Smurbrauð að dönskum sið er í grunninn bara brauð með einhverju ofan á. Rækjur, egg, sítrónumajónes og vel valdar jurtir eru settar ofan á litla brauðsneið en útkoman getur orðið stórfengleg. Þessu og fleiru kynntist Dóri DNA í fjórða þætti Veislunnar.

Í þættinum á sunnudag blésu Dóri og Gunnar Karl Gíslason meistarakokkur til veislu á Suðurlandi. Nú hafa þeir því haldið veislu í Skagafirði, á Borgarfirði eystra, Flateyri og svo Suðurlandi. 

Í hverri veislu nota þeir hráefni úr nálægri náttúru og kynnast matarmenningu í hverjum landsfjórðungi fyrir sig. Í síðasta þætti var haldin veisla í Trausholtshólma, þar sem nýveiddur lax úr Þjórsá var á boðstólum. Í Traustholtshólma koma mörg af frægustu fyrirmennum heims til þess að slaka á í íslenskri náttúru og Hákon Kjalar landeigandi kann sögur af margri stórstjörnunni. 

„Gordon Ramsey var hérna. Kunni ekkert að slægja fisk maður,“ segir Hákon digurbarkarlega við Dóra á meðan hann sjálfur ristir nýveiddan lax á hol við bakka Þjórsár. 

En Dóri og Gunnar Karl eru víðförlari en svo. Þeir komu einnig við í Hveragerði, á Selfossi, í Skálholti og víðar. Í Hveragerði fengu þeir sér hverabruggaðan bjór og pítsu með söl, á Selfossi heimsóttu þeir nýja miðbæinn og fengu sér samloku með rib-eye, í Skálholti fengu þeir svo að smakka kalda njólasúpu og eftirrétt með villtum blómum og gerjuðum bláberjum. Michelin-gæðin eru víða!

Það var svo rétt fyrir utan Hveragerði þar sem þeir félagar fengu glænýjan íslenskan snafs, sem bragðbættur er með íslensum jurtum. Þeir Jakob og Guðmundur bruggarar tóku vel á móti Dóra og Gunnari Karli og gáfu þeim laxatartar með dillsnafs. 

„Nákvæmlega. Það þarf ekkert meira,“ sagði Gunnar Karl um matseld þeirra Jakobs og Guðmundar. Ekki amalegur dómur þar. 

Sjá má brot úr síðasta þætti hér að ofan en hér má nálgast fjórða þátt Veislunnar í heild sinni.