28. desember 2022 kl. 9:15
Innlendar fréttir

Fyrrverandi eigendur Brúneggja ætla að áfrýja dómi héraðsdóms

Bræðurnir Kristinn Gylfi og Björn Jónssynir, fyrrverandi eigendur Brúneggja ehf., ætla að áfrýja dómi héraðsdóms í máli þeirra gegn Ríkisútvarpinu og Matvælastofnun; Brúneggjamálinu svokallaða. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Ríkisútvarpið og MAST af öllum kröfum bræðranna fyrir jól. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Kastljós fjallaði árið 2016 um starfsemi Brúneggja og nokkrum mánuðum síðar varð fyrirtækið gjaldþrota. Meðal annars var greint frá ítrekuðum athugasemdum Matvælastofnunar við starfsemi Brúneggja, þar sem lýst er mjög slæmum aðstæðum á búum Brúneggja – vondum loftgæðum, miklum þrengslum og vondu ásigkomulagi varphæna. Þá kom fram í umfjöllun Kastljóss að starfsfólk Matvælastofnunar hefði um árabil talið að eggjaframleiðandinn Brúnegg blekkti neytendur með sölu á vistvænum eggjum fyrirtækisins.

Málatilbúnaður þeirra Kristins Gylfa og Björns byggði á því að umfjöllun RÚV hafi verið ómálefnaleg og Matvælastofnun hafi gengið of langt við heimildagjöf. Bæði RÚV og MAST væru sek um saknæma og ólögmæta háttsemi, og því skaðabótaskyld vegna gjaldþrots fyrirtækisins.

Dómurinn hafnaði þessum sjónarmiðum alfarið og sýknaði báðar stofnanirnar, eins og fyrr segir. Bræðrunum var jafnframt gert að greiða málskostnað beggja gagnaðila, alls átta milljónir króna.

Dómurinn taldi að það tjón sem Brúnegg varð fyrir, yrði ekki rekið til neins sem starfsmenn RÚV eða MAST gerðu. Frekar væri hægt að reka tjónið, gjaldþrot Brúneggja, til þess hvernig að starfseminni var staðið.

RÚV