Ekki kemur til greina að gera framhald af kvikmyndinni Sódóma Reykjavík. Þetta segir Óskar Jónasson, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, en um þessar mundir eru þrjátíu ár síðan hún var frumsýnd. Óskar segist hafa orðið mjög hissa þegar myndin fékk framleiðslustyrk á sínum tíma, enda hafi hann sett „hvaða bull sem er“ í handritið. Tveir af aðalleikurunum í myndinni segjast hins vegar hafa fundið fyrir því á tökustað, að þau væru að skapa eitthvað einstakt og merkilegt.
Sódóma Reykjavík var frumsýnd í Regnboganum við Hverfisgötu í október árið 1992. Alls sáu um 40.000 manns myndina í kvikmyndahúsum en hún sló svo aftur í gegn nokkrum árum síðar, þegar útgáfa af henni á VHS-formi fylgdi með pylsupökkum í stórmörkuðum. Í dag er óhætt að segja að Sódóma sé svokölluð költ-mynd sem á sér ákveðinn stað í hugum margra Íslendinga.
Í tilefni af 30 ára afmælinu horfðu aðstandendur myndarinnar á hana á sérstakri partísýningu í Bíó Paradís í gærkvöldi, en hún er nú komin út á nýju stafrænu formi. Almennar sýningar á myndinni verða svo í Bíó Paradís í kvöld og um næstu helgi.
Rosalegt lokapartí
Menningin settist niður með þeim Óskari Jónassyni leikstjóra og leikurunum Sóleyju Elíasdóttur og Helga Björnssyni, sem fóru með stór hlutverk í myndinni.
Sóley segir að það hafi verið sérstaklega gaman að leika í myndinni, og að henni hlýni um hjartarætur þegar hún talar um hana. Helgi tekur undir það.
„Það var rosa stemning allt í kringum myndina. Í tilfinningalega minninu er það þannig,“ segir hann.
„En samt sko, ég man ekki eftir að það hafi verið eitthvað geðveikt mikið partí,“ skýtur Óskar inn í.
„Nei, við Bjössi [Björn Jörundur Friðbjörnsson] vorum alltaf að spila um helgar og vorum alltaf farnir. Þannig að við misstum af því. En lokapartíið, það var náttúrulega „legendary“. Heil vika í Cannes,“ segir Helgi.
„Það var geggjað,“ segir Sóley. „Og þess vegna er ég í svona hvítum jakkafötum og gulri skyrtu, af því að Helgi keypti sér hvít hörjakkaföt og Björn Jörundur keypti sér gul hörjakkaföt fyrir frumsýninguna á Cannes. Af því að myndin fór í keppnina á Cannes. Og tengdamóðir mín heitin gaf mér pening til þess að ég kæmist. Hún sagði: „Þú missir ekki af svona atburði.““
Gæfuspor
Sódóma Reykjavík er gamanmynd sem fjallar í stuttu máli um leit Axels að sjónvarpsfjarstýringu móður sinnar. Þessi leit hans dregur hann inn í undirheima Reykjavíkur, og reyndar Hafnarfjarðar líka, þar sem fjölmargar ógleymanlegar persónur verða á vegi hans.
Óskar skrifaði handritið á tveimur vikum, í sumarbústað í Skorradal.
Er það ekki rétt munað að þú varst búinn að sækja um styrki, hafðir verið hafnað og ákvaðst þá að skrifa ruglað kvikmyndahandrit og sjá hvort það næði í gegn?
„Jú, ég hafði einhverja draumóra um að fjármagna þetta bara eftir öðrum leiðum, og þar af leiðandi gæti ég sett hvaða bull sem er inn í handritið. Það var bara gæfuspor því það bull endaði allt í kvikmyndinni.“
Þannig að þú varðst hissa á að fá styrk fyrir þessari mynd?
„Já. Mér datt ekki í hug að þau myndu samþykkja þetta bull.“
„Það er bara Björn Jörundur“
Það er óhætt að segja að Sódóma sé mjög vel heppnuð mynd, það gengur einhvern veginn allt upp í henni, skynjuðuð þið á tökustað hvað þetta var að verða mikið meistaraverk?
„Já, manni fannst maður vera að taka þátt í einhverju sem væri alla vega eitthvað mjög skemmtilegt og jafnvel eitthvað merkilegt. Hópurinn var líka svo vel samsettur hjá Óskari og aðstandendum, það var einhvern veginn rétt fólk á öllum póstum í minninu,“ segir Helgi.
„Það var eitthvað einstakt. Það var svo mikil myndlist og þetta var smá teiknimyndafílingur og maður fann að það var eitthvað öðruvísi,“ bætir Sóley við.
Sóley þú gengur í gegnum ýmislegt, ert bundin og kefluð og skríður um loftræstistokka, var þetta ekkert erfitt?
„Þetta var mjög erfitt. Þetta voru mjög mikil átök. Og loftræstistokkurinn, öll kvöldin sem fóru í þær tökur.“
„Ég man samt að við settum alltaf Björn Jörund inn í loftræstistokkinn, þó að það sæist ekkert framan í hann,“ segir Óskar. „Betur menntaðir kvikmyndagerðarmenn hefðu notað stunt-mann. Líka þegar hann hrynur í gólfið. Það er bara Björn Jörundur.“
Þannig að hann sá um sín áhættuatriði sjálfur?
„Hann er dálítið eins og Tom Cruise,“ segir Helgi og hlær.
Stuttbuxur og lopapeysa
Af mörgum eftirminnilegum atriðum í myndinni minnast þau sérstaklega senunnar í íbúðinni hjá smáglæpamönnunum, sem átti að vera í Hafnarfirði, en var raunar tekin í íbúð við Laugaveginn.
„Þetta var lítil íbúð og svo voru 30 manns þarna inni í einhverju pínulitlu herbergi og ég var í lopapeysu og það var búið að setja, hvað var það aftur, plexígler fyrir gluggana út af hávaða,“ segir Helgi.
„Allt crew-ið í stuttbuxum og Helgi í lopapeysu,“ segir Óskar og hlær.
Tónlist leikur mjög stórt hlutverk í myndinni. Sem dæmi má nefna að eitthvert vinsælasta partílag Íslandssögunnar, Sódóma með Sálinni hans Jóns míns, var samið fyrir myndina. Þá leikur tónlist hljómsveitarinnar HAM risastórt hlutverk í Sódómu, auk þess sem meðlimir sveitarinnar leika í henni. Þekktasta atriði myndarinnar er án efa þegar Axel velur óheppilegan tímapunkt á tónleikum HAM, til þess að öskra heimilisfangið sitt.
„Það er faktískt fengið að láni frá vini mínum Stefáni Jónssyni sem gargaði þetta oft þegar ljósin komu upp á skemmtistöðum. Stuðlasel 14. Sem var bara brandari hjá honum og mér skilst að leigubílar hafi oft endað í Stuðlaseli 14 og vakið upp heimamenn sem voru ekki glaðir,“ rifjar Óskar upp. „En við gengum úr skugga um að Dúfnahólar 10 eru ekki til, þeir fara bara upp í 8. Þannig að leigubílar sem fara þangað fara fýluferð.“
En hverjum datt þetta í hug, að öskra þetta í hléinu í laginu?
„Ætli það hafi ekki verið ég,“ segir Óskar.
Þótt Dúfnahólar 10 sé kannski frægasti frasinn úr myndinni hafa fjölmargir aðrir frasar lifað með þjóðinni, til dæmis:
Maður gerir ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn.
Þetta var Dodge Dart, fíflið þitt.
Ég fer ekki í steininn.
Af hverju ertu svona blá?
Ertu í sætisáklæðinu mínu?
Ef þú þekkir ekki muninn á hægri og vinstri, þá geturðu bara keyrt sjálfur.
Þetta var nú óþarfi.
Hvaðan koma allir þessir frasar? Eru þeir frá þér Óskar?
„Ég satt best að segja get ekki munað það. Þetta er pikkað upp á djamminu á þeim tíma. Maður er eins og svampur að soga allt í sig. Ég man að lokaorðin í myndinni koma frá Eggert Þorleifssyni: „Þú verður að passa að það slái ekki um þig, þú gætir forskalast.“ Þetta sagði hann einhvern tímann á Hlemmi þegar honum var kalt. Og þar með voru lokaorðin bara komin, í upptökunum.“
„Gleymdu því“
Þremenningarnir sammælast um að Sódóma hafi haft töluverð áhrif á þeirra feril.
„Þetta hefur gert það að verkum að ég hef ekki fengið frið fyrir fermingarkynslóðinni síðustu þrjátíu ár, sem er mjög jákvætt,“ segir Helgi og hlær.
„Ég myndi segja að þetta hafi gert mikið fyrir minn feril. Ákveðið kraftaverk. Ég hef ekkert þurft að gera síðan,“ segir Óskar í léttum dúr.
Að lokum; það er búið að gera Top Gun 2, Með allt á hreinu 2, það er eiginlega búið að gera The Shining 2, allt með áratuga millibili, kemur Sódóma Reykjavík 2 til greina?
„Nei. Ég hef dálítið oft fengið þessa spurningu og ég hef alltaf sagt þvert nei. Ég hef ekki áhuga. Ekki að endurtaka. Það er bara… gleymdu því!“ segir Óskar að lokum.