Einhljóðaframburður heldur sínu striki en sá raddaði er á undanhaldi
Það er ýmislegt sem bendir til þess að raddaði framburðurinn sé að hverfa, sá vestfirski er nánast alveg horfinn, en skaftfellski einhljóðaframburðurinn er að styrkjast. Finnur Friðriksson dósent við Háskólann á Akureyri ræddi þetta í Samfélaginu.
Finnur ætlar ásamt Ásgrími Angantýssyni að hefja rannsókn á framburði fólks á Íslandi, hvernig fólk breytir framburði sínum og skoða viðhorf til ýmissa svæðisbundinna málýskna. Þeir hafa fengið styrk frá Rannís fyrir verkefnið. Tvisvar áður hafa stöður svæðisbundinna mállýskna á Íslandi verið kortlagðar og rannsókn Finns og Ásgríms á að vera samanburðarhæf við þær þannig að hægt verði að skoða þróun hljóðfræðilegs breytileika á Íslandi. Finnur segir ljóst að ýmislegt sé að breytast, sumir framburðir að deyja út en aðrir jafnvel að fæðast. Rætt var við Finn Friðriksson í Samfélaginu á Rás 1. Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan.