Dalrún Kaldavísl, sagnfræðingur, fjallar um samband íslenskra kvenna og hafsins fyrr á öldum. Tengsl kvenna við hafið fyrr á öldum eru oft fjölbreyttari en mann kann að gruna í fyrstu.
Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir skrifar:
Færist frek alda
of flóann breiðan,
skjálfa ský,
skauta fjöllin,
mun það verða
minnisstætt í öld,
ef mörg verður ekkja
á Skagaströnd í kvöld.
Svo mælti íslensk sjókona á þjóðveldisöld, um hafið og kynngikraft þess. Þær gömlu braglínur eru viðeigandi upphafsorð þessara skrifa minna sem fjalla um samband íslenskra kvenna og hafsins fyrr á öldum.
Samband kvenna við hafið í aldanna rás birtist á ótal vegu – allar götur frá landnámi. Samband kvenna við sjóinn kemur oftast fram í frásögnum af eiginkonum sjómanna, sjómannskonunum, sem byggðu lífsafkomu sína að stórum hluta á því sem hafið hafði að bjóða; fiskinn og selinn sem þær verkuðu og matbjuggu til heimilisins. Saga vor segir einnig frá konum sem sinntu ráðskonustörfum í verstöðvum, konum sem gengu undir ýmsum nöfnum eftir því hvar á landinu þær störfuðu; hlutakonur, sjóbúðarmatseljur, soðningskonur, vertíðarkonur, fanggæslur. Hvað skýrust voru þó tengsl kvenna og sjávar í þeim tilfellum er konurnar stunduðu sjálfar sjósókn, þar með taldar vinnukonurnar sem látnar voru róa á vertíðum. Fiskiveiðar voru einnig stundaðar heiman frá bæjunum þar sem konur sáu um veiðar með færum og netum. Einnig eru dæmi um konur sem ráku útgerð fyrr á öldum, útgerðarkonur sem stunduðu ekki endilega fiskiróðra sjálfar. Íslandssagan geymir einnig feikimargar harmsögur af konum sem drukknuðu á bláum heiðum Ránar á ferðum sínum sjóleiðis, og sögur af sjómannskonum er misstu eiginmenn sína í sjóinn og sátu eftir einar með barnahóp í landi – eða misstu syni sína unga í slíkum sorgarróðrum. Saga Íslendinga geymir líka fagrar og óræðar þjóðsagnir af konum er sprottið höfðu upp af þekkingu og þekkingarleysi fólks á lífríki undirdjúpanna, eins og sagnir af selum sem brugðu sér í líki kvenna en afbáru ekki lífið í landi og hurfu aftur í djúpið. Í þeim sagnabálkum er einnig að finna þjóðsagnir af hafkonum sem afvegaleiddu sjómenn og miðluðu um leið þeim boðskap að hafið væri enginn staður fyrir konur, tælingarkraftur kvenna gat afvegaleitt sjómenn í störfum sínum. Og síðan eru það ljóðin sem skrýða Íslandssöguna, ljóð fyrri tíma kvenna sem ortu um hafið og margbrotnar tilfinningar sínar í garð þess: „Trausta fleyið flytja má / fölva mey á bárum, / kaldri eyju ísa frá / út í reginhafið blá,“ sagði skáldkonan Undína í ljóði sínu „Á burtsigling frá Íslandi 1873.“ Breiðfirska skáldkonan Herdís Andrésdóttir kvað eitt sinn við spuna: „Heflað segl eg hef við rá, / hert á reiðaböndum; / austurtrogi tekið á, / tveimur ausið höndum.“ Sagnir á borð við þessar vitna um tengsl fyrri tíma kvenna við hafið og um viðhorf kvenna til hafsins; til öldufaldanna, undirdjúpanna, sjávarlífveranna, bátanna, veiðarfæranna, miðanna og sjávargatnanna sem bátarnir sigldu um, öld eftir öld.
Í þessum skrifum mínum vík ég sérstaklega að konum fortíðar sem reru til fiskjar, hvort heldur þær voru hásetar eða formenn. Markmið umfjöllunarinnar er að varpa sögulegu ljósi á frelsið og möguleikana sem sjósókn færði fortíðarkonum þessa lands – og um leið minna á mikilvægi þess að samtímakonur hafi greiðan aðgang að atvinnustarfsemi sem byggir á auðlindum hafsins, því jafnræði kynjanna á hafi verður ekki undanskilið í jafnréttisbaráttunni.
Sjósókn í gamla íslenska bændasamfélaginu var oftast stunduð af karlmönnum – fiskveiðar voru karlmannsverk. Konum var ekki ætlað að stunda fiskiróðra að sama skapi og karlmenn og því þurfti æði margt að ganga upp svo kona gæti gengið í þau störf á fyrri tíð. Engu að síður sóttu konur sjóinn í aldanna rás eins og fjallað hefur verið um í skrifum fræðikvenna sem hér er stuðst við – öðru fremur skrifum Þórunnar Magnúsdóttur, Önnu Sigurðardóttur og Margaret Willson.
Stétt íslenskra sjómanna hefur alla tíð skartað kvenskörungum. Konur voru þó langsjaldnast formenn á bátum en það var ekki óalgengt að konur væru hásetar allt fram eftir 19. öld, öðru fremur á vesturströnd landsins. En á 18. og 19. öld voru konur um þriðjungur sjómanna á Vesturlandi, líkt og rannsóknir hafa sýnt. Það finnast jafnvel heimildir um konur sem reru á hákarl, en hákarlaveiðar voru eitt helgasta vé íslenskrar karlmennsku. Sagan sýnir að konur sóttust hreinlega eftir því að fara í ver í vissum tilvikum. Þekkt er að vinnukonur á sumum landsvæðum réðust í vist á þeim einu forsendum að þær væru sendar í ver, því þeim þótti eftirsóknaverðara að fara í fiskiróðra en sinna hefðbundnum bústörfum.
Sjósókn bauð upp á visst einstaklingsfrelsi, frelsi til að losna undan helsi sveitabæjanna. Ævintýri sem fól í sér ferðalög og kynni af strand- og sjávarsvæðum Íslands enda þótt slík tilbreytni væri sjaldnast tekin út með sældinni. Jafnvel þótt ekki þyrfti um langan veg að fara þá gaf samneytið við sjóinn konum fríun frá viðjum landsins sem um leið gaf þeim nýja sýn á náttúruna. Dæmi um slíka konu er langalangaamma mín Vilborg Magnúsdóttir sem ólst upp á Vatnsleysuströnd. Kona sem um fermingu var þar farin að stunda sjóinn. Þar lærði hún af föður sínum miðin og annað sem til þurfti, sem gerði henni unglingnum kleift að sinna netaveiðum heimilisins eftir fráfall föður síns. Sjómenn miðluðu til barna sinna fróðleik um hafið og það gerðu sjókonur einnig – konur á borð við Guðrúnu Eggertsdóttur sem kenndi fóstursyni sínum að stjórna bát og verja hann áföllum, með leikrænum tilþrifum þar sem hún stóð í reyknum við hlóðirnar í eldhúsinu.
Staða kvenna sem reru til fiskjar var á ýmsa lund. Á Íslandi þekktist að dætur reru með feðrum sínum, svo sem Guðný Hagalín í Flatey sem var fædd árið 1878 og fór á sjó með föður sínum á meðan bræður hennar sátu heima á bæ. Eiginkonur reru einnig með mönnum sínum, jafnvel þungaðar konur. Dæmi eru líka um að eiginkonur reru til fiskjar þegar menn þeirra lágu veikir heima, eins og hún Þórkatla Jóhannsdóttir sem fædd var árið 1841 í Fossárdal. Þórkalta hafði stundað róðra með föður sínum frá því hún var 13 ára gömul. Á sínum fullorðinsárum sótti Þórkatla sjóinn þegar maður hennar þjáðist af holdsveiki, sem og í ekkjudómi sínum, og var á tíðum formaður. Þá þurfti Þórkatla að skilja börn sín eftir heima á bæ og ganga langar vegalengdir til að sækja sjóinn, og bar á herðum sér bjóðið; kassann sem geymdi línuna og önglana 120. Íslenskar mæður reru líka með sonum sínum, til að mynda Guðrún Jónsdóttir á Firði sem var afbragðs sjókona og reri oft þegar aðrir þorðu ekki. Guðrún sótti einnig sjóinn með sonum sínum uppkomnum allt fram á gamalsaldur, og sagði gjarnan þegar illt var í veðri: - „Ég skal halda um stýrið, drengir.“ Konur sóttu líka sjóinn sem sagðar voru sjálfrar sín, sumsé konur sem réðu sig á bát og fengu hásetahlut sinn óskiptan, ólíkt vinnukonunum sem voru sendar af húsbændum sínum sem síðan hirtu hásetahlut þeirra; létu þær róa. Sjómennskan gaf þannig konum tækifæri á að afla launa, og sá hlutur var gjarnan jafn hlut karla sem með þeim reru, en slíkt launalegt jafnrétti þekktist að segja má ekki í landi.
Lýsingar af fortíðarkonum sem sóttu sjóinn gefa grófa mynd af lífi og atgervi sjókvenna á blárri víðáttu hafsins. Þær sagnir vitna ekki aðeins um sambýli kvenna og sjávar heldur líka um gildandi viðhorf bændasamfélagsins til sjókvenna. Hugmyndaheimur Íslendinga í tengslum við hafið er mjög litaður af hugmyndum um karlmennsku. Hafið var einskonar villta vestur Íslendinga; opin víðátta þar sem sjómenn tókust á við náttúruöflin í því skyni að veiða fisk til lífsviðurværis og jafnvel til að græðast fé. Sökum þess hve hafið var karllægt umhverfi í augum Íslendinga þá var sjókonum gjarnan lýst sem karlalegum konum; óvenjulega grófgerðum, klárum og sterkum konum, sem sneru gjarnan á karlkyns mótræðara sína – og gengu sumar í brók og stakk. Þarft er að hafa í huga að líkamlegur og andlegur styrkleiki utan veggja heimilanna var iðulega kenndur við karlmenn, sem og grófleiki á líkama og sál.
Ein þeirra sjókvenna sem var lýst sem karlalegri konu var skáldkonan og förukonan Björg Einarsdóttir sem fædd var árið 1716 og var iðulega kennd við uppeldisstöðvar sínar Látra á Látraströnd. Hin stórskorna og skapmikla Látra-Björg fór í fiskróðra þegar hún var ung og var sögð bera sig karlmannlega að um borð. Margar vísur Látra-Bjargar hverfast um hafið svo sterk tengsl hafði hún við ægi. Eitt sinn kvað hún: „Róðu betur, kæri karl, / kenndu ei brjóst um sjóinn, / harðar taktu herðafall, / hann er á morgun gróinn.“ Önnur landsþekkt sjókona sem einnig þótti karlmannleg í háttum, er formaðurinn Þuríður Einarsdóttir sem fædd var árið 1777 á Eyrarbakka, sem fór að sækja sjóinn einungis ellefu ára gömul. Þuríður var nær alla tíð sjálfrar sín og er minnst fyrir að vera einkar aflagóður formaður sem sjómenn og sjókonur sóttust eftir að starfa fyrir. Þuríður gekk ætíð í karlmannsfötum en konur þurftu að fá leyfi hjá sýslumanni ef þær ætluðu að skarta slíkum klæðum, hvort heldur á sjó eða landi. Um Þuríði var ort: „Undirgefnir eftir vonum / augum stefna á meykóng sinn, / hafa svefn, en vaka í vonum / víra gefn og hópurinn.“ Þuríður formaður minnir um margt á hina þjóðsagnakenndu persónu, þjóðveldiskonuna og sjókonuna Þorbjörgu Kolku, sem skáldið Bólu-Hjálmar ritaði um og vísaði þar til áreiðanlegra heimildarmanna. Án tillits til þess hvert vægi sannleikans er í sögnum af Þorbjörgu Kolku, þá er víst að meira að segja þjóðsagnaverur byggja á tilfinningu og reynslu sagnamanna sem gerir þær trúverðugar. Þorbjörg Kolka var ekkja á Ströndum sem missti mann sinn í sjóinn og stuttu síðar féll einkasonur hennar frá þriggja ára að aldri: „Þegar ein bára rís er önnur vís“ átti Þorbjörg að hafa mælt um harmdauða sonar síns. Í kjölfarið yfirgaf hún heimili sitt, Höfn í Hafnarvogi, íklædd sjómannsklæðum og sigldi stóru skipi sínu greitt í átt að Skaga í Húnaflóa. Þar nam hún land og reisti sér bæ á nesi sem bar síðar heitið Kolkunes. Þorbjörg var listasmiður og náttúruverndarsinni og byggði sér bæ úr verstu rekadrumbunum sem hún komst yfir því hún vildi að bærinn hyrfi eftir sinn dag. Um þann bæ sinn mælti Þorbjörg: „en fagurt vildi eg láta smíðið vera og traust, svo aðrir gætu séð mitt skaplyndi.“ Þorbjörg Kolka var sannarlega sjálfrar sín, hún reri ein á stóru skipi sínu en til að auðvelda sér siglinguna smíðaði Þorbjörg trémann sem aktaugar lágu um. Þorbjörg var sögð vera einkar stórvaxin kona, aflraunakona sem reri manna best og bjargaði mörgum sjómönnum úr sjávarháska. Þorbjörg þekkti miðin betur en nokkur maður og vitnað var til þess að hún hefði fundið hin fiskisælu mið Sporðagrunn. Þorbjörg var allra manna aflasælust og veðurgleggst; enginn reri ef Kolka var í landi. Um það vitna orð sem einn vitur bóndi í sveitinni mælti við Þorbjörgu: „Vitur kona ertu, og munum vér að þínum ráðum fara í hvívetna,“ – en það mun líklega vera eina skiptið sem karl hefur mælt slík orð við konu í Íslandssögunni. Þegar Þorbjörg lést átti hún að hafa ánafnað helmingi eigna sinna fátækum ekkjum og föðurlausum börnum, ósk sem spratt ugglaust af reynslu sjókonu sem þekkti ekkjudóm sjómannskonu af eigin reynslu.
Þegar nær dregur samtímanum héldu konur áfram að sinna störfum háseta og höfðu áfram skipstjórn með höndum. Störfum kvenna í tengslum við sjávarútveginn fór einnig fjölgandi samhliða því að sá undirstöðuatvinnuvegur efldist. Til sögunnar komu beitingakonur, fiskvinnslukonur, landformenn, konur sem sinntu uppskipun og útskipun, brytar og þernur, svo eitthvað sé nefnt. Aukinheldur fóru vísindakonur að sækja sjóinn í vaxandi mæli og rannsökuðu þar vistkerfi sjávar, meðan aðrar konur lögðu stund á sjávarútvegsfræði og sjávarhagfræði. Þrátt fyrir nýja tíma og aukna hlutdeild kvenna í störfum sem byggja á nýtingu sjávar, grunnrannsóknum á lífríki sjávar og verndun hafsins, þá er hlutfall kvenna á þeim vettvangi mun rýrara en hlutfall karla – þrátt fyrir að framboð hæfra kvenna til þessara starfa skorti ekki. Þessi kynbundna skekkja er ýkust þegar litið er fjölda sjókvenna og kvenna sem gegna stjórnunarstörfum hjá fyrirtækjum og rannsóknarstofnunum er byggja starfsemi sína á auðlindum hafsins. Afturhaldið er mest þar sem feðraveldið stendur á gömlum merg – og víst er að sjávarútvegurinn er ein skýrasta birtingarmynd feðraveldisins í íslensku samfélagi í dag. Nú þegar válindir straumar leika um vistkerfi sjávar er lífsnauðsynlegt að konur fái meiri aðkomu að málum hafsins. Sagan kennir okkur að konur skilja öðrum betur mikilvægi þess að mannanna verk séu látin spila rétt saman við þarfir náttúrunnar. Jafnrétti kynjanna þarf að ríkja á hafi ef tryggja á sjálfbærni undirdjúpanna og um leið samfélags manna. Megi konur vernda hafið um ókomna tíð.