Gervigreind í formi vinar
Gervigreindartækni hefur tekið miklum og hröðum framförum undanfarið. Það verður æ erfiðara að meta hvað er ekta og hvað ekki á samfélagsmiðlum, eftir því sem tækninni fleygir fram. Jafnvel er hægt að eiga raunveruleg samtöl við gervigreindarvini.
„Þetta getur ýtt undir félagslega einangrun en þetta getur líka víkkað samfélagsnetið þitt og vinanetið þitt,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen, félagsfræðingur við HÍ, og tekur sem dæmi tölvuleiki þar sem fólk spilar saman hvert í sínu horni, hvaðanæva að úr heiminum.
Á samfélagsmiðlum safnar gervigreind upplýsingum um skoðanir okkar og samfélagsstöðu, og matar okkur svo á efni og auglýsingum sem hún telur að við viljum sjá. „Þannig að við erum stöðugt að fara í minni og minni bergmálsklefa,“ segir Ingunn Lára Kristjánsdóttir, fjölmiðlamaður.