Hollenskir grunnskólanemendur heimsækja nú jafnaldra sína í Hrísey til að ræða þær áskoranir sem eyjasamfélög standa frammi fyrir. Umhverfismálin eru þeim sérstaklega hugleikin. 

Málefni eyjanna þeirra rædd

Heimsóknin er hluti Erasmus plús verkefnis þar sem eyjaskólar víðsvegar um Evrópu ræða málefni sem snerta framtíð eyjanna þeirra. Háskólastofnanir landanna koma að þróun verkefnisins og voru fulltrúar þeirra mættir til Hríseyjar til að fylgjast með.

Hermína Gunnþórsson, prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri er ein þeirra sem kom að verkefninu.  „Við í rauninni vinnum með nemendum og kennurum að því að móta þessi verkefni. Þetta er ótrúlega skemmtilegt tækifæri fyrir okkur til þess að vinna með grunnskólum í þessum litlu eyjasamfélögum.“

Markmiðið er að veita nemendum í einangruðum og fámennum skólum metnaðarfull námstæki til að skoða málefni sem skipta samfélög þeirra máli.

Unnið saman síðustu 8 vikur

Þrettán hollenskir nemendur auk þriggja kennara dvelja í nokkra daga í Hrísey en þau hafa verið í samskiptum við Hríseyingana í gegnum netið síðustu vikur. 

Hrund Teitsdóttir, kennari í Hríseyjarskóla, hefur sinnt verkefninu með krökkunum. „Við höfum verið að vinna í 8 vikur á sitthvorri eyjunni að sömu verkefnunum og svo fengum við að hittast núna og vinna saman.“

Krakkarnir völdu sér sjálf viðfangsefnin; sjálfbærni í ferðamennsku og plast í hafi. Krakkarnir unnu saman í hópum og kynntu síðan niðurstöður sínar fyrir hvert öðru. 

„Fólkið er vandamálið“

Guðmar Gísli Þrastarson, nemandi í Grunnskólanum í Hrísey, segir plast í hafi vera mikilvægt viðfangsefni fyrir alla en kannski sérstaklega íbúa minni eyja. „Við erum svona að komast að niðurstöðum og finna lausnir hvað við getum mögulega gert til að sporna við þessum vanda. Fólkið er eiginlega vandamálið. Við þurfum að fá fólk til þess að hætta vera löt og byrja bara að gera eitthvað sjálft þegar kemur að umhverfismálum.“

Kaldara í Hrísey en á Vlieland

Eyjan Vlieland er ein frísnesku eyjanna. Þar búa um tíu sinnum fleiri en í Hrísey og veðurfar er talsvert frábrugðið því íslenska.

Þó að komið sé langt fram í maí féll snjór úr lofti á hollensku gestina. Danielle Postma er ein þeirra og henni þótti heldur kallt í Hrísey. „Það er mjög kallt hér og eyjan er mun minni en okkar. Vlieland er líka lítil en hér er allt enn minna.“

Það eru þó sitthvað sem eyjaskeggjar eiga sameiginlegt.

Mika Graas segir að þegar þú búir á eyju sérðu sama fólkið dag eftir dag. Þú kemst heldur ekkert í burtu. „Ef báturinn kemur ekki og þú ert á eyju þá kemstu ekki upp á land.“