Sveitarfélög geta beðið töluvert fjárhagstjón af stórhuga áformum sem ýtt hefur verið úr vör en koma aldrei til framkvæmda. Prófessor í hagfræði segir sveitarfélögin hafa nóg með sín skylduverkefni.
Tuttugu og níu þúsund fermetra kerskálar standa ónotaðir í Helguvík. Til stóð að þar yrði álver sem gæti framleitt þrjú hundruð þúsund tonn á ári. Fyrsta skóflustunga var tekin 2008 og átti verið að hefja starfsemi 2010. Dótturfélag Norðuráls átti húsin en félagið hefur verið lýst gjaldþrota. Skiptum á búi er ekki lokið. Kísilver þar rétt hjá var aðeins starfrækt í tíu mánuði eða þangað til Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina vegna mengunar. Arion-banki og fjárfestar töpuðu 22 milljörðum á því verkefni.
7500 fermetra verksmiðjuhús var reist á Rifi á Snæfellsnesi og þar átti að vera vatnsverksmiðja. Hún komst aldrei í gagnið og var lýst gjaldþrota fyrir sex árum. Fleiri dæmi eru um stórhuga áform sem ekki urðu að veruleika. Eins og olíuleit á Drekasvæðinu úti fyrir Austfjörðum og Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.
„Í hvert skipti sem svona verkefni fer í gang þarf sveitarfélagið að ráðast í töluverða undirbúningsvinnu og skipulagsvinnu. Og síðan að leggja í gatnagerð og allt sem tilheyrir. Þannig að það er töluverð fjárfesting fyrir sveitarfélög,“ segir Vífill Karlsson prófessor við viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst.
Þegar verkefni fara út um þúfur fær sveitarfélagið ekki tekjur á móti.
„Þar af leiðandi eru sveitarfélögin svolítið að draga stutta stráið í svona leik. Þannig að það er mjög alvarlegt, einkum og sér í lagi ef við hugsum til þess að mörg sveitarfélög eru upp við vegg nú þegar við að sinna svona skylduverkefnum,“ segir Vífill.
Þá verða sveitarfélög líka fyrir fórnarkostnaði eins og í Helguvík.
„Þarna er lóðin setin þessari verksmiðju og það gerist ekkert annað á meðan og mögulega hefur þetta áhrif á næstu lóðir í kring vegna þess að bæði íbúar og væntanlega sum fyrirtæki eru ekki tilbúin til að staðsetja sig nálægt verksmiðju eins og kísilveri,“ segir Vífill.
Vífill bendir á að í Danmörku hafi sú skylda verið lögð á fyririæki, til að mynda þau sem reisa vindmyllur, að setja til hliðar fjármuni ef rífa þarf byggingar.