Kristrún Frostadóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar með 94,6 prósentum atkvæða á landsfundi flokksins síðdegis. Kristrún var ein í framboði. Hún tekur við formennsku af Loga Einarssyni, sem hefur verið formaður frá 2016.
Kristrún segist þakklát flokknum fyrir dyggan stuðning og sagði mikilvægt að fá gott umboð til að geta ráðist í breytingar.
„Ég hef verið skýr á því hvað ég vil sjá flokkinn gera á næstu misserum svo við séum í góðri stöðu til að stjórna landinu þegar að því kemur,“ sagði Kristrún í samtali við Höskuld Kára Schram fréttamann stuttu eftir kjör.
Breytingarnar sem Kristrún talar um snúa að því að „hverfa aftur til grunngilda jafnaðarstefnunnar“, eins og Kristrún hefur ítrekað nefnt. Kristrún hefur sagt flokkinn þurfa að ná tengingu við hinn venjulega launamann, sagt að breikka þurfi ásýnd hans og sameinast um kjarnamál.
Samkvæmt heimildum fréttastofu má búast við að dregið verði úr áherslu flokksins á bæði Evrópusambandsumsókn og nýja stjórnarskrá, án þess þó að formlegra stefnubreytinga sé að vænta. Þetta ætti að skýrast betur á morgun, laugardag, þegar Kristrún flytur stefnuræðu sína á landsfundinum.
„Í grunninn snýst þetta um að setja nýjar áherslur og fara aftur í velferðarmál, hvernig fólk býr og kemst milli staða,“ segir Kristrún og bætir við að opna þurfi flokkinn og fá fólk með í verkefnið.
Sjálfkjörið í formann og varaformann
Sjálfkjörið var í formannskjörinu sem fyrr segir, og það sama er uppi á teningnum í kjöri varaformanns. Þar er Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og fyrrverandi ráðherra, einn í kjöri.
Kristrún er ekki á því að það sé endilega áhyggjuefni fyrir flokkinn. „Ég held að það sé til marks um að það sé sátt og samstaða um þessa nýju forystu sem er að teiknast upp.“
Útfararstjórinn kveður
Logi Einarsson kveður formannsstólinn eftir sex ár í starfi. Hann ætlar þó að sitja áfram á þingi. Í kveðjuræðu sinni leit Logi yfir farinn veg og sagðist nokkuð sáttur.
Hann rifjaði upp að þegar hann tók við formennsku haustið 2016 hefði hann verið kallaður „útfararstjóri Samfylkingarinnar“. Oddný Harðardóttir hefði sagt af sér formennsku eftir afhroð flokksins í kosningum, þar sem Samfylkingin fékk 5,7% atkvæða og þrjá þingmenn kjörna.
„Það spáir enginn flokknum dauða nú, heldur snýst gagnrýnin fyrst og fremst um það að við séum ekki stærri. Það er heilbrigt og eðlilegt,“ sagði Logi. Samfylkingin fékk 9,9 prósent atkvæða í kosningunum í haust.
Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu sagði að Guðmundur Árni Stefánsson væri bæjarfulltrúi í Kópavogi. Hið rétta er að hann er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.