Afhenti bæjarstjóranum undirskriftir og vill hundagerði í Hrísey
Ungur Hríseyingur, sem vill fá hundagerði í Hrísey, mætti í ráðhúsið á Akureyri í dag með fjölda undirskrifta máli sínu til stuðnings. Bæjarstjórinn segir að málið verði skoðað með opnum huga.
Stefán Pétur Bragason og hundurinn hans Max-Gormur, fara ekki oft saman í Hríseyjarferjuna. Í dag áttu þeir þó sameiginlegt erindi til Akureyrar og voru búnir að bóka fund með bæjarstjóranum.
,,Ég vil fá hundagerði í Hrísey," segir Stefán. ,,Vegna þess að lausaganga hunda er bönnuð þar og þeir verða að fá eitthvað svæði til að vera lausir og fá að hlaupa um."
Stefán safnaði hátt í 60 undirskriftum í Hrísey, þessu til stuðnings, frá íbúum þar og eigendum sumarhúsa. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, tók þeim félögum vel þegar Stefán afhenti henni undirskriftirnar. Hún segir erindi hans verða skoðað með opnum huga.