Sveitarstjórnarkosningarnar 2022 fara á spjöld sögunnar vegna mikillar sveiflu til Framsóknarflokksins á landsvísu og fyrir versta gengi Sjálfstæðismanna í borginni til þessa
Framsóknarflokkurinn tvöfaldar fylgi sitt á landsvísu frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórnarmönnum Framsóknar fjölgar um 22 frá 2018 og eru þeir nú 67. Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Samfylkingin og Viðreisn tapa sveitarstjórnarsætum. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi á landsvísu en er þó með flesta sveitarstjórnarfulltrúa eða 110.
Vinstri græn eru með níu sveitarstjórnarmenn á landsvísu
Samfylkingin er með 26
Miðflokkurinn er með fimm menn
Píratar eru með fjóra menn
Sósíalistaflokkurinn er með tvo menn
Flokkur fólksins er með tvo menn
Viðreisn er með fimm sveitarstjórnarmennMisjafnt er hvort flokkarnir bjóða fram í eigin nafni eða í samstarfi við aðra.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks kveðst hafa viljað betri útkomu í borginni.
„Ef þú spyrðir mig vildum við hafa meira fylgi í borginni já það er alveg örugglega þannig að við erum öll sammála um það að við myndum gjarnan vilja hafa meira fylgi. En maður á ekki að vera svo drambsfullur þegar að maður sigrar kosningarnar með flest atkvæðin að þetta sé allt ómögulegt.“
„Líturðu svo á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sigrað í þessum kosningum?“ „Nei ég er bara að segja að við erum stærsti flokkurinn í Reykjavík en í könnunum fyrir nokkrum dögum síðan var mér sagt að við yrðum þriðji stærsti flokkurinn og að Píratar yrðu stærri en Sjálfstæðisflokkkurinn og það er bara algjört rugl og er allt annað en þessar tölur sýna.“
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir Vinstri græn þurfa að byggja upp á sveitarstjórnarstiginu. „Niðurstöðurnar eru náttúrulega þær að við erum að fjölga okkar fulltrúum en auðviðtað er það svo að við hefðum viljað uppskera meira hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem við erum með einn fulltrúa í Reykjavík. Höldum okkar fulltrúa þar. Náum ekki inn fulltrúum í Kópavogi og Hafnarfirði sem er það sama og gerðist fyrir fjórum árum og erum með svo fulltrúa í Garðabæ þar sem við vorum þátttakendur í blönduðu framboði og missum fulltrúa í Mosfellsbæ.“ „Er ríkisstjórnarsamstarfið að koma niður á þínum flokki í sveitarstjórnarkosningum?“ „Það finnst mér ekki vera sú ályktun sem ég get dregið í ljósi þess að við kusum hér til þings fyrir nokkrum mánuðum. Þar gekk okkur mjög vel.“
Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar.
„Það hlýtur að vera skellur að meirihlutinn er fallinn í borginni?“ „Já ég held hins vegar að það verði að horfa á það í því ljósi að verkefni sem að tekur kannski áratugi og er búið að vera í gangi núna í tólf ár það er mjög mikið þolinmæðisverk og var alveg viðbúið að það yrði ekki alltaf þakklátt.“
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins er að vonum ánægðum með stökk Framsóknar í kosningunum.
„Liðsheildin er sterk og hið augljósa að fólkið í landinu kýs að svona fylkja sér á bak við þá stefnu sem við stöndum fyrir sem að er samvinna og klárlega miðjustefna öfgalaus.
Í Reykjavík er niðiurstaðan klárlega ákall um breytingar. Annars staðar er kannski ákall um að gera betri bæ enn betri.“