gosinu enn svipa til þess sem var í gær. Engar nýjar gossprungur hafa myndast og líklegast sé að á endanum vaxi gígarnir saman svo úr verði einn. Kristín segir mikilvægt að ferðafólk og göngufólk kynni sér aðstæður.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands.
RÚV / Karl Sigtryggsson

„Aðstæður eru auðvitað ekki heppilegar í svona norðanátt þar sem er bæði reykur frá gróðureldum og gasmengun sem leggur yfir gönguleiðina. Þannig það þarf auðvitað að taka það með í reikninginn þegar fólk ákveður hvort það vilji ganga eða ekki.“

Stendur til að setja upp nýja mæla, líkt og var rætt í gær?

„Við erum í því að setja upp nýa mæla, það þurfti líka að taka niður mæli í gær sem var hreinlega í hættu að verða undir hrauni. Þannig þetta er allt í vinnslu, bæði er verið að setja upp gasmæla og veðurstöð og verið að færa skjálftamæla og GPS mæla.“

12. júlí 2023 kl. 12:13 – uppfært

Eldarnir liggja eftir sprungunni

Jarðvísindastofnun birti þessa mynd af eldgosinu á tólfta tímanum í dag.

Rauðlóandi kvikan brýtur sér leið upp á yfirborðið í tveimur línum. Í annarri má sjá í það minnsta sjö gosop en eitt mun lengra í goslínunni fjær okkur. Vinstra megin er gróðurþekja en mökkurinn hylur sín hægra megin nema hvað fell sjást í bakgrunni.
Jarðvísindastofnun Háskólans

12. júlí 2023 kl. 11:47

Ekki allir virða lokanir

Fréttamaður kom auga á bíl á erlendu númeri sem hefur verið lagt utanvegar á leiðinni til Vigdísarvalla, um tveimur kílómetrum inn fyrir lokuninni. Því er ljóst að það eru ekki allir sem virða lokanir en lögregla og björgunarsveitir brýna fyrir fólki að halda sig innan skilgreinds svæðis.

Bíl lagt utanvegar á leiðinni að Vigdísarvöllum.
RÚV / Benedikt Sigurðsson

12. júlí 2023 kl. 11:35 – uppfært

Mikil umferð um Krýsuvíkurveg

Mikil umferð er um Krýsuvíkurveg að gosstöðvunum. Opið er að svæðinu frá Suðurstrandarveg og greinilegt er að fjöldi fólks hefur lagt leið sína þangað. Benedikt Sigurðsson, fréttamaður RÚV, tók þessa mynd af lokunum að Vigdísarvöllum.

RÚV / Benedikt Sigurðsson

12. júlí 2023 kl. 11:13

Loftmyndir af gosinu í nótt

Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður og Kristján Þór Ingvarsson, tökumaður fréttastofu RÚV, voru við gosstöðvarnar í nótt. Kristján tók meðal annars glæsilegar myndir af gosinu úr lofti og sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

12. júlí 2023 kl. 11:08

Hægt að fylgjast með brennisteinsmengun

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá benda áhugasömum á að hægt er að fylgjast með brennisteinsmengun frá eldgosinu í gegnum vefsíðuna https://maps.s5p-pal.com/so2/.

Athygli er þó vakin á því að þetta eru greiningar frá deginum áður.

Hægt að fylgjast með brennisteinsmengun.
Copernicus

12. júlí 2023 kl. 10:36 – uppfært

Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum

Lögregla ítrekar hve mikilvægt er að hafa í huga að gosstöðvarnar eru hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Hún varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar, hætta aukist þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar.

Opið er inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi en ekki frá öðrum vegum eða vegaslóðum. Ganga þarf um 20 km leið fram og til baka og gönguferðin hentar því ekki öllum.  Gangan fram og til baka tekur um 3 til 4  klukkustundir fyrir vanan göngumann.  

Lögreglan hvetur göngufólk til að klæða sig eftir veðri, taka með sér nesti og gleyma ekki að hafa næga hleðslu á farsímum. Farsímasamband á svæðinu er ekki tryggt.

Bílum skal lagt á merktum stæðum við Suðurstrandarveg en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar.  Akstur utan vega er bannaður.

12. júlí 2023 kl. 9:59 – uppfært

Lifandi kort sýnir gosefnaspá næstu klukkustundirnar

Belgingur hefur kveikt á dreifingarspá sinni þar sem sjá má gosefnaspá á lifandi korti. Samkvæmt spánni í dag stefna gosefnin á haf út, í burtu frá Reykjanesskaganum og Höfuðborgarsvæðinu.

Spáin sýnir hvernig brennisteinsdíoxíð (í lit) og aska (svört korn og stjörnur) myndu dreifast miðað við veðurspár Belgings og ákveðnar forsendur um hæð gosmakkar, magn og kornastærðardreifingu gosefna.

Belgingur

Spáin er endurgerð á tveggja tíma fresti.

12. júlí 2023 kl. 9:53

Bætt fjarskiptasamband við gosstöðvarnar

Síminn hefur virkjað nýjan sendistað sem bætir farsímasamband við gosstöðvarnar. Nýi sendistaðurinn er á Hafnhóli við Vatnsleysuvík en snýr í átt að gosstöðvunum sem tryggir betra farsímasamband.

Uppsetning á bráðabirgðasendum sem þessum er unnin í samstarfi við Mílu, Almannavarnir, Neyðarlínuna, og önnur fjarskiptafélög en verið er að skoða frekari aðgerðir sem fara þarf í til að auka öryggi vegfarenda á svæðinu.

12. júlí 2023 kl. 9:33

Umhverfisstofnun óskar eftir landvörðum

Umhverfisstofnun auglýsir eftir landvörðum til að starfa á gosstöðvunum á Facebook síðu sinni til að gæta þess að ákvæðum náttúruverndarlaga sé fylgt og hafa eftirlit með akstri utan vega á svæðinu 

12. júlí 2023 kl. 9:24

Útbreiðsla hraunsins í gær

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá hefur birt mynd á Facebook-síðu sinni þar sem sjá má útbreiðslu hraunsins seinni partinn í gær. TIl samanburðar eru útlínur hraunsins frá því á mánudag.

Háskóli Íslands / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá

12. júlí 2023 kl. 9:20

Gosið hegðar sér svipað og í gær

Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir stöðuna á gosinu mjög svipaða og í gær.

„Virknin fór náttúrulega mikið niður þarna eftir fyrsta daginn og það mallar ágætlega í gýg, svona fyrir miðju sprungunnar. Hraunið virðist vera að renna þarna aðallega til suðurs í dalverpi og í átt að Merardölum og þar.“

En það er ekki aðeins hætta af gasmengun á svæðinu heldur getur nýtt gosop myndast með litlum fyrirvara, ekki satt?

„Jú, eins og við þekkjum frá síðustu tveimur gosum, þá getur gosið breytt um fasa með stuttum fyrirvara og við kannski sjáum ekki mikið í okkar gögnum áður en nýtt gosop opnast.“

En er hægt að sjá eitthvað hvar mesta hættan er? Það var talað um í gær að kvikan væri á einhverri hreyfingu enn þá, er það ekki?

„Jú, það er alls ekki ólíklegt. Það er ekki auðvelt að segja hvar ný gosop gætu myndast en líklegustu staðirnir eru þó einhvers staðar á kvikuganginum, sem að liggur þarna í átt að og kannski innundir Keili að einhverju leyti.“

Jarðvísindadeild Háskóla Íslands er búin að taka sýni úr nýju kvikunni og Magnús Freyr segir sérfræðinga Veðurstofunnar víða spennta eftir niðurstöðum úr efnagreiningu þess.

12. júlí 2023 kl. 8:19

Meira en að segja það að ganga að gosinu

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, var til viðtals í morgunfréttum klukkan 8. Hann sagði álagið á björgunarsveitum við gosstöðvarnar ekki hafa verið mikið í gær og í nótt þó nokkrum útköllum hafi verið sinnt. Um þrjú þúsund manns lögðu leið sína að gosstöðvunum síðan þær voru opnaðar í gær.

„En það voru svona nokkrir minniháttaráverkar, eitthvað um að fólk bara treysti sér ekki lengra eða var hreinlega komið að örmögnun. Svona 7-8 tilvik sem við þurftum að grípa inní.“

Þannig það er kannski réttast að mælast til þess að fólk ja, sé ekki að fara þarna illa búið, eða hvað?

„Jú, þetta er náttúrulega löng ganga. Þetta eru 20 kílómetrar fram og til baka og það tekur á. Það kólnar að kvöldlagi ef fólk ætlar að fara þetta á þessum tíma. Þannig þetta er bara meira en að segja það og það kom alveg í ljós í nótt.“

RÚV

Jón Þór segist ekki vita hve margt björgunarsveitarfólk verði í viðbragðsstöðu næstu daga. Hann óskar auk þess eftir stuðningi stjórnvalda.

„Við erum bara að hóa saman fólki eins og við getum. Þetta er ekki alveg auðvelt verk. Okkar fólk er náttúrulega líka í sumarleyfi eins og aðrir og við höfum nú lagt áherslu á að stjórnvöld stigi stigi þarna fast inn og komi með landverði á svæðið sem er full þörf á.

Og svo sýnir reynslan okkur að þetta er að verða með vinsælli ferðamannastöðum á landinu hvort sem að gos er í gangi eða ekki. “

12. júlí 2023 kl. 7:05

Ágætis veður til að virða fyrir sér gos­stöðv­arn­ar í dag

Það hvessir á landinu í dag, víða norðlæg átt 8-13 m/s en hægari vindur á Suðurlandi og í innsveitum norðaustan- og austanalands. Um norðanvert landið verður skýjað með köflum og dálítil væta víða, hiti 5-10 stig. Til suðurs má búast við hita allt að 18 stigum að degi til en líkur eru á skúrum suðaustantil.

Eldgosamyndir við Litla-Hrút 2023.
RÚV / Krirstján Ingvarsson

Veðurstofan býst við ágætis veðri til þess að virða fyrir sér gosstöðvarnar í dag. Veður verður þurrt, bjart og milt með stinningsgolu eða kalda til að blása gasinu burt, að því gefnu að gasstraumurinn liggi ekki yfir gönguleiðina.

Á morgun verður norðan og norðvestanátt, 8-15 m/s og sumsstaðar hvassara við fjöll, þá sérstaklega annað kvöld. Rigning um norðanvert landið og svalt í veðri, en áfram þurrt, bjart og milt sunnantil.

12. júlí 2023 kl. 4:24

Fólk færir sig nærri hraunstraumnum

Fólk er farið að hætta sér ansi nærri hluta af hraunstraumi sem fór að kvíslast út frá gígopinu upp úr klukkan þrjú í nótt. Hann flæðir til suðurs eins og sjá má á vefmyndavél RÚV. Mikill reykur umlykur svæðið.

Áfram er norðanátt í kortunum og hægari vindur sunnanlands í nótt en gengur í fimm til tíu metra á sekúndu fyrir hádegi á gosstöðvunum.

Fólk við gosið.
RÚV

12. júlí 2023 kl. 1:42 – uppfært

Gætu opnast nýjar sprungur

Jarðeðlisfræðingurinn Benedikt Ófeigsson segir alltaf hættu á því að nýjar sprungur opnist þegar eldgos verður líkt og gerðist í gosinu á Reykjanesskaga í hittifyrra.

„Fyrstu staðirnir sem mér finnst líklegt að opnist sprunga væri þarna sunnan í dalverpinu en þar er náttúrulega orðið fullt af hrauni núna þannig að þar er enginn. En svo er spurning með norður af minnsta gígnum sem byrjaði að gjósa í gær.“

12. júlí 2023 kl. 0:24 – uppfært

Gosþyrstir göngugarpar ganga inn í reykjarmökkinn

Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður og Kristján Ingvarsson tökumaður voru við gosstöðvarnar við Litla-Hrút í dag. Tryggvi segir mikinn reykjarmökk leggja frá svæðinu en fólk lét það þó ekki á sig fá og gekk ótrautt í gegnum reykinn og í átt að gosinu.

Eldgosamyndir. Náttúruvá. Fremst á myndinni er gult skilti merkt lögreglunni þar sem segir: Þú ert að fara inn á hættusvæði! Í bakgrunni, fyrir miðri mynd, er eldgosið og reykur stígur upp af því til himins. Þar framan við rýkur úr brennandi gróðri. Himinninn er heiður, að mestu fölblár en gulur niðri við sjónarrönd.
RÚV / Kristján Ingvarsson

Eldgosamyndir við gosstöðvarnar 2023.
RÚV / Kristján Ingvarsson

Eldgosamyndir við Litla-Hrút 2023.
RÚV / Krirstján Ingvarsson

Eldgosamyndir við Litla-Hrút.
RÚV / Kristján Ingvarsson

Gosstöðvarnar við Litla Hrút 2023.
RÚV / Kristján Ingvarsson

11. júlí 2023 kl. 23:09

Rokselst í þyrluflug

Sumir fara hjólandi að gosinu, aðrir láta sér nægja að sjá það úr lofti.

Friðgeir Guðjónsson, framkvæmdastjóri þyrluleigunnar Reykjavík Helicopters, var í þann mund að taka á loft með hóp ferðamanna þegar Benedikt Sigurðsson fréttamaður náði tali af honum á Reykjavíkurflugvelli.

Hann segist varla hafa haft undan að svara erindum frá því gosið hófst. Sætið kostar 69 þúsund krónur. „Það selst allt upp jafnharðan,“ segir Friðgeir. „Það er uppselt nokkra daga fram í tímann.“

11. júlí 2023 kl. 22:30

Töldu 1.200 við gosið á 30 mínútum

Alma Ómarsdóttir fréttamaður er enn við gosið og þar er talsvert af fólki. Hún mætti tveimur ungum mönnum áðan, sem sögðust hafa talið alla þá sem þeir mættu um hálftíma milli klukkan 21 og 21:30. Það voru ríflega tólf hundruð manns.

Einn þeirra sem lagði leið sína upp að gosinu í kvöld var Henrik Dahlstädt frá Svíþjóð, sem fór leiðina hjólandi.

„Þetta var frábært. Ég hef aldrei séð nokkuð þessu líkt,“ segir Henrik. Hann segir að það hafi gengið nokkuð vel að hjóla, þótt það hafi reynt á. Hann hafi getað farið malarslóða nær alla leiðina. Að endingu varð hann þó að skilja hjólið eftir og ganga síðasta spölinn.

11. júlí 2023 kl. 21:05 – uppfært

Uppgrip fyrir flugmenn

Opnað var fyrir almennt flug yfir gosstöðvarnar síðdegis í dag.

Benedikt Sigurðsson fréttamaður og Viðar Hákon Söruson myndatökumaður flugu yfir gosið um kvöldmatarleyti með flugvél Circle Air og náðu myndbandinu sem sést hér að neðan.

Benedikt segir að þónokkrar þyrlur hafi verið á svæðinu og ljóst að í gosinu felist mikil upgrip fyrir flugmenn. Rætt verður við þyrluflugmann í tíufréttum sjónvarps í kvöld.

11. júlí 2023 kl. 20:27 – uppfært

Kvikugangurinn nær undir Keili

Þessi nýi kvikugangur heyrir til tíðinda.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, hefur sagt á að hugsanlega sé nýtt kvikuinnskot að myndast á Reykjanesskaga. Hann skýrði það nánar út í kvöldfréttum sjónvarps.

„Það er aflögun í gangi í áttina að Keili, sem bendir til þess að ný kvika sé í aðfærsluæðina,“ segir hann. Kvikugangurinn virðist færast norðureftir.

Ef innflæði kviku er meira en útflæðið í gosinu þá byggist þrýstingur upp. „Þannig gætum við farið að búa til fleiri gossprungur.“

En hvaða þýðingu hefur það að kvikugangurinn sé kominn undir Keili?

„Það getur auðvitað haft þau áhrif að sprunga myndist í gegnum fjallið,“ segir Þorvaldur. Hraun gæti þá runnið niður hlíðar fjallsins og breytt lögun þess frá keilunni sem við þekkjum í dag, og fjallið heitir eftir.

Eins og áður segir er þó talið líklegast að nýjar sprungur myndist nær Litla-Hrúti.

11. júlí 2023 kl. 19:54 – uppfært

Við hverju má búast á morgun?

Nýjustu gögn benda til þess að kvikugangurinn hafi lengst frá í gær, sé í tveimur hlutum og nái nú undir Keili.

Ekki er hægt að útiloka að ný gosop myndist með litlum fyrirvara. Mestar líkur eru á að þau opnist við Litla-Hrút, en skilgreint hættusvæði er þó töluvert stærra og nær alla leið umhverfis Keili.

Skilgreint hættusvæði 11. júlí 2023.
RÚV / Sigurður K. Þórisson

Gasmengunarspá hefur verið gefin út fyrir morgundaginn og gert ráð fyrir að mengunin berist til suðurs, enda norðanátt í kortunum.

RÚV / Sigurður K. Þórisson

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gaf út kort með nýrri gönguleið í dag, sem kölluð er Meradalaleið. Gangan er um níu kílómetrar hvora leið og endar uppi á Hraunsels-Vatnsfelli.

Vindáttin í dag og á morgun er ekki heppileg fyrir göngufólk. Gönguleiðin upp að gosi er úr suðvestri og því berst mengunin yfir hluta hennar. Ásta Þorleifsdóttir hjá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík lýsti því fyrr í dag að mikill reykur hafi legið yfir gönguleiðinni á tveimur köflum.

„Eigum við að segja að það hafi verið frekar óþægilegt, það sveið í augu,“ sagði hún við Tryggva Aðalbjörnsson fréttamann síðdegis og ráðlagði fólki að hugsa sig um áður en haldið væri af stað að gossöðvum.

Tvær myndir vegna eldgoss við Litla-Hrút. Önnur er af gönguleiðinni þangað, Meradalaleið. Hin er af kvikugöngunum sem nú liggja alla leið undir Keili
RÚV / Sigurður K. Þórisson - Veðurstofa Íslands - Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

11. júlí 2023 kl. 19:24 – uppfært

Margt breyst á fyrsta sólarhringnum

Alma Ómarsdóttir fréttamaður hefur verið við gosið í allan dag ásamt Braga Valgeirssyni myndatölumanni.

Hún segir aðstæður töluvert breyttar frá því sem var í gær. Þá vall kvika upp úr mörg hundruð metra langri sprungu, en síðan þá hefur virknin safnast fyrir í einum gíg. Hraunið breiðist suður með hlíðum Litla-Hrúts og er farið að nálgast veginn sem lá að síðasta gosi.

„Þetta er óneitanlega tilkomumikið. Þótt það hafi dregið úr virkninni þá er þetta mjög fallegt að sjá,“ sagði Alma í kvöldfréttum sjónvarps. Hraunið breiðist niður með suðurhlíðum Litla-Hrúts og er farið að nálgast veginn sem lá að síðasta gosi.

11. júlí 2023 kl. 18:31

Kannski betra að velja annan dag

Ásta Þorleifsdóttir hjá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík, ráðleggur fólki að hugsa sig um áður en það heldur af stað í átt að gosstöðvunum.

„Ef þú átt kost á því að velja annan dag er það nú kannski betra. Svo verður maður að beita heilbrigðri skynsemi og horfa til himins og sjá hvernig mökkurinn af eldgosinu liggur,“ segir hún.

Ásta var nýkomin frá gosstöðvunum þegar Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður ræddi við hana.

„Hraunið fyllti fyrsta dalinn um hádegisbilið og byrjaði að renna örlítið til austurs. Við það kviknaði í mjög þykkum mosaþembum þannig að við höfum haft áhyggjur af miklum reyk sem stafar af þessum sinueldum.“

„Eigum við að segja að það hafi verið frekar óþægilegt, það sveið í augun og var mjög mikill reykur.“

11. júlí 2023 kl. 18:04

Dregur úr gosóróa og strókavirkni

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands bendir á það á Facebook-síðu sinni að það dragi áfram jafnt og þétt úr gosóróa við Litla-Hrút. Lítil strókavirkni er sjáanleg núna á vefmyndavél RÚV.

Það dregur úr strókavirkni og gosóróa í eldgosinu við Litla-Hrút
Facebook / Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands.

11. júlí 2023 kl. 17:56 – uppfært

„Gas getur safnast í dældir og verið banvænt“

Nýjar loftmyndir sem fréttastofu bárust frá Landhelgisgæslunni sýna hvernig reykur frá gróðureldum á svæðinu umlykur svæðið.

Svæðið er opið almenningi en aðstæður á svæðinu varhugaverðar. Veðurstofa Íslands sagði á vef sínum síðdegis að gasmengun á svæðinu væri viðvarandi og hættan aukist þegar vindur lægði.

„Gas getur safnast í dældir og verið banvænt. Varað er við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar,“ segir í færslu veðurstofunnar, þar sem sjá má kort af hættusvæði.

Nánar um það hér neðar í fréttavaktinni.

Myndir frá Landhelgisgæslunni teknar síðdegis þann 11. júlí 2023 sýna hvernig reykur frá gosinu og gróðureldunum þar í kring umlykur svæðið.
Landhelgisgæslan / Elvar

Myndir frá Landhelgisgæslunni teknar síðdegis þann 11. júlí 2023 sýna hvernig reykur frá gosinu og gróðureldunum þar í kring umlykur svæðið.
Landhelgisgæslan / Elvar

Myndir frá Landhelgisgæslunni teknar síðdegis þann 11. júlí 2023 sýna hvernig reykur frá gosinu og gróðureldunum þar í kring umlykur svæðið.
Landhelgisgæslan / Elvar

11. júlí 2023 kl. 17:32

Þurfa að færa jarðskjálftamæli vegna hraunsins

Þótt hraunið ógni ekki helstu innviðum, er ekki þar með sagt að ekki þurfi að bregðast við hrauninu með einhverjum hætti.

Verkfæðistofan ÍSOR vekur athygli á því á Facebook að færa þurfi jarðskjálftamæli fyrirtækisins, FAF, þar sem hraunflæðið stefni rakleitt á hann. Mælirinn er einn sautján jarðskjálftamæla ÍSOR á Reykjanesskaga sem hafa ásamt mælum Veðurstofunnar skrásett jarðskjálfta á skaganum síðustu ár.

Mælinum verður því fundinn nýr staður í samvinnu við Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands.

11. júlí 2023 kl. 17:04

Hugsanlega nýtt kvikuinnskot að myndast

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir hugsanlegt að nýtt kvikuinnskot sé að myndast á Reykjanesskaga. Ný gögn sýn að kvikugangurinn hefur færst kílómetra í norðaustur og teygir sig nú undir Keili. Þetta kann að vita á að ný gosop opnist norður af þeim sem nú eru virk.

„Þetta getur líka verið blint innskot sem fer ekki lengra, sú staðreynd að gos er byrjað og búið að opna leið til yfirborðs, það náttúrulega léttir þrýstingi af öllu kerfinu, nema það sé að koma nýr skammtur af kviku eða nýtt innskot, sem er þá að auka innflæðið mun meira en það var fyrir degi síðan, þá getur náttúrulega allt gerst.“

Ef um nýtt innskot er að ræða gæti þó liðið nokkur tími þar til kvika brýtur sér upp.

„Hún gæti farið í gegnum sama ferli og þessi kvika sem nú er að gjósa, átt erfitt með að komast kannski síðustu þúsund metrana eða svo.“

Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði í viðtali í sjónvarpsfréttum RÚV.
RÚV

11. júlí 2023 kl. 16:37 – uppfært

Uppfært hættusvæði við gosstöðvarnar

Veðurstofan hefur uppfært hættumatskort fyrir gosstöðvarnar, sem skilgreinir hættusvæðið eins og það lítur út í dag.

Appelsínuguli liturinn sýnir skilgreint hættusvæði.

Í kringum gosstöðvar geta leynst ýmsar hættur. Gróðureldar geta kviknað og nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara. Einnig getur glóandi hraun fallið úr hraunjaðrinum og nýjar hrauntungur geta skyndilega brotist fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða.

Gasmengun er viðvarandi og hættan eykst þegar vind lægir, gas getur einnig safnast í dældir í landslaginu og verið banvænt.

Yfirvöld vara fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar.

Kort sem sýnir hættusvæði við gosttöðvarnar við Litla-Hrút.
Facebook / Veðurstofa Íslands

11. júlí 2023 kl. 15:55 – uppfært

Miklir gróðureldar við gosstöðvarnar

Alma Ómarsdóttir fréttamaður og Guðmundur Bergkvist myndatökumaður hafa verið við gosstöðvarnar í dag. Miklir gróðureldar loga núna í grennd við gossprunguna þar sem hraunið streymir fram. Mikill hiti er einnig í jörðinni sjálfri.

Ekki þarf mikið til að vindátt breytist sem getur breytt aðstæðum mjög hratt. Fólk þarf að vera vel útbúið til að vera á svæðinu að sögn Ölmu.

„Aðstæðurnar eru alls ekki góðar og verð eiginlega að segja að ég er pínu lítið hissa að það hafi verið opnað fyrir almenning á þessum tímapunkti, því í rauninni var miklu öruggara að vera þarna á ferli í gær heldur en í dag – allavega miðað við hvernig líðanin er að vera þarna upp frá,“ sagði Alma í síðdegisfréttum útvarps.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir mikilvægt að öll þau sem ætli upp að eldgosinu við Litla-Hrút fari varlega og séu vel útbúin í gönguna. Leiðin er 9 kílómetrar hvora leið og því mikilvægt að vera vel klædd, með vindþétta flík með sér, vel nestuð og með mikinn vökva. Stopult símasamband sé á svæðinu.

Björgunarsveitir ekki endilega eiga erfitt verkefni fyrir höndum við gæslu á svæðinu að sögn Jóns Þórs. „Það er okkar verkefni sem þjóðar að hvetja okkar erlendu gesti til þess að vera vel búin og vita hvað þau séu að fara út í.“ Mikilvægt sé fyrir þau að vita að gangan hefjist frá Grindavík en ekki Reykjanesbraut, þaðan sem þau sjá gosið.

11. júlí 2023 kl. 15:03 – uppfært

Flýta endurbótum á Krýsuvíkurvegi vegna gossins

Vegagerðin vinnur að því næstu daga að styrkja og bæta 1,3 kílómetra langan kafla á Krýsuvíkurvegi. Framkvæmdirnar áttu ekki að hefjast fyrr en síðar á þessu ári en var flýtt vegna gossins. Þannig geti vegurinn betur tekið á móti umferð, ef þörf verður á. Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar. Reikna má með umferðartöfum meðan á framkvæmdum stendur.

Viðgerðarkafli á Krýsuvíkurvegi
Aðsent / Vegagerðin

Kafli á Krýsuvíkurvegi sem stendur til að gera við.

Búast má við að öll umferð inn á svæðið aukist á næstunni, sérstaklega kringum gosstöðvarnar.

Vegagerðin vekur einnig athygli á því að óheimilt sé að leggja bílum í vegkanti á Reykjanesbraut og á Suðurstrandarvegi. Það skapi mikla hættu og eru vegfarendur beðnir um að virða þau tilmæli.

Víravegrið hafa verið sett upp á Krýsuvíkurdegi síðustu daga til að auka umferðaröryggi.

Víravegrið
Aðsent / Vegagerðin

Víravegrið á Krýsuvíkurvegi.

Vigdísarvallavegur og Höskuldarvallavegur eru lokaðir vegna jarðhræringanna að beiðni yfirvalda. Hugsanlega verður sú lokun fram yfir gos.

Vegagerðin ætlaði einnig í framkvæmdir á veginum við Festarfjall vegna mögulegs umferðarálags vegna gossins en það er til skoðunar að fresta þeim framkvæmdum að því er segir í fréttinni.

11. júlí 2023 kl. 15:01 – uppfært

Opið að gosstöðvum

Búið er að opna fyrir aðgang almennings að gosstöðvunum.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að opið sé inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi, en ekki frá öðrum vegum eða vegslóðum. Bílum á að leggja á merktum stæðum við Suðurstrandarveg, en ekki í vegkanti hans.

Vert er að vekja athygli á því að gönguleiðin, sem hefur verið kölluð Meradalaleið, er 20 kílómetra löng báðar leiðir. Því er vissara að vera vel búinn og klæða sig eftir veðri.

Kort sem sýnir gosstöðvarnar við Litla-Hrút, gosstöðvar síðustu tveggja ára og gönguleiðina upp að gosinu nú. Leiðin, blámerkt á kortinu, liggur í norðaustur frá Suðurstrandarvegi að merktum útsýnispunkti austan við gosið sjálft.
Lögreglan á Suðurnesjum

11. júlí 2023 kl. 14:27 – uppfært

Samantekt: Dregið úr virkni og gasmengun

Þá er kannski rétt að fara yfir stöðuna, nú þegar tæpur sólarhringur er liðinn frá því gos hófst.

  • Talsvert hefur dregið úr virkni eldgossins frá upphafi þess. Í byrjun var hraunflæðið töluvert meira en í gosum síðustu tveggja ára en það náði hámarki um klukkan 21 í gærkvöldi.
  • Hraun og gas streymir úr gígum en gosið myndar ekki ösku.
  • Dregið hefur úr gasmengun á svæðinu.
  • Gosstöðvarnar eru enn lokaðar almenningi. Veðurstofan segir mikilvægt að fólk dvelji ekki við gosstöðvarnar heldur fari eftir tilmælum almannavarna og viðbragðsaðila.
  • Nýjustu gögn benda til þess að kvikugangurinn milli Fagradalsfjalls og Keilis hafi færst um 1 km í norðaustur og nái undir Keili.
  • Hraun rennur til suðurs meðfram Litla-Hrúti og í litla lægð sunnan hans. Talið er að hún muni brátt fyllast og hraunið flæða áfram til suðurs. Haldi hraun áfram að renna mun það á endanum ná að hrauninu við Merardali, sem myndaðist í síðasta gosi.
  • Gosið er í fjalllendi og fjarri byggð. Það ógnar því hvorki innviðum né byggð.
RÚV / Sigurður K. Þórisson

11. júlí 2023 kl. 14:18

Gott útsýni úr höfuðborginni

Kvikustrókarnir sjást úr vefmyndavél Ríkisútvarpsins hér í Efstaleiti þegar skyggni er gott. Á myndbandinu má sjá síðasta hálfa sólarhringinn á 26 sekúndum.

11. júlí 2023 kl. 13:52

Fleiri myndir frá gosstöðvunum

Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, og Guðmundur Bergkvist, tökumaður, eru stödd á gosstöðvunum. Alma sendi okkur í Efstaleiti þessa mynd sem sýnir hraunbreiðuna. Hún segir mikinn mökk á svæðinu núna. Gosstöðvarnar eru áfram lokaðar og fólk verður að láta sér nægja að fylgjast með þessari textalýsingu eða horfa á beint streymi á ruv.is. Eða gera bæði.

Hraunbreiða úr gosinu við Litla-Hrút.
RÚV / Alma Ómarsdóttir

11. júlí 2023 kl. 13:39

Áfram lokað inn á gosstöðvarnar

Áfram verður lokað inn á gosstöðvarnar á meðan lögreglustjórinn á Suðurnesjum kallar eftir frekari staðfestingu á merktu hættusvæði í kringum Litla-Hrút. Þetta kemur fram í tilkyninngu frá embættinu.

11. júlí 2023 kl. 12:45 – uppfært

Myndarlegur gígur heilsar fréttamanni RÚV

Alma Ómarsdóttir, fréttamaður RÚV, og Guðmundur Bergkvist, tökumaður, eru komin á gosstöðvarnar og þar mætti þeim myndarlegur gígur. Í myndskeiðinu hér að neðan segir Alma frá gígnum

11. júlí 2023 kl. 12:26 – uppfært

Vill að fólk noti skynsemina

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, vill að fólk „noti brjóstvitið“ og almenna skynsemi, og fari ekki upp að gosinu. Enn er allri umferð lokað um gosstöðvarnar.

Í hádegisfréttum útvarps var Hjördís innt eftir nýjustu upplýsingum.

Teluru líklegt að það verði í lagi að opna gosstöðvarnar?

„Við myndum náttúrulega aldrei opna nema við teldum að það væri öruggt. En á móti kemur – þá mun gasið alltaf vera þarna. Ef að við opnum, þá þýðir það ekki að fólk þurfi ekki að huga að hvernig það hagar sér á gosstað.“

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, stödd í samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð.
RÚV / Ari Páll Karlsson

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna. Mynd tekin í Skógarhlíðinni í gær.

Gosstöðvarnar áfram lokaðar þar til annað kemur í ljós

Enn funda almannavarnir og helstu viðbragðsaðilar um hvort gosstöðvarnar verði áfram lokaðar eða hvort þær verði opnaðar.

„Við fengum fullt af ýmsum upplýsingum frá okkar sérfræðingum. Það má segja að safna þeim öllum saman og meta hvort út frá því hvað verður gert í dag,“ segir Hjördís.

Fundað var um stöðuna í allan morgun í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð. Fyrst funduðu sérfræðingar frá meðal annars Embætti landlæknis, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun, sem báru saman bækur sínar til að meta stöðuna.

Í kjölfar þess var stór almannavarnafundur með helstu viðbragðsaðilum og var, sem segir, ekki ákveðið á þeim fundi hvort gosstöðvarnar skuli opnaðar eður ei.

Gosmökkur stígur hér tignarlega upp úr gosinu. Séð frá Höfuðborgarsvæðinu.
RÚV / Ari Páll Karlsson

11. júlí 2023 kl. 12:11

Fólk bíði þar til endanleg ákvörðun liggi fyrir

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir að það liggi ekki endanlega fyrir hvort gosstöðvarnar verði opnaðar í dag. Hún segir að ákvörðunin liggi fyrir innan skamms. Það sé áfram metið að hætta sé til staðar við gosstöðvarnar en jafnframt að fólk geri sér grein fyrir að fólk vilji skoða eldgosið. Hún biður fólk um að bíða áfram þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir.

11. júlí 2023 kl. 12:09

Búist við að vindátt verði hagstæð - mengunar gæti orðið vart í Grindavík

Útlit er fyrir hreina norðanátt á gosstöðvunum þó meiri mengunar gæti orðið vart í Grindavík næsta sólarhringinn að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttir veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Það er nokkuð hagstæð tíð framundan upp á gasmengun. Það er útlit fyrir norðanátt fram í næstu viku. Þá er eina byggðin sem gæti verið að fá mengun á sig er Grindavík. En eins og á höfuðborgarsvæðið og flestum stöðum á Suðurnesjum ætti gasmengun að vera í lágmarki. “

11. júlí 2023 kl. 12:06

Virknin hefur einangrast á einn gíg

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, segir að dregið hafi úr strókavirkninni.

Sprunga hafi opnast í upphafi en síðan einangrist virknin á gíga. Samfara því að sprungan lokast falli óróinn niður og það sé minni kraftur í gosinu og minni mengun. „En svo blása vindar þannig að mengunin stendur svolítið á Grindavík.“

Gasmengunin sé í raun það sem valdi þeim mestu áhyggjum. Síðustu gos hafi verið þannig að Grindavík hafi sloppið en nú geti aðstæður hafa breyst. „Við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist.“

Kristín segir að gönguleiðin að gosinu sé löng og fólk þurfi að vera í góðu formi til að komast þangað.

11. júlí 2023 kl. 11:59

Aukafréttatími í sjónvarpinu

Fréttaþyrstir þurfa engu að kvíða. Hérna eraukafréttatími um Litla-Hrúts gosið.

11. júlí 2023 kl. 11:41

Mjög hæg atburðarás

Magnús Tumi segir að Litla-Hrúts gosið hegði sér eins og önnur eldgos á Íslandi. Það byrji með krafti og rennslið sé mest fyrst en síðan dragi úr því.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, með gosmökkinn frá eldgosinu við Litla-Hrút í baksýn.
RÚV / Viðar Hákon Söruson

„Þetta líkist því að þarna sé tankur sem hafi verið undir þrýstingi og síðan þegar hann minnki verður stöðugt rennsli og það er engin leið að segja til um hversu lengi þetta verður. Við verðum að sjá hverju fram vindur. Erfitt að spá sérstaklega um framtíðina.“

Magnús Tumi segir að hraunið leiti til suðurs og það fari ekki mjög langt, hvað sem seinna verður. Það sé að þykkna og breiði ekki mikið úr sér. Þetta sé mjög hæg atburðarás og það geti verið mánuðir þangað til að það nálgist einhverja vegi, haldi það áfram með svipuðum hætti.

11. júlí 2023 kl. 11:33 – uppfært

Von á viðtali við Magnús Tuma

Það er von á viðtali við Magnús Tuma. Við lofum að myndin úr viðtalinu verður býsna flott því það er tekið við Ægisíðu þar sem sést í 1,5 til 2 kílómetra háan gosstrók.

11. júlí 2023 kl. 11:29

Mengunin gekk hratt yfir

Mengunin í Grindavík gekk hratt yfir og þau eru nú aftur orðin góð eftir að hafa verið metin óholl fyrir viðkvæma.. Þetta er í samræmi við spár veðurstofunnar um dreifingu gasmengunarinnar frá gosinu við Litla-Hrút.

11. júlí 2023 kl. 11:16

Loftgæði í Grindavík orðin óholl fyrir viðkvæma

Loftgæði í Grindavík hafa versnað á mjög skömmum tíma og þau eru nú metin óholl fyrir viðkvæma. Þetta hefur gerst mjög snöggt því klukkan 9:50 voru þau fín.

11. júlí 2023 kl. 11:05 – uppfært

Eins og að hrista gosflösku

Aðeins dró úr strókavirkni í eldgosinu við Litla-Hrút í morgun en hún virðist vera að aukast aftur að sögn Bjarka Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Hann segir virknina lotukennda. „Virknin virðist vera stöðug en fer upp og niður, nú eru færri gígar virkir.“

Þónokkur órói mælist enn en aðeins hafi dregið úr honum. Það sé í samræmi við kraft gossins þegar það hófst í gær, þegar krafturinn dvínar minnkar óróinn.

Hann líkir virkninni við að hrista gosflösku. Fyrst gjósi upp úr flöskunni út um allt en síðan nái vökvinn jafnvægi.

11. júlí 2023 kl. 10:51 – uppfært

Kort af gosstöðvunum

Sigurður K. Þórisson, grafíker fréttastofunnar, hefur útbúið kort af gosstöðvunum ef einhverjir skyldu vilja glöggva sig betur á hvar nýja sprungan er. Miðað við vefmyndavélar hefur dregið mjög úr gosvirkni og nú gýs aðeins um miðju sprungunnar. Hvítur mökkur hylur nú gossprunguna.

Kort af gosstöðvunum, sprungu og hraunflæði að morgni 11 júlí.
RÚV-Grafík / Sigurður K. Þórisson

11. júlí 2023 kl. 10:31 – uppfært

Gosmökkurinn stígur tignarlega upp

Gosmökkurinn frá eldgosinu rís nánast beint upp í loft í björtu og fallegu veðri á suðvesturhorninu. Loftgæði fóru ekki yfir heilsuverndarmörk í nótt. Síðdegis í dag á að leggjast í norðanátt og þá fer gasmengunin beint út á haf. Þessar myndir voru teknar við Útvarpshúsið í Efstaleiti og við Vesturlandsveg.

Gosmökkur stígur upp frá eldgosinu við Litla-Hrút á Reykjanesskaga, mökkurinn nær marga metra upp í loft í björtu og fallegu veðri. Myndin er tekin úr Útvarpshúsinu í Efstaleiti.
RÚV / Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir

Þetta er eflaust útsýni margra íbúa höfuðborgarsvæðisins í dag.

Gosmökkur stígur hér tignarlega upp úr gosinu. Séð frá Höfuðborgarsvæðinu.
RÚV / Ari Páll Karlsson

11. júlí 2023 kl. 10:26 – uppfært

Bjartsýnir gosaðdáendur komu að lokuðum vegum

„Það var einhver reytingur sem mætti í morgun og hélt að við værum að fara opna þessa leið. Lögreglumenn greiddu úr því. Það er búið að auglýsa þetta nokkuð vel,“ segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Bæði Höskuldarvallavegur og Djúpavatnsvegur eru áfram lokaðir fyrir umferð og verða það áfram, óháð því hvort gosstöðvarnar verði opnar eða ekki. Gunnar segir að þessar tvær leiðir ráði ekkert við neinn bílafjölda og þetta sé því gert til að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti.

Gunnar segir sárafáa hafa óskað eftir aðstoð lögreglunnar í gær, einhverjir hafi verið þreyttir. Hann hefur enga hugmynd um hversu margir fóru að gosstöðvunum í gærkvöld, goshegðun Íslendinga sé vel þekkt og fólk fari að eldgosum eftir alls kyns krókaleiðum.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum að nóttin hafi verið áfallalaus. „Áður en kom til lokana inn á svæðið var töluverður fjöldi manna við gosstöðvarnar.    Fólk virðist hafa fylgt fyrirmælum viðbragðsaðila um að yfirgefa svæðið,“ segir í tilkynningunni. Með henni fylgir spá veðurvaktar um gasdreifingu.

Orðrétt er hún svona: „ Með morgninum snýst vindur í norðvestlæga átt, 5-10 m/s og gasmengunin tekur því að berast til suðurs. Áfram verður líklega gasmengun á höfuðborgarsvæðinu, Vogum, Vatsnleysu og Reykjanesbæ, en síðar einnig yfir og Grindavík og Suðurstandarveg.“

11. júlí 2023 kl. 10:04 – uppfært

Óljóst hvort gosstöðvar verði opnaðar í dag

Sólveig Klara Ragnarsdóttir, fréttamaður, er stödd í Skógarhlíð þar sem fundi almannavarna með vísindamönnum var að ljúka. Sólveig segir að það verði áfram stíf fundarhöld í samhæfingarmiðstöðinni og engar ákvarðanir verið teknar.

Gosstöðvunum var lokað í gærkvöld vegna hættunnar af gasmengun. Klukkan tíu er fundur með helstu sérfræðingum í loftgæðismálum þar sem þeir bera saman bækur sínar og klukkan 11 hefst rúmlega hundrað manna fundur með öllum sem hlut eiga að máli. Eftir þau fundarhöld skýrist væntanlega hvort gosstöðvarnar verði opnaðar fyrir almennning í dag eða ekki.

11. júlí 2023 kl. 9:47 – uppfært

Svona var umhorfs við gosstöðvarnar í gærkvöld

Marco Di Marco, leiðsögumaður og ljósmyndari fyrir AP-fréttastofuna, tók þessa mynd af gosstöðvunum í gærkvöld og birti á Twitter-síðu sinni. Af myndinni að dæma voru ekki margir á ferli enda höfðu almannavarnir og viðbragðsaðilar mælst til þess að fólk héldi sig frá þeim vegna mikillar gasmengunar.

11. júlí 2023 kl. 8:56 – uppfært

Hefðbundinn upphafsfasi eldgosa

Það gýs einungis um miðbik sprungunnar nú þegar 16 klukkutímar eru liðnir frá því að Litla-Hrútsgosið hófst. Eldfjalla-og náttúruváhópur Suðurlands segir í færslu á Facebook að framleiðni hafi fallið og sé nú 10 rúmmetrar á sekúndu.

Þetta er allt saman hefðbundið fyrir upphafsfasa eldgosa, segir hópurinn. Sprungugos séu kröftugust í upphafi enda hefur gas safnast fyrir ofarlega í kvikuinnskotinu. Þegar gos byrjar fellur þrýstingurinn og þar með krafturinn í goainu. „Nú er bara spurning hversu lengi gosrásin helst opin áður en gosinu lýkur.“

11. júlí 2023 kl. 8:37 – uppfært

Myndskeið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Eldgosið við Litla-Hrút hófst klukkan 16:40 í gær. Það byrjaði með nokkrum hvelli og var margfalt stærra en fyrri gosin tvö á Reykjanesskaga.

Um tíma var óttast að gasmengun frá gosinu myndi leggjast yfir byggð á Reykjanes og höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands fór gasmengun á mælum aldrei yfir nein hættumörk. Gosstöðvarnar eru áfram lokaðar en staðan er metin reglulega.

Í nótt og í morgun hefur heldur dregið úr gosinu, það er nú aflítið hraungos og líkist fyrri gosum á svipuðum slóðum.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur flogið með vísindamenn yfir gosstöðvarnar og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra birti í nótt myndskeið úr þyrlufluginu á Facebook-síðu sinni. Það fyrra er hér.

Og það seinna er hér

Almannavarnir fengu líka leyfi til að deila myndum frá verðlaunaljósmyndaranum Vilhelm Gunnarssyni sem tekur myndir fyrir visir.is.

11. júlí 2023 kl. 8:05 – uppfært

Mannvænna gos núna en fyrstu klukkutímana

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, hefur verið að skoða vefmyndavélar í morgun og segir gossprunguna hafa styst mjög mikið, hún sé núna 150 til 200 metrar og dregið hafi úr hraun-rennsli.

Magnús Tumi Guðmundsson.
RÚV / Ari Páll Karlsson

Hann telur að Litla-Hrútsgosið sé orðið mjög áþekkt fyrri gosunum tveimur eftir býsna ákveðinn upphafsfasa. „Nú er þetta miklu líkara hinum tveimur gosunum fyrri. Þetta er afllítið hraungos.“

Magnús Tumi segir að núna þurfi kortleggja gosið og sjá hver stærðin sé. „Þetta verður ekki stórt en getur staðið lengi. Við erum ekki sjá áframhald af því sem við sáum fyrstu klukkutímana. Þetta er mun manvænna gos.“ Magnús Tumi segir enga leið að spá fyrir um framhaldið.

11. júlí 2023 kl. 8:05

Sprungugos oftast kröftugust í upphafi

Gossprungan við Litla Hrút hefur dregist verulega saman og slokknað í gosopum við báða enda hennar. Þetta kemur fram á vef eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. Nú gjósi einungis um miðbik sprungunnar og það sé í takt við hegðun eldgossins í ágúst í fyrra.

Samhliða þessu hefur gosórói fallið og minni sýnileg gasmengun. Talið er að framleiðni nú sé um 10 rúmmetrar á sekúndu.

Í færslu hópsins segir að hegðun gossins sé mjög hefðbundin, sprungugos séu oftast kröftugust í upphafi þar sem gas safnast fyrir ofarlega í kvikuinnskotinu og brýtur sér leið upp. Þegar gosið hefst byrji þrýstingurinn í kvikuganginum að falla og þar með dvíni krafturinn í gosinu. Nú er bara spurning hversu lengi gosrásin helst opin áður en gosinu lýkur, segir á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.

11. júlí 2023 kl. 7:48 – uppfært

Lífshættulegar aðstæður við gosstöðvarnar

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir tilmæli almannavarna um að fólk haldi sig frá hættusvæðinu við Litla Hrút enn í fullu gildi.

„Við erum ennþá að biðja fólk um að vera ekki að hlaupa að staðnum af þeirri einföldu ástæðu að það er talið lífshættulegt, þetta hljómar dramatískt að segja þetta en það er það.“

Hún hvetur fólk til að taka mark á okkar helstu sérfræðingum. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, hafi til dæmis lýst því yfir eftir seinni ferð sína að gosstöðvunum í gær að það væri ekkert vit fyrir fólk að vera þar.

Eldgos við Litla-Hrút.
RÚV / Guðmundur Bergkvist

Hjördís segir mörg dæmi um að vísindamenn, fjölmiðlamenn og aðrir sem voru við gosstöðvarnar í gærkvöldi hafa fundið fyrir óþægindum, svo sem sviða í öndunarfærum.

„Fólk talaði um að það fyndi virkilega fyrir þessu,“sagði Hjördís í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.

Almannavarnir og vísindamenn fara betur yfir stöðuna á fundi sínum klukkan níu, í kjölfarið verður haldinn fjölmennari fundur með viðbragðsaðilum, fulltrúum stofnana og fleirum. Fjarfundabúnaður gerir almannavörnum nú kleift að funda með miklu fleirum í einu en áður.

Hjördís segir almannavarnakerfið virka mjög vel. „Það sem er svo flott við okkar kerfi er til dæmis miðstöðin í Skógarhlíð, þegar eitthvað gerist hlaupa allir þangað og þar erum við öll á sama stað og mjög stutt í allar uppýsingar. Hún er raunveruleg samhæfingarmiðstöð. “

11. júlí 2023 kl. 7:41

Árni Sæberg og Kristján Már tókust á um besta sætið

Þegar það eru eldgos eru sagðar af því fréttir nánast sleitulaust. Fréttastofur fara á yfirsnúning í slíkum hamförum enda yfirleitt einstakur viðburður.

RÚV hefur verið með beina textalýsingu frá því að gosið hófst við Litla Hrút og sama má segja um Visir.is og Mbl.is. Og mönnum hleypur kapp í kinn þegar mikið liggur við.

Sonja Sif Þórólfsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, lýsir því á nokkuð skemmtilegan hátt í blaði dagsins þegar Árni Sæberg, ljósmyndari blaðsins, og Kristján Már Unnarsson, eldgosafréttamaður Stöðvar 2 númer eitt, tóku smá snerru um besta sætið í þyrluferð yfir gosstöðvarnar. „Ég kom fyrstur,“ sagði Árni við Kristján Má. „Ég er að fara lýsa eldgosi í beinni,“ svaraði Kristján Már. Úr varð að Árni settist á hægri kantinn en Kristján Már sættist á þann vinstri.

Svo því sé síðan haldið til haga er rétt að geta þess að það verður aukafréttatími í Sjónvarpinu klukkan tólf. Hádegisfréttir eru auðvitað á sínum stað klukkan 12:20 auk þess sem útvarpsfréttir eru alltaf á heila tímanum.

11. júlí 2023 kl. 6:54

Stíf fundarhöld næstu klukkustundir

Það er fundað núna eins og alltaf þegar það eru eldgos. Klukkan níu hittast vísindamenn og almannavarnir og fara yfir stöðuna, rýna í tölur og líkön og annað slíkt. Tveimur tímum síðar eða klukkan 11 verður stór fundur en á honum verða allir sem hlut eiga að máli; allt frá björgunarsveitum til sóttvarnalæknis. Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir í samtali við fréttastofu að þrátt fyrir þessi fundarhöld sé staðan metin klukkutíma fyrir klukkutíma og það sé áfram mat viðbragðsaðila að ekki sé óhætt að fara að gosstöðvunum.

11. júlí 2023 kl. 6:44

Gasmengun fór ekki nálægt heilsuverndarmörkum í nótt

Veðurstofan fylgdist grannt með mælum á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga og samkvæmt upplýsingum þaðan fór enginn þeirra nálægt heilsuverndarmörkum í nótt. Það eru hægir vindar núna og því gæti gas safnast mikið saman. Það á síðan að leggjast í norðanátt seinnipartinn og þá fer gasmengunin beint út á haf.

11. júlí 2023 kl. 6:14 – uppfært

Dregið verulega úr afli og framleiðni gossins

Dregið hefur verulega úr afli og framleiðni gossins við Litla-Hrút. Þetta kemur fram í færslu sem Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands setti á Facebook í morgun.

Þar segir að suðurálma hraunsins virðist hafa stöðvast og samfara því hafi rennslið dreift úr sér og teygir sig meira í austurátt. Framleiðnin virðist vera svipuð því sem mældist í fyrri gosum. Einnig hefur dregið úr brennsteinsmengun frá gosinu samhliða því sem hefur dregið úr kvikuframleiðni.

RÚV

11. júlí 2023 kl. 5:25

Áfram mikil gasmengun við gosstöðvarnar

Vindur verður norðvestlægur við gosstöðvarnar með morgninum, 5 til 10 metrar á sekúndu og byrjar gasmengunin þá að berast til suðurs. Á vef Veðurstofunnar segir að líklega verða áfram gasmengun á höfuðborgarsvæðinu, Vogum, Vatsnleysu og Reykjanesbæ, en eftir því sem líður á morguninn einnig yfir Grindavík og Suðurstrandarveg.

11. júlí 2023 kl. 4:08

Stöðufundur almannavarna í fyrramálið

Viðbragðsaðilar, almannavarnir og Veðurstofa Íslands halda stöðufund klukkan níu í fyrrmálið vegna gossins við Litla-Hrút á Reykjanesskaga. Þetta segir Hulda Rós Helgadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofa Íslands.

Veðurstofa hefur útbúið kort fyrir svæðið með skilgreindu hættusvæði, líkt og í fyrri gosum. Svæðið er frekar stórt enda leynast margar hættur í kringum gosstöðvarnar; nýjar sprungur geta opnast, hraun flætt á miklum hraða og gas verið í hættulegu magni.

Mynd af hættusvæði við gosstöðvarnar.
Veðurstofa Íslands / Veðurstofa

Þess vegna er mælst til þess að fólk haldi sig utan þessa svæðis að svo stöddu. Hættumatið verður svo uppfært eftir því sem aðstæður breytast. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á Facebook-síðu Veðurstofu Íslands.

11. júlí 2023 kl. 3:38 – uppfært

Drónamyndir af hrauninu

Ragnar Visage ljósmyndari RÚV tók drónamyndir af hrauninu við Litla-Hrút á Reykjanesskaga.

Drónaskot af rennandi kviku við Litla-Hrút á Reykjanesskaga. Glóaandi kvikan rennur í nokkrum mismiklum straumum frá sprungunni. Umhverfis er svart hraun. Efst á myndinni sést grænn mosi við hraunjaðarinn.
Ragnar Visage.

Hægt er að sjá myndirnar með því að smella á færsluna hér að neðan.

11. júlí 2023 kl. 2:52 – uppfært

„Við erum öll almannavarnir“

Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri Almannavarna segir mikilvægt að fólk sé skynsamt í svona aðstæðum eins og hafa myndast vegna gossins við Litla-Hrút.

„Það er gullna reglan. Kannski núna eins og svo oft áður þá erum við öll almannavarnir. Við erum að biðja fólk um að hjálpa okkur með því að fara ekki á svæðið vegna þess að við þurfum líka að hugsa um viðbragðsaðilana. Ef eitthvað gerist, hver ætlar að bjarga okkur? Þess vegna er mikilvægt að hugsa þetta lengra en út frá eigin hagsmunum.“

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna.
RÚV / Sunna Karen Sigurþórsdóttir

11. júlí 2023 kl. 1:36 – uppfært

„Það logar allt þarna“

Virgill Scheving Einarsson landeigandi sem á þrjár jarðir á Vatnsleysuströnd fór í verslunarleiðangur í Iceland í Hafnarfirði um ellefuleytið í gærkvöld. Hann hefur verið vinnuvélamaður um árabil og er viðkvæmur fyrir mengun og segist finna talsvert fyrir því þar sem hann býr.

„Maður sér eldinn hérna ofan af Vatnsleysuströnd. Það logar allt þarna. Það sem hrjáir mann mest er að maður nær varla andanum. Það er eins og að vera í verksmiðju með einhver eiturefni í kringum sig. Manni svíður í kok að anda þessu að sér og ég á erfitt með andardrátt. Verst er hér yfir Voga og Vatnsleysuströnd,“ segir Virgill.

Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri Almannavarna hefur mælt með því að íbúar á Reykjanessskaga og höfuðborgarsvæðinu loki gluggum í nótt og slökkvi á loftræstingu vegna gasmengunar frá gosstöðvunum.

Á vef Umhverfisstofnunar, www.loftgaedi.is má fylgjast með mælingum á loftgæðum í þéttbýli.

Frekari upplýsingar um loftmengun frá eldgosum má finna í meðfylgjandi bæklingi  Haetta_a_heilsutjoni_vegna_loftmengunar_4._utg_n__vember_2022.pdf (ctfassets.net)

11. júlí 2023 kl. 0:15 – uppfært

Biðja fólk um að loka gluggum – mikil áhersla á að fólk fari ekki að gosstöðvunum

„Við getum ekki sagt það nógu oft hvað við biðjum fólk að vera ekki á svæðinu, og koma sér þaðan ef það er þar núna. Það er það sem við leggjum mikla, mikla áherslu á og vonum að fólk hlusti.“ Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri Almannavarna.

Gasmengun hefur ekki bara áhrif á Reykjanesið og íbúa þar, heldur einnig á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum að leggja til að fólk hreinlega loki gluggum í nótt. Áttin breytist hratt. Mengunin fer hratt yfir og við getum ekki sagt nákvæmlega hvar hún er mest á hverjum tíma.

Við erum að biðla til fólks að loka gluggum og fylgjast vel með. Það eru leiðbeiningar á almannavarnir.is og Facebook-síðu Almannavarna. Þar er hægt að kynna sér hvernig er best að haga sér þegar svona aðstæður koma upp.“

Er þetta meira svona varúðarráðstöfun vegna þess að það er ekki hægt að vita nákvæmlega hvert mengunin fer?

„Já, það er akkúrat ástæðan. Við getum ekki sent hóp-sms um að mesta mengunin sé þarna eða hinum megin. Þess vegna biðjum við fólk um að loka gluggum en auðvitað að meta þetta sjálft. Eins og sérfræðingar eru að segja er auðvitað lífshættulegt að vera á gosstöðvunum og svo getur þessi mengun haft áhrif á svo stórt svæði,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir.

10. júlí 2023 kl. 23:56 – uppfært

Þeir sem eru viðkvæmir loki gluggum

„Það er einhver mengun í Faxaflóanum. Sólsetrið er glóandi rautt sem er merki um brennsteinsmengun, en hún hefur ekki verið að mælast í miklu magni.“ Þetta segir Hulda Rós Helgadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hulda mælir jafnframt með því að þeir sem eru viðkvæmir loki gluggum á Reykjanessskaga og höfuðborgarsvæðinu. Gasdrefingarlíkön sýni þá að gasmengun geti náð alla leið á Snæfellsnes.

10. júlí 2023 kl. 23:15

Frekar breið tunga og töluvert mikið rennsli

Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður og Karl Sigtryggsson myndatökumaður hittu Magnús Tuma Guðmundsson jarðeðlisfræðing við gosstöðvurnar þar sem hann var við vettvangsskoðun á tíunda tímanum í kvöld.

10. júlí 2023 kl. 22:45

Þyrla flutti vefmyndavélina á sinn stað

Nýjum vefmyndavélum RÚV var komið fyrir við gossprungurnar í kvöld. Flogið var með myndavélarnar í þyrlu og þeim komið fyrir steinsnar frá sprungunni.

10. júlí 2023 kl. 22:31

Fólk við gosstöðvar þvert á tilmæli yfirvalda

Ítrekað var á upplýsingafundi almannavarna að fólk fari ekki á gosstöðvarnar þar sem aðstæður geta verið stórhættulegar. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum Guðmundar Bergkvist myndatökurmanns frá því í kvöld hafa hins vegar ekki allir farið að þeim tilmælum.

10. júlí 2023 kl. 22:09

Upplýsingafundinum lokið

Upplýsingafundinum er lokið . Hann var snarpur eins og stundum er sagt um jarðskjálfta. Stuttu skilaboðin voru þau að fólk ætti alls ekki að fara að gosstöðvunum þar sem aðstæður séu lífshættulegar vegna gasmengunar.

10. júlí 2023 kl. 22:07

Kvikugangurinn miklu stærri en gossprungan

Kristín segir hættusvæðið mjög stórt því taka verði inn í myndina hvar hraunið muni flæða og kvikugangurinn sé miklu lengri en gossprungan og ná líklega undir Keili. Hættusvæðið sé því mjög stórt.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur, segir mikla gasmengun frá gosinu. Hæg breytileg átt sé á svæðinu og gasið hafi rekið til norðvestur en nú eigi eftir að lægja sem valdi því að gasið safnist upp. Það hafi þegar verið mæld þegar mjög há gildi, jafnvel svolítið frá mekkinum. Það sé langbest að hlíta fyrirmælum almannavarna. Á morgun taki við ákveðin norðanátt sem beini gasinu út á sjó.

10. júlí 2023 kl. 22:04

Jafnvel tífalt stærra en fyrsta gosið á Reykjanesskaga

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, ávarpar fundinn til að byrja með. Hún segir hættulegt að vera á svæðinu vegna mengunar. Hún biður fólk um fara þaðan.

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisprófessor, segir þetta miklu stærra gos og jafnvel tíu sinnum stærra en fyrsta gosið og mögulega þrefalt stærra en gos númer tvö. „Það slær mann hversu mikill gasmökkurinn er frá gosinu. Hann er margfalt meiri.“ Kvikan sé líklega að koma hraðar og mökkurinn minni á gosið í Holurhraun. EF fólk sé við gosstöðvarnar geti það verið mjög hættulegt og þess vegna eigi enginn erindi þangað. Hann telur þetta hárrétta ákvörðun hjá almannavörnum.

Kristín Jónsdóttir fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, er næst

10. júlí 2023 kl. 22:00

Upplýsingafundurinn að hefjast

Nú er að hefjast upplýsingafundur almannavarna vegna eldgossins sem hófst klukkan 16:40 við Litla-Hrút á Reykjanesskaga í dag. Lífshættuleg gasmengun er við gosstöðvarnar. Þeim hefur verið lokað og almannavarnir biðla til fólks um að fara alls ekki að gosinu.

10. júlí 2023 kl. 21:50

Forsetinn vonar að fólk fari varlega

Guðni Th. Jóhannesson forseti skrifaði í kvöld færslu á Facebook-síðu embættisins um eldgosið sem hófst í dag. Hann bendir á að það leið nánast hálf öld upp á dag frá því eldgosinu í Vestmannaeyjum lauk þar til gos hófst við Litla-Hrút.

„Blessunarlega er ólíku saman að jafna, lítil hætta á ferðum við fyrstu sýn og fólk hefur vonandi vit á því að fara varlega.“

Guðni segir að það sé magnað að verða vitni að mætti náttúruaflanna en hvetur fólk til að sýna gát og hafa tilmæli almannavarna í huga. Þær hafa lokað svæðinu og ráðlagt fólki að loka gluggum og halda sig inni.

„Héðan frá Bessastöðum sést til gossins í fjarska og við fylgjumst áfram með framgangi þess eins og þið öll, úr öruggri fjarlægð.“

10. júlí 2023 kl. 21:48

50 spúandi gosop á sprungunni

Eldfjalla-og náttúruvárhópur Suðurlands segir á Facebook-síðu sinni að 50 spúandi gosop séu á sprungunni við Litla-Hrút. Þegar hafi hlaðist upp nokkrar litlar gígskálir utan um þau op sem mest skvettist úr. Stór og mikil hrauná rennur hratt til suðurs og nálgast kílómetra á lengd frá syðsta gosopi.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, er kominn á vettvang og birti býsna magnað myndskeið frá gosstöðvunum á Facebook.. Hann veltir því upp hvort hann hafi verið á undan Kristjáni Má Unnarssyni, fréttamanni Stöðvar 2. Sem verður að teljast ólíklegt þar sem Kristján Már var meðal þeirra fyrstu á staðinn.

10. júlí 2023 kl. 21:36

Drónaskot af eldgosinu sýnir lengd sprungunnar

Ísak Finnbogason streymir drónaskotum af eldgosinu í beinni útsendingu á Youtube. Þar má sjá greinilega lengd sprungunnar en þetta er töluvert meira gos heldur en hin tvö.

10. júlí 2023 kl. 21:21

Fólk með ungabörn á leið á gosstöðvarnar

Þórdís Arnljótsdóttir sem var við gosstöðvarnar í kvöldfréttum RÚV klukkan 19 mætti töluverðum fjölda af fólki sem hugðist ganga upp að gosstöðvunum þrátt fyrir viðvaranir almannavarnir. Þórdís sagðist meðal annars hafa séð fólk með ungabarn sem ætlaði að ganga þessa níu kílómetra sem eru að gosstöðvunum.

10. júlí 2023 kl. 21:14

Fólk á leið að gosstöðvunum beðið um að snúa við

Eldgos við Litla-Hrút á Reykjanesskaga. 10. júlí 2023.
RÚV / Alma Ómarsdóttir

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum í samráði við vísindamenn og sóttvarnalækni, hafa ákveðið að loka fyrir aðgang að gosstöðvunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. „Næstu klukkustundir er líklegt að mikil gasmengun verði og byggist upp sökum hægviðris. Fólk sem þegar hefur lagt af stað, eða er komið að eldstöðvunum er beðið að snúa þegar við,“ segir í tilkynningunni. Unnið sé að því að auðvelda aðgengi að eldstöðvunum þegar dregið hefur úr gasmengun.

10. júlí 2023 kl. 21:08 – uppfært

Gosstöðvunum lokað vegna lífshættulegrar mengunar

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna, segir að það hafi verið tekin ákvörðun um að loka fyrir aðgang að gosstöðvunum vegna lífshættulegrar gasmengunar. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á vef Umhverfisstofnunar.

Sprungurnar sem mynduðust við upphaf eldgossins við Litla-Hrút sjást úr flugvél sem er flogið meðfram gosstöðvunum. Kvika stendur upp úr sprungunni. Mökkurinn stígur upp.
RÚV / Tryggvi Aðalbjörnsson

Hjördís segir að lögreglan, sóttvarnalæknir og vísindamenn hafi tekið þessa ákvörðun í sameiningu. Það sé ákveðin leið sem sé best að gosstöðvunum og ef fólk fari út fyrir þá leið lendi viðbragðsaðilar í vandræðum. Þannig að nú sé biðlað til fólks um að halda sig fjarri.

Skilaboð frá lögreglunni á Suðurnesjum þar sem fólk er beðið um að halda sig fjarri
RÚV / Ljósmynd

Hjördís segir að vísindamenn séu í þessum töluðu orðum að fljúga yfir gosstöðvarnar og það verði fluttar fréttir af því flugi á upplýsingafundi almannavarna klukkan tíu. Honum verður útvarpað á Rás 2, streymt á ruv.is og sjónvarpað á RÚV.

Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, er stödd á gosstöðvunum og ræddi við Ragnhildi Thorlacius í níu fréttum útvarps. Hún segir töluverðan fjölda af fólki við gosstöðvarnar sem mögulega átti sig ekki á menguninni sem sé sýnileg, þetta sé móða með bláleitum tón.

10. júlí 2023 kl. 21:06 – uppfært

Stutt samantekt

  • Eldgos hófst við fjallið Litla-Hrút á Reykjanesskaga um klukkan 16:40 í dag. Gossprungan er hátt í kílómetra að lengd
  • Verið er að rýma gosstöðvarnar, þar sem stórhætta getur skapast á augabragði vegna gasmengunar
  • Allar göngu- og aðkomuleiðir eru lokaðar og bannað er að ganga upp að gosinu að svo stöddu
  • Íbúar á Reykjanesskaga og á Snæfellsnesi eru beðnir um að loka gluggum
  • Meiri kraftur er í þessu gosi en eldgosum 2021 og 2022 og ekki er útilokað að fleiri sprungur opnist
  • Almannavarnir boða til upplýsingafundar klukkan 22, sem sýndur verður á Rúv og hér á vefnum
  • Innviðir, eins og Reykjanesbraut og Suðurnesjalína, eru ekki í hættu.
  • Flugumferð er óröskuð, bæði um Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll
10. júlí 2023 kl. 20:46

Miklu meiri gasmengun en í síðustu eldgosum

Fólk verður beðið um að yfirgefa svæðið, segir Fannar, þannig að það verði ekki á staðnum. Hann biður almenning um að fylgjast vel með tilkynningum um hvar mengunin gæti orðið og vera á varðbergi. „Það er miklu meiri gasmengun núna en hefur verið í síðustu tveimur eldgosum.“

10. júlí 2023 kl. 20:43

Íbúar á Reykjanesi og jafnvel á Snæfellsnesi beðnir um að loka gluggum

Fannar segir að það verði ekki bara íbúar á Reykjanesi sem verði beðnir um að loka gluggum vegna gasmengunar frá gosinu heldur jafnvel fólk á Snæfellsnesi. Hægt sé að fara inn á lofgaedi.is til að sjá hvert mengunin fer. Fólk verði jafnvel beðið um að halda sig innandyra.

10. júlí 2023 kl. 20:42 – uppfært

Öllum aðkomuleiðum að gosinu lokað og svæðið rýmt

Fannar segir að ákveðið hafi verið á fundinum að loka öllum aðkomuleiðum að gosinu og rýma svæðið. Það verði væntanlega ekki opnað aftur fyrr en á morgun. „Það er mikil hætta á ferðum. Það er hálfgerð áttleysa og vindurinn er að hringsóla um Reykjanesið.“

10. júlí 2023 kl. 20:40 – uppfært

Tvöfalt meira magn af hrauni en í síðasta gosi og verulega meira af gasi

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, var að koma af fundi almannavarna þar sem farið var yfir stöðuna. Hann segir í samtali við fréttastofu að vísindamenn séu sammála um að tvöfalt meira magn af hrauni sé að koma upp í þessu gosi og sem þýðir verulega meira af gasi.

10. júlí 2023 kl. 20:35 – uppfært

Tilkomumikið en stórhættulegt sjónarspil

Eldgosið við Litla-Hrút er tilkomumikið sjónarspil og Guðmundur Bergkvist fangaði jarðeldana nú fyrir skömmu. Gosstöðvarnar eru hins vegar stórhættulegar.

Magnús Tumi Guðmundsson sagði engan eiga þangað erindi nema með fullkominn gasbúnað því gasmengunin væri margfalt meiri en í eldgosum síðustu tveggja ára.

Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur, sagði við fréttastofu að í blíðunni væri meiri hætta á að mengunin safnist fyrir þar sem yfir yfirborðinu sé mjög sterkt hitahvarf. Það virki eins og tappi og haldi efnunum við jörðina og myndi mistur.

10. júlí 2023 kl. 20:27 – uppfært

Almannavarnir boða til fundar klukkan 22

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur boðið til upplýsingafundar í Skógarhlíð klukkan tíu í kvöld vegna eldgossins við Litla-Hrút. Fundurinn verður í beinni útsendingu á RÚV, Rás 2 og rúv.is

10. júlí 2023 kl. 20:20

Enginn ætti að fara að gosstöðvunum nema með fullkominn gasvarnabúnað

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að enginn eigi erindi að gosstöðvunum nema með fullkominn gasbúnað. Aðstæður geta orðið lífshættulegar því gasmengunin sem fylgir gosinu er margfalt meiri en í eldgosum síðustu tveggja ára.

Þetta sagði Magnús Tumi í aukafréttatíma í útvarpi klukkan átta í kvöld. Til marks um stærð gossins má líta til þess að sprungan er um 900 metrar en í fyrri gosum voru þær 150 og 250 metrar. Hraunið sem hefur komið upp er tíu til tuttugu sinnum meira en í fyrra og hittifyrra.

„Eins og staðan er núna er augljóst að það getur verið stórhættulegt að koma nálægt þessu gosi ef fólk lendir í gasmekkinum. Þetta er miklu stærri gosmökkur og meiri en við sáum í hinum gosunum, vegna þess að gosið er miklu stærra, alla vega fyrsta kastið. Það ætti enginn að ganga að þessu gosi nema vera með fullkominn gasbúnað og það er enginn ferðamaður með það. Þangað á enginn erindi fyrsta kastið meðan við erum að ná utan um þetta og meta þetta og sjá hvernig þetta þróast.“

Gasmengun frá eldgosinu getur haft áhrif í byggðum á höfuðborgarsvæðinu, svipuð og í Holuhraunsgosinu 2014.

Mest er hættan næst gosstöðvunum. „Það þýðir að ef þú ert röngu megin við gosið og gasmökkinn leggur nálægt og leggur þar yfir þá geta aðstæður verið lífshættulegar. Þangað á enginn erindi í kvöld.“

Magnús Tumi Guðmundsson í sjónvarpsviðtali í húsnæði almannavarna í Skógarhlíð. Í bakgrunni er rauður veggur og til hliðar viðarlagður veggur með gangi.
RÚV / Kristján Þór Ingvarsson

10. júlí 2023 kl. 20:12 – uppfært

Heimspressan fjallar um gosið við Litla-Hrút

Helstu fjölmiðlar eru farnir að fjalla um eldgosið við Litla-Hrút. Guardian rifjar upp að þetta sé þriðja gosið á þessum slóðum síðan 2021.

DR vitnar í AFP-fréttastofuna og NRK segir Litla-Hrút ekki langt frá þjóðveginum milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Fólk sé beðið um að stoppa ekki á veginum.

SVT vitnar síðan í almannvarnir þar sem biðlað er til fólks um að fara ekki á gosstöðvarnar.

10. júlí 2023 kl. 19:57 – uppfært

Geta myndast mjög hættulegar aðstæður við gosstöðvarnar í kvöld

Flest virðist benda til þess að eldgosið við Litla-Hrút sé stærra en síðustu tvö eldgos á Reykjanesskaga.

Það þýðir að búast má við meiri mengun, segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Í blíðunni sé meiri hætta á að mengunin safnist fyrir þar sem yfir yfirborðinu sé mjög sterkt hitahvarf sem virki eins og tappi, haldi efnunum við jörðina og myndar mistur.

Mökkurinn sem stígur upp af gosstöðvunum við Litla-Hrút byrgir næstum sýn að kvikunni sem brýst upp á yfirborðið. Beint yfir sprungunni er mökkurinn grár en hvítur þar sem hann berst burt með vindum.
RÚV / Guðmundur Bergkvist

Helga segir að í kvöld megi búast við að mengunin sé mest yfir Reykjanesið og í nótt verður vindur suðlægur sem þýðir að mengunin getur borist alla leið upp í Borgarfjörð. Í fyrramálið snýr aftur til norðlægrar áttar sem veldur því að mengunin kemur til baka og gæti farið yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesið aftur.

„Seint á morgun erum við komin með ákveðna norðanátt og þá ætti þetta að hreinsa sig þegar mengunin fer öll suður. Næsta sólarhringinn geta hins vegar myndast mjög hættulegar aðstæður við gosstöðvarnar.“

10. júlí 2023 kl. 19:46

„Eigum ekki von á því að þetta hraun geri neinn óskunda“

Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands segir að upphafi eldgossins við Litla-Hrút svipi til hinna tveggja gosanna á Reykjanesskaga. Helsti munurinn sé ný staðsetning. Hún ræddi við Tryggva Aðalbjörnsson fréttamann í kvöldfréttum sjónvarps

Hún segir að gasi sem dreifist um svæðið blási til norðvesturs. Varasamt sé fyrir fólk að vera á svæðinu, allavega fyrst um sinn. Talsverð óvissa ríki í upphafi goss.

„Við þurfum að fylgjast vel með. Það gætu þess vegna opnast gossprungur annars staðar. Það er stórt svæði undir og við, bæði viðbragðsaðilar og vísindamenn, biðjum um smá tækifæri til að átta okkur á stöðunni og biðjum fólk að flykkjast ekki að gosstöðvunum eins og stendur.“

Staðsetningin sé þó heppileg og algjör óþarfi fyrir fólk að hafa áhyggjur. „Við eigum ekki von á því að þetta hraun geir neinn óskunda,“ segir Kristín.

10. júlí 2023 kl. 19:30 – uppfært

Miklu stærra en fyrri gos í upphafi

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, flaug yfir gosstöðvarnar á sjöunda tímanum í dag.

„Í stuttu máli er þetta töluvert meira gos heldur en hin tvö, í byrjun. Það stækkaði verulega fyrsta klukkutímann. Sprungan er um 900 metra löng sem er miklu lengra heldur en í hinum gosunum. Hún er töluvert virk og hraunið er í heildina orðið svona einn og hálfur kílómetri.“

Í fyrsta viðtali okkar við Magnús Tuma í dag, áður en hann flaug yfir gosstöðvarnar, sagði hann að þetta virtist ekki stórt gos. Það breyttist hratt.

„Gróft á litið virðist þetta fyrsta kastið vera allavega tíu sinnum stærra heldur en fyrsta gosið var í upphafi og tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum stærra en það sem kom í fyrra.“

„Það er miklu meiri gasmökkur sem leggur af þessu og það er að breiðast töluvert hraðar út. Þetta er töluvert stærri atburður.“

Magnús Tumi segir óvíst hvert framhaldið á eldgosinu verður, hvort það haldist stöðugt eða dragi úr því. Venjan með íslensk eldgos er að þau séu öflugust í upphafi.

„Sprungan er við Litla-Hrút og hún er öll sunnanmegin þannig að hraunið rennur til suðurs. Sú tunga sem er komin lengst og er komin nokkur hundruð metra frá gígunum stefnir í átt að Meradölum. Ef þetta heldur áfram þá mun það hraun renna út í Meradali þar sem bæði rann hraun í hittifyrra og í fyrra. Svo verðum við bara að sjá til hvað fram vindur. Þetta er mjög stutt komið en það er stefnt á að við fljúgum aftur á eftir til að sjá þetta.“

Gasmengunin er miklu meiri heldur en í fyrri eldgosum vegna þess að gosið er miklu stærra heldur en þau.

Það er gasmengunin sem getur valdið mestri hættu eða óþægindum. Vegna þess hvar eldgosið er líður langur tími áður en það kæmist að vegum og öðrum innviðum ef það stendur lengi.

„Svo er líka möguleiki að það sé bara byrjunin sem er öflug og svo detti þetta niður. Það er algengast í íslenskum eldgosum.“

„Þetta er töluvert,“ segir Magnús Tumi um eldgosið. „Þetta er ekki ræfill.“

10. júlí 2023 kl. 19:19

Meiri mengun en í fyrri gosi

Mengunin sem liggur yfir er greinileg, segir Alma Ómarsdóttir fréttamaður sem er í um 300 metra fjarlægð frá gossprungunni. Hún segir að mengunin hafi ekki verið jafnmikil í síðasta gosi. „Það er gríðarleg mengun hér. Maður sér bláleitan bjarma yfir öllu.“

10. júlí 2023 kl. 19:19 – uppfært

„Alveg með ólíkindum hvað þetta fylgir spám vel“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir alveg með ólíkindum hvað gosið við Litla-Hrút fylgi spám vísindamanna vel. Þetta sé alveg á pari við það sem þeir hafi reiknað með og staðurinn komi ekkert á óvart.

Hann segir gosið aðeins aflmeira en gosið 2022 og þetta sé alveg sígilt hraungos með samfelldri röð af kvikustrókum þar sem hraun flæði í alla áttir.

„Þetta verður á svipuðu róli og síðustu gos í framleiðni og ef þetta mallar lengi getur þetta búið til sæmilega stórt hraun.“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í viðtali í sjónvarpsfréttum
RÚV / Guðmundur Bergkvist

Myndin er tekin áður en gosið hófst.

10. júlí 2023 kl. 19:14 – uppfært

„Hættulegur staður til að vera á“

Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður og Bragi Valgeirsson tökumaður eru í hlíðum Litla-Hrúts og fylgjast með eldgosinu úr návígi. Þar geta þau þó ekki verið lengi því viðbúið er að hraunið renni fljótlega yfir þá vegaslóða sem þau notuðu til að komast á staðinn.

„Það jafnast ekkert á við að sjá svona fallegt gos, hraunspýjurnar upp úr langri sprungunni.“

Það eru þó fáir sem komast að eldgosinu núna. Lögregla hefur vísað fjölda fólks á brott, sagði Þórdís í kvöldfréttum í sjónvarpi. Þarna er björgunarsveitarfólk sem gengur úr skugga um öryggismál og vísindamenn mæla gas í nágrenni eldgossins.

„Þetta er samt hættulegur staður til að vera á.“

10. júlí 2023 kl. 19:03 – uppfært

„Stórkostlegt,“ segir fréttamaður RÚV

Bragi Valgeirsson, tökumaður, tók þessar mögnuðu myndir af jarðeldunum við Litla-Hrút. „Stórkostlegt,“ sagði Þórdís Arnljótsdóttir, fréttamaður.

10. júlí 2023 kl. 19:00

Engin áhrif á flugumferð

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hefur eldgosið engin áhrif á flug, hvorki innanlands né millilandaflug. Undantekning frá því er að flug er bannað í þriggja mílna radíus í kringum gosstöðvar, nema fyrir vísindamenn og viðbragðsaðila.

10. júlí 2023 kl. 18:57

Þyrluskot af gosinu

Guðmundur Bergkvist, tökumaður, og Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, eru að lenda við gosstöðvarnar eftir að hafa farið þangað í þyrlu. Guðmundur tók þetta myndskeið á leið sinni að gosstöðvunum.

10. júlí 2023 kl. 18:40 – uppfært

Fleiri myndir af gosinu

Eins og búast mátti við hafa netverjar verið duglegir að birta drónamyndir af gosinu. Hörður Kristleifsson birti þessa mynd á Twitter-síðu sinni.

Baldur Snorrason tók síðan þetta myndskeið af gosinu.

Þórdís Arnljótsdóttir, fréttamaður, er komin á gosstöðvarnar ásamt Braga Valgeirssyni, tökumanni. „Þetta er geggjað,“ sagði Þórdís þegar hún smellti mynd af gosinu.

Hvítan mökk leggur frá sprungu í eldgosinu við Litla-Hrút. Kvikan kemur upp rauðglóandi innan um hraunið sem byrjar að myndast. Í forgrunni má sjá svart reiðhjól sem hefur verið lagt á hliðina á jörðinni nærri gosstöðvunum.
RÚV / Þórdís Arnljótsdóttir

10. júlí 2023 kl. 18:38

Fyrstu myndirnar af gosinu frá Veðurstofunni

Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, er kominn á gosstöðvarnar og tók þessar myndir ofan af Litla Hrút. Benedikt var staddur á svæðinu ásamt öðrum vísindamönnum skömmu áður en gosið hófst. Gossprungan er tæpur kílómetri og strókar standa upp úr henni. Hraunið hefur náð yfir nokkurt landflæmi eins og sést á mynd Benedikts sem sagði 18 fréttum útvarps að svo virtist sem gosið væri heldur að sækja í sig veðrið.

Mynd sem Benedikt Ófeigsson tók af gosinu við Litla Hrút árið 2023
Ljósmynd / Veðurstofan/Benedikt Ófeigsson

10. júlí 2023 kl. 18:26 – uppfært

Óttast að fólk fari sér að voða

Almannavarnir hvetja fólk til að fara ekki að eldgosinu. Jafnframt hefur fólki verið ráðlagt að stöðva bíla sína ekki á Reykjanesbraut. Það getur reynst sérstaklega hættulegt að ganga það í átt að gosinu. Mökkurinn sem rís upp af eldgosinu fer í norðvesturátt í átt að brautinni. Viðbúið er að hættulegar gufur streymi upp og gætu orðið fólki skaðlegar.

Lögreglan er búin að loka helstu leiðum í átt að eldgosinu til að koma í veg fyrir að fólk fari þangað. Landsnet hefur fært starfsemi sína á hættustig og segist á Facebook vera á vaktinni.

10. júlí 2023 kl. 18:22 – uppfært

Enn einn kaflinn í sögu sem hófst fyrir fjórum árum

Eldgosið sem hafið er norðvestur við Litla Hrút er það þriðja á jafnmörgum árum. En, eins og kemur fram í frétt á Veðurstofu Íslands, er gosið hluti af sögu sem hófst fyrir fjórum árum með jarðskjálftahrinu í desember í og við fjallið Þorbjörn.

RÚV / Baldur Snorrason

Vísindamenn voru snemma sammála um að þarna væri kvika að reyna brjóta sér leið upp á yfirborðið og atburðarásin gæti orðið mjög löng og kaflaskipt þar sem draga myndi úr virkni tímabundið án þess að henni væri að fullu lokið. Þar hittu vísindamenn naglann á höfuðið. Í febrúar 2021 fór jörð að skjálfa á ný og þann 19. mars sama ár opnaðist sprunga við Fagradalsfjall.

10. júlí 2023 kl. 18:19

„Ekki skynsamlegt“ að fara að gosinu

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjörg, segir að enn lítið sé vitað um gosið.

Í viðtali í Speglinum segir hann að ekki sé skynsamlegt að fara að gosstöðvunum. Hættulegar aðstæður geti skapast með litlum fyrirvara á meðan lítið sé vitað um gosið.

10. júlí 2023 kl. 18:14 – uppfært

Líkur á að fleiri sprungur opnist

Nýjar sprungur geta opnast með litlum fyrirvara, segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands.

Í viðtali í kvöldfréttum útvarps segir hún að mikil óvissa sé um gosið „svona í blábyrjun“ þess.

Þess vegna sé afar mikilvægt fyrir vegfarendur á Reykjanesskaga að gæta sín. Einnig sé mikilvægt fyrir viðkvæma að fylgjast vel með gasmengun.

Engin leið er að segja til um hvort gosið vari í skamman tíma eða langan, segir Kristín. Langlíklegast er að skjálftavirkni minnki til muna, bætir hún við.

RÚV

10. júlí 2023 kl. 18:13

Þrjár sprungur um 200–300 metra langar

Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur er á Litla-Hrúti. Hann lýsti aðstæðum á gosstöðvum í kvöldfréttum útvarps. Benedikt segir að sprungurnar séu þrjár, sú lengsta líklega um 200–300 metra löng, og liggi frá norðvestur til suðaustur.

„Þetta er ekki rosalega mikið en [hraunið] rennur til suðurs ofan í dalinn eftir einhverja klukkutíma, sunnan við Litla-Hrút.“ Strókar standa upp úr sprungunum en eru ekki ýkja háir, líklegast undir hundrað metrum.

Benedikt var ásamt hópi vísindamanna við Kistufell við gasmælingar þegar gos hófst á fimmta tímanum. „Við vorum orðnir langeygir eftir þessu,“ segir Benedikt. Allt hafi bent til goss frá því fyrr í dag.

Benedikt segist búast við að gosið muni dreifa úr sér og sprungurnar sameinast.

10. júlí 2023 kl. 18:11 – uppfært

Loka vegum sem liggja að gosstöðvunum

Lögreglan hefur lokað vegum sem liggja að gosstöðvunum til að koma í veg fyrir að fólk fari þangað.

RÚV / Urður Örlygsdóttir

10. júlí 2023 kl. 18:00

Íbúar í Vogum sleppa við gosmökkinn í bili

Formaður bæjarráðs Voga, Birgir Örn Ólafsson, segir gosmökkinn ekki liggja yfir bænum.

„Ég sé gráan skýjastrók og manni sýnist þetta ekki vera öflugt, án þess að maður geti verið viss um það,“ sagði Birgir Örn þegar RÚV náði tali af honum þar sem hann keyrði Reykjanesbrautina í átt að Vogum.

Hann segir enga elda sjást frá Reykjanesbrautinni en verulegan gosmökk leggur yfir og nær að Kúagerði þar sem hann ók. Þá er líka allverulegt mistur yfir vegna veðurs.

„Það er líka búið er að loka veginum upp að Keili,“ sagði hann. Birgir Örn sagði reykinn ekki liggja yfir bæinn sjálfan en mögulega yfir sveitina norðan við.

„Við erum með loftgæðamæla og munum fylgjast vel með þeim,“ útskýrði hann og bætti við að ef loftgæði yrðu slæm myndi sveitarfélagið senda út tilkynningu þess eðlis.

Aðspurður hvort hann sæi einhverja bíla í vegakantinum á Reykjanesbrautinni, sagðist hann sjá þrjá bíla á leið sinni. Björgunarsveitin Þorbjörn biðlar til ökumanna að stoppa ekki á veginum, slíkt geti valdið mikilli slysahættu.

10. júlí 2023 kl. 17:55 – uppfært

Þriðja árið í röð sem gýs á Reykjanesskaga

Þetta er þriðja árið í röð sem gýs á Reykjanesskaga og það eru 323 dagar frá því að síðast gaus. Nahel Belgherze, eðlisfræðingur, bendir á þetta á Twitter-síðu sinni. Þar birtir hann jafnframt glæsilegt myndskeið frá Alessandro sem eru með fyrstu drónamyndunum af gosinu.

Nahel bendir jafnframt á að bilið milli gossins árið 2021 og 2022 hafi verið 319 dagar.

10. júlí 2023 kl. 17:48 – uppfært

Lögreglan á fullt í fangi með lokanir

Lítið skyggni er í grennd við gosstöðvarnar þar sem fréttamaðurinn Þórdís Arnljótsdóttir er stödd ásamt Braga Valgeirssyni, tökumanni. Hún segir lögreglu eiga fullt í fangi með að halda fólki frá öllum þeim slóðum sem liggja upp að gosstöðvunum og hefur verið lokað tímabundið.

Þórdís segir fólk streyma að og láti viðvörunarorð almannavarna sem vind um eyru þjóta. Þá stendur lögreglan í ströngu við að koma bílum í burtu sem eru inná lokunarsvæðinu. Urður Örlygsdóttir er við lokunarpóst lögreglunnar á veginum inn að Keili.

10. júlí 2023 kl. 17:47 – uppfært

Lítið eldgos enn sem komið er en óvíst um framhaldið

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að eldgosið sé lítið, í það minnsta enn sem komið er. Það sé þó of snemmt að segja til um hvernig það þróast.

„Miðað við þær myndir sem við sjáum er þetta mjög lítið enn sem komið er. Þetta er stutt sprunga upp við Stóra-Hrút með stefnu í átt að Keili en bara af stærðargráðunni 100 til 200 metrar núna, hvað sem síðar verður.“

Þetta sagði Magnús Tumi í viðtali við Sólveigu Klöru Ragnarsdóttur fréttamann á sjötta tímanum. Þá var hann kominn á Reykjavíkurflugvöll og veitti örstutt viðtal áður en hann flaug með þyrlu Landhelgisgæslunnar að gosstöðvunum.

„Þetta er í takt við fyrsta gosið. Það er greinilegt að það er ekki mikill þrýstingur á þessari kviku. Það segir okkur ekkert um hversu lengi þetta mun standa eða hversu mikið þetta verður. Þetta er afl lítið gos með rólegu kvikuflæði og ólíklegt að það stækki mjög mikið.“

Eldgosið virðist hafa komið upp á yfirborðið á nokkuð hentugum stað, miðað við aðstæður.

„Hraun sem þar kemur upp rennur til suðurs og á þá töluvert langa leið eftir niður að vegi, þónokkuð marga kílómetra. Við getum sagt að með hliðsjón af mögulegum áhrifum þá er þetta ekki óheppilegur staður fyrir eldgos. Þetta getur breyst. Við erum bara að horfa á byrjunina og við verðum bara að bíða og sjá hvað setur.“

RÚV / Grímur Jón Sigurðsson

10. júlí 2023 kl. 17:41

Ekki neyðarstig eins og síðast

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir að vanalega hafi almannavarnir lýst yfir neyðarstigi þegar eldgos hefst. Hins vegar sé meira vitað um gosið nú en áður og því sé ekki talin þörf á að lýsa yfir neyðarstigi – aðeins hættustigi.

Hjördís segist ekki vita hvort fólk hafi lent í hremmingum vegna þess hrauns sem farið er að renna á gosstöðvunum. Það sé eitt af því sem verður að kanna.

10. júlí 2023 kl. 17:39

Kvikustrókar standa upp úr 200 metra langri sprungu

Kvikustrókar standa nú upp úr 200 metra langri sprungu, að því er fram kemur í færslu á Facebook-síðu Veðurstofunnar. Þar segir jafnframt að gangan að gosinu er löng og landslagið krefjandi. Eldgosið hófst norðvestur af Litla Hrúti um klukkan 16:40 en þá urðu náttúruvársérfræðingar varir við óróaaukningu.

10. júlí 2023 kl. 17:34

Hættustigi almannavarna lýst yfir

Hættustigi almannavarna hefur verið lýst yfir og ríkislögreglustjóri hvetur fólk til að fara ekki nærri upptökum. Mikilvægt sé að halda svæðinu öruggu og vísindamenn séu að störfum að meta stöðuna.

10. júlí 2023 kl. 17:32 – uppfært

Möguleg mengun myndi hafa áhrif á Reykjanesskaga og nálæg svæði

Vindur á svæðinu er mjög hægur þannig að möguleg mengun og gas berst ekki langt með vindi. Fyrst og fremst myndi mengun hafa áhrif á Reykjanesskaga og nálæg svæði, mögulega höfuðborgarsvæðið. Þetta segir Kristín Hermannsdóttir, veðurfræðingur.

10. júlí 2023 kl. 17:31 – uppfært

Þyrla Landhelgisgæslunnar ætlar að fljúga yfir - myndskeið af eldunum

Verið er að skipuleggja þyrluflug yfir gosstöðvarnar með vísindamönnum, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Ekki liggur fyrir hvenær flugið verður. Mökkur frá gosinu er greinilegur á vefmyndavélum. Garðar Skarphéðinsson, leiðsögumaður, birti á Facebook myndskeið þar sem eldarnir sjást nokkuð vel.

10. júlí 2023 kl. 17:23 – uppfært

Björgunarsveitin Þorbjörn ræsir fólk út

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík er byrjuð að ræsa fólk út. Fyrstu skref verða að loka fjórhjólaslóðum í grennd við gosstöðvarnar og fylgjast grannt með framvindu mála. Verið er að bíða eftir upplýsingum frá Almannavörnum um hversu umfangsmikil aðgerðin þarf að vera. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg hafa björgunarsveitir ekki verið kallaðar út formlega.

10. júlí 2023 kl. 17:17 – uppfært

Mökkurinn gæti náð að Reykjanesbraut

Gosmökkurinn fer í norðvestur, í átt að Reykjanesbrautinni. Hvort hann nái svo langt svarar Kristín: „Hann gæti alveg farið það langt já.“

Hér má sjá mynd sem fréttastofu barst frá vegfaranda sem staddur var á Reykjanesbrautinni.

Reykur úr gosinu í júlí 2023. Séð frá Reykjanesbraut.
Aðsend / Einar Páll Svavarsson

Ljósmynd: Einar Páll Svavarsson

10. júlí 2023 kl. 17:14 – uppfært

Ekki er hægt að sjá á vefmyndavélunum hvort kvika sé komin upp

Ekki er enn hægt að sjá hvort kvika sé komin upp á gosstöðvunum en Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, telur það líklegt.

„Við sjáum það ekki alveg nógu vel á vefmyndavélunum, bara út af staðsetningunni á henni og svo hversu þykkur reykurinn er,“ segir hún.

„Það virðist glitta í kviku. Þannig þetta er bara að byrja. Við eigum eftir að sjá kviku örugglega bara mjög fljótlega.“

10. júlí 2023 kl. 17:12 – uppfært

Fóru að sjá óróa upp úr 14

Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að Veðurstofan hafi byrjað að sjá óróa upp úr 14 sem þróaðist út í gos sem hófst 16:40.

„Klukkan 14:25, þá byrjuðum við að sjá óróa við Fagradalsfjall og nú um klukkan 16:40 þá gátum við séð reyk stíga upp í norðurhlíðum Litla-Hrúts,“ segir hún.

Á sömu slóðum og búist var við

„Já, þetta er eiginlega bara akkúrat á þeim stað sem við bjuggumst við,“ segir hún aðspurð en í nokkra daga hefur verið gert ráð fyrir að kvika komi upp milli Litla-Hrúts og Keilis.

10. júlí 2023 kl. 17:11 – uppfært

Fólk hvatt til þess að stoppa ekki á Reykjanesbraut

Steinar Þór Kristinsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, biðlar til fólks að gæta þess að stöðva ekki bíla á Reykjanesbraut sjái þeir eldglæringar frá eldgosinu sem hófst skömmu fyrir klukkan fimm í dag. Þetta kom fram í máli Þórdísar Arnljótsdóttur, fréttamanns RÚV sem er á leiðinni upp að gosstöðvunum og ræddi við Steinar fyrr í dag.

Fólk er einnig hvatt til þess að gefa viðbragðsaðilum rými til þess að kanna aðstæður og ekki leggja leið sína að gosinu strax. Veginum milli Suðurstrandarvegar og Krýsuvíkurvegar, Vigdísarvallarvegi, hefur verið lokað en aðrir eru opnir.

10. júlí 2023 kl. 17:10 – uppfært

Eldgosið hófst 16:40

Eldgos hófst um 16:40 við Litla-Hrút samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Órói hófst upp úr 16:20. Eldgosið er að koma upp úr lítilli dæld rétt norður af Litla-Hrút og rýkur úr því til norðvesturs.

RÚV / Hallgrímur Indriðason

Reykur frá gosinu sést stíga upp við Keili. Myndin er tekin af golfvellinum í Hafnarfirði.

10. júlí 2023 kl. 17:02 – uppfært

Fyrstu myndirnar af gosinu

Fyrstu myndirnar af gosinu.

RÚV / vefmyndavél

Vefmyndavél RÚV á efstu hæð í Útvarpshúsinu í Efstaleiti.

RÚV / vefmyndavél

10. júlí 2023 kl. 16:55 – uppfært

Eldgos er hafið við Litla-Hrút

Eldgos er hafið á Reykjanesskaga. Reykur stígur upp úr hlíðum við Litla-Hrút að sögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Veðurstofan greindi óróa upp úr klukkan tvö í dag.

Jörð virðist vera að sviðna og það er mikill hiti undir henni.

Fólk er beðið að halda sig fjarri þar til viðbragðsaðilar eru komnir á staðinn.