Meistarakokkurinn Gunnar Karl Gíslason galdrar fram dýrindiskræsingar við frumstæðar aðstæður í matreiðsluþættinum Veislunni. Þeir Dóri DNA blésu til veislu á Flateyri í síðasta þætti. Þeir voru staddir í gamla lýsistankinum þar í bæ með fjall af smjöri til sósugerðar þegar Dóri spurði Gunnar Karl hvort hann væri nokkuð genginn af göflunum.

Fiskmeti var í algjöru aðalhlutverki hjá Dóra DNA og Gunnari Karli að þessu sinni eins og gjarnan er vestur á fjörðum. Þorskurinn sem var í aðalrétt var veiddur á sjóstöng aðeins örfáum klukkutímum áður en hann fór á grillið. 

„Bíddu, hvað ætlarðu að gera við allt þetta smjör, ertu orðinn ruglaður?“ spurði Dóri við undirbúning veislunnar. Gunnar var snöggur að svara því að það væri aldrei nóg af smjöri þegar gjöra ætti góða sósu. 

Í Veislunni fara þeir félagar vítt og breytt um landið, kynnast fólki og menningu áður en þeir halda síðan dýrindisveislu með hráefnum úr nærliggjandi sveitum. Og það var svo sannarlega veisla á Flateyri.

Veislur eru ekki bara matarboð

Þegar nota á aðeins þau hráefni sem guðsgræn og nálæg náttúran hefur upp á að bjóða er stundum eins og úr litlu sé að moða. Þegar Dóri viðraði til dæmis áhyggjur sínar af því hvað myndi eiginlega gerast ef matseldin fyrir veisluna mistækist, þá hélt Gunnar Karl stillingu og sagði: „Það getur mjög margt klikkað í kvöld en þar sem við erum komnir með klakabað og drykki í klakabaðið þá held ég að þetta sé bara svolítið gott sko.“

Og það er rétt hjá Gunnari Karli. Matur einn og sér ber ekki góða veislu. Það þarf einnig gott fólk, ljúfa tóna, fallegt veður og rétta stemningu og á Flateyri virðist vera lítið mál að tína þetta til.

Flateyringar og aðrir lögðust á eitt við að halda veisluna. Klakarnir í klakabaðið fengust úr nálægu frystihúsi, vinalegur veislugestur kom með ljósaseríur til þess að hengja upp yfir veisluborðinu, heimamaður spilaði ljúfa tóna á píanó og skapaði þannig rétta stemningu í veislunni og svona mætti lengi telja.

Sjá má brot úr þriðja þætti Veislunnar í spilaranum hér að ofan en þáttinn í heild sinni má nálgast hér.