Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Ákvörðun utanríkisráðherra afleiðing sögulega lítilla samskipta

Markús Þ. Þórhallsson

Rósa Magnúsdóttir, sagnfræðingur og sérfræðingur í málefnum Rússlands, segir ákvörðun utanríkisráðherra vera afleiðingu sögulega lítilla samskipta Íslands og Rússlands.

Áhugavert sé að ein afleiðing stríðsins sé að dregið hafi úr beinum, mannlegum samskiptum ríkja í milli. Ekki sé hægt í því ástandi sem nú ríki að eiga í beinum, mannlegum tengslum, miðla þannig málum og byggja upp tengsl. Rósa segir vel gerlegt að taka upp störf í sendiráðinu síðar, æski íslensk stjórnvöld og fyrirtæki þess, enda ekki verið að loka því heldur leggja niður störf.

Íslendingar tóku upp stjórnmálasamband við Sovétríkin 1943 og Rósa segir að aldrei hafi komið upp hávær krafa um að dregið verði úr starfsemi í sendiráðinu, þrátt fyrir atburði á borð við innrás í Ungverjaland, Tékkóslóvakíu og Afganistan.