Vel gengur að útvega úkraínsku flóttafólki vinnu
Fjöldi útgefinna atvinnuleyfa til flóttafólks frá Úkraínu bendir til að ríflega 42 prósent þess sé þegar komið með vinnu, eða um 800 manns.
Um 1.900 úr hópi flóttafólksins eru á aldrinum 18 til 67 ára. Flest atvinnuleyfin eru fyrir störf við ræstingar eða í þvottahúsum, þá fyrir þjónustustörf á heimilum og veitingastöðum auk verka- og afgreiðslustarfa ýmis konar.
Flóttamannadeild Vinnumálastofnunar aðstoðar fólkið í atvinnuleit, býður upp á íslenskukennslu og samfélagsfræðslu auk annarra úrræða.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins, þar sem áréttað er að hluti hópsins sé nýkominn til landsins og að nokkurn tíma taki fyrir fólk að koma sér fyrir áður en atvinnuþátttaka hefst.
Ísland hefur tekið á móti tæplega 2.600 Úkraínumönnum frá því undir lok febrúar á seinasta ári, alls komu 500 hingað í mars og tvö hundruð að meðaltali í hverjum mánuði síðan.