Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er fyrsta ritið þar sem aðbúnaði Íslendinga var lýst og líferni þeirra skrásett. Á okkar samtíma hafa aðallega fræðimenn rýnt í ferðabókina, þar til nú. Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fór á samsýningu undir yfirskriftinni Ónæm.


Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Í Nýlistasafninu stendur nú yfir athyglisverð samsýningin undir yfirskriftinni Ónæm eða Immune á ensku. Sýningin er afrakstur tveggja ára rannsóknar- og samstarfsverkefnis sem í hluta eiga 11 alþjóðlegir listamenn, sýningarstjórar, hönnuðir og fræðimenn. Í sameiningu hafa þau umbreytt safninu í eina allsherjar-rannsóknarvinnustofu, þar sem kennir ýmissa grasa og kynlegra kvista.

Útgangspunktur sýningarinnar er Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, hið stórmerka rit sem pantað var af dönsku krúnunni um miðja 18. öldina og kom út fyrst á dönsku árið 1772. Það var ekki fyrr en um 170 árum síðar að það var gefið út á íslensku, eða um það leyti sem Íslendingar hlutu sjálfstæði frá Dönum. Þeir Eggert og Bjarni ferðuðust um landið í heil fimm ár, rannsökuðu náttúru Íslands og skrásettu báglegar aðstæður íbúanna og atvinnuvegi, ásamt því að leggja fram tillögur um hvernig væri hægt að gera búsetu í landinu ákjósanlegri. Verkefnið sem þeim var sett fyrir var að meta nýtingarkosti eyjunnar og afmá um leið áður ríkjandi goðsagnir um íbúana sem villimenn á jaðri Evrópu, í sambýli við sæskrímsli og ógurleg náttúruöfl. En ásetningur danska konungsins var að koma skikki á landið og finna leiðir til að nýta það sem best sem hjálendu og þar með uppsprettu auðs fyrir konungsveldið.

Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna er fyrsta áreiðanlegan og ítarlega lýsingin á Íslandi og Íslendingum, og hefur hún verið mikil uppspretta fræðilegra rannsókna og umræðu innan akademíunnar á undanförnum árum. En hér eru það listamenn sem rýna í þetta verk og nota það sem einskonar stökkpall til að endurskoða tengsl okkar við náttúruna. Án þess þó að fjalla um Ísland á bókstaflegan hátt, heldur nota þau landið sem eins konar yfirborð til að kafa dýpra ofan í hugleiðingar um flókin fyrirbæri eins og afnýlenduvæðingu, örveruvistkerfi, kapítalisma og þjóðarímyndunarsköpun.

Þetta eru engin smámál, en vert er að gefa sér tíma til að skoða þessa sýningu vel, staldra við og taka inn verk listamannanna, hlusta, horfa og dvelja inni í rýminu og skynja andrúmsloftið. Sýningin er byggð upp í kringum nokkur afmörkuð viðfangsefni, einskonar rannsóknastöðvar, sem merktar eru með litlum miðum á veggjum og stundum ógreinilegu bleki. Líta má á hverja stöð sem upphafsreit samtals um núverandi tengsl samfélags og náttúru, sem listamennirnir rýna í hver á sinn hátt á og varpa upp framtíðarsýnum og spekúlasjónum um þessi tengsl. Á hverri stöð eru rannsóknaráherslurnar merktar með yfirskritum eins og „postulín“, „íslenski bananinn“, „saltfiskur“, „mór“ og „hafnir“, þar sem sjónum er beint að hráefni, auðlindum og efnahagskerfum. Auk þess er unnið er með fyrirbærið „rannsókn“ á eins konar meta-leveli undir yfirskriftinni „gagnasöfnun“.

Verk listamannanna renna saman í stórum innsetningum í rýminu og dreifast kringum hvort annað í einni samfellu. Það er augljóst að hér er eignarhald einstakra verka ekki aðalatriðið, heldur merkingin sem heildin skapar. Sýningarstjóri er Bryndís Björnsdóttir, sem einnig er starfandi listamaður, og hefur henni tekist vel að skapa áhugaverða umgjörð utan um flókin viðfangsefni og leiða ferlið sem sýningin er afrakstur af. Hvert og eitt verk ávarpar svo þessa umgjörð á áleitinn og ögrandi hátt.

Þetta er sem sagt sýning í anda þeirrar sýningagerðar sem kennir sig við aktívisma, því hún varpar fram áleitnum spurningum um pólitíska, samfélagslega og efnahagslega þætti sem varða náttúruna og umgengni okkar við hana. Ekki eingöngu eru viðfangsefnin sem listamennirnir hafa valið að fjalla um áhugaverð í sjálfu sér, heldur er samsetning hópsins einnig áhugaverð í ljósi bakgrunns og listrænna vinnuaðferða. Hópurinn kemur úr ólíkum áttum og myndar þannig sjálfur áhugavert vistkerfi hugmynda og vensla milli landa og menningarsvæða. Það er hressandi að fá svo ólík sjónarmið inn á gólf Nýlistasafnsins, sér í lagi þar sem listamönnunum tekst að halda sig frá því að fjalla bókstaflega um eigin bakgrunn, sem annars spannar allt frá Grænlandi yfir til Evrópu og alla leið til Pakistan. Þau nota þennan bakgrunn miklu fremur sem flöt til að varpa pólitískum spurningum á, sem ekki eru bundnar við tiltekna landfræðilega legu, en opna þess í stað á möguleikann á nýrri venslahugsun og ýta enn frekar við hreyfanleika hugmyndanna sem ganga út frá. Þá fylgir sýningunni ríkuleg viðburðadagskrá þar sem tækifæri gefst að rýna enn frekar í það sem vakir fyrir þessum áhugaverða hópi fólks, ýmist í formi vinnustofa, gjörnina eða opinna samræða, eins og fór fram um nýliðna helgi.

Á þennan hátt má segja að sýningin sé miklu meira en sýning, hún er í raun það sem breski fræðimaðurinn Irit Rogoff kallar „þekkingarviðburð“ og nær langt út fyrir veggi safnsins. Í þessu felst að beita sýningagerðinni sjálfri sem gagnrýnu greiningartæki á þá þekkingu sem fyrir er, sem sagt, að skoða meðvitað inn í hvaða þekkingargrunn, kerfi og sögulegt samhengi viðkomandi sýning talar. Í þessu tilfelli er það Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna, sem sprettur úr nýlenduvæðingu, kapítalisma og fyrirætlunum um arðrán náttúrunnar. Þannig má líta á þessa sýningu sem eins konar sögn, pólitíska sögn sem setur fram tiltekið þema á meðvitaðan, gagnrýninn og greinandi hátt, sem aftur afhjúpast í meðförum listamannanna sem hér eiga í hlut.

Sem áhorfendur þurfum við að grafa eftir þessari merkingu og því gerir sýningin töluverðar kröfur til safngesta. Þessi merking afhjúpast í hverju verkanna, og enn frekar í veglegri sýningarskrá, sem státar af innihaldsríkum textum um viðfangsefnið frá sjónarhóli listamannanna sjálfra. Verkin eru misjafnlega aðgengileg en öll vekja þau upp áleitnar og áhugaverðar spurningar um samband okkar við náttúruna, og eru ákall til endurstillingar og endurhugsunar á því.

Listamenn: Annarosa Krøyer Holm, hands.on.matter kollektíf (Sandra Nicoline Nielsen & Tim van der Loo), Herring, Iron, Gunpowder, Humans & Sugar (Olando Whyte & Rut Karin Zettergren), Páll Haukur Björnsson, Sheida Soleimani, The Many Headed Hydra kollektíf (Aziz Sohail, Bryndís Björnsdóttir, Emma Wolf Haugh & Suza Husse) ásamt Pia Arke og Zahra Malkani