Það getur skipt sköpum fyrir framtíð barns að bregðast rétt við ummerkjum um ofbeldi, segir leikskólakennari sem sérhæfir sig í forvörnum gegn ofbeldi og vanrækslu í garð barna. Ráðgjafastofan Samtalið - Fræðsla ekki hræðsla heldur námskeið fyrir leikskóla- og grunnskólakennara.

Arnrún Magnúsdóttir leikskólakennari kallar námskeiðin skyndihjálparnámskeið þar sem hún kennir kennurum að greina og bregðast við fyrstu merkjum um ofbeldi gegn börnum. 

Arnrún er verkefnastjóri í leikskólanum Brákarborg í Reykjavík og heldur auk þess námskeið hjá ráðgjafastofunni Samtalið - Fræðsla ekki hræðsla. Á síðustu tveimur árum leituðu til hennar allt að 10 fjölskyldur í mánuði og hún hefur heimsótt um það bil 50 leikskóla.

„Það hefur verið mikið haft samband við mig, bæði einstaklingar sem starfa í umönnun barna, eins foreldrar sem eru óöruggir, því að ofbeldi getur líka átt sér stað milli systkina, vinir barnanna og svo framvegis. Það er kannski ekki endilega gert af því að þau ætla sér það, þetta er náttúrulega líf okkar,“ segir hún.

Arnrún byrjaði að þróa Samtalið - Fræðsla ekki hræðsla árið 2000 og í áranna rás varð það að alhliða ráðgjöf. Í maí fékk verkefnið viðurkenningu og var tilnefnt til foreldraverðlauna. 

„Áhugi á málefninu kviknaði hjá mér þegar ég var níu ára stelpa í sveitaskóla og vinkona mín treysti mér fyrir því að hún var beitt ofbeldi. Það fékk gríðalega á mig, miklu meira en ég áttaði mig á. Ég er enn að átta mig á því hvernig alls konar svona skilaboð geta búið í hjartanu. Þar af leiðandi hefur lífið fært mér fullt af nýjum verkefnum sem við fjölskylda þurftum að leysa úr,“ segir hún.

Þörf fyrir ráðgjöf fyrir foreldra, kennara og alla sem koma að uppvexti barna fer sífellt vaxandi, að sögn Arnrúnar. Grunnskólar, leikskólar og frístundaheimili bóka námskeiðin hennar á eins til tveggja ára fresti. Á námskeiðunum er fjallað um alls kyns ofbeldi gegn börnum, kynbundið, kynferðislegt sem og vanrækslu.

„Það er ótrúlega margt sem við heyrum og sjáum og verðum vitni að í samskiptum barna og hvað þau treysta okkur fyrir og það er afar mikilvægt að vera þá tilbúin til þess að taka á móti því og vera fordómalaus og geta í raun haft svör fyrir þau og hrósa þeim, og starfsfólkið brenni ekki inni með eitthvað sem að þau eru hrædd við,“ segir hún.

Arnrún hefur gagnrýnt að menntun fagstétta kennara beinist ekki nægilega mikið að forvörnum. Ekki sé nóg rætt um leiðir til að fyrirbyggja ofbeldi. Hún segir nógu marga sérfræðinga á landinu en tengslin á milli þeirra séu ekki nógu góð. Hún er samt mjög bjartsýn á starf nýs sérstaks forvarnarfulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem vinnur að því að innleiða þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.