Eftir þriggja daga veikindi í september var Grettir Thor, fimm ára, kominn með leið á dótinu sínu, bókum og sjónvarpi. Hann tók því til sinna ráða og hóf framleiðslu á eigin barnaefni, sem er bara fyrir þau sem þora.
„Út af því að ég elska kattardýr“
Grettir Thor bjó til svokallaða Stop motion mynd með aðstoð mömmu sinnar, Þórhildar Stefánsdóttur. Myndin heitir Lilli tígur lendir í ævintýrum. En hvernig gerir maður svona mynd og hver gerir hvað?
„Hann býr til sögurnar og talar inn á svo hjálpumst við að við að hreyfa dýrin og þú stilltir leikmyndinni upp er það ekki?“ Spyr Þórhildur Stefánsdóttir mamma Grettis.
„Jú,“ segir Grettir. „Ég þarf bara að raða þeim fallega á borðið. Maður hefur alltaf einn á einum stað, svo færir maður og tekur mynd og svo færir maður og tekur aðra mynd.“
-Af hverju valdirðu þessi dýr? „Út af því að ég elska kattardýr.“
Dálítið hættuleg mynd og ekki fyrir alla
- Heldurðu að aðrir krakkar, þegar þeir eru búnir að sjá myndina þína, heldurðu að aðrir krakkar fari líka að gera svona myndir? „Já. Einn krakki í leikskólanum mínum sagði að hann ætlaði að búa til svona mynd nema hún er ekkert hættuleg. Hún er bara um gíraffa og hann týndist og er bara að leika sér í ævintýrinu sínu,“ segir Grettir.
Myndin hans er nefnilega dálítið hættuleg, eins og og hann kemst að orði. Lilli tígur kemst í hann krappann og myndin er bara fyrir fimm ára og eldri - og fjögurra ára ef þeir þora.
„Hann hoppar yfir sjódýr og mamma hans og pabbi deyja.“