Það er dimmur vetrarmorgunn í Ísafjarðardjúpi en í eyjunni Vigur eru ljós í gluggum. Þar býr lítil fjölskylda sem flutti þangað fyrir nær tveimur árum, þau Felicity Aston, Gísli Jónsson og Þráinn Freyr, fjögurra ára. 

„Við vissum hvað við vonuðumst til að yrði um Vigur - og á endanum þá komumst við að þeirri niðurstöðu að ef þú vilt tryggja þá framtíð þá þarftu ef til vill að taka skrefið – og nú erum við hér,“ segir Felicity. Það hefur þó ýmislegt gengið á. 

Covid skall á mánuði eftir flutninga

„Við fluttum hingað í janúar í hittiðfyrra í febrúar kom covid. - Við vorum að búast við fullt af gestum og það varð nánast ekki neitt, vorum með fimm prósent af fólkinu sem við bjuggumst við. - En við erum hérna ennþá.“

„Covid varð að einni af mögum áskorunum daglegs lífs. Einn daginn þá var bryggjan að detta í sundur í óveðri, annan var rafmagnslaust og vatnslaust. Svo hafði báturinn losnað og rekið í burt - alls konar hlutir. Það er mjög lýsandi að Covid varð bara að bakgrunnsvandamáli,“ segir Felicity „Daglegar áskoranir eru gríðarlegar en við þrífumst eiginlega bæði á því.“

Fyrsta konan til að fara ein yfir Suðurskautslandið

Þau Felicity og Gísli eru ekki í fyrsta sinn að takast á við krefjandi aðstæður. Það var öllu stærri eyja sem leiddi þau saman, Suðurskautslandið. Þegar Felicity var 23 ára þegar hún fór þangað fyrst og árið 2012 varð Felicity fyrsta konan til að fara yfir Suðurskautslandið eins síns liðs; 1744 km leið frá einni strönd til annarrar, með viðkomu á Suðurpólnum. Um leið var hún fyrsta manneskjan til að fara þessa aðeins leið með eigin kröftum.

Gísli hefur lengi starfað fyrir Arctic Trucks og var mikið á Suðurskautslandinu í tíu ár. „Og í einum leiðangrinum kom með okkur ótrúleg kona og nú erum við hér með fjögurra ára strák - í Vigur.“

Ýmislegt líkt með leiðöngrum og eyjalífinu

Leiðangursreynsla Gísla og Felicity kemur sér vel í Vigur enda ýmislegt líkt með eyjalífinu og leiðöngrum í óbyggðum. „Maður þarf bara að nota það sem maður hefur og fást ekki um það sem ekki fæst,“ segir Gísli.

Þótt Felicity, Gísli og Þráinn Freyr búi nú í Vigur hafa þau ekki lagt leiðangrana á hilluna og Felicity undirbýr nú leiðangur, ekki þann fyrsta, á norðurpólinn næsta vor.

Ný áskorun í hverjum leiðangri

„Hver leiðangur sem ég hef sett saman hefur verið stærri áskorun en sá síðasti á einhvern hátt,“ segir Felicity. „Þegar við tókum að okkur Vigur var það enn önnur áskorunin. Hér snýst þetta um líf okkar og líf sonar okkar, - nýtt stig af áhættu og áskorunum sem hafa reynt á – á hátt sem leiðangur á pólinn myndi aldrei gera.“

„En svo ferðu í göngutúr upp eyjuna og horfir á útsýnið og situr innan um fuglalífið eða fylgist með selunum og þú hugsar. Þetta er ástæðan - og við erum að þessu saman.“