Engan sakaði þegar rúta festist í vaði ár að Fjallabaki við Illagil í kvöld. Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að bilun virðist hafa orðið í rútunni og því var ekki hægt að koma henni í gang eftir að hún festist í ánni.
Ekki gekk að draga rútuna vélarvana upp úr ánni og því var brugðið á það ráð að selflytja farþega hennar inn í Landmannalaugar. Björgunarsveitir á hálendisvakt í Landmannalaugum fluttu farþegana á björgunarsveitarbílum, bíl landvarða og einkabíl.
Önnur rúta sótti fólkið svo í Landmannalaugar til að flytja það á Kirkjubæjarklaustur, þangað sem ferðinni var upprunalega heitið.