Rússneska sendiráðið á Íslandi krefur Fréttablaðið um afsökunarbeiðni eftir að blaðið birti fréttaljósmynd með viðtali, þar sem maður sést traðka á rússneska fánanum. Blaðamaður, sem veitti Fréttablaðinu viðtalið, segist ekki óttast að Rússar beini spjótum sínum að honum.
Valur Gunnarsson blaðamaður hefur verið í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, síðasta eina og hálfa mánuðinn. Í gær birti Fréttablaðið viðtal við hann þar sem hann lýsti aðstæðum í borginni og daglegu lífi fólks. Ein fréttaljósmyndin sem birt var með viðtalinu sýnir Úkraínumenn nota rússneska fánan sem dyramottu.
Í kjölfarið sendi rússneska sendiráðið á Íslandi bréf á ritstjóra Fréttablaðsins, Sigmund Erni Rúnarsson, þar sem krafist var afsökunarbeiðni. Valur segir að honum hafi ekki borist neinar orðsendingar frá rússneskum yfirvöldum né heldur óttist hann afskipti Rússa af honum og hans störfum í Kænugarði.
„Ég held nú að þeir fari ekkert að miða mig neitt sérstaklega út hér, eða hafi yfir höfuð burði til þess. Það sem ég hins vegar miklu meiri áhyggjur af varðandi rússneska sendiráðið á Íslandi er að þeir njósna svo mikið um eigin þegna. Og ef þegnar þeirra gagnrýna Pútín Rússlandsforseta þá eiga þeir í miklum erfiðleikum með að fá vegabréf sín undirrituð sem verður þá til þess að þeim er vísað frá Íslandi. Þá skýtur ansi skökku við að Rússar geti verið reknir frá Íslandi og aftur til Rússlands í fangelsi fyrir að gagnrýna Pútín," segir Valur við fréttastofu.
Fréttablaðið greindi frá því á vef sínum í morgun að hótanir hefðu borist þeim um að netárás yrði gerð ef rússneska sendiráðinu bærist ekki afsökunabeiðni. Við því var ekki orðið, miðað við það sem segir í fréttum miðilsins sjálfs, og nú í morgun var þar greint frá því að netárásir væru hafnar. Í frétt á vef blaðsins var haft eftir upplýsingafulltrúa sendiráðsins að það hefði ekkert með meinta árás að gera.