„Hún syngur ekki vel, hún grettir sig allt of mikið, hárið var ömurlegt," sagði Helga Möller um framlag einnar farsælustu Eurovision-þjóðar allra tíma í keppninni í ár.
Helga gaf laginu aðeins þrjú stig af tólf möguleikum og taldi af og frá að lagið kæmist áfram upp úr sínum undanriðli í Eurovision í maí. Það verður að teljast til tíðinda þar sem vanalega á þessi frændþjóð okkar miklu gengi að fagna í keppninni.
Í þættinum Alla leið er farið yfir þau lög sem Ísland etur kappi við í Eurovision í ár og dómnefnd sest á rökstóla og spáir í spilin um hvaða lög komast lengst.
Sem fyrr eru það Sigurður Þorri Gunnarsson, Siggi Gunnars, og Helga Möller sem eiga fast sæti í dómnefndinni. Í þættinum í kvöld njóta þau fulltingis sjónvarpskonunnar Bjargar Magnúsdóttur og grínistans Vilhelms Neto og farið verður yfir seinni helming fyrri undanriðils, þar sem Ísland á einmitt sæti.
En hvaða lag var Helga svona ósátt við? Fylgist með Alla leið á RÚV í kvöld klukkan 19:40.