Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Samantekt

Formennirnir tókust á um stjórnmálin í Silfrinu

Birgir Þór Harðarson og Freyr Gígja Gunnarsson

,
21. maí 2023 kl. 13:00

„Miðflokkurinn 12 stig“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kvaddi skemmtilega frá Helsinki.

21. maí 2023 kl. 12:51

Efnahags-og húsnæðismálin efst á baugi

Eins og reiknað var með voru efnahagsmálin og húsnæðismálin í brennidepli þegar leiðtogar stjórnmálaflokkanna mættust í Silfrinu í morgun. Það mátti líka glöggt sjá að stjórnarflokkarnir munu næstu mánuði beina spjótum sínum að Samfylkingunni sem hefur mælst stærsti flokkur landsins í könnunum. Við látum þessari textalýsingu hér með lokið, Freyr Gígja Gunnarsson og Birgir Þór Harðarson þakka samfylgdina.

21. maí 2023 kl. 12:37 – uppfært

„Heilbrigðiskerfið mun þurfa meira og meira“

„Ég held að það sé mikilvægt átta sig á því að heilbrigðiskerfið þarf bara meira og meira, ár eftir ár, vegna þess að við erum að eldast svo hratt og tæknin er að þróast svo hratt,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hann segir að ríkisstjórnin sé í met fjárfestingu í innviðum heilbrigðisþjónustu.

„Jafnvel þótt við myndum setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið til þess að ráða fólk er ég ekki viss um að það myndi skila árangri,“ segir Bjarni. Það er vegna þess að heilbrigðiskerfið er að glíma við manneklu og að hér á Íslandi sé fullt atvinnustig.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur undir orð Bjarna. „Mönnunarvandinn er ekkert séríslenskt fyrirbæri þegar kemur að heilbrigðismálum. Og við verðum að horfa á hlutina í aðeins samhengi en í okkar þrönga hópi hér.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir ríkisstjórnina vera að þenja út ríkisbáknið og nýtir tækifærið til þess að setja íslensku krónuna og gjaldmiðlamálin á dagskrá þessara umræðna.

21. maí 2023 kl. 12:34

„Þau eru límd saman með tonnataki“

Formennirnir eru spurðir hvað þeir ætli að gera í sumar. Bjarni segist ætla að fara í göngur og útreiðatúra en líka renna fyrir silungi og fara með alla stórfjölskylduna til Evrópu. Kristrún ætlar að verja meiri tíma með þriggja mánaða stelpunni og fara í heimsókn til systur sinnar í Svíþjóð. Þorgerður Katrín ætlar að vera í Hafnarfirði og Ölfusi en líka taka hús á Gísla Þorgeiri Kristjánssyni, syni sínum og landsliðsmanni í handbolta.

Katrín er ekki með neitt annað plan enda elski hún Ísland á sumrin. Sigmundur segist komast heim frá Helsinki, fréttamaður telur hann jafnvel hafa tekið lit á meðan Silfrinu stóð. Hann ætlar að fagna 50 ára brúðkaupsafmæli foreldra sinna með utanlandsferð.

Inga Sæland ætlar fara um landið á húsbíl Flokks fólksins þar sem kassagítarinn verður aldrei langt undan. Björn Leví ætlar að sinna fjölskyldunni enda hann og eiginkonan upptekið fólk. Sigurður Ingi ætlar ekki að fara til útlanda heldur vera í sveitinni. „En veðrið verður að fara að skána.“

Undir lokin er síðan smá bombu kastað og forkólfarnir spurðir hvort þeir telji að ríkisstjórnin haldi saman út tímabilið. „Þau eru límd saman með tonnataki.“

21. maí 2023 kl. 12:23 – uppfært

Sjálfstæðisflokkur óttast ekki kosningar

Bjarni er spurður út í síðustu kannanir sem sýna Samfylkinguna stærsta flokk landsins. Hann segir það ekki koma á óvart að einhverjir stjórnarandstöðuflokkar komi vel út í könnunum þegar þessi þriggja flokka stjórn sé að setja met á hverjum degi með samstarfi sínu.

Bjarni segir Samfylkinguna á skriði núna en það sé langt til kosninga og Sjálfstæðisflokkurinn óttist þær aldrei. „Ef það á að vera skynsamleg stjórn verður Framsókn að vera þar,“ segir Sigurður Ingi og uppsker mikinn hlátur frá bæði Katrínu og Bjarna sem segjast hafa heyrt þetta áður.

21. maí 2023 kl. 12:18

Áfram takast Bjarni og Kristrún á

Undir lok þáttarins tekur Silfrið á sig smá kosningabragð þar sem spjót stjórnarflokkanna beinast að formanni Samfylkingarinnar sem hefur mælst stærsti flokkur landsins í síðustu könnunum.

Kristrún segir stjórnmálamenn verða að komast þann stað að þeir átti sig á þeim málum sem skipti fólk máli þegar það vaknar á morganana. Það sé aðgengi að grunn-heilbrigðisþjónustu og húsnæðismálum. Meirihluti þjóðarinnar vilji sjá þar breytingar og þar ætli Samfylkingin ekki að skila auðu

„Ég hef ekki heyrt formann Samfylkingarinnar tala af jafn lítill sannfæringu,“ segir Bjarni og vitnar til þess að Samfylkingin hafi haft nýja stjórnarskrá og ESB á sinni stefnuskrá. „Æi, blessaður,“ heyrist Björn Leví segja. „Þú ert að tala um fortíðina, ég er að tala um framtíðina,“ segir Kristrún.

21. maí 2023 kl. 12:12

„Allt sagt ómögulegt þegar verið er að vinna í hlutunum“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra benti þáttastjórnendum á það þegar stjórnarandstöðuformenn kölluðu inní þegar hann ræddi um heilbrigðismálin. „Sjáiði, það er allt sagt ómögulegt þegar verið er að vinna í hlutunum!“

„Það er aldrei sests niður og sagt: hvað er raunverulega verið að gera?“

Inga Sæland fékk þá að svara: „Það er náttúrlega svo gott að vera bjartsýnn og brosandi, og vera bara búinn að stinga stjörnum í augun á sér og sjá bara ekkert út.“

21. maí 2023 kl. 12:10

Fannst umgjörðin yfirgengileg og yfirþyrmandi

Eftir auglýsingar tóku við umræður um leiðtogafund Evrópuráðsins sem hefur verið gagnrýndur fyrir að vera tíðindalítill. „Þetta er merkilegur fundur því þetta er fjórði leiðtogafundur í sögu Evrópuráðsins,“ segir Katrín.

Hún segist hafa verið himinlifandi með þátttökun sem sýni þá samstöðu sem leiðtogarnir vildu sýna Úkraínu. „Við héldum hann vegna þess að við vorum í formennsku á þessum tíma. Við skoruðumst ekki undan þeirri skyldu að halda hann.“

Inga Sæland segir að sér hafi liðið eins og bjána þegar hún sá fullt af lögreglumönnum gráa fyrir járnum. „Umgjörðin í kringum þetta var svo yfirgengileg og yfirþyrmandi.“ Hún hefði ekki gengið jafn fast á eftir þessum fundi og stjórnvöld gerðu.

21. maí 2023 kl. 12:02

„Ég hélt að það væru að koma kosningar“

Kristrún Frostadóttir setti á mikla ræðu undir miðjan þátt sem endaði með því að þáttastjórnendur báðu hana um að stoppa, hún væri full „kosningaleg.“ „Ég hélt að það væru bara að koma kosningar,“ sagði Sigurður Ingi.

21. maí 2023 kl. 11:58

„Það eru allir að bíða eftir svörum,“ segir Þorgerður

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir ákall hjá fólkinu í landinu um ákvarðanir. Ríkisstjórnin líði áfram í einhverju metnaðarleysi. Viðreisn hafi varað við algjöru aðhaldsleysi, líkt og AGS og Seðlabanki Íslands. Ríkisstjórnin hafi lítið sem ekkert gert í ríkisfjármálunum og nú sé framundan 13. stýrivaxtahækkun Seðlabankans.

Framundan sé harður vetur í kjaradeilum og ríkisstjórnin sé ekki að vinna sína heimavinnu. „Það eru allir að bíða eftir svörum.“

Hún segir ákveðin ómöguleika varðandi stóru málin þegar komi að ríkisstjórn þessara þriggja flokka.

21. maí 2023 kl. 11:54 – uppfært

„Rosalega mikið af orðum um hitt og þetta“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að tala mikið en gera minna. „Það er rosalega mikið af orðum um hitt og þetta, en svo klórar maður sér aðeins í hausnum og rýnir aðeins í tölurnar þá segja þær allt aðra sögu.“

„Það er rosalega mikið um það í stjórnmálunum að fólk sé bara að tala og tala og tala, og það stendur ekki steinn yfir steini,“ segir Björn Levý og ekki laust við að hann sé svolítið mæddur yfir þessu.

Hann segir að tilfinning sín sé að ríkisstjórnin sé hætt að starfa saman. „Það er bara ráðherra hver úti í sínu horni að gera sitt. Það er engin skýr stefna um það hvernig á leysa stóru málin.“

Björn Leví nefnir vanda í heilbrigðismálum, húsnæðismálum, efnahagsmálum og vaxtamálum. „Þetta er staðan óneitanlega þrátt fyrir stefnu stjórnvalda. Kannski út af stefnu stjórnvalda,“ segir hann.

21. maí 2023 kl. 11:51 – uppfært

Kastast í kekki milli Katrínar og Sigmundar

Sigmundur segir íbúum landsins hafa fjölgað gríðarlega en Íslendingum hafi ekki fjölgað mikið. Hann segir hælisleitendamálin algjörlega stjórnlaus. Stjórnvöld í samvinnu við sveitarfélögin hafi ryksugað upp leigumarkaðinn. Þau vilji nú fá að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðahúsnæði og reisa flóttamannaíbúðir sem þau kalli „skjólgarða“. Á meðan þetta sé í gangi nái menn ekki tökum á húsnæðismarkaðinum.

Sigmundur segir algjört stjórnleysi ríkja, engin ríkisstjórn hafi aukið útgjöldin jafn mikið og þessi stjórn og engin ríkisstjórn sé jafn svartsýn á eigin getu. Á sama tíma lengist biðlistar í heilbrigðiskerfinu og ríkisstjórnin gefi eftir í stóru málunum. „Þetta er allt á sömu bókina lært. Nefndu málið og ég skal benda á stjórnleysið sem ríkir,“ segir Sigmundur Davíð.

„Ég veit ekkert hvert Sigmundur minn er að fara,“ segir Katrín sem þykir málflutningur hans fyrir neðan allar hellur og það sé ekki gæfulegt að halda honum á lofti enda geri hann lítið annað en að sundra. Stór hluti þeirra erlendu ríkisborgara sem hingað komi til lands komi til að vinna og þetta viti allir.

21. maí 2023 kl. 11:44

Sigurður Ingi boðar breytingar í húsnæðismálum

Sigurður Ingi fer yfir verk ríkisstjórnarinnar og segist vera þeirrar skoðunar að það eigi að aðstoða fólk við að safna séreignasparnaði fyrir kaupum á fyrstu íbúð. „Við gerðum mikið í COVID, sögðumst ætla að gera það og við gerðum kannski of mikið,“ segir Sigurður Ingi sem lætur Ingu Sæland ekki slá sig út af laginu þegar hún segir „allt vera í skralli.“

Í of langan tíma hafi ekkert verið gert í húsnæðismálum en það sé að breytast. Núverandi ríkisstjórn undir forystu hans í húsnæðismálum hafi verið tekið af skarinu í samstarfi við sveitarfélög með því að skaffa lóðir sem hafi ekki verið til. Með þessu sé hægt að styðja við þá hópa sem geta ekki eignast húsnæði nema með opinberri aðstoð eða leigt húsnæði án opinberrar aðstoðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er kallaður til næst, hann er á Zoom frá Finnlandi. Það er blíðskapaveður í Helsinki, þar skín sól í heiði og notalegar 19 gráður.

21. maí 2023 kl. 11:36

Verðbólgan þarf að fara niður og hún mun fara niður

Sigríður Hagalín, annar af umsjónarmönnum Silfursins, vitnar aftur í viðtal Morgunblaðsins við Kristrúnu Frostadóttur og segir ýmislegt í því benda til þess að Kristrún hafi verið að bera í víurnar í Katrínu, jafnvel að hún yrði betri fjármálaráðherra fyrir Katrínu. „Ég er viss um að Kristrún geti orðið góður fjármálaráðherra.“

Katrín telur sig þó þurfa leggja orð í belg í umræðunni um efnahagsmálin þar sem hún segir umræðuna í þættinum aðeins hafa skotið skökku við. Hún segir atvinnuleysið lágt í samanburði við önnur nágrannaríki en hún sé að fullu meðvituð um að verðbólgan bitni verst á þeim tekjulægstu. Við þessu hafi ríkisstjórnin brugðist með því að auka kaupmátt þessa hóps.

Hún segir mikla trú á íslensku efnahagslífi enda hafi ríkisstjórnin stutt dyggilega við hugvitið. Það sé hins vegar rétt að ná þurfi niður verðbólgunni. „Ég átta mig alveg á því að verðbólgan þarf að fara niður og hún mun fara niður.“ Sigurður Ingi Jóhannesson, innviðaráðherra, er næstur á mælendaskrá.

21. maí 2023 kl. 11:29 – uppfært

„Fjármálaráðherra virðist blindari en ég“

Meira af Ingu sem er þekkt fyrir að tala tæpitungulaust. „Hér er ríkisstjórnin bara með allt niðrum sig,“ segir Inga.

Það sé ekki skrýtið að hlutirnir séu eins og þeir séu þegar „fjármálaráðherra virðist blindari en ég,“ segir Inga sem er lögblind eftir að hafa fengið heilahimnubólgu upp úr hlaupabólu þegar hún var lítil. Hún ræddi þetta í viðtali við DV fyrir allnokkrum árum. En aftur að Silfrinu.

Hún segir að hækkun bóta í almannatryggingarkerfinu hafi ekki haldið í við verðbólguna og vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands. Hún bendir jafnframt á að Samfylkingin hafi setið hjá þegar Flokkur fólksins lagði fram tillögu um leiguþak. Hún vill að ríkið taki yfir þær 1.700 eignir sem leigufélagið Heimstaden ætlar að selja. Það hljóti að vera hægt fyrst hægt sé að halda partý í Hörpu fyrir fjóra milljarða. Inga er væntanlega að vísa til leiðtogafundar Evrópuráðsins þar.

21. maí 2023 kl. 11:20

Bjarni og Kristrún í kastljósinu

Eins og kannski mátti búast við óskaði Kristrún eftir að fá að svara orðum Bjarna og þyki það merkilegt að eini munurinn á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu sé stjórnarskráin og Evrópusambandið.

Hún segir mikinn mun á flokkunum og það kæmi verulega á óvart ef fjármálaráðherra tæki undir það sem hún væri að segja. AGS hafi sagt mikilvægt að styðja við tekjulágt fólk og flokkurinn skorist ekki undan því að sækja tekjur þangað sem hægt er að sækja tekjur. „Þetta er bara gamla Samfylkingin, meiri skattar og stærra ríki,“ heyrist Bjarni segir. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er næst. Hún segist vera í sjokki. Það er samt ekki yfir hnútukasti Bjarna og Kristrúnar.

21. maí 2023 kl. 11:15 – uppfært

Bjarni segir Samfylkinguna hafa ýtt helstu stefnumálum sínum til hliðar

Þegar Kristrún er búin að svara spurningu um efnahagsmálin beinist kastljósið að Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra. Egill Helgason, þáttastjórnandi, bendir á að tekjulágt fólk sé í vandræðum þegar verðbólgan sé svona há en fólk með góðar tekjur virðist bara í býsna góðum málum.

Bjarni tekur við boltanum, tekur undir orð Egils en beinir spjótum sínum að formanni Samfylkingarinnar. Hann segir að fyrir tíu árum hafi helsta stefnumál Samfylkingarinnar verið að ganga í ESB og nýja stjórnarskrá en þessum málum hafi nú verið pakkað ofaní kassa en í sömu andrá haldi flokkurinn því fram að áratugurinn hafi farið forgörðum.

Bjarni segir að þessi ríkisstjórn hafi skapað skjól fyrir þá tekjulægstu og vandinn á húsnæðismarkaðinum sé að það vanti ódýrar íbúðir. Til að mynda sé verið að byggja íbúðir á dýrum þéttingarreitum á höfuðborgarsvæðinu.

21. maí 2023 kl. 11:13

Sigmundur á Zoom

Einhverjir hafa væntanlega verið að velta fyrir sér hvar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sé. Hann er ekki í sjónvarpssal heldur í Helsinki í Finnlandi en tekur þátt í umræðunum með fjarfundarbúnaði. Sigmundur er semsagt á Zoom.

21. maí 2023 kl. 11:07

Enn hægt að bjarga efnahagsmálunum

„Fólk á að hugsa sinn gang ef það nær ekki árangri,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, þegar hún er spurð út í ummæli sín í Morgunblaðinu um helgina þar sem hún sagðist ætla að hætta ef Samfylkingin yrði ekki í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

Kristrún er síðan spurð út í efnahagsmálin sem hún segir að enn sé hægt að bjarga. Þau hefðu þó viljað sjá aðgerðir strax síðasta haust þegar verðbólga vofði yfir. Hún vilji sjá leigubremmsu, hækka takmörk á húsnæðisbætur sem geri þó lítið ef það er engin stjórn á leigumarkaðinum. „Og svo eru það auðvitað vaxtabæturnar“ enda lendi vaxtahækkanir ekki jafnt á fólki.

21. maí 2023 kl. 11:02

„Dapur vordagur“

Egill Helgason hittir naglann á höfuðið þegar hann tekur á móti sjónvarpsáhorfendum. Þetta er dapur vordagur, segir Egill og það má til sanns vegar færa. Þegar fréttamaður mætti til vinnu nú fyrir skömmu var 6 stiga hiti á mælinum í bílnum. Ólyginn sagði að von væri á fimm lægðum yfir landið næstu tíu daga.

21. maí 2023 kl. 11:01

Miklar breytingar á fylgi flokkanna

Fylgi flokka í þjóðarpúlsi Gallup.
RÚV / Sigurður K. Þórisson

Samfylkingin hefur í síðustu könnunum mælst stærsti flokkur landsins, með tæplega 28 prósent fylgi. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur á sama tíma dalað, hann mældist 39 prósent í síðustu könnun Gallups. Þetta mun eflaust bera á góma nú þegar styttist leiðtogaumræðurnar í Silfrinu.

21. maí 2023 kl. 10:53

Forystufólkið að koma sér fyrir

Komiði sæl. Stjórnmálafólkið er að koma sér fyrir í sjónvarpssal með þeim Sigríði Hagalín Björnsdóttur og Agli Helgasyni. Klukkan 11 hefst síðasti þáttur Silfursins í vetur og á dagskrá eru stjórnmálaumræður leiðtoga allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi.

Það eru:

  • Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki
  • Björn Levý Gunnarsson, Pírötum
  • Inga Sæland, Flokki fólksins
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn
  • Katrín Jakobsdóttir, Vinstri grænum
  • Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokknum
  • Kristrún Frostadóttir, Samfylkingunni
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki.

Hér ætlum við að greina frá því helsta sem gengur á í umræðunum. Hægt er að horfa á beina útsendingu frá umræðunum hér í Spilara RÚV.