Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Allt að 100 gráðu hiti mælist við veginn

Alma Ómarsdóttir

Aukinn jarðhiti hefur mælst við þjóðveginn á Hellisheiði, og nær sums staðar allt að hundrað gráðum. Vegagerðin telur ekki hættu á ferðum en fylgist náið með þróuninni. „Við höfum verið að mæla upp undir 70 gráður yfirborðshita í veghliðunum og upp undir 100 gráður hérna við vegbotninn,“ segir Birkir Hrafn Jóakimsson, forstöðumaður stoðdeildar mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar. Jarðhitans varð fyrst vart á miðvikudaginn. Samkvæmt mælingum hefur hitinn ekki náð upp á malbikað yfirborð vegarins. Ef það gerist gæti þurft að loka heiðinni um óákveðinn tíma.

Komið var upp hitamyndavél og boraðar holur fyrir hitamæla, ein milli akreina og tvær beggja vegna vegarstæðisins, svo hægt sé að fylgjast með þróuninni.

Ekki er talin hætta á ferðum en fólk er beðið um að stöðva ekki bíla sína á þessu svæði.