Nýtti sanngirnisbætur til að hjálpa börnum
Líf Ólafs Halldórssonar gjörbreyttist þegar hann heimsótti Masaíland í Kenía í fyrsta sinn. Þar kynntist hann heimafólki sem rak heimili fyrir munaðarlaus börn, Ólafur sá að þar var verk að vinna og nú rekur hann heimili og skóla fyrir hátt í 40 börn í Homa Bay-sýslu, skammt frá Viktoríuvatni, undir merkjum samtakanna Björt sýn.
„Það er víst kallað köllun. Nú veit ég hvað köllun er. Það er svona rödd í hausnum á manni sem yfirgnæfir allar hinar og segir: þú skalt hundur heita ef þú gerir ekkert í því,“ segir Ólafur.
Ákvað að nýta féð til góðs
Þetta gerðist fyrir rúmum fimm árum, í kjölfar þess að Ólafur fékk sanngirnisbætur frá ríkinu vegna slæmrar meðferðar og ofbeldis sem hann sætti sem barn af hendi kennara og prests í Landakotsskóla. Hann ákvað að nýta það fé til góðs.
„Það er eiginlega stofninn að þessu. En síðan hefur komið úr óvæntum áttum aðstoð. Það byrjaði með vinum og vandamönnum, svo hefur þetta fengið svolitla athygli og það er mikið af einstaklingum sem ég þekki ekki neitt til sem hafa lagt inn og leggja inn mánaðarlega.“
Mörg barnanna sem búa á heimili Bjartrar sýnar voru skilin eftir á víðavangi. „Eiginlega flest. Í pappakössum og á ruslahaugum og slíkt. Þessi yngstu hafa komið til okkar í gegnum lögreglu og barnaverndaryfirvöld, misjafnlega illa haldin. Eldri börnin komu til mín í gegnum heimili sem ég aðstoðaði hérna í byrjun og síðan bara víða.“
Þrjóskari en andskotinn
Ólafur var lengst af togarasjómaður og segist hafa mátt reyna ýmislegt til sjós. Verkefnið sem hann fáist við núna, sé þó það mest krefjandi hingað til, mörg barnanna komi úr erfiðari aðstæðum en hann hefði getað ímyndað sér. „Það er oft á tíðum mjög erfitt. En ég er þrjóskari en andskotinn þannig að ég er ekkert að fara að leggja upp laupana sko. Ég er rétt að byrja.“