Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Samantekt

Aðdragandi eldgossins á Reykjanesskaga

Ari Páll Karlsson og Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir

,

Þessum viðburði er lokið og því hefur streymið verið fjarlægt.

10. júlí 2023 kl. 17:06

Ný fréttavakt um eldgosið

Þar sem eldgos er hafið á Reykjanesskaga færum við umfjöllunina yfir í nýja fréttavakt, sem má nálgast hér að neðan. Þar birtast allar nýjustu fréttir um eldgosið. Hvar það er, hvenær það hófst og nánari upplýsingar eftir því sem þær berast.

10. júlí 2023 kl. 16:45

Líklegast gos að byrja

Náttúruvársérfræðingur á veðurstofu Íslands segir gos líklegast vera að byrja.

10. júlí 2023 kl. 16:44

Mikill reykur sést á vefmyndavélum

Sérfræðingar eru að kanna reyk sem sést nú greinilega á vefmyndavélum, og meðal annars má sjá í spilaranum hér að ofan.

10. júlí 2023 kl. 16:29

Á meðan virkni heldur áfram er líklegt að það gjósi

Engir jarðskjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst á Reykjanesskaga frá því stóri skjálftinn, 5,2, varð við Keili í gærkvöld, sem er einnig stærsti jarðskjálfti ársins.

Enn benda gögn til þess að kvikan sé um 500 metra undir yfirborðinu en heilt yfir hefur dregið úr skjálftavirkninni síðustu daga, að sögn Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Ísland.

„Skjálftavirkni heldur áfram en það er ekkert að bætast við stærri skjálfta. Stærsti frá miðnætti er 2,3 að stærð. Um 1000 skjálftar frá miðnætti samt minna en var í gær. Við sjáum bara til hvernig framhaldið verður.“

Hann er enn á því að það gjósi. „Á meðan virkni heldur áfram þá er líklegt að það muni gjósa. Það er bara spurning um hvenær, við erum alltaf að ræða klukkutíma eða daga, en það verður bara að koma í ljós.“

10. júlí 2023 kl. 14:45 – uppfært

Gígarnir í Meradölum hafa tekið verulegum breytingum

Gígarnir og hraunið úr gosinu í Meradölum í fyrra hafa tekið verulegum breytingum frá goslokum. Þetta kemur fram í pistli á Facebook-síðu Rannsóknarstofu í eldfjallafræði og náttúruvá.

Facebook / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá

Þar segir að gígarnir hafi hreinlega skroppið saman. Þessar breytingar eru fyrst og fremst taldar tengjast kólnun hraunsins og samþjöppun á holrýmum innan þess.

Þegar hópur frá rannsóknarstofunni var á ferð um gosstöðvarnar og skjálftasvæðið 8. júlí höfðu engar sprungur sést á yfirborðinu, frekar en dagana þar á milli.

Facebook / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá

Gígarnir í Meradölum.

10. júlí 2023 kl. 13:33 – uppfært

Gasþrýstingur verði til þess að það gjósi

Þrátt fyrir að skjálftahrinan á Reykjanesskaga hafi staðið í sex sólarhringa er enn ekki farið að gjósa. Mælingar vísindamanna benda eindregið til þess að kvikan sé að þröngva sér í gegnum jarðskorpuna og vinna sig upp á yfirborðið. Gos er talið geta hafist á hverri stundu, kvika sé svo nálægt yfirborði.

Í nýrri færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands á Facebook er fjallað um hvað tefji kvikuna og valdi því að hún komist ekki upp á yfirborðið. Þar segir að kvikan sem hafi komið upp í síðustu tveimur gosum sé frumstæð basaltkvika sem sé tiltölulega þung. „Það sem drífur hana endanlega upp á yfirborð er fyrst og fremst gasþrýstingur.“

Mikið gasinnihald geri kvikuna eðlisléttari en hraunlögin sem kvikuinnskotið mæti á leið sinni og valdi því að kvikan leiti upp á við. „ Á leið sinni upp til yfirborðs getur kvikan lent í fyrirstöðu sem t.d. geta verið eðlisléttari hraunlög eða móbergslög sem torvelda för hennar upp á við.“

Sennilega brjótist gos út þegar gasþrýstingur í kvikuganginum hafi byggst það mikið upp að síðasta haftið gefi undan þrýstingnum að neðan með þeim afleiðingum að kvikan brjótist upp á yfirborð. „Hvenær það gerist er ómögulegt að spá nákvæmlega fyrir og af því stafar óvissan um hvenær gos hefst,“ segir í færslunni.

Myndin sýnir skjálftavirkni við Keili síðustu tvo sólarhringa. Mesta virknin hefur verið austan við sjálft kvikuinnskotið.

Skjálftavirkni við Keili síðustu 48 tíma.
Facebook / Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands

10. júlí 2023 kl. 12:38 – uppfært

Nýta atburðinn til að búa sig betur undir framtíðargos

Kristín Jónsdóttir, jarðfræðingur og fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, segir veðurstofuna ætla að nýta atburðinn til þess að geta búið sig undir gos í framtíðinni.

Hún segir brýnustu verkefni vísindamanna nú að mæla aðdragandann. Vel hafi gengið að vara við gosinu og gefa upp staðsetningu.

„Við vitum að það er ólíklegt að það stafi nokkur hætta af þessu gosi,“ segir Kristín í hádegisfréttum útvarps.

„Við viljum í rauninni nota þetta tækifæri til þess að gera mælingar og sjá hvernig þessi aðdragandi, hvernig hann verður. Hvernig við getum mælt betur og í rauninni búið okkur betur undir gos í framtíðinni.“

Enn benda gögn til þess að kvikan sé um 500 metra undir yfirborðinu. Kristín telur líklegt að það gjósi en ekki sé hægt að útiloka hitt.

10. júlí 2023 kl. 12:09 – uppfært

Hvaða kvarði er notaður til að mæla jarðskjálfta?

Mörgum er enn tamt að hugsa um jarðskjálfta á Richter-kvarða. Hann hefur þó ekki verið notaður í skjálftafræði um nokkurra áratuga skeið að sögn Páls Einarssonar prófessors emeritus í jarðeðlisfræði.

Í dag notast Veðurstofan við svokallaða vægisstærð (M) eða magnitude á ensku. Vægisstærðin tengist betur því sem gerist í raun og veru í upptökum jarðskjálfta en aðrar stærðir að því er segir á Vísindavefnum.

Richter-stærðarkvarðinn, nefndur eftir skjálftafræðingnum Charles F. Richter, var upphaflega ætlaður til notkunar í Suður-Kaliforníu fyrir skjálfta sem voru í minna en 600 kílómetra fjarlægð.

Jarðskjálftafræðingar víða um heim tóku kvarðann upp og reyndu að aðlaga hann að aðstæðum á hverjum stað. Ef upptök skjálfta eru í meiri fjarlægð en 600 kílómetra frá þeim stað sem hann mælist hentar stærðarkvarði Richters ekki.

Lesendur sem hafa dálæti á stúlknasveitinni Nylon geta rifjað upp vinsælt lag þeirra, 5 á Richter, hér að neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.

10. júlí 2023 kl. 10:57

Landsnet undirbúið vegna mögulegs hraunflæðis

Landsnet býr kerfi sín undir nokkra möguleika ef eldgos hefst á Reykjanesskaga, meðal annars ef hraun myndi renna til norðurs og stefna á Suðurnesjalínu 1. Það er lína sem liggur sunnan megin við Reykjanesbraut, frá Hafnarfirði og að Fitjum í Reykjanesbæ, sem er eina línan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að það myndi taka hraun einhverja daga að komast að línufarveginum, sem gæfi tækifæri til að verja möstrin með varnargörðum, styrkja þau eða færa til. „Við erum þegar byrjuð að hanna færslur á möstum og að undirbúa efnistök, fara yfir hvað þarft til af efni og búnaði, varahluti ofl. því tengdu,“ segir í tilkynningunni.

Ef Suðurnesjalínan fer út geta Reykjanesvirkjun og Svartsengi séð Suðurnesjum fyrir rafmagni. Þá er Landsnet tilbúið með færanlegt varaafl sem verður flutt til Suðurnesja, ef línan leysir út.

Suðurnesjalína
RÚV / Ragnar Visage

10. júlí 2023 kl. 9:40 – uppfært

Aukið grugg í Grábrókarveitu - viðkvæmir hópar sjóði drykkjarvatn

Grugg jókst í vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni í Borgarfirði eftir stóra jarðskjálftann sem reið yfir um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi og var 5,2 að stærð.

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, segir gruggið í sjálfu sér ekki hættulegt en viðkvæmir hópar eru beðnir um að sjóða drykkjarvatn næsta sólarhringinn.

Hún segir lit koma á vatnið sem sé ekki hættulegt, en verið sé að hreinsa síur og gegnumlýsa vatnið til að drepa örverur sem geta myndast.

Flickr / Gouldy99

Veitur eru í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Vesturland sem tekur sýni úr vatninu. „Það tekur um sólarhring að fá niðurstöður úr sýnatökum og bara sem varúðarráðstöfun þá erum við að biðja viðkvæma notendur um að sjóða drykkjarvatn í algjöru varúðarskyni.“

Vatnsbólið þjónar Bifröst og Varmaland sem og sumarbúastaðarbyggðir og nokkyr lögbýli í Borgarfirði. „Borgarnes fær vatn frá Seleyri og Hafnarfjalli og því eru tilmælin ekki að ná til íbúa og fyrirtækja í Borgarnesi.“

Rún Ingvarsdóttir, samskiptastjóri Veitna, segir í samtali við fréttastofu að eðlilegt sé að einhver fínefni eða grugg greinist í neysluvatni, séu þau innan ákveðinna marka. Hún segir reynsluna af rekstri Grábrókaveitu hafa sýnt að það geti komið meira grugg í þessu vatnsbóli en öðrum. Þess vegna sé vatnið stöðugt síað. Hins vegar ráði síurnar illa við gruggskot við svo stóra skjálta eins og varð í gærkvöld.

10. júlí 2023 kl. 8:16

„Við erum bara í miðjum atburði“

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, segir það ekkert koma endilega á óvart að kvika sé ekki komin upp á Reykjanesskaga. Hún fer yfir stöðuna í morgunútvarpi Rásar 2 í þessum töluðu orðum.

Kristín bendir á það séu nokkur dæmi um innskotavirkni, sum hafi endað með gosi en önnur ekki. Í fyrra hafi þetta gengið mjög hratt fyrir sig og aðeins liðið fimm dagar þar til gos hófst. 2021 hafi allt skolfið í þrjár vikur áður en það kom gos. „Nú er ekki komin vika og við erum bara í miðjum atburði.“

Kristín er nýkomin úr fríi og fann vel fyrir skjálftanum í gærkvöld upp á 5,2 sem er sá stærsti í þessari hrinu. Hún sagði skjálftann hafa verið það stóran að hann hafi mælst á heimsvísu og skjálftamælar næst upptökunum hafi mettast.

10. júlí 2023 kl. 8:05 – uppfært

Lotukennd en heilt yfir minnkandi virkni

Áfram mæna vísindamenn á vefmyndavélar frá Fagradalsfjalli en ekkert bólar á gosi. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir virknina hafa minnkað síðustu daga en svo komi alltaf einn og einn snarpur skjálfti.

Hann segir erfitt að lesa í þessa minni virkni. „Þetta er bara svona lotukennt en heilt yfir er þetta minnkandi virkni.“

Bjarki segir að stóri skjálftinn í gær hafi verið svokallaður gikkskjálfti og áfram sé líklegast að það gjósi suðvestur af Keili. Hann segir stöðuna óbreytta, að áfram sé líklegt að það gjósi næstu daga eða klukkustundir. „Það er ennþá líklegt að það muni gjósa og ef við segjum dagar núna þá byrjar örugglega að gjósa eftir nokkrar klukkustundir.“

10. júlí 2023 kl. 6:06 – uppfært

Lítið um sterka jarðskjálfta í nótt

Engir skjálftar mælst yfir 2 að stærð frá miðnætti samkvæmt núverandi mælingum Veðurstofu Íslands. Alls hafa 430 skjálftar riðið yfir frá miðnætti, sem er aðeins minna en undanfarna sólarhringa.

Í gærkvöld mældust alls sjö skjálftar yfir tveimur að stærð, flestir á milli klukkan tíu og hálf ellefu. Skömmu fyrir klukkan hálf ellefu í gær reið yfir skjálfti að stærðinni fimm komma tveir, sá stærsti frá upphafi hrinunnar á þriðjudag.

Íbúar á Suðvesturhorninu fundu vel fyrir honum en samkvæmt Veðurstofu Íslands hefur hann eflaust fundist um nánast allt land. Fréttastofu bárust ábendingar um að hann hefði fundist á Laugarvatni, Ólafsvík og Ísafirði.

Alls hafa 11.900 hundruð jarðskjálftar riðið yfir frá því að hrinan hófst.

Örlítill reykur sást stíga upp úr hrauni við Geldingadali í nótt. Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að mikill hiti sé enn í hrauninu við Geldingadali, auk gasútblásturs, sem geti skýrt reykinn.

Einnig sást reykur í vefmyndavél við Þorbjörn. Böðvar segir að þar sé líklega um að ræða gufu frá Svartsengi og því hluti af eðlilegri virkni á svæðinu.

10. júlí 2023 kl. 1:40 – uppfært

Örlítill reykur úr hrauni við Geldingadali

Örlítill reykur sést nú stíga upp úr hrauninu við Geldingadali. Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir hann ekki vera skýrt merki um að gos sé að hefjast eða muni koma þar upp.

Mikill hiti sé enn í hrauninu, auk gasútblásturs, og ekki óeðlilegt að reykur komi þar upp þegar virkni er jafn mikil á svæðinu eins og undanfarna daga.

Reykur hefur líka sést stíga upp úr hrauni nærri Fagradalsfjalli í nótt. Hann sést á vefmyndvél Live from Iceland sem staðsett er við Þorbjörn.

Böðvar segir að líklega sé um að ræða gufu frá Svartsengi og því hluti af eðlilegri virkni á svæðinu.

10. júlí 2023 kl. 0:40

Íbúar við skjálftasvæði hugi að lausamunum

Skjálftinn sem reið yfir klukkan 22:22 í kvöld fannst líklegast um allt land. Samkvæmt Veðurstofu Íslands var hann 5,2 að stærð og sá stærsti í hrinunni til þessa.

Veðurstofan segir hann hafa verið gikkskjálfta, sem borið hefur á undarfarna daga, og geti skapað hættu af völdum grjóthruns.

Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og fréttastofu bárust ábendingar um að skjálftinn hefði líka fundist á Laugarvatni, Ólafsvík og Ísafirði.

Fleiri skjálftar gætu fylgt í kjölfarið og íbúar í grennd við svæðið eru hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum.

Kort sem sýnir virkni í jarðskjálfta á Reykjanesskaga sem varð þann 9. júlí 2023 sem mældist 5,2 að stærð.
Veðurstofa Íslands

9. júlí 2023 kl. 23:32

Skjálftinn olli grjóthruni í Keili

Ryk þyrlaðist upp við grjóthrun sem varð í Keili þegar skjálftinn varð. Þetta sýndu vefmyndavélar Ríkisútvarpsins greinilega og hægt er að horfa á það aftur, sé spólað aftur til kl. 22:23 á streyminu, en það er mínútu eftir skjálftann.

9. júlí 2023 kl. 23:13 – uppfært

Skjálftinn 5,2 að stærð

Samkvæmt staðfestum mælingum Veðurstofu Íslands var skjálftinn 5,2 að stærð. Óstaðfestar mælingar gerðu ráð fyrir að hefði verið á bilinu 5,0 til 5,3 að stærð.

Skjálftinn er sá stærsti í hrinunni.

9. júlí 2023 kl. 23:01 – uppfært

Stærsti skjálftinn til þessa

Standist óyfirfarnar mælingar Veðurstofu Íslands er jarðskjálftinn sem reið yfir um hálf ellefu leytið í kvöld sá stærsti sem mælst hefur frá því að jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst 4. júlí.

Samkvæmt fyrstu mælingum Veðurstofu Íslands var hann 5,3 að stærð.

Þónokkrir skjálftar yfir 4 að stærð hafa mælst frá upphafi hrinunnar, þar af fjórir frá miðnætti.

Uppfært 23:08: Samkvæmt yfirförnum mælingum veðurstofunnar var skjálftinn um og yfir 5 að stærð.

9. júlí 2023 kl. 22:47 – uppfært

Skjálftinn fannst um allt land

Skjálftinn sem reið yfir á ellefta tímanum í kvöld fannst líklegast um allt land. Þetta tjáir Veðurstofa Íslands fréttastofu.

Stuttu eftir skjálftann barst fréttastofu ábendingar frá fólki sem fann skjálftann. Var það flest statt á höfuðborgarsvæðinu en einnig barst ein ábending frá Ísafirði, Laugarvatni og Ólafsvík.

9. júlí 2023 kl. 22:45 – uppfært

Engin skýr merki um eldgos

Fyrstu mælingar Veðurstofunnar gefa til kynna að jarðskjálftinn hafi verið 5,3 að stærð. Upptökin eru líklega mitt á milli Keilis og Trölladyngju. Líklega var skjálftinn gikkskjálfti.

Náttúruvársérfæðingur á Veðurstofu íslands segir að verið sé að skoða nánar þá staði þar sem líklegt er talið að kvika brjóti sér leið upp á yfirborðið. Enn séu þó engin skýr merki um að eldgos sé hafið. Reykur sjáist víða á svæðinu, til að mynda á hrauninu úr fyrra gosi, enda sé gamla hraunið mjög heitt og enn sé gasútstreymi.

9. júlí 2023 kl. 22:24 – uppfært

Sennilega stærsti skjálftinn í hrinunni

Stór skjálfti reið yfir á höfuðborgarsvæðinu á ellefta tímanum í kvöld.

Veðurstofa Íslands reiknar nú út stærð skjálftans. Samkvæmt fyrstu tölum var skjálftinn 5,3 að stærð. Þá væri um að ræða stærsta skjálftann frá því hrinan hófst á þriðjudag.

Upptök eru líklega mitt á milli Keilis og Trölladyngju. Erfitt er að segja til um hvort þetta sé gikkskjálfti.

9. júlí 2023 kl. 21:29 – uppfært

Gosið gæti á hverri stundu og það talið mjög líklegt

Gosið gæti á hverri stundu og er það talið mjög líklegt, að sögn jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Í gærkvöldi mældist kvika á fimm hundruð metra dýpi.

„Sú niðurstaða, og þetta er náttúrulega síðan í gærkvöldi, bendir til þess að kvika sé mjög nálægt yfirborði, þarna á bilinu milli Litla-Hrúts og Keilis. Þannig það þarf væntanlega ekki mikið til þess að það komi upp og mjög líklega verður lítill fyrirvari á því eða enginn,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Kvikan hefur rutt sér leið upp á yfirborðið síðustu daga. Í gær var talið að hún væri að berjast við ysta lag jarðskorpunnar.

Þannig það gæti gosið hér á hverri stundu?

„Það er þannig, það gæti gosið á hverri stundu. Það er náttúrulega ekkert hægt að útiloka að eitthvað annað gerist, að þetta stöðvist, en það bendir allt til þess að það sé að byrja gos.

„Þetta gæti alveg stöðvast, það er ekkert útilokað. En miðað við hvernig þetta hefur verið að þróast myndi ég telja það mjög ólíklegan möguleika. En alls ekkert útilokaðan. Við náttúrulega skiljum ekkert allt sem er í gangi þarna.“

Benedikt Ófeigsson.
RÚV

9. júlí 2023 kl. 16:26 – uppfært

Engin þensla norðaustur af Keili

Jarðskjálftavirknin hefur í dag færst norðaustar en síðustu daga. Talið er að það sé vegna spennubreytinga en GPS-gögn sýna enga þenslu norðaustur af Keili að svo stöddu, sem talið var möguleg ástæða skjálftanna fyrr í dag.

Í færslu Veðurstofunnar á Facebook segir að nýjustu gögn, byggð á gervihnattamyndum frá ICEYE-SAR dagana 7.-8. júlí, bendi til þess að kvikugangurinn sé að færast enn nær yfirborðinu og að efsti partur hans sé á einungis um 500 metra dýpi. Innflæði kviku svipi nú til síðasta goss, eða um 54 rúmmetrar á sekúndu.

Nokkuð var um grjóthrun í grennd við Kleifarvatn og Trölladyngju í kjölfar stærsta skjálfta gærdagsins, sem mældist 4,5 að stærð. Grjót féll meðal annars á Krísuvíkurveg og Djúpavatnsleið.

Veðurstofan segir ljóst að öll gögn bendi til þess að kvika sé nálægt yfirborði, hvort eða hvenær hún nái upp verði að koma í ljós.

Kort sem sýnir jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga frá 4. júlí til 9. júlí.
Veðurstofa Íslands

9. júlí 2023 kl. 15:10 – uppfært

Bæjarstjórar á Suðurnesjum í skoðunarferð um gosstöðvarnar

Í vikunni fóru bæjarstjórar sveitarfélaganna á Suðurnesjum í skoðunarferð um væntanlegt gossvæði og nutu leiðsagnar Otta Rafns Sigmarssonar, formanns Landsbjargar sem er meðlimur björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík.

Bæjarstjórar á Suðurnesjum í fygld björgunarsveitarmanns á gosstöðvunum
Facebook / Kjartan Már Kjartansson

Á Suðurnesjum eru tvær almannavarnanefndir starfandi. Önnur þeirra er í Grindavík en hin er sameiginleg fyrir Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga.

9. júlí 2023 kl. 14:18 – uppfært

9300 skjálftar frá upphafi hrinunnar

Frá 4. júlí hafa 9300 jarðskjálftar mælst milli Fagradalsfjalls og Keilis. Stærsti skjálftinn varð 5. júlí klukkan 8:21, 4,6 að stærð. Alls hafa 25 skjálftar yfir fjórum að stærð mælst. Stærstu skjálftarnir finnast víða á Suðvesturlandi.

Virknin hefur í dag færst norðaustur. Stærstu skjálftarnir frá miðnætti eiga upptök sín við Keili. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að hugsanlega sé kvika að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið á því svæði.

Jarðskjálftar 9. júlí á Reykjanesskaga merktir inn á kort.
RÚV / Kristrún Eyjólfsdóttir

Skjálftavirkni við Eldey hefur minnkað töluvert. 500 skjálftar hafa mælst á því svæði frá 4. júlí.

Veðurstofa Íslands minnir á að grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar. Íbúar í grennd við svæðið eru hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum.

9. júlí 2023 kl. 12:51 – uppfært

Gikkverkun eða fyrirstaða í jarðskorpunni

Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir skjálftavirkni nú og GPS-gögn svipa til stöðunnar fyrir eldgosin í fyrra og 2021.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur segir að verið sé að skoða tvo möguleika; „annars vegar að þetta sé einhvers konar gikkverkun á mjög nálægum sprungum á svæðinu eða þá að það sé einhver fyrirstaða að kvikan nái að komast ofar og að hún sé mögulega að reyna að brjóta sér leið lengra til norðausturs.

9. júlí 2023 kl. 11:49 – uppfært

Hyggjast loka Höskuldarvallavegi og Vigdísarvallavegi

Lögreglan á Suðurnesjum undirbýr vegalokanir á Höskuldarvallavegi og Vigdísarvallavegi komi til eldgoss milli Litla-Hrúts og Litla-Keilis.

„Eftir yfirlegu viðbragðsaðila höfum við komist að þeirri niðurstöðu að best væri að beina fólki að eldgosasvæðinu eftir svokallaðri Meradalaleið. Það myndi vera öruggasta og þægilegasta gönguleiðin að svæðinu. Samfara því myndum við loka Höskuldarvallavegi frá Reykjanesbraut í átt að Höskuldarvöllum og Vigdísarvallavegi,“ segir Gunnar Schram yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Fólki verði þá beint til Grindavíkur og þeim megin að gosinu, komi hraun upp á milli Litla-Hrúts og Litla-Keilis. Það sé öruggasta aðkomuleið gangandi fólks.

9. júlí 2023 kl. 10:19 – uppfært

Líklegast gikkskjálftar þó ekki sé hægt að útiloka að fyrirstaða hindri leið kviku upp á yfirborð

Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur sagði í tíu fréttum útvarps að þrír kröftugir skjálftar sem hafi orðið frá miðnætti og átt upptök sín í við og Keili séu líklegast gikkskjálftar, Þó sé ekki hægt að útiloka að kvika sé að mæta fyrirstöðu í efsta lagi jarðskorpunnar. Kvikan er aðeins á nokkur hundruð metra dýpi.

9. júlí 2023 kl. 8:57 – uppfært

Kvikan mögulega að reyna að koma sér upp við upptök skjálftanna

Þrír skjálftar yfir fjórum að stærð hafa orðið síðan á miðnætti. Skjálftarnir eiga allir upptök sín í kringum Keili, alveg við Keili eða allt að einum og hálfum kílómetra frá.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir sérfræðinga ekki telja þetta vera gikkskjálfta því upptök þeirra hafi verið svo nálægt kvikuinnskotinu milli Litla-Hrúts og Keilis. „Þannig að það er spurning hvort kvikan sé að reyna að koma sér upp þarna við upptök skjálftanna.“

Hún segir sérfræðinga vera að bera saman bækur sínar. „Við erum að ræða þetta innanhúss. Við erum ekki alveg búin að ná að rýna í þetta nógu vel og erum að bíða eftir að heyra í sérfræðingum okkar til að fara yfir stöðu mála.“

Hún segir greinilegt að kvikan eigi eftir að brjóta sér meiri leið til þess að komast upp á yfirborðið. „Það er spurning hvort þessir skjálftar séu að koma í kjölfarið af því.“

9. júlí 2023 kl. 8:31 – uppfært

Jarðskjálfti í morgunsárið 4,3 að stærð

Jarðskjálfti sem varð rétt um hálf níu var 4,3 að stærð. Upptök hans voru nærri Keili. Alls hafa þrír skjálftar yfir fjórum að stærð orðið eftir miðnætti. Um klukkan hálf átta í morgun varð skjálfti af stærðinni 4,2 og rétt eftir miðnætti var skjálfti 4,1 að stærð.

9. júlí 2023 kl. 7:30

Jarðskjálfti fannst í Reykjavík

Fyrir örfáum mínútum reið yfir skjálfti sem fannst afar vel hér í Efstaleiti og hefur eflaust tekist að vekja einhverja íbúa á Suðvesturhorninu. Stærð skjálftans liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Lítið hefur borið á stórum jarðskjálftum í nótt þó skjálftavirkni sé enn mikil á Reykjanesskaga.

9. júlí 2023 kl. 6:53

Um 700 skjálftar í nótt

Ekkert bendir enn til þess að eldgos sé hafið við Fagradalsfjall. Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að fremur rólegt hafi verið yfir jarðhræringum á Reykjanesskaga í nótt þó enn mælist reglulegir jarðskjálftar.

„Það eru stöðugir skjálftar á svæðinu,“ segir Böðvar. Tæplega 700 skjálftar hafi mælst frá miðnætti en flestir voru undir 3 að stærð.

Einn skjálfti af stærðinni 3,8 mældist klukkan rúmlega ellefu í gærkvöld en stærsti skjálfti næturinnar reið yfir skömmu eftir miðnætti og mældist 4,1 að stærð.

Böðvar segir virknina enn vera mikla þó styrkur skjálfta hafi minnkað. Hann segir að frá miðnætti hafi tæplega 700 skjálftar riðið yfir. Nú hafi alls um 11.500 skjálftar riðið yfir við Fagradalsfjall frá þriðjudegi.

9. júlí 2023 kl. 3:23

Fremur rólegt yfir jarðhræringum í nótt

Enn bólar ekki á eldgosi við Fagradalsfjall sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu.

Jarðvísindamenn telja að jarðskjálftavirkni síðasta sólarhringinn gæti bent til þess að eldgos hefjist næstu tvo sólarhringa.

Lítið hefur borið á stórum skjálftum í nótt en skömmu fyrir miðnætti reið yfir skjálfti sem var 3,8 að stærð og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.

Frá miðnætti hafa þrír skjálftar mælst yfir 2 að stærð, sá síðasti reið yfir klukkan 01:40. Sá stærsti meðal þeirra reið yfir klukkan 00:15 og mældist 3,4 að stærð.

9. júlí 2023 kl. 0:13

„Frekar stutt í gos“

Þorvaldur Þórðarsson, prófessor í eldfjallafræði, segir atburðarásina í ár vera svipaða og fyrir eldgos síðustu tveggja ára. Nú séu smáskjálftar ráðandi og dregið hefur úr stórum jarðskjálftum.

„Þegar við förum að finna fyrir stöðugum þrýstingi mjög nálægt yfirborðinu þá vitum við að gosið er að nálgast og ég held að það sé frekar stutt í gos,“ segir Þorvaldur.

Hann segir mestar líkur vera á því að eldgos við Fagradalsfjall verði svipað eldgosum á Reykjanesskaga síðustu tveggja ára. Innflæði sé meira en það var 2021 og er því líklegra að í byrjun verði gosið líkara því sem sást á síðasta ári.

8. júlí 2023 kl. 23:44 – uppfært

Jarðskjálfti að stærð 3,8

Fyrir örfáum mínútum fannst nokkur titringur hér í Efstaleiti og ef til vill víðar á Suðvesturhorninu. Mælingar Veðurstofu Íslands benda til þess að hann hafi verið 3,8 að stærð.

Harður skjálfti, 4,5 að stærð reið yfir stuttu fyrir klukkan sex í kvöld. Um er að ræða gikkskjálfta við Kleifarvatn. Samkvæmt jarðskjálftasérfræðingi olli kvikan sem nú brýtur sér leið á Reykjanesi skjálftanum.

8. júlí 2023 kl. 19:15 – uppfært

Krjúpa, skýla, halda

Það er rétt að minna á hvernig best sé að bregðast við stórum jarðskjálftum.

Ýmislegt þarf að hafa í huga ef stórir jarðskjálftar verða. Það þarf að huga að lausamunum og gott er að muna frasann „krjúpa - skýla - halda.“

Á vef almannavarna má finna leiðbeiningar um rétt viðbrögð við jarðskjálfta. Þá fór Karitas Mörtudóttir Bjarkadóttir fréttamaður vel yfir helstu atriðin fyrr í vikunni.

8. júlí 2023 kl. 19:10 – uppfært

Tvær tilkynningar um grjóthrun við Kleifarvatn

Tvær tilkynningar hafa borist um grjóthrun norðan og vestan við Kleifarvatn eftir kröftugan skjálfta, 4,5 að stærð, sem varð rétt fyrir klukkan sex í kvöld.

Almannavarnir beina því til fólks að halda sig fjarri svæðinu og hafa varann á þurfi það á annað borð að fara þangað.

Engar tilkynningar hafa borist um tjón að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur samskiptastjóra almannavarna.

Starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands setja upp mæla við Kleifarvatn.
RÚV / Benedikt Sigurðsson

Jarðvísindamenn setja upp mæla við Kleifarvatn í vikunni.

8. júlí 2023 kl. 19:10 – uppfært

Skjálftinn líklegur fyrirboði um gos

Stóri jarðskjálftinn sem varð stuttu fyrir kl. 18 í dag er líklegur fyrirboði um gos. Um er að ræða algenga afleiðingu þegar kvika brýst upp á yfirborðið.

Þetta segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á veðurstofunni og rannsóknarprófessor við HÍ, í samtali við fréttastofu.

Hann segir kvikuna, sem nú brýtur sér leið á Reykjanesinu, auka álag á sprungur brotabeltisins sem liggur í Suðurátt.

Brotabeltið er safn norð-suðurliggjandi sprungna sem liggja eftir brotabelti Norðurlands og Suðurlands.

„Á því belti verða stærstu jarðskjálftarnir,“ segir Benedikt og bætir við að skjálftinn hafi fundist vel á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann var nær því.

„Þetta er algeng afleiðing aflögunar sem innskotin valda.“

Mjög líkt aðdraganda gossins í fyrra

Benedikt segir að atburðarásin í ár svipi mjög til atburðarásarinnar í fyrra.

„Áður en gosið hófst í ágúst 2022 urðu þrír skjálftar að stærðinni 4,5 til 5 í Kleifarvatni, allt gikkskjálftar. Skjálftinn sem reið yfir síðdegis í dag var gikkskjálfti við Kleifarvatn.“

8. júlí 2023 kl. 18:50

8500 skjálftar mælst frá því að hrinan hófst

Frá 4. júlí hafa um 8.500 skjálftar mælst milli Fagradalsfjalls og Keilis. Hrinan er talin vera vegna kvikuinnskots á svæðinu. Stærsti skjálftinn varð að morgni 5. júlí, 4,6 að stærð. Alls hafa átján skjálftar yfir fjórum að stærð mælst. Stærstu skjálftarnir finnast víða á Suðvesturlandi.

Að auki hafa 500 skjálftar mælst nálægt Eldey. Sex skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst þar, sá stærsti 4,5 að stærð snemma í morgun.

8. júlí 2023 kl. 18:02 – uppfært

Skjálfti 4,5 að stærð fannst vel á höfuðborgarsvæðinu

Kröftugur skjálfti 4,5 að stærð reið yfir rétt fyrir klukkan sex í kvöld og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir skjálftann vera svokallaðan gikkskjálfta sem átti upptök sín rétt vestan við Kleifarvatn. Skjálftinn er talinn vera vegna spennubreytinga.

Varað er við grjóthruni sem getur orðið á svæðinu nálægt upptökum skjálftans. Fara skal með varúð við brattar hlíðar og íbúar í grennd við skjálftasvæðið eru hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum.

Myndbandið sýnir skjálftann í vefmyndavélum RÚV við gosstöðvarnar.

8. júlí 2023 kl. 17:39 – uppfært

Gos líklegt á næstu tveimur sólarhringum

Gos hefst líklega á næsta sólarhring eða tveimur, gjósi á annað borð. Jarðeðlisfræðingur segir tvær sviðsmyndir líklegastar: Að það gjósi mjög fljótlega eða allt detti niður. Samráðsfundur helstu viðbragðsaðila var klukkan tvö í dag.

8. júlí 2023 kl. 15:21

Kvikan mögulega að berjast við efsta lag jarðskorpunnar

Veðurstofa Íslands, vísindamenn og almannavarnir komu saman til fundar klukkan tvö. Staðan er metin að mestu óbreytt en sterk merki eru um að gos sé yfirvofandi.

Hægt hefur á landrisi næst kvikuinnskoti milli Litla-Hrúts og Litla-Keilis. Kvika er komin það nálægt yfirborði að erfitt reynist að mæla nákvæma dýpt hennar, en síðan á fimmtudag hefur kvika mælst á um eins kílómetra dýpi.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að nú mælist mikið af þéttum smáskjálftum sem varla eru mælanlegir, sem gæti bent til þess að kvika sé að berjast við efsta lag jarðskorpunnar. Nú sé bara að bíða og sjá hvort kvikan nái að brjótast í gegnum síðasta hlutann eða ekki.

Hún segir nýjustu mælingar ekki kalla á frekara viðbragð en almannavarnir og Veðurstofan séu í viðbragðsstöðu, líkt og síðustu daga.

8. júlí 2023 kl. 15:13 – uppfært

Þorbjörn sótti slasaða konu á gossvæðið

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík sótti á þriðja tímanum slasaða konu sem var á leið upp að gamla gossvæðinu. Konan, sem sjálf var sjúkrafluttningamaður í Bandaríkjunum um skeið, heyrði brest þegar hún missteig sig við fjallgöngu og hringdi því á neyðarlínuna. Björgunarsveitin Þorbjörn var kölluð út og kom skjótt.

Með fjórhjólavögnum voru tveir sjúkraflutningamenn sóttir á bílastæðið við gosstöðvarnar og konan í kjölfarið sótt og sjálf flutt á bílastæðið til aðhlynningar.

8. júlí 2023 kl. 14:13

Bíða og sjá hvort kvikan nái að brjótast upp á yfirborðið

Hægt hefur á landrisi næst kvikuinnskotinu milli Litla-Hrúts og Litla-Keilis. Kvikan er komin það nálægt yfirborðinu að GPS-mælar ná ekki að mæla dýpt hennar, að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu.

Við metum það sem svo að kvikan sé verulega nærri yfirborði og svo er bara að bíða og sjá hvort hún nái að brjótast í gegnum síðasta hlutann eða ekki,“ sagði Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur á veðurstofunni í hádegisfréttum.

8. júlí 2023 kl. 9:49

Staðan að morgni laugardags

Nóttin var róleg á Reykjanesskaga. Jarðskjálftavirkni hefur minnkað síðustu tvo daga þó enn finnist skjálftar á suðvesturhorninu.

  • Kvika mælist á um eins kílómetra dýpi samkvæmt mælingum Veðurstofunnar og færist nær yfirborði. Margt bendir til þess að það stefni í öflugra gos en í fyrra.
  • Flestir sérfræðingar eru sammála um að gos hefjist innan örfárra daga ef það gýs á annað borð.
  • Stærsti skjálftinn sem mældist eftir miðnætti var 3,3 að stærð og átti upptök sín 2,2 kílómetra austur af Keili.
  • Í nótt sást örlítill reykur stíga upp úr gamla hrauninu við Geldingadali. Samkvæmt náttúruvársérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands er hann merki um áframhaldandi virkni undir yfirborðinu en ekki víst að gos sé að hefjast. Líklega sé þetta gas að koma upp úr heitu hrauninu.
  • Í gær var fluglitakóði fyrir Eldey færður yfir á gulan í ljósi þess að virkni þar er óvenjumikil. Skjálftahrina hófst þar 6. júlí.
8. júlí 2023 kl. 6:49

Litlar breytingar á dýpi skjálftanna

Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir litlar breytingar hafa orðið á dýpi jarðskjálftanna á Reykjanesskaga í nótt. Um 750 skjálftar mældust, sá stærsti 3,3 ellefu mínútum eftir miðnætti, en flestir skjálftanna eru undir tveimur að stærð.

Örlítill reykur sást stíga upp úr eldra hrauni við Geldingadali í nótt. Böðvar telur litlar líkur á að kvika sé að koma þar upp, heldur sé þarna gas að koma upp úr heitu hrauni.

8. júlí 2023 kl. 5:16

Tiltölulega rólegt í nótt

Ekkert lát er á jarðskjálftum á Reykjanesskaga, þó þeir hafi allir verið í minna lagi í nótt. Síðasti skjálftinn sem mældist yfir þrjá varð rúmlega ellefu í gærkvöld, og mældist hann fjórir að stærð.

Afskaplega lítið er að sjá á vefmyndavélum RÚV, utan einnar flugu sem hefur vappað um skjáinn við og við í morgun.

8. júlí 2023 kl. 3:50 – uppfært

Jarðhræringar rólegar í nótt

Enn bólar ekkert á eldgosi við Fagradalsfjall og ansi rólegt hefur verið yfir jarðhræringum í nótt. Þó skjálftar séu enn margir hefur styrkur þeirra minnkað síðustu daga og í nótt hefur enginn skjálfti mælst yfir 3 að stærð.

Alls hafa fimm skjálftar mælst yfir 2 að stærð frá miðnætti en sá stærsti var 2,8 að stærð og reið yfir skömmu eftir miðnætti við Keili á tæplega fimm kílómetra dýpi.

Sólarhringsvakt Veðurstofu Íslands heldur áfram að fylgast grannt með stöðu mála.

8. júlí 2023 kl. 1:25

Nýir eldfjallafræðingar þjálfaðir í gær

Hópur frá rannsóknarstofu í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands fór að Fagrdalsfjalli í gær til þess að vinna forvinnu fyrir væntanlegt eldgos og þjálfa nýjan mannskap. Með færslu um ferðina á Facebook eru myndir þar sem líklegst er talið að kvikan komi upp og nýtt gos hefjist.

Á efstu myndinni er horft í norður eftir toppnum á Þráinsskildi og í áttina að Keili. Neðri myndin vinstra megin sýnir útsýnið til suðurs í áttina að Fagradalsfjalli. Þar vísar hvíta örin á gamla gliðnunarsprungu, sem nýtt gos gæti nýtt sér til þess að brjótast út um. Myndin hægra megin niðri er nærmynd að sömu gliðnunarsprungu.

Yfirlitsmyndir af óróasvæðinu á Reykjanesskaga.
Facebook / Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá, Háskóli Íslands

8. júlí 2023 kl. 0:52

Örlítill reykur úr gamla hrauninu

Örlítill reykur stígur nú upp úr gamla hrauninu við Geldingadali. Samkvæmt náttúruvársérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands er hann merki um áframhaldandi virkni undir yfirborðinu en ekki endilega um að gos sé að hefjast.

Þá segir hann reykinn heldur ekki þýða að kvika komi þar upp.

7. júlí 2023 kl. 23:16 – uppfært

Jarðskjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu

Dálítill hristingur fannst rétt í þessu hér í Efstaleiti og eflaust víðar á höfuðborgarsvæðinu. Skjálftinn mældist 3,6 að stærð. Þetta er fyrsti skjálftinn í um tíu klukkustundir sem mælist yfir þrjá að stærð á Reykjanesskaga.

Aðeins hefur dregið úr jarðskjálftum síðustu tvo daga en mikil virkni er þó enn á Reykjanesskaga.

7. júlí 2023 kl. 22:40

Mikil skjálftavirkni en frekar litlir skjálftar

Nokkuð langt er síðan jarðskjálfti mældist yfir þremur að stærð á Reykjanesskaga. Sá síðasti mældist um klukkan hálf tvö í dag, og svo mældist annar vestur af Eldeyjardranga rétt fyrir klukkan tvö sem var nærri fjórir að stærð. Síðast skjálfti sem mældist yfir þremur er skráður norðaustur af Stykkishólmi rétt fyrir klukkan sex í kvöld, en hann hefur ekki verið staðfestur af sérfræðingum Veðurstofunnar.

7. júlí 2023 kl. 21:35

Ekki hægt að tryggja að SMS berist í öll símtæki

Almannavarnir sendu frá sér tilkynningu í kvöld þar sem tekið er fram að kerfi símafyrirtækjanna sem almannavarnir treysta á bjóði ekki upp á að hægt sé að tryggja að öll tæki innan ákveðins landsvæðis fái sms skilaboð og að tæki utan svæðis fái þau ekki. Þrátt fyrir annmarka á kerfinu hafa SMS skilaboðin gagnast vel og þjónað sínum tilgangi, segir enn fremur.

Þá segir í tilkynningunni að það sé algengur misskilningur að hægt sé að tryggja að SMS berist í öll símtæki sem eru á ákveðnum landsvæði, eða innan girðingar sem sett er upp.

7. júlí 2023 kl. 21:05 – uppfært

Líkur á að atburðarásin verði hraðari en síðustu ár

Verði eldgos eru líkur á að um atburðarásin verði hraðari en síðustu tvö ár. Að því sögðu er engin leið að vita lengd eldgossins fyrirfram. Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands.

Samkvæmt mælingum veðurstofunnar er kvika á um kílómeters dýpi og að færast nær yfirborðinu. Margt bendir til þess að það stefni í öflugra gos í ár, en rúmmál er þó svipað og í fyrra. Gosið í fyrra var bæði töluvert öflugra en fyrir tveimur árum en einnig styttra. Gosið í fyrra stóð yfir í tvær vikur og gosið 2021 í sex mánuði.

„Rúmmálið er svipað, það er eins og það sé meira að koma inn í einu – þetta er bara hraðari atburðarás en sama rúmmál. Það kannski þýðir að upphafsfasinn sé öflugri,“ segir Benedikt.

Dregið hefur úr skjálftavirkni síðustu tvo daga og margt sem bendir til að gos hefjist innan örfárra daga, verði það á annað borð.

„Í rauninni er mjög erfitt að segja til um lengdina. Kvikumagnið er svipað en líkur á að flæðið verði meira fyrst,“ segir hann og bætir við að árið 2021 hafi reynst töluvert magn af kviku dýpra, því hafi gosið staðið yfir eins lengi og raun ber vitni.

„Algengast er að gos séu frekar stutt.“

Ólíklegt að neðansjávargos verði

Jarðskjálftahrina hófst við Eldey úti fyrir Reykjanestá á fimmtudag og er fluglitakóði fyrir eyjuna gulur. Benedikt segir að spennubreyting nær Fagradalsfjalli geti verið að valda hrinunni.

Spurður hvort líkur séu á neðansjávargosi svarar Benedik:

„Ekki út frá þessu, sem er í gangi núna. Það er eitthvað allt annað að gerast í Eldey. Það eru alltaf hrinur þarna en aldrei gos. Ég held að flestir geti verið sammála um að það sé ólíklegt.“

7. júlí 2023 kl. 16:47 – uppfært

Fluglitakóði fyrir Eldey færður yfir á gulan

Ákveðið hefur verið að færa fluglitakóða fyrir Eldey á Reykjanesskaga á gulan í ljósi þess að virkni þar er óvenju mikil.

Rétt fyrir miðnætti 6. júlí hófst jarðskjálftahrina við Eldey og í kringum þrjúleytið í dag höfðu yfir 480 jarðskjálftar mælst í hrinunni, sá stærsti 4,5 að stærð.

Litakóði eldfjalla.
Veðurstofa Íslands

7. júlí 2023 kl. 16:37 – uppfært

Minni skjálftavirkni eftir því sem líður á daginn

Aðeins einn skjálfti hefur mælst yfir þremur að stærð síðan klukkan 10 í morgun. Snarpur skjálfti sem mældist 4,3 að stærð varð klukka 9:37 en sá eini sem mælst hefur yfir þremur síðan varð klukkan 13:32 og mældist 3,5.

Þannig hefur dregið töluvert úr skjálftavirkni. Fjórtán skjálftar hafa mælst stærri en tveir á sama tímabili, eftir stóra skjálftan klukkan 9:37.

Stærsti skjálftinn í yfirstandandi hrinu varð 5. júlí kl. 8:21, 4,6 að stærð. Alls hafa 17 skjálftar mælst yfir fjórum að stærð frá því hrinan hófst og fleiri en 50 yfir þremur.

7. júlí 2023 kl. 15:38 – uppfært

Unnið að því að tryggja innviði og ráðherra biður fólk að fara ekki á svæðið

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ræddi við fréttamann eftir ríkisstjórnarfund í dag. Þar var talað um jarðhræringar á Reykjanesskaga. Unnið er að því að tryggja innviði á svæðinu, Reykjanesbraut og Suðurnesjalínu eitt.

Guðrún hefur áhyggjur af straumi ferðamanna um svæðið og segir hættuástand geta skapast þar mjög hratt.

7. júlí 2023 kl. 15:17 – uppfært

Umferð um líklegar gosstöðvar hefur aukist lítillega

Umferð um svæðið milli Keilis og Fagradalsfjalls þar sem gos gæti hafist á næstunni hefur aukist lítillega á meðan á jarðhræringum hefur staðið. Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna, biðlar til fólks að vera ekki á ferð um svæðið.

„Við virkilega biðjum fólk um að hlusta á þetta sem að við erum að reyna að segja. Að þetta er ekki öruggasta svæðið til að vera á í dag. Maður veltir alveg fyrir sér af hverju maður þarf að vera einhvers staðar þar sem að maður veit að mögulega kemur eldgos upp.“

Samkvæmt teljurum Ferðamálastofu sem staðsettir eru í Hrútadal, Nátthaga og við Borgarfjall, hefur umferð um svæðið aukist aðeins síðan jarðskjálftahrinan hófst. Í dag fóru 708 manns um svæðið, 664 í gær og 642 á mánudag, áður en hrinan hófst.

Hjördís segir að reynslan sýni þó að lokanir séu ekki endilega til bóta. „Ef við værum með hús þar sem maður vissi að væri hætta af því að fara inn þá vissulega væri auðveldara að loka húsinu. En við erum bara ekki með hús, við erum með stórt landsvæði. Reynslan hefur sýnt okkur að þegar svæðið hefur verið lokað þá finnur fólk sér leið. Þannig að stundum búum við til meiri vandræði með því að loka en með því að gera það ekki.“

7. júlí 2023 kl. 14:46 – uppfært

Mælingar benda til að kvika sé að færast nær yfirborði

Í nýrri færslu frá Veðurstofu Íslands segir að frá því að yfirstandandi jarðskjálftahrina hófst, 4. júlí, hafi um 7000 jarðskjálftar mælst á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Rúmlega 300 skjálftar hafa verið yfirfarnir.

Hrinan er vegna nýs kvikuinnskots á svæðinu og er miðja gangsins talin vera á milli Litla-Hrúts og Litla-Keilis. Alls hafa 17 skjálftar yfir fjórum að stærð mælst og yfir 50 yfir þremur að stærð.

Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni en dregið hefur lítillega úr henni við innskotið eftir því sem liðið hefur á hrinuna. Þó hefur skjálftavirkni á svæðinu á milli Keilis og Kleifarvatns haldið áfram og er þar um gikkskjálfta að ræða. Þrátt fyrir minnkandi skjálftavirkni bendir aflögun sem mæld er eindregið til þess að kvika sé að færast nær yfirborði.

Á sama tíma hafa mælst yfir 400 skjálftar á Reykjaneshrygg, nær Eldey. Þar af hafa 35 verið yfirfarnir. Um tíu skjálftar yfir þremur og sex yfir fjórum hafa mælst þar, sá stærsti 4,5 að stærð, í dag kl. 05:06.

Skjálftahrinur á þessu svæði verða reglulega en virknin núna er óvenju mikil. Mikil virkni núna úti fyrir Reykjanestá gæti verið triggeruð af innskotavirkni við Fagradalsfjall en ekki er útilokað að það eigi sér aðrar orsakir. Aflögunargögn benda þó ekki til að virknin þar sé vegna kvikuhreyfinga en það er þó ekki útilokað.

Veðurstofa Íslands

Mynd: Veðurstofa Íslands. Hér á myndinni er jarðskjálftavirkni á Reykjanesi frá hádegi 6. júlí til hádegis 7. júlí 2023. Táknin sýna staðsetningar GPS og skjálftastöðva Veðurstofunnar og útlínur hraunsins í Merardölum 2021 og 2022 er einnig sýnt til viðmiðunar.

7. júlí 2023 kl. 14:20 – uppfært

Fundur almannavarna hefst innan skamms

Almannavarnir funda með vísindafólki rétt strax. Fundurinn hefst klukkan 14:30 og við fylgjumst auðvitað með, Arnar Björnsson fréttamaður verður á staðnum.

7. júlí 2023 kl. 13:51 – uppfært

Líklegt hraunflæði ef gysi nú – allt stefnir í eldgos

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá segir í nýrri færslu á facebook að allt stefni í að gangurinn undir svæðinu á milli Fagradalsfjalls og Keilis sé að fara að gjósa.

Ef gosið komi upp á þessu svæði, afl gossins verði svipað því sem það var síðast og eiginleikar kvikunnar svipaðir, þá sé líklegast að hraunflæðið fylgi rennslisleiðum á meðfylgjandi mynd:

Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá, Háskóli Íslands

Mynd: Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá. Dökkrauðu svæðin gefa til kynna líklegustu rennslisleiðirnar og ljósari svæðin leiðir þar sem líkindin eru minni.

Í færslunni segir:

  • Því sunnar sem gossprungan væri því meiri líkurværu á því að hraunið flæði yfir gígana og hraunið frá 2022 og niður í Meradali.
  • Því nær Keili sem gossprungan væri því líklegra væri að hraun flæði til norðurs og niður eftir hlíðum Þráinskjaldar.
  • Ef sprungan opnast miðja vegu þarna á milli, er líklegast að hraunið renni til austurs í átt að Núpshlíðarhálsi.
7. júlí 2023 kl. 12:53

Segir lokanir geta skapað aukna hættu

Verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörg telur óskynsamlegt að loka svæðinu, þar sem jarðskjálftahrinan á upptök sín, fyrir ferðamönnum. Það geti skapað aukna hættu.

Birna María Þorbjörnsdóttir, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörg, segir það blasa við að um leið og mögulegt gos hefjist flykkist fólk að. Best væri að leiðbeina fólki og benda því á góðar og öruggar leiðir frekar en að loka svæðinu.

7. júlí 2023 kl. 12:37 – uppfært

Bendi allt til að mögulegt gos yrði svipað og síðustu tvö

Þróunin á Reykjanesskaganum er svipuð og hún var á svipuðu leyti í fyrra, hún er fremur hæg og kvikan virðist ekki vera að flýta sér upp.

Þetta sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, í hádegisfréttum nú fyrir skömmu.

Ef komi til goss verður það líklega svipað og gosin síðustu tvo ár. Erfitt sé að segja til um hvort mögulegt eldgos verði kröftugra.

„Þetta er mjög hæg þróun miðað við það sem gerist í flestum eldstöðvum sem við þekkjum eins og Grímsvötnum eða Heklu eða slíku, en er einkennandi fyrir þetta svæði,“ sagði Magnús.

„Það bendir nú allt til þess að ef það kemur til goss að þá verði það svipað og við sáum í fyrra og í hittífyrra.“

Er ekki ástæða til að búast við kröftugra gosi í ár en síðustu tvo ár?

„Það er voða erfitt að segja, þetta er nú ekki mjög mikil opnun. Gosið sem kom í fyrra var kröftugra í upphafi heldur en gosið sem kom fyrst, sem er eitt rólegasta gos sem hefur farið af stað en hinsvegar stóð það mjög stutt.“

7. júlí 2023 kl. 12:12

Umhverfisstofnun ítrekar bann við utanvegaakstri

Umhverfisstofnun ítrekar, vegna mögulegs eldgoss, að allur akstur utan vega er óheimill samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Undanþágur frá banninu snúa að björgunarstörfum, lögreglustörfum og rannsóknum stofnana sem hafa lögbundið rannsóknarhlutverk, samkvæmt lögum viðkomandi stofnana.

7. júlí 2023 kl. 11:34

Enginn skjálfti yfir 3 að stærð síðasta klukkutímann

Stærsti skjálftinn síðasta klukkutímann var af stærðinni 2,6 samkvæmt óyfirfærðum tölum Veðurstofunnar. Hann reið yfir klukkan 11:18, 2,2 kílómtera norðaustur af Keili.

Síðasti skjálfti sem var yfir 3 að stærð reið yfir kukkan 9:37 og var 4,3 að stærð.

7. júlí 2023 kl. 10:56

Líkur á kröftugra gosi en síðustu ár

Líkur eru á því að ef kvika brýtur sér leið upp á yfirborðið núna og gos hefst að það gos verði kröftugra en gosin á Reykjanesskaga síðustu tvö ár. Að minnsta kosti til að byrja með. Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Við vorum að keyra módel sem sýnir okkur að kvikuinnflæði í kvikuganginn er 88 rúmmetrar á sekúndu.“

Þetta segir Lovísa vera mun hraðara innflæði en mælst hafi skömmu fyrir síðustu tvö gos. Skömmu fyrir gos í fyrra mældist kvikuinnflæði í kvikugang 49 rúmmetrar á sekúndu og skömmu fyrir gosið 2021 mældist það 34 rúmmetrar á sekúndu.

Þetta segir Lovísa benda til þess að ef kvika brjóti sér leið í gegnum skorpuna núna og gos hefjist þá verði það töluvert öflugra en hin tvö, í fyrstu allavega.

7. júlí 2023 kl. 9:59 – uppfært

Skjálfti 4,3 að stærð

Fyrstu tölur á vef veðurstofunnar sögðu að skjálftinn sem varð klukkan 09:37 hafi verið 3,9 að stærð. Seinna voru birtar tölur um að hann hafi verið 4,8 að stærð, það hefði þýtt að hann hafi verið stærsti skjálftinn síðan á miðvikudag.

Tölurnar hafa nú verið uppfærðar og yfirfarnar aftur og segja að skjálftinn hafi verið af stærðinni 4,3. Skjálftinn varð á 4,7 km dýpi, með upptök 0,5 km NV af Keili.

Með fylgir upptaka úr vefmyndavél frá því þegar skjálftinn reið yfir.

7. júlí 2023 kl. 9:48 – uppfært

Almannavarnir funda

Sérfræðingar almannavarna funda með vísindamönnum og viðbragðsaðilum eftir hádegi í dag.

Óvissustig almannavarna er í gildi og áfram er varað við grjóthruni í kjölfar öflugra skjálfta. Íbúar í grennd við svæðið eru hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum.

7. júlí 2023 kl. 9:39

Jarðskjálfti fannst vel í Efstaleiti

Jarðskjálfti fannst vel í Efstaleitinu rétt í þessu. Stærð hans liggur ekki fyrir.

7. júlí 2023 kl. 9:25

Tæknimenn RÚV í stöðugu sambandi við Almannavarnir og Veðurstofu

Vefmyndavélar RÚV á Reykjanesskaga eru staðsettar á Litla-Hrút. Litli hrútur er einn Merardalahnjúka, sá sem næstur er Keili. Vélarnar eru hlið við hlið í hlíðum fjallsins til móts við Keili.

Google maps

Skjáskot af Google Maps. Rauði pinninn merkir Keili, sá blái Litla-Hrút.

Tæknimenn RÚV settu vélarnar upp og stjórna þeim frá Reykjavík. Þeir skima svæðið reglulega til að missa ekki af neinu og eru að auki í stöðugu sambandi við Almannavarnir og Veðurstofu sem fylgjast meðal annars með svæðinu í gegnum vélar RÚV. Vísindamenn og viðbragðsaðilar geta þá beðið tæknimenn RÚV að þysja inn eða snúa vélunum til að rannsaka aðstæður betur.

Uppsetning vefmyndavéla RÚV á Litla-Hrút á Reykjanesskaga.
RÚV

Tæknimenn RÚV settu upp myndavélar í hlíðum Litla-Hrúts.

Vefmyndavélar RÚV á Litla-Hrút á Reykjanesskaga.
RÚV

Myndavélarnar eru staðsettar til móts við Keili.

Vefmyndavélar RÚV á Litla-Hrút á Reykjanesskaga.
RÚV

Myndavélarnar eru staðsettar hlið við hlið og er stjórnað af tæknimönnum RÚV frá Reykjavík.

7. júlí 2023 kl. 8:20 – uppfært

Virkninni svipar mikið til undanfara gossins í fyrra

Enn dregur úr jarðskjálftavirkninni við Fagradalsfjall. Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í morgunfréttum útvarps að þessu svipi mikið til undanfara gossins í fyrra.

„Já, það bara heldur áfram að draga úr virkninni og kvikan er þarna á eins kílómetra dýpi þannig við megum alveg búast við því að ef hún nær á yfirborðið þá gæti gerst á næstu klukkutímum eða dögum þannig við erum bara á tánum og fylgjumst vel með öllum gögnum hjá okkur.

Lovísa segir sérfræðinga veðurstofunnar ekki greina meiri aflögun í landslagi, þó skoði gögnin þó í rauntíma. Skjalftarnir halda áfram að grynnast þrátt fyrir að dregið hafi úr virkninni.

„Já, þeir eru að því. Og þetta svipar mjög til í fyrra, þá dró úr virkni. Skjálftar voru á um þessu dýpi. Þannig við megum allt eins búast við að þetta gæti gerst á næstunni.“

Ef það gerist, þá yrði lítill fyrirvari á því, ekki satt?

„Jú, það er rosa lítill fyrirvari. Þannig við bara fylgjumst mjög vel með til að reyna að sjá hvar þetta kemur upp.“

Jarðskjálftar hafa orðið á Reykjaneshrygg síðustu klukkustundirnar. Lovísa segir þá vera líklega vera gikkskjálfta sem eru tengdi virkninni milli Keilis og Fagradalsfjalls. Þeir verði þó skoðaðir nánar seinna í dag

7. júlí 2023 kl. 6:31 – uppfært

Kröftugur skjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu

Rétt í þessu reið yfir snarpur jarðskjálfti sem fannst vel hér í Efstaleiti og eflaust víðar á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu.

Stærð hans liggur ekki fyrir að svo stöddu en aðeins tveir jarðskjálftar í nótt mældust yfir 3 að stærð við Fagradalsfjall.

Samkvæmt Veðurstofu er staðan við Fagradalsfjall svipuð og í gær og ekkert sem bendir til þess að eldgos sé hafið.

7. júlí 2023 kl. 6:16 – uppfært

„Nokkuð góð virkni í nótt“

„Um 6.500 skjálftar hafa mælst frá því hrinan hófst á þriðjudag“, sagði Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu í morgun.

Hún segir jarðskjálftavirkni í nótt hafa verið nokkuð góða og enn hrannist inn skjálftar. Þeir séu þó aðeins minni en síðustu nótt.

Um 350 jarðskjálftar mældust frá miðnætti til klukkan 6 í morgun. Minney sagði tvo skjálfta hafa mælst yfir 3 að stærð við Fagradalsfjall. Hreyfingu sé í kvikuinnskotinu en staðan sé að miklu leyti sú sama og í gær.

Hún hvetur fólk til að fylgjast með stöðunni og fara ekki nærri jarðskjálftasvæðinu að óþörfu.

7. júlí 2023 kl. 4:25 – uppfært

Um 300 skjálftar frá miðnætti

Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir jarðskjálftavirkni í nótt hafa verið svipuð og í gær.

Hún segir að um 300 skjálftar hafi mælst frá miðnætti og einn þeirra hafi mælst yfir 3 að stærð. Skjálftarnir mælist á dýpi á bilinu eins til fimm kílómetra en flestir þeirra hafi mælst á meira en þriggja kílómetra dýpi.

7. júlí 2023 kl. 3:11

Snarpur skjálfti rétt í þessu

Þó kröftugum jarðskjálftum hafi fækkað fannst vel fyrir skjálfta hér í Efstaleiti fyrir örfáum mínútum og eflaust víðar á höfuðborgarsvæðinu.

Engar upplýsingar um stærð skjálftans liggja fyrir að svo stöddu.

Ekkert bendir enn til þess að eldgos sé hafið en hægt er að fylgjast með beinu streymi frá jarðskjálftasvæðinu hér á vefnum.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist vel með.

7. júlí 2023 kl. 1:28

Nokkri snarpir skjálftar mælst í nótt

Sex skjálftar hafa mælst yfir 3 að stærð frá miðnætti. Sá stærsti mældist 3,7 samkvæmt bráðabirgðamælingum Veðurstofu Íslands.

Engin merki sjást enn um að eldgos sé hafið.

Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, sagði í tíu-fréttum í gærkvöld að kvika sé á eins kílómetra dýpi og grynnra á svæði milli Litla-Hrúts og Litla-Keilis. Það hafi sést á gögnum síðan í gærmorgunn.

Hann sagðist telja mun meiri líkur vera á gosi en ekki.

7. júlí 2023 kl. 0:21

Villandi glampi á vefmyndavél

Ekkert bendir til þess að eldgos sé hafið við Fagradalsfjall.

Þau sem fylgjast með vefmyndavélum RÚV af svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis hafa tekið eftir því að norður-vélin hafi verið hreyfð.

Fyrr í kvöld virtist sem reykur hafi sést á vefmyndavélinni. Nú er komið í ljós að um hafi verið að ræða glampa á glerhjúpi myndavélarinnar.

Sólarhringsvakt Veðurstofu Íslands heldur áfram að fylgjast grannt með stöðunni.

6. júlí 2023 kl. 22:24

Kvika að brjóta sér leið

Ný gögn sýna að kvika sé á eins kílómetra dýpi og eitthvað grynnra á svæðinu milli Lilta-Hrúts og Litla-Keilis segir Benedikts Ófeigsson fagstjóri aflögunarmælinga á Verðustofu Íslands í fréttum sjónvarps klukkan tíu.

„Þetta segir okkur að þarna er kvika að brjóta sér leið.“

Benedikt segir einnig að meira magn kviku sé á ferðinni núna. „Líklega er svolítið meira flæði inn í þetta en var síðast.“

Myndin sem gögnin styðjast við var tekin í morgun. „Þannig að væntanlega er kvikan að komast upp á yfirborðið.“

Almannavörnum hefur verið gert viðvart við stöðuna.

6. júlí 2023 kl. 21:43

Myndavél á hreyfingu

Þau sem fylgjast með vefmyndavélum RÚV af svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis hafa tekið eftir því að norður-vélin hafi verið hreyfð.

Verið er að athuga eitt svæði nánar; hvort um sé að ræða reyk eða kámu á myndavél.

Ekki er búið að staðfesta hvort um sé að ræða eldgos.

Skjáskot af vefmyndavél RÚV. Reykur eða káma á myndavél.
RÚV / vefmyndavél

6. júlí 2023 kl. 21:16 – uppfært

Enginn gosórói greinist

Enn einn skjálftinn sem fannst vel í Útvarpshúsinu. Upplýsingar um stærð hans eru ekki komnar.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir enn töluverða skjálftavirkni í gangi en skjálftarnir séu bæði minni og færri en í gær. Enginn gosórói greinist en hún bendir á að í síðustu gosum hafi verið voða lítill fyrirvari. „Við sáum gosóróa síðast þegar kvikan var komin upp á yfirborðið.“

Gögn sem Veðurstofan hefur fengið í dag staðfesta það sem jarðskjálftarnir sýna, að þarna sé á ferðinni mjög skýrt merki um innskot kviku. „Jarðskjálftarnir og gögnin staðfesta hvort annað.“

Bylgjuvíxlmynd sem Veðurstofan birti undir kvöld á vefsíðu sinni sýnir vel aflögun vegna kvikuinnskotsins við Fagradalsfjall.

Kvikuinnskot
Veðurstofa Íslands

Endurtekið litamynstrið gefur til kynna hversu mikil færsla mælist í stefnu gervitunglinu. Tvö hringlaga merki frá norðvestri til suðausturs sýna aflögun vegna kvikuinnskotsins sem hófst 4. júlí og er um miðja vegu milli Fagradalsfjalls og Keilis, segir í frétt á vef Veðurstofunnar. Mesta aflögun sem mælist eru allt að 18 sentimetrar norðavestan við innskotið.

Myndin sýnir einga merki um kvikuhreyfingar annars staðar en á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis.

6. júlí 2023 kl. 19:15 – uppfært

Skjálfti 4,2 að stærð sást á vefmyndavélum

Skjálfti reið yfir klukkan 19:11. Hann var 4,2 að stærð og er annar skjálftinn í dag af þeirri stærð. Upptök hans voru suðvestur af Keili.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur var í viðtali í sjónvarpsfréttum og segir líklegast að það fari að gjósa, frekar næstu daga en næstu klukkutíma. Hann á von á því að það gos verði svipað þeim sem voru tvö síðustu. Viðtalið við Þorvald má horfa á hér.

Skjálftinn sást vel á vefmyndavélum RÚV.

6. júlí 2023 kl. 18:53 – uppfært

Hvað gerðist í dag?

Ekki er enn hafið gos á Reykjanesskaga en líkur eru á að það hefjist innan nokkurra daga, verði það á annað borð.

Í dag dró töluvert úr skjálftavirkni á svæðinu, sem miðað við reynslu síðustu ára gæti verið fyrirboði um gos. Í aðdraganda gosanna 2021 og 2022 minnkaði skjálftavirkni verulega rétt áður en kvikan braut sér leið upp á yfirborðið.

Í morgun tjáði Jóhann Helgason jarðfræðingur fréttastofu að það væri varhugavert að ferðamenn fái að ganga óhindrað um svæðið við Fagradalsfjall, en um það bil 700 ferðamenn voru á svæðinu í gær og í fyrradag. Sagði hann að fólk gæti auðveldlega orðið innlyksa, komi til goss á svæðinu.

„Ég held það væri vel þess virði að takmarka aðgengi ferðamanna því það er erfitt að vera vitur eftir á ef eitthvað kæmi upp,“ sagði hann.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, var spurður hvort lögregla hyggðist loka svæðinu. Hann sagði það ekki á dagskrá.

„Það verður nú að vera einhver ró yfir þessu, við erum á óvissustigi – vitum ekki hvað verður. Það er nú þannig að ferðamenn, eða þeir sem koma inn á svæðið og inn á Reykjanesbrautina, fá boð um það sem gæti gerst þarna á þessu svæði,“ sagði Úlfar.

Fólk sem á leið um svæðið hefur fengið SMS-skeyti í farsíma sína. Tæknin er þó ekki fullkomin og áætlað er að um 10% þeirra sem fara inn á svæðið fái ekki skilaboðin. Skeytin eru á ensku.

Fréttastofa fylgist áfram með og flytur fréttir á vef, í útvarp og sjónvarp.

6. júlí 2023 kl. 17:04 – uppfært

Skjálfti fannst vel á höfuðborgarsvæðinu

Jarðskjálfti fannst greinilega á höfuðborgarsvæðinu klukkan eina mínútu yfir fimm. Skjálftinn var 4 að stærð og upptök hans voru 1,3 kílómetra aust-suðaustur af Keili.

6. júlí 2023 kl. 16:28 – uppfært

Stærstu skjálftarnir mælast nær Kleifarvatni

Skjálftavirkni á Reykjanesi hefur farið minnkandi síðan klukkan fjögur í nótt og minnkaði enn frekar klukkan 13 í dag.

Þetta segir Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sem hefur fylgst með gangi mála á svæðinu í dag.

„Það er enn þá mikil virkni og skjálftarnir milli Litla-Hrúts og Keilis eru kannski ekki jafn stórir lengur,“ segir hann.

Stærstu skjálftarnir mælast nú hjá norðaustan við þéttustu virknina, nær Kleifarvatni.

„Það eru þá líklegast gikkskjálftar, sem er afleiðing að gliðnun í jarðskorpunni, sem segir okkur þá að innskotið er þarna eitthvað að ryðja sér til rúms á tveggja til fjögurra kílómetra dýpi.“

6. júlí 2023 kl. 14:47

Sést greinilega að skjálftum hefur fækkað

Í töflu á vef Veðurstofu Íslands sést vel hvernig skjálftahrinan hefur minnkað jafn og þétt eftir því sem liðið hefur á daginn. Rauðu punktarnir sýna þá skjálfta sem hafa orðið síðustu fjóra klukkutíma og sést greinilega að þeim hefur fækkað nokkuð miðað við síðasta sólarhring.

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga sem hófs 4. júlí. Á myndinni sést hvernig skjálftavirkni hefur minnkað 6. júlí sem gæti þýtt undanfari eldgoss
Veðurstofa Íslands

6. júlí 2023 kl. 13:17

Meintur reykur líklega veðurtengdur

Fréttastofa hefur fengið ábendingar um að reykur stígi upp af fellinu Litla hrúti. Vakthafandi náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að þetta kunni að tengjast veðri, sé hugsanlega dalalæða. Mælingar bendi ekki til þess að neinar sprungur hafi opnast.

Vefmyndavél

6. júlí 2023 kl. 12:48

„Ekki mjög margir dagar“ í gos, verði það

Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir stöðuna í dag svipaða og í gær – komi eldgos sé stutt í það.

Skjálftavirkni hefur áfram verið minni og einhver vísbending um að kvikan færist nær yfirborðinu. Aðalskjálftavirknin hefur verið mitt á milli Fagradagsfjalls og Keilis – við Litla-Hrút, sem er örlítið norðan við síðasta gos.

„Þetta er bara mjög svipað. Ef það kemur eldgos þá ætti að vera stutt í það – ekki mjög margir dagar. Það er að segja ef þetta er að haga sér eins og undanfarin tvö ár,“ sagði Benedikt í hádegisfréttum.

Hann segir veðurstofuna enn meta sem svo að kvika sé á tveggja til fjögurra kílómetra dýpi. Einhver vísbending séu þó um að hún færist nær yfirborðinu.

„Það er erfitt að sjá. Við getum ekki sagt nákvæmlega til um það en það er vísbending að hún sé kannski eitthvað að færast nær yfirborði, allavega miðað við það að það fer minnkandi virkni. En það verður svolítið að koma í ljós í dag hvernig þetta þróast.“

RÚV / Sigríður Hagalín Björnsdóttir

6. júlí 2023 kl. 12:21 – uppfært

Tæplega 700 ferðamenn við Fagradalsfjall í gær

Tæplega 700 ferðamenn lögðu leið sína að hrauninu við Fagradalsfjall í gær, svipaður fjöldi og dagana á undan. Ferðamálastjóri er sammála mati almannavarna um að ekki sé þörf á að loka svæðinu fyrir ferðamönnum.

„Það er talsverð umferð á þessu svæði og hefur verið allt frá því það gaus síðast en ég á nú von á að straumurinn muni þyngjast á næstu dögum,“ segir Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri.

Hann segist sammála því mati almannavarna að ekki sé tilefni til að loka svæðinu að svo stöddu. Jóhann Helgason, jarðfræðingur, sagði í fréttum í morgun að varhugavert væri að leyfa túristum að ganga óhindrað um svæðið.

Ekki fá allir sms

Ferðamálastofa sendi í gær um 4000 ferðaþjónustufyrirtækjum hvatningu um að fræða ferðafólk um hættur á gömlu gosstöðvunum.

Erfiðast sé að ná til fólks sem ferðast á eigin vegum en ferðamenn á svæðinu eigi að fá sent sms þar sem varað er við grjóthruni og því að eldgos geti hafist með skömmum fyrirvara. Arnar segir þetta mjög gott skref. Kerfið sé þó ekki fullkomið.

„Þau áætla að um 10% þeirra sem fara inn á svæðið fái ekki skilaboðin.“

6. júlí 2023 kl. 12:08

Almenningur ráði túristum frá því að ganga um svæðið

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir það ekki á dagskránni að loka gönguleið að Fagradalsfjalli. Slík ákvörðun sé þó á forræði lögreglustjóra á svæðinu.

Hjördís biðlar til almennings að ráða ferðafólki frá því að kanna svæðið í kringum Fagradalsfjall, þar ætti enginn að vera að óþörfu.

Hjördís vonar að smáskilaboðin sem fólk á að fá skili árangri.

Ekki verið lokað í aðdraganda goss

Hjördís segir ekki dæmi um að svæðinu hafi verið lokað í aðdraganda eldgoss, aftur á móti var fólki nokkrum sinnum ráðið frá því að ganga að gosstöðvunum á meðan gos stóð yfir.

Efast um að lokun geri gagn

Steinar Þór Kristinsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns, hefur efasemdir um að farsælt yrði að loka gönguleiðum. Reynslan segi honum að fólk láti slíkt ekki stoppa sig.

Betra sé að vita af fólki á skipulögðum leiðum en að missa sjónar af því einhvers staðar í hrauninu. Hann segir björgunarsveitina Þorbjörn í viðbragðsstöðu en ljóst að björgunarsveitarmenn leggi sig ekki í hættu, lendi ferðamenn í voða.

6. júlí 2023 kl. 12:08

Ekki á dagskrá að loka svæðinu

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir ekki á dagskrá að loka gossvæðinu fyrir umferð, en fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gossvæðinu síðustu daga.

Haft var eftir Jóhanni Helgasyni jarðfræðingi í morgun að varhugavert væri að ferðamenn fái að ganga óhindrað um svæðið.

Stendur eitthvað til að hreinlega loka svæðinu fyrir umferð?

„Það verður nú að vera einhver ró yfir þessu, við erum á óvissustigi – vitum ekki hvað verður. Það er nú þannig að ferðamenn, eða þeir sem koma inn á svæðið og inn á Reykjanesbrautina, fá boð um það sem gæti gerst þarna á þessu svæði,“ segir Úlfar og á þar við SMS-skeyti sem þau sem eiga leið um svæðið fá í farsíma sína.

„Eins og staðan er núna erum við ekki að fara í einhverjar stórar aðgerðir.“

6. júlí 2023 kl. 11:55

Vísindamenn á leið á vettvang og gæslan fylgist með

Vísindamenn frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá, fara á vettvang jarðhræringa á Reykjanesi seinna í dag til að kanna legu landsins og taka myndir sem hægt er að hafa til viðmiðunar í rannsóknum seinna ef gos byrjar og landið fer undir hraun.

Í gær kom starfsfólk Jarðvísindastofnunar fyrir GPS-mælum á svæðinu.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar og flugvélin TF-SIF hafa ekki farið í skipulagt flug yfir Reykjanes vegna jarðhræringanna en nýta tækifærið og fljúga þar yfir þegar þær fara í önnur verkefni. Það liggur vel við enda svæðið nálægt hefðbundinni flugleið. TF- SIF hefur tekið radarmyndir sem nýtast vísindamönnum.

6. júlí 2023 kl. 11:53 – uppfært

Almannavarnir og Landsbjörg funda á morgun

Almannavarnir og Slysavarnafélagið Landsbjörg funda í fyrramálið. Væntanlega verða ferðamenn við upptök jarðskjálftanna við Fagradalsfjall til umræðu en fréttastofa fylgir málinu eftir og heyrir í fundarmönnum á morgun.

6. júlí 2023 kl. 11:44

Skjálftarnir sjást vel í vefmyndavélum

Þolinmóðir áhorfendur vefmyndavélanna geta vel séð þegar jörð skelfur á Reykjanesskaga. Hér gefur að líta skjálfta upp á 3,2 sem varð laust eftir klukkan 11 í morgun.

6. júlí 2023 kl. 11:09 – uppfært

Öflugur skjálfti fannst vel á höfuðborgarsvæðinu

Skjálfti upp á 3,4 fannst vel á höfuðborgarsvæðinu upp úr kl. 11 í dag og skalf jörð meðal annars hér á fréttastofu RÚV í Efstaleiti. Samkvæmt jarðskjálftatöflu Veðurstofu Íslands varð skjálftinn 3 km suðvestur af Keili.

Alls hafa um 4.700 jarðskjálftar mælst á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis frá því að jarðskjálftahrina hófst þar fyrir tveimur dögum og sá stærsti, sem mældist 4,8 að stærð, varð í gærmorgun kl. 8:21.

6. júlí 2023 kl. 11:08

Um 4.700 jarðskjálftar síðustu tvo daga

Alls hafa um 4.700 jarðskjálftar mælst á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis frá því að jarðskjálftahrina hófst þar í fyrradag, þann 4. júlí. Þetta kemur fram í morgunpistli jarðvísindamanns Veðurstofu Íslands.

Stærsti skjálfti hrinunnar var í gærmorgun kl. 8:21 og mældist 4,8 að stærð. Alls 13 skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst síðan hrinan hófst og tugir yfir þremur.

Þeir stærstu finnast víða á Suðvesturlandi, austur að Hellu og alla leið norður á Snæfellsnes. Virkni hefur farið minnkandi frá kl. 4 í nótt en búast má við áframhaldandi skjálftavirkni í dag.

Skjálftavirkni 4. til 6. júlí 2023
Veðurstofan

6. júlí 2023 kl. 10:04 – uppfært

Skjálftarnir færri og smærri

Dregið hefur úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga. Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að þetta megi túlka á ýmsa vegu.

Hann segir að skjálftamynstrið hafi farið að breytast upp úr klukkan fjögur í nótt. Skjálftarnir séu minni og virknin ekki jafn þétt og í gær. Virknin sé þó enn óeðlilega mikil og stærri skjálftar inni á milli, einn um fjórir að stærð rétt upp úr hálf átta og annar upp á 3,2 klukkan tuttugu mínútur yfir átta.

Í aðdraganda gosanna 2021 og 2022 minnkaði skjálftavirkni verulega rétt áður en kvikan braut sér leið upp á yfirborðið.

6. júlí 2023 kl. 8:46 – uppfært

Fagradalsfjall í beinni á fréttavaktinni

Efst í þessari fréttavakt er hægt að fylgjast með vefmyndavél sem sýnir Fagradalsfjall í beinni. Til að horfa þarf einfaldlega að ýta á spilunartakkann á forsíðumyndinni.

Við bendum á að mögulega þarf að endurhlaða síðunni til að spilarinn komi upp.

6. júlí 2023 kl. 8:17 – uppfært

900 skjálftar frá miðnætti og virknin enn þétt

Um 900 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti. Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að þrátt fyrir að dregið hafi úr styrk þeirra þá sé virknin enn mjög þétt.

„Þetta þýðir að kvikan er búin að vera að brjóta sér ráðrúm á svona fjögurra kílómetra dýpi í skorpunni. Kannski er hún búin að búa sér til smá rými til að flæða, við vitum það ekki alveg,“ sagði Magnús Freyr í morgunfréttum klukkan átta. Fylgst sé með þéttleika skjálftanna og dýpt.

Rétt fyrir klukkan átta mældist skjálfti um fjórir að stærð, samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum, sem myndi þýða stærsta skjálftann síðan á ellefta tímanum í gærkvöld. Skjálftavirknin virðist vera á um 3-4 kílómetra dýpi þar sem hún er þéttust. Dýpt skjálftanna segir til um hversu nálægt yfirborði kvika er á hreyfingu, en skjálftarnir hafa ekki verið að grynnast.

Í gær var talað um að búast mætti við gosi á næstu dögum ef virknin heldur áfram eins og hún var þá. Það að dregið hafi úr styrk skjálftanna í nótt, breytir það einhverju um mögulegt eldgos?

„Nei, ég myndi ekki telja að það sé aðalmálið í þessari virkni. Það er meira þéttleikinn og dýptin sem við erum að fylgjast með.“

6. júlí 2023 kl. 8:16

„Erfitt að vera vitur eftir á ef eitthvað kemur uppá“

RÚV / Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir

Jarðfræðingur segir mjög varhugavert að ferðamenn fái að ganga óhindrað um svæðið við Fagradalsfjall. Síðustu tvö gos hafi veikt jarðskorpuna og kvika eigi því auðveldara með að brjóta sér leið upp á yfirborðið en áður. Fólk geti auðveldlega orðið innlyksa.

„Það er orðað svo að ferðamenn streymi þarna inn á svæðið, mér finnst það mjög varhugavert því í raun og veru veit maður ekkert hvar fólkið er og maður veit heldur ekki hvar eldgos brytist út ef til þess kæmi. Ég held það væri vel þess virði að takmarka aðgengi ferðamanna því það er erfitt að vera vitur eftir á ef eitthvað kæmi upp,“ segir Jóhann Helgason, jarðfræðingur.

Hraunbráðin geti auðveldlega lokað af svæðum.

„Það getur orðið mjög erfitt að höndla slíkar aðstæður.“

6. júlí 2023 kl. 8:07

Reynist oft vel að tala við heimamenn sem þekkja til svæðisins

Þorvaldur Þórðarson, jarðfræðingur, var gestur Snærósar Sindradóttur og Rúnars Róberssonar í Morgunútvarpinu í morgun. Þar ræddi hann meðal annars gosvirkni á Íslandi í sögulegu samhengi og segist ekkert vera orðinn þreyttur á sjálfsskipuðum sérfræðingum í jarðfræði.

RÚV / Kristinn Þeyr Magnússon

„Þetta er kannski það skemmtilega við Íslendingana, þeir hafa áhuga á því sem er í kringum þá. Og þessi þekking og reynsla sem menn ná sér í bara í gegnum ævina, hún er ekki bara gagnleg heldur leynast oft ýmsir gullmolar í henni. Það reynist okkur oft vel að tala við heimamenn. Þeir hafa oft innsýn í hlutina sem við höfum ekki.“

Ef gos hefst í Fagradallsfjalli er það þriðja gosið á jafnmörgum árum. Þorvaldi finnst ekkert skrítið að fólk sé tiltölulega rólegt.

„Jú af því að fyrri reynsla er ekki eins óþægileg og við héldum að hún yrði. Það er margt jákvætt við svona gos, þetta vekur athygli og dregur fólk að. En það eru náttúrulega líka óþægindi sem fylgja því. Og það er kannski í svona gosum, hraungosum, eins og við sjáum á Reykjanesskaganum og einkenna Reykjanesskaga, þá eru óþægindi kannski fyrst og fremst gasmengun.“

Það hæfur hægst aðeins á landrisinu á svæðinu síðustu klukkstundir. Þorvaldur segir það geta þýtt ýmislegt.

„Það er aðeins búið að draga úr landrisinu. En það getur bara verið hiksti. Ef það heldur áfram þá gæti það náttúrulega bent til að við gætum verið að fara inn í gos. En ég þori ekki að fullyrða það, ætli þetta sé ekki frekar hiksti bara.“

6. júlí 2023 kl. 7:31

Engir fundir á dagskrá almannavarna í dag

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna.
RÚV / Sunna Karen Sigurþórsdóttir

Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna segir enga stóra fundi á dagskrá í dag, það geti þó að sjálfsögðu breyst í einni svipan ef eitthvað gerist.

Á morgun er fyrirhugað að halda fund með öllum sem hafa með mikilvæga innviði á Reykjanesi að gera, þetta er stór hópur, meðal annars forsvarsmenn HS orku, Keflavíkurflugvallar, lögreglu og sveitarfélaga. Sambærilegur fundur var haldinn í gær.

Allir ferðamenn eiga að fá sms

Hjördís segir ekki verið að skoða sérstakar aðgerðir vegna ferðamanna en að almannavarnir séu í nánu samstarfi við Safe travel og Ferðamálastofu.

Allir ferðamenn sem fara um svæðið eiga nú að fá sms-skilaboð. Í skilaboðunum er varað við grjóthruni í bröttum hlíðum og því að eldgos geti hafist á svæðinu með skömmum fyrirvara.

6. júlí 2023 kl. 7:02

Skjálftar hrannast inn en engin merki um gos

Jarðskjálftavirkni hefur verið áframhaldandi í nótt þó aðeins hafi dregið úr stærð skjálftanna. Hér eru helstu upplýsingar um þróun skjálftavirkninnar í nótt:

  • Sex skjálftar yfir 3 að stærð riðu yfir í nótt.
  • Stærsti skjálfinn í nótt reið yfir um klukkan eitt og var 3,8 að stærð.
  • Dýpi skjálfta er um 3 til 5 kílómetrar og engin grynnkun síðan í gær.

Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að engin merki væru um að eldgos sé að hefjast eins og er.

„Það er klárleg innskotshreyfing í gangi enda hrannast jarðskjálftarnir áfram inn,“ sagði Minney.

6. júlí 2023 kl. 6:19

Skjálftavirkni stöðug þó stærð skjálfta sé minni

Skýringarmynd sem sýnir fjölda jarðskjálfta á Reykjanesskaga.
Veðurstofa Íslands

„Skjálftavirkni hefur verið stöðug í nótt en dregið hefur úr stærð skjálftanna“, segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu í morgun.

Einn skjálfti af stærðinni 4 hafi mælst klukkan korter í ellefu í gærkvöld en allir skjálftar í nótt hafi verið undir fjórum.

Hún segir ekkert benda til þess að gos sé að hefjast sem stendur.

„Það er engin breyting á stöðunni frá því í gær,“ segir Minney.

6. júlí 2023 kl. 4:53 – uppfært

Skjálftavirkni minni í nótt en í gær

Tæplega 550 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Aðeins hefur dregið úr skjálftavirkninni í nótt og hafa fjórir skjálftar mælst yfir 3 að stærð frá miðnætti, að sögn náttúruvásérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Þá hefur fjöldi skjálfta vestan við Reykjanestá aukist í nótt. Þar hafa mælst fleiri en fimmtíu skjálftar frá miðnætti.

6. júlí 2023 kl. 3:36 – uppfært

Kraftur jarðskjálfta minni síðustu klukkustund

Svo virðist sem dregið hafi örlítið úr krafti jarðskjálfta þó ekkert lát sé á jarðhræringum við Fagradalsfjall.

Lítið hefur borið á skjálftum sem mælast yfir 3 að stærð síðustu klukkustund. Einn skjálfti mældist 3,2 að stærð klukkan 03:02 samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands. Hins vegar hafa mælst 23 jarðskjálftar yfir 2 að stærð frá klukkan 02:30.

Fyrir örfáum mínútum fannst snarpur skjálfti hér í Efstaleiti og eflaust víðar á Suðvesturhorninu. Stærð hans liggur ekki fyrir að svo stöddu.

6. júlí 2023 kl. 2:44

Engin merki um gos þrátt fyrir reyk

Ekkert bendir til þess að gos sé að hefjast við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga að svo stöddu.

Samkvæmt náttúruvásérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands hafa engar upplýsingar borist til þeirra um að reykur sem sást á vefmyndavél Live from Iceland hafi tengst eldvirki. Þá virðist reykurinn hafa átt upptök sín við hraun sem myndaðist við eldgos 2021.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna sagði í samtali við fréttastofu í nótt að ekki væri hægt að segja til um hvort um sé að ræða grjóthrun eða merki um eldgos. Ekkert annað hafi hins vegar bent til þess að eldgos sé að hefjast.

Mælingar Veðurstofu sýna ekkert sem bendir til þess að gos sé að hefjast að svo stöddu.

6. júlí 2023 kl. 2:32

Skjálftar af stærðinni 3,2 og 3,4

Á síðustu fimmtán mínútum riðu yfir tveir snarpir skjálftar sem fundust á höfuðborgarsvæðinu. Þeir riðu yfir með aðeins mínútu millibili.

Einn reið yfir klukkan 02:15 og var af stærðinni 3,2 samkvæmt bráðabirgðamælingum Veðurstofu Íslands. Hann mældist á 3,2 kílómetra dýpi.

Annar reið yfir klukkan 02:16 og var af stærðinni 3,4 samkvæmt fyrstu mælingum. Hann mældist á 7,6 kílómetra dýpi.

6. júlí 2023 kl. 1:35 – uppfært

Fjórir snarpir skjálftar síðasta klukkutímann

Síðasta klukkutímann hafa fjórir skjálftar mælst yfir 3 að stærð við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Þeir fundust vel hér í Efstaleiti og víðar á höfuðborgarsvæðinu.

Sá stærsti reið yfir klukkan 01:11 og var var af stærðinni 3,8 samkvæmt fyrstu mælingum Veðurstofu Íslands.

6. júlí 2023 kl. 1:19 – uppfært

Kanna reyk sem sást á vefmyndavél

Lögreglan á Suðurnesjum kannar reyk sem sást á vefmyndavél á Reykjanesskaga. Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við fréttastofu.

Hún segir ekki vera hægt að segja til um hvort þetta sé vegna grjóthruns eða merki um eldgos. Ekkert annað bendi hins vegar til þess að eldgos sé að hefjast og svipaðar ábendingar hafi borist áður.

Ekkert hefur sést á mælum Veðurstofunnar sem bendir til þess að gos sé að hefjast.

Lögreglan á Suðurnesjum kannar aðstæður þar sem reykurinn sást.

6. júlí 2023 kl. 0:31 – uppfært

Kröftugur skjálfti rétt í þessu

Snarpur skjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu fyrir örfáum mínútum. Engar upplýsingar um stærð liggja fyrir að svo stöddu.

6. júlí 2023 kl. 0:14 – uppfært

Einn skjálfti yfir 3 síðasta klukkutímann

Svo virðist sem að dregið hafi aðeins úr skjálftavirkninni. Aðeins einn skjálfti frá því klukkan ellefu í kvöld hefur mælst yfir þremur að stærð. Sá var 3,2 og reið yfir klukkan 23:27.

Ef það dregur úr jarðskjálftavirkni getur það þýtt að gos sé í aðsigi eða hafið, að sögn Halldórs Geirssonar, jarðeðlisfræðings við Háskóla Íslands.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingu hjá Veðurstofu Íslands, sagði þó við Hallgrím Indriðason fréttamann fyrr í kvöld að óþarfi væri að lesa of mikið í virknina að svo stöddu.

„Þetta er eitthvað sem við sjáum oft í svona jarðskjálftahrinum að það kannski fer aðeins upp og niður virknin í þessu, þannig að ég myndi ekki lesa of mikið í það akkúrat núna,“ segir Einar.

Fréttastofa fylgist að sjálfsögðu með gangi mála áfram í alla nótt hér á fréttavaktinni.

5. júlí 2023 kl. 23:07 – uppfært

Bækur hrundu úr hillum

Fjölmargir íbúar á höfuðborgarsvæðinu fundu fyrir snörpu skjálftunum tveimur sem riðu yfir rétt fyrir klukkan tíu í kvöld. Að sögn íbúa í Áslandi í Hafnarfirði skalf húsið og bækur hrundu úr hillum.

Skjálftinn fannst einnig mjög vel á Akranesi, í Vogum í Reykjavík, í Garðabæ og víðar.

5. júlí 2023 kl. 22:58 – uppfært

Fjórir og 3,8 að stærð

Samkvæmt tölum Veðurstofunnar var snarpi skjálftinn sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu fyrir skömmu af stærðinni 4.

Á undan honum var þó annar skjálfti sem mældist 3,8 að stærð.

5. júlí 2023 kl. 22:44 – uppfært

Mjög snarpur skjálfti rétt í þessu

Snarpur skjálfti fannst rétt í þessu vel í útvarpshúsinu í Efstaleiti og eflaust víðar á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er vitað að svo stöddu hversu öflugur skjálftinn var.

5. júlí 2023 kl. 22:41 – uppfært

Skjálfti af stærðinni 3,1

Skjálfti reið yfir klukkan 22:30 í kvöld og var af stærðinni 3,1 samkvæmt óyfirfærðum tölum Veðurstofunnar. Hann var á 3,5 km dýpi og átti upptök sín um 0,5 kílómetra vest-suðvestur af Keili.

5. júlí 2023 kl. 22:17 – uppfært

Grindvíkingum misskemmt vegna jarðhræringanna

Hafdís Helga Helgadóttir, fréttamaður, tók púlsinn á nokkrum Grindvíkingum í dag, sem viðurkenndu sumir að vera ekkert alltof sáttir með skjálftavirknina.

„Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert alltof sátt með það. Þetta er orðið svolítið erfitt, sérstaklega fyrir krakkana,“ sagði Guðrún Guðjónsdóttir.

„Þetta er bara svakalega óþægilegt og ekkert sem venst, allavegna finnst mér það ekki,“ sagði Óli Björn Björgvinsson. Sumir sögðust þó aftur á móti vera nokkuð spenntir.

5. júlí 2023 kl. 22:01 – uppfært

Skjálfti af stærðinni 3,6

Skjálfti 3,6 að stærð reið yfir klukkan 21:05 og er það stærsti skjálftinn sem mælst hefur síðasta klukkutímann, samkvæmt tölum frá Veðurstofunni.

5. júlí 2023 kl. 20:58 – uppfært

Lítið um stóra skjálfta síðasta klukkutímann

Minna hefur verið um snarpa skjálfta á síðasta klukkutímanum. Sá stærsti sem mælst hefur frá því að klukkan sló átta í kvöld var 3,4 að stærð og reið yfir klukkan 20:16.

Við fylgjumst að sjálfsögðu áfram vel með mælingum Veðurstofunnar.

5. júlí 2023 kl. 20:52 – uppfært

Minni skjálftavirkni gæti þýtt að gos sé í aðsigi

Ef það dregur úr jarðskjálftavirkni getur það þýtt að gos sé í aðsigi eða hafið. Þetta segir Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands.

Hann segir þó erfitt að alhæfa. Dragi úr virkninni gæti það einnig einfaldlega þýtt að atburðinum sé að ljúka og rennsl inn í þennan gang sé að minnka.

„Fyrir síðustu gos dró úr skjálftavirkninni þegar kvikan komst upp á yfirborðið. Þá hættir gangurinn að brjóta bergið sem er í kring og kvikan vall upp,“ segir Halldór.

„En það geta líka verið ýmsar aðrar leiðir, það sé erfitt að alhæfa.“

Viðtal við Halldór má nálgast í heild sinni í spilara RÚV hér.

5. júlí 2023 kl. 20:44 – uppfært

Mæla jarðskorpuhreyfingar nákvæmlega

Mælarnir sem Jarðvísindastofnun setti upp við Kleifarvatn og rétt austan við Vigdísarvelli í dag eru svokallaðir GPS-mælar og mæla jarðskorpuhreyfingar.

„Við teljum að það sé innskot í gangi þarna og þá þrýstist jarðskorpan til hliðar. Við erum að reyna að mæla þessar hreyfingar mjög nákvæmlega ekki bara í rúmi heldur líka til að sjá hvernig þenslan á ganginum er að breytast með tíma og staðsetningu og dýpi,“ sagði Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, við Benedikt Sigurðsson fréttamann í dag.

Eitt þeirra mælitækja sem starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskólans settu upp í dag.
Benedikt Sigurðsson

Eitt þeirra mælitækja sem starfsmenn Jarðvísindastofnunar settu upp í dag.

Rútur á hverasvæðinu við Seltún.
Benedikt Sigurðsson

Fréttastofa fylgist vel með.

Horft yfir Kleifarvatn. Fremst á myndinni stendur appelsínugul plastsúla upp úr hrauni til að vísa fólki leið. Í bakgrunni streyma sólargeislar milli skýja niður að fjöllum.
RÚV / Benedikt Sigurðsson

5. júlí 2023 kl. 20:10 – uppfært

Settu upp mæla við Kleifarvatn

Starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskólans settu upp mæla rétt austan við Kleifarvatn í dag á Reykjanesskaga. Tilgangur mælanna er að varpa skýrara ljósi á atburðarásina og hvað kunni að gerast á næstu sólarhringum.

Starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskólans að setja upp mæla rétt austan við Vigdísarvelli. Ekki langt frá þeim stað sem kvikugangurinn er. Á myndinni eru Halldór Geirsson dósent, Sonja Greiner doktorsnemi og Áslaug Gyða Birgisdóttir jarðeðlisfræðingur.
RÚV / Benedikt Sigurðsson

Starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands setja upp mæla við Kleifarvatn.
RÚV / Benedikt Sigurðsson

5. júlí 2023 kl. 19:46 – uppfært

Ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar stórir skjálftar ríða yfir

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar stórir jarðskjálftar verða. Það þarf að huga að lausamunum og muna: krjúpa - skýla - halda.

Hvernig bregðast skal við í jarðskjálfta? Nánar um það hér fyrir neðan.

5. júlí 2023 kl. 19:28 – uppfært

Skjálfti af stærðinni 3

Snarpur skjálfti sem reið yfir klukkan 19:17 var þrír að stærð, samkvæmt óyfirfærðum tölum frá Veðurstofunni.

5. júlí 2023 kl. 19:08 – uppfært

Nokkrir snarpir skjálftar í röð

Nokkrir snarpir skjálftar riðu yfir fyrir skömmu og þeir fundust vel í útvarpshúsinu í Efstaleiti. Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Veðurstofunni reið sá stærsti yfir klukkan 18:52 og var 3,4 að stærð.

5. júlí 2023 kl. 18:12 – uppfært

Enginn hörgull á ferðamönnum

Enginn hörgull er á ferðamönnum á hverasvæðinu við Seltún þótt jörð hristist. Benedikt Sigurðsson, fréttamaður, er á Reykjanesskaga.

Nokkrir stórir skjálftar hafa riðið yfir á síðasta klukkutímanum, sem margir hafa eflaust fundið fyrir á höfuðborgarsvæðinu.

Rútur á hverasvæðinu við Seltún.
Benedikt Sigurðsson

5. júlí 2023 kl. 17:35 – uppfært

Fólk fær SMS-viðvaranir fari það á fyrirfram skilgreind svæði

Almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafa ákveðið að virkja SMS-skilaboð sem send verða til fólks sem fer inn á fyrirfram skilgreind svæði á Reykjanesskaga.

Í skilaboðunum er varað við ferðum á svæðinu vegna grjóthruns og mögulegs eldgoss. Textaskilaboðum verður breytt í beina aðvörun til þeirra sem eru á umræddu svæði.

Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að skilaboðin verði aðeins send á ensku, þar sem markhópurinn sé erlent ferðafólk sem ekki hafi jafn gott aðgengi að upplýsingum og heimafólk.

5. júlí 2023 kl. 17:23 – uppfært

Mælar settir upp skammt frá staðnum þar sem kvikugangur er

Starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskólans setja upp mæla rétt austan við Vigdísarvelli, ekki langt frá þeim stað þar sem kvikugangurinn er.

Á myndinni eru Halldór Geirsson dósent, Sonja Greiner doktorsnemi og Áslaug Gyða Birgisdóttir jarðeðlisfræðingur.

Starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskólans setja upp mæla.
RÚV / Benedikt Sigurðsson

5. júlí 2023 kl. 16:39 – uppfært

Skjálftinn var 4,4 að stærð

Skjálftinn sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu fyrir skömmu var 4,4 að stærð, samkvæmt mælingum Veðurstofunnar, og reið yfir kl. 16:25.

5. júlí 2023 kl. 16:34 – uppfært

Myndir eða myndbönd af áhrifum skjálftanna

Ef lesendur luma á myndböndum eða myndum af hristingi heima eða í vinnunni vegna jarðskjálftanna undanfarið er fréttastofa áhugasöm um að fá að sjá þau og birta hér á vefnum. Efnið má senda á frettir@ruv.is.

5. júlí 2023 kl. 16:27 – uppfært

Snarpur skjálfti rétt í þessu

Snarpur skjálfti reið yfir rétt í þessu og fannst vel hér í Efstaleiti. Ekki er vitað hversu öflugur skjálftinn var að svo stöddu.

5. júlí 2023 kl. 16:14 – uppfært

Veiðimenn á Reykjanesskaga fundu töluvert fyrir skjálftunum

„Við erum búin að stöðva bílinn hérna í þrígang og í öll skiptin höfum við fundið verulega fyrir jarðskjálftum, það hristist allt og skelfur hérna,“ segir Benedikt Sigurðsson, fréttamaður, sem er á Reykjanesskaga ásamt tökumanni.

Benedikt er við Vigdísarvelli, í brekku fyrir ofan Djúpavatn, þar sem nokkrir veiðimenn voru í ró og næði að veiða. Þeir sögðust hafa fundið verulega fyrir þeim skjálftum sem riðið hafa yfir í dag.

Ýmislegt hafi fallið úr hillum í litlum veiðikofa sem stendur við vatnið.

Benedikt var ekki búinn að keyra lengi þegar hann rakst á fyrsta svokallaða camperinn, eins konar útilegubíl, og ljóst að ferðamenn höfðu lagt honum við veginn og voru á rölti um svæðið.

Hann hafi einnig rekist á starfsmenn ÍSOR og Háskóla Íslands, sem séu að setja upp mæla til þess að varpa skýrara ljósi á atburðarásina og hvað kunni að gerast á næstu sólarhringum.

5. júlí 2023 kl. 15:23 – uppfært

Skjálftarnir voru báðir yfir 3 að stærð

Skjálftarnir sem riðu yfir fyrir skömmu, og fundust vel fyrir á höfuðborgarsvæðinu, voru báðir yfir þremur að stærð.

Sá fyrri reið yfir klukkan 15:07 og var af stærðinni 3,3 og sá seinni klukkan 15:08 og var 3,7 að stærð.

5. júlí 2023 kl. 15:16 – uppfært

Tveir snarpir skjálftar rétt í þessu

Rétt í þessu fannst vel fyrir tveimur snörpum skjálftum á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttamaður og tökumaður sem staddir eru á Vigdísarvöllum á Reykjanesskaga fundu vel fyrir skjálftunum. Ferðalangar þar höfðu lagt bíl sínum við veginn inn að Vigdísarvöllum.

Benedikt Sigurðsson

5. júlí 2023 kl. 15:01 – uppfært

„Í fyrra glumdi í öllu en mér fannst það ekki gerast núna“

Sumir íbúar Grindavíkur sem fréttastofa hefur rætt við fundu ekki nándar nærri eins mikið fyrir stærstu jarðskjálftunum og þeim sem urðu á svipuðum slóðum í fyrra í aðdraganda eldgossins í Meradölum.

Guðfinna Magnúsdóttir, eigandi verslunarinnar Vigt í Grindavík, segir að það hafi komið henni á óvart hversu stór stærsti skjálftinn hafi í raun verið. Sjö skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst í hrinunni hingað til og sá stærsti var 4,8. Guðfinna segist frekar hafa gert ráð fyrir að hann væri á milli þremur og fjórum að stærð.

Þótt flestum gæti ef til vill þótt erfitt að giska á stærð jarðskjálfta er ágætt að hafa í huga að Grindvíkingar eru öllu vanir í þessum efnum og því ef til vill farnir að fá aukna tilfinningu fyrir stærð skjálfta.

RÚV / Hólmfríður Dagný Friðjónsd.

Guðfinna segir að stærsti skjálftinn sem varð þegar klukkan var um tuttugu mínútur gengin í níu í morgun hafi ekki verið eins mikið högg og stóru skjálftarnir í fyrra.

„Í fyrra glumdi í öllu en mér fannst það ekki gerast núna.“

Hún var ekki í versluninni þegar fréttastofa náði tali af henni en ætlaði að fara þangað og athuga hvort eitthvert tjón hefði orðið. Hún sagðist þó ekki búast við að svo væri.

5. júlí 2023 kl. 14:44 – uppfært

Björgunarsveitin Þorbjörn í viðbragðsstöðu

„Þegar kallið kemur þá erum við klárir,“ segir Steinar Þór Kristinsson hjá björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík. Hann segir félaga björgunarsveitarinnar í viðbragðsstöðu, eins og aðra daga, og tæki og búnaður sé klár. „Við erum orðnir nokkuð sjóaðir í þessu.“

Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík
RÚV / Guðmundur Bergkvist

Hann hefur ákveðnar áhyggjur af ferðamannastraumnum á svæðinu sem eykst væntanlega við fregnirnar af jarðhræringunum. „Ég hef mestar áhyggjur af því hvað verður ef það byrjar gos, vegna þess að það bendir allt til þess að þetta sé norðaustur af þessum stöðum sem er búið að gjósa á. Aðgengi er verra og það er lengra að ganga þangað.“

5. júlí 2023 kl. 14:15 – uppfært

Allt með kyrrum kjörum í Bláa lóninu

Starfsemi Bláa lónsins gengur enn sinn vanagang og eins og er ekki útlit fyrir að það breytist, að sögn Helgu Árnadóttur framkvæmdastjóra. Hún segir að stjórnendur lónsins séu í reglulegu sambandi við almannavarnir og fylgist grannt með. Mikil áhersla sé lögð á að upplýsa bæði gesti og starfsfólk jafnóðum um stöðu mála.

Bláa lónið.
Unsplash / Harshil Gudka

Helga segir að ekkert hafi færst til eða skemmst í aðstöðu Bláa lónsins í skjálftunum. Húsið og innviðir í kringum lónið séu vel byggðir og hannaðir til að standa af sér mun meira en við eigum að venjast í skjálftum sem þessum.

5. júlí 2023 kl. 14:05 – uppfært

Hvað hefur gerst og hver er staðan?

Nú þegar klukkan er að verða tvö eftir hádegi er ekki úr vegi að líta aðeins yfir það sem gerst hefur í morgun.

  • Öflug skjálftahrina hófst í Fagradalsfjalli í gær, 4. júlí. Alls hafa um 2200 skjálftar mælst og íbúar á suðvesturhorninu hafa fundið vel fyrir stærstu skjálftunum síðan um klukkan fjögur í nótt. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni í dag.
  • Sjö skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst og sá stærsti 4,8 varð klukkan 8:20 í morgun. Skjálftarnir raða sér milli Fagradalsfjalls og Keilis.
  • Veðurstofan minnir fólk á að fara varlega við brattar hlíðar vegna hættu á grjóthruni í kjölfar öflugra skjálfta. Íbúar í grennd við skjálftasvæðið er einnig hvatt til að huga að lausa- og innanstokksmunum.

Jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall klukkan 14
Veðurstofa Íslands

  • Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýsti yfir óvissustigi Almannavarna. Það þýðir að undirbúningur viðbragðsaðila hefst fyrir mögulegt gos.
  • Fagradalsfjall hefur verið merkt appelsínugult á litakóðuðu viðvörunarkorti Veðurstofu Íslands. Appelsínugul merking þýðir að eldstöðin sýnir aukna virkni og að vaxandi líkur séu á eldgosi.
  • Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í samtali við fréttastofu að skjálftahrinan væri svipuð þeirri sem leiddi til síðustu gosa. „Þetta er spurning um klukkutíma eða daga frekar en eitthvað annað.“

5. júlí 2023 kl. 14:01 – uppfært

Skjálftar í þrívídd

Hér má sjá þrívíddarmynd af skjálftum á Reykjanesskaga síðustu 48 klukkustundir.

Árni Rúnar Hlöðversson forritari útbjó kortið með gögnum frá Veðurstofu Íslands.

Kortið inniheldur óyfirfarnar frumniðurstöður en Veðurstofan hefur aðeins náð að yfirfara nokkur hundruð skjálfta af um tvö þúsund.

5. júlí 2023 kl. 13:59 – uppfært

Vefvaktin erkomideldgos.is komin í loftið

Vefvaktin erkomideldgos.is er komin í loftið þar sem hægt er, ja, að fylgjast með því hvort það er komið eldgos. Á síðunni er líka spilunarlisti tengdur við Spotify með hinum ýmsu gos- og skjálftatengdu lögum. Þar eru smellir eins og Allt er á tjá og tundri með Sálinni hans Jóns míns og All Shook Up með Elvis Presley.

5. júlí 2023 kl. 12:43 – uppfært

Miklar líkur á eldgosi en hefur ekki heyrt af gosóróa

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir í samtali við fréttastofu að miklar líkur séu á eldgosi við Fagradalsfjall. Það gætu verið einhverjir klukkutímar eða dagar í næsta gos haldi virknin áfram eins og verið hefur.

RÚV / Guðmundur Bergkvist

Hann hafði ekki heyrt af gosóróa en kvikan sé komin vel á veg í efri hluta jarðskorpunnar. Líklegast sé að það gjósi á svipuðum slóðum og síðast, virknin sé í beinni línu norður af gígaröðinni þar sem gaus 2022. „ Þetta er áframhald af Fagradalsfjallseldum, eins og ég kýs að kalla þá. Ef allt er sem sýnist kemur þriðja gosið í Fagradalsfjallseldum.“

5. júlí 2023 kl. 12:35 – uppfært

Góður viðbúnaður ef til eldgoss kæmi

Til stóð að almannavarnanefnd Grindavíkur fundaði í hádeginu, en vegna sumarleyfa náðist ekki að smala fólki saman. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í hádegisfréttum að það breyti því ekki að allir sem sitja í nefnd hafi rætt saman og fylgist vel með.

Óvissustig almannavarna þýði að undirbúningur viðbragðsaðila hefst fyrir mögulegt gos. Ferðamenn sem voru að leggja upp í göngu á Fagradalsfjall í morgun voru grunlausir um að eldgos kynni að vera yfirvofandi. Aðspurður um aðgerðir vegna ferðamanna sagði Úlfar:

„Stundum er það nú svo að ferðamenn vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara, þótt það gjósi þá virðist það ekki duga til. Ég held að fólk eigi bara að anda rólega, þeir sem hér búa og dvelja, og huga að lausamunum. Jörðin skelfur en það er gríðarlega vel fylgst með þessu landsvæði. Vísindasamfélagið liggur yfir gögnum svo ég geri ráð fyrir að undirbúningur og viðbúnaður verði góður ef það fer að gjósa.“

RÚV / Stefán Jón Ingvarsson

5. júlí 2023 kl. 11:54 – uppfært

Ferðamönnum við Fagradalsfjall ekki gert viðvart

Ferðamenn við Fagradalsfjall sem fréttstofa hefur rætt við höfðu fæstir hugmynd um jarðhræringarnar. Enginn hafi varað þau við því að ganga að gömlu eldstöðvunum en flest segja þau þetta ekki breyta áætlunum sínum.

Rætt verður við nokkra þeirra í hádegisfréttum RÚV.

5. júlí 2023 kl. 11:41 – uppfært

Fagradalsfjall orðið appelsínugult

Fagradalsfjall hefur verið merkt appelsínugult á litakóðuðu viðvörunarkorti Veðurstofu Íslands.

Veðurstofa Íslands

Litakóðinn veitir flugmönnum, almenningi og flugmálayfirvöldum upplýsingar um ástand eldfjalla. Appelsínugul merking þýðir að eldstöðin sýni aukna virkni og að vaxandi líkur séu á eldgosi.

Fulltrúi neyðarstjórnar Isavia sat fund almannavarna í morgun og forsvarsmenn Isavia fara yfir verkferla og virkja viðbragðsáætlanir.

5. júlí 2023 kl. 10:58 – uppfært

Óljóst hvort fluglitakóði verði uppfærður

Fulltrúi neyðarstjórnar Isavia sat fund Almannavarna í morgun og forsvarsmenn fyrirtækisins funda nú innanhúss um stöðuna og hugsanleg áhrif á rekstur Keflavíkurflugvallar. Óljóst er hvort fluglitakóði verði uppfærður. Fyrri gos í og við Fagradalsfjall hafa haft tiltölulega lítil áhrif á flugumferð á Keflavíkurflugvelli.

Degi fyrir gosið í ágúst í fyrra var fluglitakóði færður á gult vegna jarðhræringa.

Upplýsingar um breytingar á fluglitakóða eru uppfærðar jafnóðum á vefsíðunni Icelandic volcanos.

5. júlí 2023 kl. 10:53 – uppfært

Ekki útlit fyrir að Bláa lóninu verði lokað

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu, segir atburðarásina nú kunnuglega, aðdragandinn sé svipaður og að síðasta gosi og hræringarnar á sama stað.

Drónamynd af Bláa lóninu
RÚV / Grímur Jón Sigurðsson

Hún segir ekki útlit fyrir að lóninu verði lokað. Stjórnendur séu þó í góðu sambandi við forsvarsmenn almannavarna og mikið sé lagt upp úr því að fræða gesti og starfsmenn um stöðuna.

5. júlí 2023 kl. 10:39 – uppfært

Vísbendingar um að skjálftarnir séu að færast nær yfirborðinu

Jarðskjálftarnir finnast um allt suðvesturhorn landsins. Fréttastofu hafa borist ábendingar frá fólki um allt höfuðborgarsvæðið, Reykjanesskaga, Borgarnes og Ólafsvík sem hefur fundið vel fyrir skjálftunum.

Sérfræðingar fylgjast helst með dýpt skjálftanna frekar en fjölda þeirra til að meta hversu nálægt yfirborði kvika er á hreyfingu.

Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir vísbendingar vera um að skjálftarnir séu að grynnast.

„Við erum að fá mjög mikið af tilkynningum þannig við höfum ekki alveg náð að greina hvar er mesta að finnast. En allt suðvesturhornið er að finna þetta, alveg inn í Borgarfjörð.“

Eru þeir að færast nær yfirborðinu?

„Þeir hafa verið að færast nær yfirborðinu frá því að skjálftavirknin byrjaði í gærkvöldi og það eru vísbendingar um að þeir séu mögulega að grynnast aðeins meira.“

5. júlí 2023 kl. 10:24 – uppfært

Vínflöskur hristust í vínrekkanum

Ábendingar hrannast inn frá fólki sem hefur fundið skjálfta á síðasta klukkutímanum. Fimm sjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst síðan klukkan níu.

Fólk hefur fundið fyrir skjálftunum í Grindavík, Grafarvogi, Kópavogi, Hafnarfirði, miðborg Reykjavíkur og á heimili í Austurborginni hristust vínflöskur í vínrekka en ekki hlaust tjón af.

5. júlí 2023 kl. 10:10 – uppfært

Snarpur skjálfti truflaði beina fréttaútsendingu

Snarpur skjálfti reið yfir rétt rúmlega tíu og það heyrðist vel á viðbrögðum fréttamanns í beinni fréttaútsendingu RÚV. Hægt er að hlusta á hljóðbrotið hér fyrir neðan.

5. júlí 2023 kl. 10:00 – uppfært

Óvissustig vegna jarðskjálftahrinunnar

Ríkislögreglustjóri ákvað í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum að lýsa yfir óvissustigi Almannavarna. Íbúar á suðvesturhluta landsins eru hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni.

Veðurstofan vekur einnig athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.

5. júlí 2023 kl. 9:51

Skjálftinn á níunda tímanum fannst vel á Morgunvaktinni

Þórunn Elísabet Bogadóttir, annar stjórnenda Morgunvaktarinnar á Rás 1, lét þreytu sína með jarðskjálftahrinuna í ljós undir tónum lagsins Paris sera toujours Paris með frönsku söngkonunni Zaz. Um leið var þetta ágætis áminning um að loka fyrir hljóðnemann þegar tónlist byrjar að óma í útvarpinu.

5. júlí 2023 kl. 9:48 – uppfært

Landris við Fagradalsfjall síðan í apríl

Á vef Veðurstofunnar er farið yfir landris sem hefur mælst við Fagradalsfjall síðan í byrjun apríl. Rishraðinn hefur verið um það bil einn sentimetri á mánuði þar sem það er mest. Landrisið sést víða á vestanverðum Reykjanesskaga og gæti bent til innflæðis kviku.

Líkindareikningar benda til þess að mögulegt innflæði kviku sé á um 15 kílómetra dýpi. Ásamt þennslu við Fagradalsfjall sést afmarkaðra merki um jarðsig við Reykjanestá. Það hefur verið viðvarandi vegna jarðhitavinnslu en hert hefur á jarðsiginu undanfarið. Það er ekki ljóst hvað veldur siginu en ekki er hægt að útiloka að það tengist annarri virkni á Reykjanesskaga.

Viðvarandi sig er við Svartsengi svipað og mældist 2020 og 2022. Afmarkað sig mælist einnig við Fagradalsfjall sem er sambærilegt því og mældist í tengslum við innskotið 2021.

Í umfjöllun Veðurstofunnar segir einnig að viðvarandi skjálftavirkni hafi verið á vestanverðum Reykjanesskaga. Yfir þúsund skjálftar hafi mælst þar í júní og virknin afmarkist helst við Svartsengi, Fagradalsfjall og Kleifarvatn. Flestir skjálftarnir hafi verið við Reykjanestá, norðaustan við Fagradalsfjall eða suðvestan Kleifarvatns.

Frá áramótum hafi djúp skjálftavirkni við Fagradalsfjall aukist samanborið við síðari hluta 2022. Nýlegar gas- og hitamælingar sýni að hraunbreiðan sem rann í Meradölum í ágúst 2022 sé enn að afgasast og hitastig hafi mælst yfir 219 gráður á sumum stöðum í hrauninu.

GPS tímaröð frá stöðinni FAFC sem staðsett er nálægt miðju riskúrfunnar. Á lóðrétta þættinum sést vel að landris hefst í byrjun apríl og hefur risið um 3 cm. Rauðu línurnar sýn upphaf eldgoss og bláu sýna innskot.
Veðurstofa Íslands

5. júlí 2023 kl. 9:28

Grindvíkingar sallarólegir

Íbúar í Grindavík eru sallarólegir yfir skjálftahrinunni. Lítið finnst í verslunum og vörur í Nettó og Hérastubbi bakara eru allar á sínum stað.

RÚV / Kristján Ingvarsson

5. júlí 2023 kl. 9:26

Fannst þú skjálfta?

Fannst þú jarðskjálfta? Láttu okkur endilega vita hvenær og hvar þú fannst skjálfta. Hægt er að hringja í síma 515-3030 eða senda inn ábendingu á tölvupóstfangið frettir@ruv.is

5. júlí 2023 kl. 8:54 – uppfært

Leirtau glamrar í skápum í Borgarnesi

Fréttastofu barst ábending frá íbúa í Borgarnesi sem segist hafa fundið vel fyrir stóru skjálftunum síðan klukkan fjögur í nótt. Hún segir blokkina sem hún býr í hafa hrist og að leirtau glamri í skápum. Þegar skjálfti af stærðinni 4,3 varð kl. 7:46 fann hún einnig minni hristing á undan og á eftir.

5. júlí 2023 kl. 8:50 – uppfært

Líklegt að lýst verði yfir óvissustigi almannavarna

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir líklegt að lýst verði yfir óvissustigi almannavarna. Það komi þó í ljós á fundinum sem hefst klukkan 9:00.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna.
RÚV / Sunna Karen Sigurþórsdóttir

„Ja, viðbragð okkar hjá almannavörnum er bara svipað eins og þegar svona ástand er. Við byrjum á því að funda með þeim sem skipta máli í þessari atburðarás allri og gerum það núna klukkan níu. Og svo tökum við stöðuna út frá því. En það er alls ekki ólíklegt að við förum á óvissustig almannavarna, svona í ljósi stöðunnar.“

Og eruði farin að gera einhverjar ráðstafnir eða verður bara allt ákveðið á þessum fundi á eftir? (á þessum tímapunkti finnst snarpur skjálfti og allt nötrar í Stúdíói 5 í Efstaleiti)

„Jú, jú, við erum farin að gera ráðstafnir og það er bara eitthvað eins og allir þekkja sem hafa upplifað þessa jarðskjálfta núna síðasta sólarhring að þá erum við auðvitað byrjuð að vinna okkar vinnu.“

Og hverjar eru þær?

„Það er til dæmis að undirbúa þetta almannavarnastig og einmitt eins og ef við förum á óvissustig almannavarna, þá þýðir það aukið eftirlit með atburðarásinni og við erum þá kannski að segja fólki hvað mögulega gæti gerst. Þannig við erum bara að funda með Veðurstofu aðallega og þessum vísindamönnum sem vita oft meira en við. Þannig það eru ýmsar aðgerðir sem eru í gangi núna.“

5. júlí 2023 kl. 8:48 – uppfært

Jarðskjálftarnir raða sér meðfram Fagradalsfjalli

Eldfjalla- og náttúrúvárhópur Suðurlands birtir mynd á Facebook þar sem sést hvernig jarðskjálftarnir hafa raðað sér meðfram Fagradalsfjalli síðasta sólarhringinn.

Virknin er keimlík því sem var í aðdraganda eldgosanna tveggja við Fagradalsfjall 2021 og 2022, segir í færslunni.

Það er einnig rifjað upp að álíka innskotsvirkni hafi verið í ágúst 2022 í um fimm sólarhringa áður en eldgos hófst.

Jarðskjálftahrina sem hófst við Fagradalsfjall 4. júlí
Facebook / Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands.

5. júlí 2023 kl. 8:42 – uppfært

Fjórir skjálftar yfir fjórum að stærð á klukkutíma

Fjórir skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst síðan hálf átta í morgun. Sá stærsti varð klukkan 8:20 og var 4,6 að stærð, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Virknin sem hófst við Fagradalsfjall í gær hefur haldið linnulaust áfram í nótt og yfir 1600 skjálftar hafa mælst. Alls hafa átta skjálftar yfir þemur að stærð mælst og þeir hafa fundist vel á suðvesturhorni landsins.

Búast má við áframhaldandi jarðskjálftavirkni næstu daga, samkvæmt tilkynningunni, og fólki er ráðið frá því að fara um svæðið þar sem auknar líkur eru á grjóthruni. Landris hófst við Fagradalsfjall í byrjun apríl og talið er að virknin sem er núna sé af völdum kvikuinnskots á fimm kílómetra dýpi.

5. júlí 2023 kl. 8:40 – uppfært

Minna á viðbrögð við jarðskjálfta

Lögreglan á Suðurnesjum minnir íbúa á tilmæli Almannavarna um viðbrögð við jarðskjálftum, en segir að flestir ættu að vera farnir að þekkja þetta.

5. júlí 2023 kl. 8:31 – uppfært

Landsmenn á suðvesturhorninu vakna við skjálftana

Fréttastofa hefur fengið fjölda símtala í morgun frá fólki sem hefur fundið fyrir skjálftunum. Fólk er mögulega að vakna af værum svefni, ef það hefur sofið eitthvað fyrir skjálftavirkninni, og að átta sig á því að skjálftahrina sé hafin. Símtöl hafa borist úr höfuðborginni, Vogum og Innri-Njarðvík þar sem skjálftarnir hafa fundist vel.

5. júlí 2023 kl. 8:27 – uppfært

Fylgjast með dýpi skjálftanna

Veðurstofan fundar með almannavörnum og vísindamönnum við Háskóla Íslands klukkan níu. Þar verða næstu skref í stöðunni metin. Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir gos geta hafist með litlum fyrirvara og fylgjast þurfi með hvort skjálftarnir grynnki.

„Skjálftarnir virðast hafa grynnkað aðeins í morgunsárið en það er of fljótt að segja til um það,“ sagði Magnús Freyr í morgunfréttum klukkan átta.

Hann segir Veðurstofuna aðallega fylgjast með dýpi skjálftanna, stærð þeirra sé ekki aðalatriðið núna heldur fjöldi þeirra og dýpi.

Skjálftahrina hófst um tíu í gærkvöldi og yfir 1500 skjálftar hafa mælst síðan. „Það hafa verið nokkuð stórir skjálftar í morgunsárið.“

5. júlí 2023 kl. 8:13 – uppfært

Svipuð virkni og fyrir síðasta gos

Magnús Freyr Sigurkarlsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir innskotsvirkni vera á um það bil fimm kílómetra dýpi og kvika sé að safnast fyrir. Þetta sé svipuð virkni og fyrir síðasta gos. Þá var innskotsvirkni í fimm daga áður en kvika sást á yfirborðinu.

„Ef þetta heldur áfram svona eins og staðan er í dag þá teljum við að mögulega gæti komið til goss innan nokkurra daga,“ sagði Magnús Freyr í viðtali í morgunfréttum klukkan átta.

5. júlí 2023 kl. 7:53 – uppfært

Titrar allt og skelfur í Efstaleiti

Það titrar allt og skelfur í útvarpshúsinu í Efstaleiti og hefur gert nánast síðan klukkan fjögur í nótt. Á um það bil 20 mínútna tímabili hafa komið þrír öflugir skjálftar, sá fyrsti rétt um hálf átta, sá var 3,3 að stærð samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands.

Tveir skjálftar fylgdu í kjölfarið en ekki er búið að yfirfara stærð þeirra.

5. júlí 2023 kl. 7:45 – uppfært

Grindvíkingar ýmsu vanir en fundað með almannavörnum í dag

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir íbúa þar ýmsu vana eftir jarðskjálftahrinur og gos síðustu ára. Fólk sé þó í viðbragðsstöðu og fylgist vel með gangi mála þótt skjálftarnir í nótt hafi ekki truflað íbúa.

„Já, mér skilst að það hafi fundist töluvert fyrir þeim en þeir hafa ekki verið það stórir að þeir séu áberandi í Grindavík en svona á höfuðborgarsvæðinu hefur þetta fundist.“

Hvernig líður fólki, er einhver kvíði?

„Við erum nú ýmsu vön orðið, eftir að hafa fengið svipaða atburði. Þetta svipar nú mjög til aðdraganda gossins í fyrra. Hvort sem það gýs núna næstu daga eða klukkustundir vitum við ekki. En við þekkjum þetta og að minnsta kosti ef gos verður þarna við Fagradalsfjall þá er það nú ágætis staður ef svo ber undir. Og við erum auðvitað bara í viðbragðsstöðu. Það stendur til hjá okkur í Grindavík að halda fund núna seinna í dag, með almannavarnateymi og höfum auðvitað fylgst mjög vel með því sem er að gerast. Vísindamenn eru að vakta þetta, ég er búinn að vera að fylgjast með þessu frá svona fjögur í nótt og það er heilmikil atburðarás í gangi þarna neðanjarðar og við verðum að sjá hvernig þetta þróast á næstunni,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.

RÚV / Grímur Jón Sigurðsson

5. júlí 2023 kl. 7:41 – uppfært

Yfir 1.500 jarðskjálftar í yfirstandandi hrinu

Góðan dag og velkomin á fréttavakt okkar þar sem við fylgjumst með jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga. Hrinan hófst síðdegis í gær og síðan þá hafa 1.500 jarðskjálftar mælst. Skjálftarnir hafa fundist vel á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og alla leið upp í Borgarfjörð.

Land tók að rísa við Fagradalsfjall í apríl og talið er að jarðskjálftavirknin stafi af völdum kvikuinnskots á um fimm kílómetra dýpi. Sérfræðingar Veðurstofunnar ráðleggja fólki að halda sér frá svæðinu næstu daga þar sem auknar líkur eru á grjóthruni.

Vísindamenn Veðurstofunnar og Háskóla Íslands funda með almannavörnum kl. 9:00 vegna stöðunnar.