Ríkislögreglustjóri segir skelfilegt að saklaus drengur hafi í tvígang lent í að lögregla hafði afskipti af honum því hún taldi hann vera strokufanga. Saklaus ungmenni eigi ekki að þurfa að verða fyrir afskiptum lögreglu og sérsveitar.
Strokufanginn, Gabriel Duoane Buma, 20 ára er enn ófundinn. Í gær fóru sérsveitarmenn inn í strætó og höfðu afskipti af sextán ára pilti því borist hafði ábending um að þar kynni strokufanginn að vera á ferð. Báðir eru hörundsdökkir.
Móður piltsins blöskraði og gagnrýndi lögreglu á Facebook og átti fund með ríkislögreglustjóra í gær þar sem hún lýsti áhyggjum af því að ungmenni í minnihlutahópi gætu óttast að vera tekin í misgripum, útlits síns vegna. Í kjölfarið segir ríkislögreglustjóri í yfirlýsingu að hann myndi bregðast við.
Ekki bara vandi lögreglunnar heldur þjóðfélagsins
En raunum saklausa piltsins var ekki lokið. Hann fór í mesta sakleysi í morgun í bakarí með móður sinni. Hún lýsir því að þá hafi komið lögreglan aftur og haft afskipti af honum. Í því tilfelli hafi karlmaður hringt í lögreglu, sagt til piltsins og að lögreglan hafi komið hlaupandi. Þetta sé alls ekki bara vandi lögreglunnar heldur þjóðfélagsins.
„Það er alveg skelfilegt að hann skuli hafa lent í þessu í tvígang. En þarna er lögreglan að bregðast við ábendingum um að þarna sé á ferðinni sá einstaklingur sem við erum að leita að og saklaus drengur verður fyrir því að við þurfum að kanna réttmæti þessara ábendinga,“ segir Sigríður.
Er á einhvern hátt hægt að koma í veg fyrir að svona gerist?
„Þetta er flókið vegna þess að við viljum fá ábendingar frá almenningi og við þurfum að bregðast við þeim. En hins vegar þurfum við líka að tryggja það að ungt fólk hérna um göturnar án þess að verða fyrir afskiptum að ástæðulausu af hálfu lögreglu og jafnvel sérsveitar.“
Nú ertu búin að hitta foreldrana tvisvar, þau hafa væntanlega viljað fá einhver svör?
„Þetta var bara mjög gagnlegt að setjast niður og fara yfir stöðuna, bæði þeirra upplifun og þeirra í raun og veru raunveruleika, reyna að setja sig inn í það. Og að sama skapi að fara yfir verkferla lögreglu, finna út hvað við getum gert öðru vísi og betur. En þetta voru gagnleg samtöl en ég vona innilega að við þurfum ekki að setjast niður í þriðja sinn út af sömu ástæðu.“