Hópur hinsegin unglinga í Reykjavík segist verða fyrir aðkasti daglega, sem á meðal annars rætur sínar að rekja til samfélagsmiðilsins TikTok. Þau segjast jafnvel forðast að fara ein út úr húsi. Foreldrar þeirra lifa í stöðugum ótta og biðla til annarra foreldra að fræða börn sín um skaðsemi eineltis og áreitni.
„Þú getur varla farið neitt án þess að það sé gelt á þig“
Þetta er náinn og þéttur vinahópur. Þau eru fjórtán til fimmtán ára gömul, búa í Reykjavík og eiga það sameiginlegt að vera hinsegin á einn eða annan hátt. Síðasta árið eða svo hafa þau orðið fyrir auknu aðkasti vegna þess. Þau hafa verið elt uppi af stórum hópum, þau eru grýtt og í verstu tilfellum hvött til að skaða sig eða svipta sig lífi. Þá hefur borið á því undanfarið að gelt sé að þeim, nánast daglega og hvert sem þau fara.
„Þetta er bara að gerast alls staðar; í Grafarvoginum, Kópavoginum, Mosó held ég líka,“ segir Dagbjört Heiða Sigfúsdóttir.
„Sumir fara líka í gegnum verra. Einu sinni var steinum kastað í okkur og það gerist við aðra mjög oft. Við vorum líka elt í hálftíma og svona,“ bætir Iðunn Birna Þórisdóttir við.
„Verið að segja að við séum ekki manneskjur“
Þau verða aðallega fyrir aðkasti frá öðrum unglingum eða yngri krökkum og litlu skiptir hvar þau eru.
„Alls staðar, þetta er bara alls staðar. Þú getur varla farið neitt án þess að það er gelt á þig eða kallað þig emo eða hvað sem er,“ segir Alex Bergmann Einarsson.
- Vitiði eitthvað af hverju þetta er gert? „Þetta er einfaldlega áreitni gegn hinsegin fólki eða fólki sem lítur ekki venjulega út,“ svarar Sólbjartur.
-Af hverju haldiði að það sé? „Ég veit það ekki. Kannski eitthvað í tengslum við samfélagsmiðla.“
„Þetta byrjaði á TikTok og þetta er til að dehumanizea okkur: segja að við séum ekki manneskjur,“ segir Iðunn.
„Fólk hefur líka verið að taka myndir af okkur þannig að við höfum örugglega endað einhvers staðar á samfélagsmiðlum,“ bætir Dagbjört við.
Geltið á rætur að rekja til TikTok
Arna Hrund Arnardóttir er móðir Iðunnar. Hún segir að ástandið hafi aldrei verið eins slæmt og nú og hefur áhyggjur af þróun mála.
„Þetta er eitthvað trend sem var á TikTok. Þetta byrjaði á því að það var verið að gelta að transkonum til að ýja að því að þær séu ekki mennskar, að þær séu bara hundar því þær tilheyra ekki staðlaðri fegurðarímynd. Krakkarnir eru að pikka þetta upp án þess að vita hvað þetta þýðir og hvaða áhrif þetta hefur á einstaklinginn sem verður fyrir því,“ segir Arna.
Einar Bergmann Sveinsson , faðir Alexar, tekur undir þetta.
„Síðasta árið hefur þetta verið sérstaklega slæmt og við höfum verið að upplifa það undanfarið að þau eru orðin þreytt. Þeim finnst þetta mjög lýjandi að þetta sé endurtekið og reglubundið. Endurtekin áreitni veldur náttúrulega skaða og hvernig þeim líður er náttúrulega mjög erfitt fyrir þau.“
- Hvaða áhrif hefur þetta haft á ykkar börn?
„Hún verður kvíðin stundum,“ segir Arna Hrund. „Hún verður oft svona pirruð og óþolinmóð gagnvart sjálfri sér og öðrum og fer líka að líta neikvæðum augum á sjálfa sig. Á tímabili var hún að stunda sjálfskaða til þess að reyna að losa sig við þessa tilfinningar. Í rauninni hefur þetta bara neikvæð áhrif á sjálfsmyndina.“
„Þetta endar alltaf með þunglyndi eða svoleiðis og þau eru þyngri einstaklingar fyrir vikið. Þau eru sár og jafnvel reið og annað og skilja kannski ekki af hverju þetta er og af hverju þau verða fyrir áreiti. Þetta er bara ósanngjarnt,“ segir Einar Bergmann.
„Stundum langar mig bara ekki út“
Krakkarnir eru orðnir þreyttir og segjast varla getað farið út úr húsi án þess að verða fyrir einhvers konar aðkasti.
„Manni líður einfaldlega bara eins og það hafi verið brotið á manni. Þetta er bara áreitni, þetta er bara hræðilegt. Þu ert orðinn þreyttur á þessu og þetta gerir þig rosalega þunglyndan þegar þetta gerist yfir langan tíma,“ segir Sólbjartur.
„Ég er mjög mikil útimanneskja en ég er bara hættur að nenna að fara út. Stundum þegar ég er að fara í strætó hugsa ég bara: plís ekki gelta á mig, plís ekki gelta á mig, því ég bara nenni þessu ekki lengur,“ bætir Alex við.
Dagbjört tekur í sama streng. „Þetta hefur mjög mikil áhrif á okkur og okkur líður ekki vel. Stundum langar mig bara ekki að fara út út af þessu og mér líður ekki vel úti ein því fólk eltir mig, kallar mig emo og geltir á mig. Þannig þetta hefur bara rosalega mikil áhrif á mig.“
Áreitnin sem hópurinn hefur orðið fyrir er gróf og versnar með hverjum deginum. Vinur þeirra, sem orðið hafði fyrir miklu aðkasti, svipti sig lífi í fyrra. Síðasta árið hefur vinahópurinn unnið úr því áfalli með með hjálp Hinsegin Félagsmiðstöðvar Samtakanna 78' og fleiri samtökum.
„Áreitnin hefur gert það að verkum að vinur okkar ákvað að taka sitt eigið líf í fyrra og það hefur haft mikil áhrif á okkur. Bara hvað hann gerði og það sem við höfum að vinna úr er að áreitnin hafði mjög mikið að segja um þetta,“ segir Sólbjartur.
„Það var verið að segja okkur að drepa okkur, elta okkur endalaust, segja okkur að hengja okkur og drepa okkur. Einu sinni vorum við úti og fimmtán krakkar eltu okkur og sögðu okkur að hengja okkur. Vinur minn var með band fyrir belti og einhver sagði: hengdu þig í því, nenniði að live streama því. Hengdu þig!“
Sár og svekkt út í samfélagið
Foreldrar krakkanna halda hópinn og fylgjast vel með þeim, láta vita ef einhverjum líður illa og grípa inn í ef þarf. Þau hafa áhyggjur af börnum sínum og segja að vináttan þeirra og Hinsegin félagsmiðstöðin hafi bjargað lífi þeirra.
- Hvers konar tilfinningar vekur þetta hjá ykkur foreldrunum?
„Áhyggjur, ótti. Auðvitað ákveðin sorg líka í því að vilja að barnið geti verið það sem það er áhyggjulaust en geta það ekki því samfélagið sé ekki tilbúið til að taka því,“ segir Arna Hrönn.
„Maður er sár og svekktur út í samfélagið og út í það hvernig áreiti þau verða fyrir vegna þess að mér finnst að við eigum að geta verið við sem einstaklingar eins og við erum og njóta okkur sem slík,“ segir Einar Bergmann.
Skýr skilaboð: „Bara ekki gera þetta“
Hópurinn er sammála um að auka þurfi fræðslu. Ábyrgðin sé foreldranna sem eigi og þurfi að fræða börn sín og skaðsemi áreitnis og eineltis.
„Bara kenna krakkanum þínum að ekki gera þetta. Hversu mikið þetta getur gert manneskju. Þetta er hræðilegt og það þarf einfaldlega að kenna þetta í skólum og bara kenna þetta fyrir alla. Fullorðna líka, “ segir Sólbjartur.
Dagbjört tekur undir það. „Fólk á að tala við krakkana sína um þetta. Þetta er ekki rétt. Ég veit ekki hvort að skólinn geti gert mikið en foreldrar geta gert helling.“
„Líka bara láta þau vita hvað þetta þýðir og hvað er í alvörunni í gangi,“ bætir Iðunn við.
„Það eru foreldrarnir sem bera ábyrgð á því að fræða börnin sín þvi þetta er samfélagslegt og það er lika foreldranna að fylgjast með samfélagsmiðlum barnanna sinna,“ segir Arna, móðir Iðunnar.
Skilaboð krakkanna eru skýr. „Þetta getur haft dauðaafleiðingar. Bara gerðu betur. Þú getur gert betur. Bara ekki gera þetta. Þetta hefur mjög mikil áhrif á fólk. Bara hættu þessu. “
Við minnum á að leita má til Rauða krossins allan sólarhringinn, í hjálparsíma þeirra eða á netspjalli.
Hjálparsími Rauða krossins:1717
Hjálparsími Píeta samtakanna: 552-2218
Hinsegin Félagsmiðstöðin á Instagram: hinseginfelagsmidstodins79
Samtökin '78: 552-7878