Hildur Bergsdóttir er félagsráðgjafi og hefur sérhæft sig í náttúrumeðferð. Í henni nýtir hún ólíkar hliðar náttúrunnar til að hjálpa hverjum og einum eftir þörfum.
Hildur leiðbeinir m.a. krökkum úr Menntaskólanum á Egilsstöðum í námskeiðinu Fire and Ice sem er hluti af Erasmus + ungmennaskiptaverkefni. Hópurinn er á leið til Írlands í vor og tekur svo á móti írskum ungmennum og fer í vikulanga ferð um óbyggðir Austurlands í ágúst. Þegar Landinn hitti á hann var förinni hins vegar heitið inn í Selskóg.
„Forkrafan var eiginlega að þú þarft aðeins að vera að díla við eitthvað. Það borgar sig ekki að koma inn í þetta umvafinn bómull og finnast lífið hafa verið frábært og það er ekkert sem þig langar til að vinna með,“ segir Hildur. „Náttúrumeðferð er það að vinna markvisst með fólki og þeirra líðan úti í náttúrunni og nota náttúruna sem nokkurs konar co-þerapista. Náttúran í rauninni styður, umvefur og hjálpar til með þessa vinnu.“
Hópurinn er bersýnilega góður og stendur þétt saman. „Við getum alltaf talað við hvert annað og leitum til hvers annars þó að við séum ekkert endilega í þessum tímum,“ segir Sigdís Jóhannsdóttir. „Það var svona ekkert náttúrumeðferð sem ýtti mér út í þetta, síðan bara áttar maður sig á því að það skiptir svo miklu máli að hugsa um sig,“ segir Unnar Aðalsteinsson.