Mörg handabönd einkenndu samningafund Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Hátt í 90 manns eru í samninganefnd Eflingar, sem er sögulegur fjöldi. Formaðurinn segist viss um að það skili miklum árangri.
80-90 manns í samninganefnd Eflingar
Kröfur Eflingar fóru ekki á milli mála þegar samninganefnd þeirra gekk fylktu liði á fund viðsemjenda í Samtökum atvinnulífsins. Krónutöluhækkun upp á 167 þúsund í skrefum til ársins 2025.
Fundurinn var haldinn hjá ríkissáttasemjara, þrátt fyrir að ekki sé búið að vísa deilunni þangað, meðal annars vegna þess að samninganefnd Eflingar er óvenjustór að þessu sinni. „Eflaust er þetta óvanalega stór samninganefnd sem er að mæta til viðræðna, hefðin í Eflingu er að vera með stóra samninganefnd, 80-90 manns. En svo eru það fáir sem mæta,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Samt sem áður mættu um þrjátíu manns frá Eflingu til fundar á móti þremur frá Samtökum atvinnulífsins. Fundarsalnum var því að þessu sinni stillt upp nánast eins og bíósal. Líklega hefur aldrei verið svo stór samninganefnd hjá einu félagi. BSRB var með sextíu manna samninganefnd fyrir nokkur félög árið 1984.
Sannfærð um árangur
Sólveig Anna segir að stór og breið samninganefnd hafi skilað góðum árangri á móti Reykjavíkurborg fyrir tveimur árum. „Ef við vinnum okkar kröfur með lýðræðislegum hætti, samferða í allri ákvarðanatöku, þá erum við sannfærð um það að þetta muni skila miklum árangri.“
Það var ærið verkefni fyrir framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að kveðja alla fundarmenn. Þetta var þriðji fundur Eflingar með Samtökum atvinnulífsins. VR og Starfsgreinasambandið hafa vísað deilunum til ríkissáttasemjara.
Stendur það til hjá Eflingu? „Því miður var þessi fundur núna, okkur miðar ekki áfram. Við auðvitað viljum ná árangri, við mætum í þessar viðræður til að ganga frá góðum kjarasamningi hratt og örugglega, við skulum sjá hverju fram vindur og hvernig gengur í næstu viku. Enn sem komið er höfum við ekki tekið ákvörðun um þetta.“