Baráttukonan Arna Magnea Danks hefur tvisvar sinnum stigið út úr skápnum sem trans kona. Fyrra skiptið var árið 2003 en eftir að brotið var á henni - og hún sögð hafa verið að biðja um það, hrökklaðist hún aftur inn í skápinn. Árið 2018 hafði hún um tvennt að velja, vera hún sjálf eða lenda í „slysi“.
Baráttukonan Arna Magnea Danks flutti ræðu á samstöðufundi hinsegin fólks sem haldinn var á Austurvelli á dögunum vegna morðanna hræðilegu í Osló. Arna ræddi um erfiða lífsreynslu og skilningsleysi samfélags sem stöðugt ýtti henni aftur inn í skápinn.
Ein ástarsprengja
„Þetta var svo fallegt því þarna var þverskurðurinn á hinsegin samfélaginu,“ sagði Arna Magnea um samstöðufundinn í samtali við Felix Bergsson í Fram og til baka á Rás 2. Hópurinn sé fjölbreyttur og flókinn en þrátt fyrir að vera ekki alltaf sammála þá segir Arna Magnea að þau séu samhent í að láta væntumþykjuna gagnvart hvert öðru og samfélaginu þeirra ráða för.
„Það sást á þessum fundi, þetta var ein ástarsprengja,“ segir Arna Magnea sem segist hafa fundið hvernig allt hinsegin samfélagið stendur saman.
Vissi ekki hvernig hún væri öðruvísi
Arna Magnea segist hafa barist við að komast út úr skápnum sem trans kona nánast alla sína ævi. Hún ólst upp að hluta til í Reykjavík en einnig í Sandgerði og átti sér ekki sterkt land að baki og fékk lítinn stuðning við að vera öðruvísi. „Ég ólst upp við að fá að vita það að ég væri skrítin og öðruvísi. En ég vissi ekki hvernig, ég hafði ekki orðaforðann eða upplýsingarnar,“ segir hún.
„Í mínum skringilegheitum og kvenleika var bara lesið að ég væri þá hommi. Það var alveg nógu slæmt í þessu umhverfi sem ég ólst upp við,“ segir Arna Magnea. „Ég fékk að heyra það að maður væri á leiðinni til helvítis og það átti að berja úr manni hommann.“
Lærði að vera strákur
Arna Magnea var sett í fóstur til afabræðra sinna og konu annars þeirra sem að sögn voru virkilega gott fólk. „En því miður fór maður alltaf heim þar sem ástandið var kannski ekki jafn gott. Þar sem átti að laga mann á einn eða annan hátt.“
„Ég var í rauninni alltaf að berjast við þetta,“ segir Arna Magnea en þegar hún var að verða tólf ára réðust á hana átta strákar og brutu á henni kynferðislega. „Eftir þetta ákvað ég að læra að vera strákur og fór að stúdera hvað það þýddi,“ segir Arna Magnea sem þá fór að bera sig og haga sér öðruvísi. „Þarna var ég í fyrsta skipti á ævinni svona method leikari.“
Hún reyndi að gera varir sínar þynnri og augun minni og þóttist hafa áhuga á alls kyns hlutum sem heilluðu hana engan veginn. „Ég er algjör kuldaskræfa, verður kalt þegar það er spáð köldu veðri. En ég keyrði mótorhjól í þrjátíu ár í alls konar veðri,“ segir hún. „Það er alls konar svona þar sem ég var að rembast við að fela kvenleikann á bak við karlmennskuna.“ Þetta hafi verið hennar aðferð til að lifa af.
Gagnkynhneigðir leikarar fá frekar hinsegin hlutverk
Árið 1997, þá 27 ára gömul, fór Arna Magnea til London í leiklistarnám þar sem hún kom fyrst út sem tvíkynhneigð. „Þar er ég að uppgötva hvað ég er og nota hvert einasta tækifæri sem ég gat til að troða mér í einhver drottningarföt,“ segir hún.
Álagið í skólanum var gríðarlega mikið og óttaðist hún í sífellu að vera ekki nógu góð. „Það stuðlaði að því að maður var ekki tilbúinn að koma fullkomlega út.“ Einnig hafði hún áhyggjur af því að fá ekki hlutverk því samkynhneigðir vinir hennar kvörtuðu undan því að vera hafnað sökum þess að vera of „gay“. Jafnvel þó svo að persónurnar væru skrifaðar hinsegin þá fengu gagnkynhneigðir leikarar hlutverkin.
„Og allir að hrósa þeim fyrir hvað þeir væru hugrakkir að leika samkynhneigða á meðan samkynhneigðir leikarar voru ekki að fá neitt að gera.“
Gafst upp á að bíða eftir næsta lífi
Arna Magnea kom fyrst út úr skápnum sem trans kona árið 2003 í Bretlandi, þá sem Maggie Danks. „Svo hrökklast ég inn í skápinn aftur 2005 eftir að hafa lent í nauðgun,“ bætir hún við. Lögreglan hvorki hlustaði á, né trúði frásögn hennar og sagði að vegna þess að hún væri trans kona hefði hún verið að biðja um þetta. Þegar hún kom aftur til Íslands var hún sögð þunglynd og með ranghugmyndir. „Það var bara dælt í mig þunglyndislyfjum,“ segir hún.
Árið 2005 átti hún von á sínu fyrsta barni og hugsaði þá með sér að nú ætti hún von á barni og þyrfti því að troða þessu aftur inn í skápinn og vera „hann“. Hún hafi hugsað með sér að hún fengi bara að „fæðast rétt“ í næsta lífi og rifjar upp hve fáránlegur þessi hugsunarháttur hafi verið. „Svo bara gafst ég upp á að bíða eftir næsta lífi.“
Ætlaði að lenda í slysi
Arna Magnea gifti sig og eignaðist tvo aðra stráka þáverandi konu sinni. „Það var yndislegt samband og við erum mjög góðir samstarfsaðilar í barnauppeldi í dag. Strákarnir kalla okkur mömmu og Örnu mömmu,“ segir hún og bætir við að þetta hafi verið mikil baráttu ár.
„Það var ekki fyrr en árið 2018, þegar ég var komin á endastöð og ætlaði bara að lenda í slysi,“ segir Arna Magnea. Þá hafi hún verið búin að skipuleggja slys og ganga frá erfðaskrá og öðrum lausum endum. „Ég hafði þetta val og í rauninni eina val; að vera annað hvort ég sjálf og vera þá eins góð mamma og ég gæti verið fyrir strákana mína eða að ég lenti í slysi og þeir ættu þá minninguna um „pabba“.“
„Ljóðin urðu mitt haldreipi“
Hún valdi fyrri kostinn og starfar í dag sem kennari barna af erlendum uppruna í Mýrarhúsaskóla. „Það er mjög gefandi og þar er ég enn og aftur að vinna með minnihlutahóp,“ segir Arna Magnea sem áður vann sem leiklistarkennari og við fræðslustörf.
Á samstöðufundinum flutti Arna Magnea ljóð sem hún orti og tileinkaði öllum systkinum sínum í hinsegin samfélaginu. Hún byrjaði snemma að yrkja ljóð og segir það sprottið frá því þegar hún var alltaf að fela stelpuna sem bjó undir niðri. Hún orti þá ljóð um konur sem skriðu öskrandi upp úr hafinu og fleira í þeim dúr. „Ljóðin urðu kannski mínar dagbækur og mitt haldreipi í gegnum tíðina,“ segir hún.
Rætt var við Örnu Magneu Danks í Fram og til baka á Rás 2. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að ofan.